Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 181/2004

Gjaldár 2003

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

Kærandi fékk styrk frá stéttarfélaginu sínu vegna augnaðgerðar. Talið var að útgjöld kæranda vegna aðgerðarinnar yrðu að teljast persónulegur kostnaður og var kröfu kæranda um frádrátt kostnaðarins frá fengnum styrk hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að í ótölusettum reit í lið 2.3 í skattframtali sínu árið 2003 færði kærandi til tekna styrk að fjárhæð 100.000 kr.

Með kæru, dags. 11. ágúst 2003, kærði umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003. Í kærunni kom fram að í skattframtali sínu árið 2003 hefði kærandi talið fram til skatts styrk að fjárhæð 100.000 kr. frá stéttarfélagi vegna augnaðgerðar. Hins vegar hefði láðst að tilgreina frádrátt kostnaðar á móti styrknum í reit 157 í framtalinu, þ.e. vegna kostnaðar af augnaðgerð. Hefði beinn útlagður kostnaður vegna aðgerðarinnar numið 275.000 kr., sbr. meðfylgjandi ljósrit af reikningi frá Laser-Sjón. Var þess krafist að tekið yrði tillit til umrædds kostnaðar kæranda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003 og kostnaðurinn færður til frádráttar fengnum styrk þannig að tekjuskattsstofn kæranda lækkaði um 100.000 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 15. september 2003, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Kvað skattstjóri umræddan styrk að fjárhæð 100.000 kr., sem kærandi hefði fengið frá stéttarfélagi sínu, teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Um frádrátt frá slíkum tekjum væri ekki öðrum ákvæðum til að dreifa en ákvæðum 30. gr. laga nr. 90/2003. Ekki yrði séð að styrkur kæranda félli undir 30. gr. laga nr. 90/2003. Þá vísaði skattstjóri til framtalsleiðbeininga ríkisskattstjóra vegna skattframtals árið 2003 þar sem fram kæmi á bls. 12 að ef krafa væri gerð um frádrátt kostnaðar á móti styrkjum til sérstakra verkefna eða öðrum starfstengdum greiðslum, án þess að um sjálfstæðan atvinnurekstur væri að ræða, færðist sá frádráttur í reit 157 í skattframtali. Tók skattstjóri fram að styrkur vegna augnaðgerðar gæti ekki talist styrkur til sérstakra verkefna eða önnur starfstengd greiðsla. Með vísan til framanritaðs væri kærunni synjað.

II.

Með kæru, dags. 8. desember 2003, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 15. september 2003, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi og viðurkenndur verði frádráttur kostnaðar að fjárhæð 100.000 kr. á móti fengnum styrk að sömu fjárhæð í skattframtali kæranda árið 2003. Er rakið að kærandi hafi fengið styrk frá stéttarfélagi sínu að fjárhæð 100.000 kr. árið 2002 vegna augnaðgerðar. Hafi beinn útlagður kostnaður vegna aðgerðarinnar numið 275.000 kr. sbr. meðfylgjandi ljósrit af reikningi frá Laser-Sjón. Krafa kæranda um frádrátt kostnaðar sé byggð á ákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 þar sem umræddur styrkur hafi sérstaklega verið veittur kæranda vegna augnaðgerðar hennar. Með réttu megi því segja að kostnaðurinn hafi verið forsenda þess að kærandi fékk styrkinn.

III.

Með bréfi, dags. 23. janúar 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Fram er komið að kærandi fékk styrk frá stéttarfélagi sínu að fjárhæð 100.000 kr. á árinu 2002 vegna augnaðgerðar. Telst styrkurinn til skattskyldra tekna kæranda samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, svo sem ekki er deilt um. Um frádrátt frá slíkum tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. nefndra laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, samt sem áður gilda um beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar.

Það leiðir af tilvísun 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna að við skilgreiningu á beinum kostnaði ber að fara eftir almennum reglum um rekstrarkostnað, eftir því sem við á, með þeim takmörkunum sem ákvæðið sjálft mælir fyrir um. Persónuleg útgjöld heimilast ekki til frádráttar sem rekstrarkostnaður. Útgjöld kæranda vegna augnaðgerðar verða að teljast persónulegur kostnaður sem ekki kæmi til álita að heimila til frádráttar sem rekstrarkostnað. Samkvæmt því og með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 803/1997, sem birtur er í 3. hefti Skatta- og tollatíðinda 1997 (ST 1997:179) og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is) verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja