Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sjómannaafsláttur
  • Rannsóknaskip

Úrskurður nr. 182/2004

Gjaldár 2003

Lög nr. 90/2003, 67. gr. B-liður   Reglugerð nr. 10/1992, 12. gr. 3. mgr.  

Kröfu kæranda, sem var skipverji á rannsóknaskipi, um sjómannaafslátt var hafnað þar sem talið var að lögskráning í skipsrúm þyrfti til að koma til þess að maður gæti átt rétt á sjómannaafslætti vegna starfa á skipi af því tagi.

I.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess þau að kærandi tilgreindi 365 sjómannadaga í reit 292 í skattframtali sínu árið 2003. Skattframtalinu fylgdi greinargerð um sjómannaafslátt (RSK 3.13) þar sem sömuleiðis voru tilgreindir 365 sjómannadagar vegna sjómennsku á skipi undir 12 rúmlestum brúttó, þ.e. X.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2003, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, um þá breytingu á skattframtali kæranda árið 2003 að tilfærðir 365 sjómannadagar hefðu verið felldir niður og að kröfu kæranda um sjómannaafslátt vegna vinnu á bátnum X fyrir Náttúrustofu Y væri hafnað. Benti skattstjóri á að engir sjómannadagar væru tilgreindir á launamiða frá launagreiðanda kæranda, Náttúrustofu Y, auk þess sem kærandi hefði ekki verið lögskráður á umræddan bát á árinu 2002. Samkvæmt 3. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003 ættu lögskráðir sjómenn sem störfuðu á varðskipi, rannsóknaskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi rétt til sjómannaafsláttar. Þar sem kærandi hefði ekki verið lögskráður á bátinn X ætti hann því ekki rétt á sjómannaafslætti.

Með kæru, dags. 1. september 2003, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda árið 2003. Var tekið fram í kærunni að kærandi uppfyllti öll skilyrði 67. gr. laga nr. 90/2003 fyrir sjómannaafslætti utan þess að vera ekki lögskráður á viðkomandi bát sem skýrðist af því að báturinn væri undir 20 brúttótonnum. Um væri að ræða fiskibát sem stundaði fiskveiðar í rannsóknarskyni. Væri kærandi þannig ráðinn sem fiskimaður á bátinn og uppfyllti því skilyrði 2. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003.

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 21. október 2003. Rakti skattstjóri málavexti og vísaði til ákvæða um sjómannaafslátt í 1. og 2. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003. Þá tók skattstjóri fram að í 3. mgr. sama stafliðar kæmi fram að lögskráðir sjómenn sem störfuðu, sbr. 4. mgr. stafliðarins, á varðskipi, rannsóknaskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem væri í förum milli landa eða væri í strandsiglingum innan lands ættu rétt til sjómannaafsláttar. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu vinnuveitanda kæranda væru verkefni bátsins X fólgin í því að flytja rannsóknarmenn á staði þar sem aðgengi væri erfitt ... auk þess sem báturinn væri nýttur til sýnatöku og annarra mælinga við ströndina. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hefði báturinn engar veiðiheimildir. Með vísan til framangreinds væri það mat skattstjóra að kærandi ætti ekki rétt á sjómannaafslætti. Virtist kærandi ekki vera ráðinn sem fiskimaður á bátinn, enda væri báturinn notaður til flutninga á rannsóknarmönnum. Kærandi væri ekki lögskráður á rannsóknaskipið sem væri skilyrði sjómannafsláttar að því er varðaði sjómenn sem störfuðu á rannsóknaskipum, sbr. 3. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003. Væri kröfu kæranda því synjað.

II.

Með kæru, dags. 27. október 2003, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 21. október 2003, til yfirskattanefndar. Er þess krafist í kærunni að breyting skattstjóra á tilfærðum sjómannadögum í skattframtal kæranda árið 2003 verði felld úr gildi og að kæranda verði ákvarðaður sjómannaafsláttur miðað við 365 sjómannadaga árið 2002. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í kærunni greinir frá því að kærandi sé skipstjóri á rannsóknaskipinu X. Aðalverkefni skipsins séu sjómælingar, sýnatökur úr botni og sjó og í undantekningartilvikum flutningur á rannsóknarmönnum milli staða. Sé báturinn svipaðrar gerðar og svokallaðir hraðfiskibátar og hann hafi áður verið gerður út sem krókaaflamarksbátur samkvæmt skipaskrá. Er ítrekað að kærandi uppfylli öll skilyrði sjómannaafsláttar samkvæmt 67. gr. laga nr. 90/2003, að því frátöldu að ekki sé lögskráð á bátinn þar sem hann sé undir 20 brúttótonnum. Ekki geti það hafa verið ætlun löggjafans að útiloka sjómenn á rannsóknaskipum undir 20 brúttótonnum frá því að njóta sjómannaafsláttar heldur hljóti sú staðreynd að hafa valdið að ekkert rannsóknaskip hefði verið til í þessum stærðarflokki. Fiskimenn á skipum undir 20 brúttótonnum njóti sjómannaafsláttar, sbr. 2. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003, og verði að teljast eðlilegt að sama gildi um sjómenn á rannsóknaskipum. Því þyki kæranda eðlilegt að beita lögjöfnun í þessu sambandi. Varðandi málskostnaðarkröfu kemur fram í kærunni að kostnaður kæranda vegna málsins sé vegna aðkeyptrar þjónustu í þrjá klukkutíma 24.000 kr.

III.

Með bréfi, dags. 19. desember 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

IV.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er skipverji á bátnum X, rannsóknaskipi Náttúrustofu Y, til sjómannaafsláttar samkvæmt B-lið 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, til frádráttar tekjuskatti við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003.

Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003 skal maður, sem stundar sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, njóta sérstaks afsláttar, sjómannaafsláttar, sem koma skal til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem hann hafði fyrir sjómannsstörf. Í 2. mgr. stafliðarins kemur fram að rétt til sjómannaafsláttar hafi þeir sem stunda sjómennsku, sbr. 4. mgr. stafliðarins, og lögskráðir eru í skipsrúm á fiskiskipi. Sama rétt skuli þeir menn eiga sem ráðnir séu sem fiskimenn eða stundi fiskveiðar á eigin fari þó ekki sé skylt að lögskrá þá, enda uppfylli þeir skilyrði 4. mgr. Í 3. mgr. stafliðarins segir síðan að enn fremur eigi rétt til sjómannaafsláttar lögskráðir sjómenn sem starfa, sbr. 4. mgr., á varðskipi, rannsóknaskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er í förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands. Í 4. mgr. stafliðarins er kveðið á um fjárhæð sjómannaafsláttar og ákvörðun dagafjölda sem veitir rétt til sjómannaafsláttar.

Samkvæmt framangreindum ákvæðum þarf lögskráning í skipsrúm til að koma til þess að maður geti átt rétt á sjómannaafslætti vegna starfa á skipum af því tagi sem talin eru upp í 3. mgr. B-liðar 67. gr. laga nr. 90/2003, sbr. ennfremur 3. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 10/1992, um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Þetta skilyrði er ekki uppfyllt í tilviki kæranda og verður því að hafna kröfu hans í máli þessu.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja