Úrskurður yfirskattanefndar
- Sambýlisfólk
- Sönnun
Úrskurður nr. 187/2005
Gjaldár 2003
Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 68. gr. A- og B-liður
Ágreiningur í máli þessu laut að því hvort kærandi hefði verið í sambúð með B í árslok 2002 þannig að reglur um barna- og vaxtabætur sambýlisfólks ættu við í tilviki hennar og B. Kærandi hélt því fram að sambúð þeirra hefði hafist á árinu 2003 og kærandi því verið einstætt foreldri í árslok 2002. Yfirskattanefnd taldi að virtum gögnum málsins nægilega fram komið að kærandi og B hefðu haft stöðu sambúðarfólks í árslok 2002 og var í því sambandi m.a. litið til fyrirliggjandi upplýsinga um flutning kæranda og barna hennar inn á heimili móður B, þar sem B átti jafnframt lögheimili, flutning kæranda og B á sama tíma, aðkomu B að fasteignakaupum kæranda og þungun kæranda seinni part árs 2002. Var skattstjóri talinn hafa ákvarðað kæranda barnabætur og vaxtabætur árið 2003 í samræmi við lög.
I.
Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra sem hann tók með úrskurði um endurákvörðun, dags. 2. júní 2004, að miða álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003 við að kærandi hafi verið í sambúð með B í árslok 2003 og þau uppfyllt að öðru leyti skilyrði til skattlagningar samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Leiddi þetta til þess að kæranda og B voru ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur sameiginlega í samræmi við ákvæði 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Af hálfu kæranda er þess krafist að álagningu skattstjóra gjaldárið 2003 verði hnekkt og hún miðuð við að kærandi hafi verið einstætt foreldri allt árið 2002. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.
II.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til skatts árið 2003 innan framtalsfrests og merkti í viðeigandi reit í skattframtalinu til staðfestingar á því að hún væri einstætt foreldri. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003 byggði skattstjóri hins vegar á því að kærandi hefði árið 2002 verið í sambúð með B en ekki verið einstætt foreldri.
Með kæru, dags. 1. ágúst 2003, fór kærandi þess á leit við skattstjóra að gerð yrði tiltekin leiðrétting á skattframtali hennar árið 2003. Þá kærði kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003 með kæru, sem móttekin var hjá skattstjóra 29. ágúst 2003, á þeim grundvelli að orðið hefðu mistök við skráningu sambúðar hjá Hagstofu Íslands og yrðu frekari gögn send að viku liðinni. Samkvæmt því sem ráðið verður af málsgögnum barst skattstjóra í framhaldi af þessu vottorð frá þjóðskrá Hagstofu Íslands, dags. 10. september 2003, þar sem staðfest var að kærandi og sambýlismaður hennar, B, hefðu verið skráð í sambúð frá 1. janúar 2003. Í tilefni af þessu óskaði skattstjóri með vísan til 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, eftir frekari upplýsingum og gögnum frá Hagstofu Íslands með bréfi, dags. 16. september 2003. Í bréfinu kom fram að ljóst væri að breyting hefði orðið á skráningu kæranda og nefnds B í þjóðskrá frá því að álagning opinberra gjalda gjaldárið 2003 hefði farið fram. Samkvæmt skráningu sem skattstjóri hefði stuðst við hefði kærandi verið skráð í sambúð með B frá 1. janúar 2002 og hefði sú skráning verið framkvæmd á Hagstofu Íslands þann 13. júní 2003. Hinn 8. september 2003 hefðu þau hins vegar verið skráð úr sambúð frá og með 1. janúar 2002 en sama dag verið skráð aftur í sambúð frá og með 1. janúar 2003. Skattstjóri fór því fram á að afhent yrðu öll þau gögn sem tengdust þessum breytingum og sýnt gætu fram á hvað leitt hefði til þeirra. Jafnframt var óskað eftir frekari gögnum er tengdust kæranda og sambýlismanni hennar, B, m.a. flutningsvottorðum og öðrum tilkynningum. Með bréfi Hagstofu Íslands, dags. 17. september 2003, voru umbeðin gögn afhent skattstjóra, m.a. bréf, dags. 7. ágúst 2003, sem B hafði ritað Hagstofu Íslands og farið fram á að skráningu hans og kæranda í sambúð yrði breytt. Kvaðst hann fyrir mistök hafa ritað ranga dagsetningu í þar til gerðan reit á umsóknarblað um skráningu sambúðar þar sem tilgreina hefði átt upphafsdag sambúðarinnar, þ.e. 1. janúar 2002 í stað 1. janúar 2003.
Með bréfi, dags. 29. september 2003, gerði skattstjóri B grein fyrir því að sambýliskona hans, kærandi í máli þessu, hefði kært álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003. Fram kom að við álagningu opinberra gjalda greint ár hefði legið fyrir skráning hjá þjóðskrá Hagstofu Íslands um sambúð B og kæranda og að þau hefðu átt barn saman þann 15. maí 2003. Í samræmi við þær upplýsingar hefði verið lagt á þau sem sambýlisfólk sem ekki hefði óskað eftir samsköttun samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. sömu laga. Í ljósi þessa og meðfylgjandi gagna, sem skattstjóri hefði aflað í kjölfar kærunnar, væri nauðsynlegt að fá skriflegar skýringar og athugasemdir frá B um tiltekin atriði. Skattstjóri gerði m.a. grein fyrir gögnum um flutning kæranda og barna hennar að X-götu, Hafnarfirði, þann 22. ágúst 2001, inn á heimili móður B, þar sem hann hefði einnig átt lögheimili, og flutning kæranda og B að Y-götu, Hafnarfirði, þann 20. október 2001 í sömu íbúð, svo og tilkynningu kæranda og B til þjóðskrár Hagstofu Íslands, dags. 11. júní 2003, um sambúð. Þá tók skattstjóri fram að í leiðréttingarbeiðni B til þjóðskrár, dags. 7. ágúst 2003, hefði komið fram að þau kærandi hefðu ekki kynnst fyrr en í ágúst 2002. Óskaði skattstjóri eftir því að B gæfi skýringar á því hvernig stæði á því að hann og kærandi hefðu ekki þekkst þegar þau hefðu flutt inn í sömu íbúðina að Y-götu, þ.e. 20. október 2001, samkvæmt flutningstilkynningum þeirra beggja, dags. 16. október 2001. Jafnframt hvernig á því stæði að B hefði tilkynnt flutning frá Y-götu að X-götu þann 6. desember 2001, en tilkynnt aftur um flutning frá X-götu að Y-götu þann 28. janúar 2002 og tilgreint þá að flutningsdagur hefði verið 1. janúar 2002. Loks óskaði skattstjóri eftir nánari skýringum á meintri misritun á sambúðartilkynningu til þjóðskrár þann 11. júní 2003, svo sem nánar var tilgreint.
Svar barst frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 8. október 2003, vegna kæranda og B, þar sem fram kom að honum hafði verið falið að svara bréfi skattstjóra, dags. 29. september 2003, til núverandi sambýlismanns kæranda. Voru gerðar þær kröfur að álagningu á kæranda yrði hagað eins og hún hefði verið einstætt foreldri í samræmi við skattframtal hennar árið 2003, sem kærandi teldi að skattstjóra hefði verið óheimilt að breyta nema gera henni viðvart áður, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Ekkert hefði komið fram í málinu sem benti til þess að kærandi og B hefðu byrjað að búa saman á fyrra tímamarki en staðhæft hefði verið. Rakti umboðsmaðurinn aðstæður kæranda frá því að hún hefði skilið að borði og sæng við fyrrverandi eiginmann sinn árið 1999. Hefði kærandi fengið að búa tímabundið hjá ... móður B á árinu 2001, og hefði B á þeim tíma átt lögheimili hjá móður sinni, þó svo að hann hefði haldið heimili að Z-götu í Hafnarfirði. Hefði því tekist kunningsskapur með B og kæranda. Kærandi hefði keypt sér íbúð í fjölbýlishúsi í október 2001 og hefði fylgt lítil stúdíóíbúð í kjallara. Hefði orðið að ráði að B tæki kjallaraíbúðina að leigu, gegn smávægilegu gjaldi, eins og þar stóð, til að létta kæranda kaupin. Hefði B tilkynnt flutning á heimilisfangi sínu til þjóðskrár, en flutt það svo aftur til móður sinnar þann 6. desember 2001 þegar í ljós hefði komið að ekkert yrði úr leigunni. Kærandi hefði þá haft hug á að finna annan leigjanda, en áður en hún hefði aðhafst eitthvað frekar í þeim efnum hefði B komið að máli við hana og viljað fá stúdíóíbúðina að leigu og hefði kærandi samþykkt það. Hefði árið liðið án þess að kærandi og B hefðu haft önnur samskipti en tíðkist á milli leigusala og leigutaka. Erfitt væri að skýra nánar þau mistök sem orðið hefðu við tilgreiningu á upphafsdagsetningu óvígðar sambúðar í tilkynningu til Hagstofu Íslands þann 11. júní 2003.
Með kæruúrskurði, dags. 4. nóvember 2003, féllst skattstjóri á þær breytingar á skattframtali kæranda árið 2003 sem hún fór fram á með kæru, dags. 1. ágúst 2003. Þá tók skattstjóri fram að við frágang á skattframtali kæranda til álagningar gjaldárið 2003 hefði persónumerkingu verið breytt úr merkingu einstæðs foreldris í merkingu fyrir sérskattað sambýlisfólk og sama persónumerking hefði verið notuð við áætlun opinberra gjalda B gjaldárið 2003. Þar sem ekki hefði verið gætt ákvæða 96. gr. laga nr. 90/2003 hefði því verið formannmarki á málinu. Af þessum sökum væri breyting á persónumerkingu skattframtals kæranda felld niður og álagning reiknuð á ný miðað við að hún hefði verið einstætt foreldri. Athygli kæranda var jafnframt vakin á því að þessi niðurstaða væri ekki bindandi fyrir skattstjóra ef nánari athugun leiddi í ljós að hún væri ekki rétt.
III.
Næst gerðist það í málinu að skattstjóri óskaði eftir því við kæranda með bréfi, dags. 21. nóvember 2003, að hún lýsti afstöðu sinni til þeirra gagna sem skattstjóri hefði aflað og gert grein fyrir með bréfi, dags. 29. september 2003. Tók skattstjóri fram í þessu sambandi að umboðsmaður kæranda hefði talið að ekkert hefði komið fram í málinu sem benti til sambúðar kæranda og B fyrir 1. janúar 2003, sbr. bréf umboðsmannsins til skattstjóra, dags. 8. október 2003. Jafnframt kom fram að skattstjóri hefði aflað frekari gagna í málinu, m.a. kaupsamnings og fleiri gagna vegna kaupa kæranda á íbúð að Y-götu sem B hefði vottað, kvittun fyrir greiðslu hluta kaupverðs íbúðarinnar sem gefin hefði verið út á B og bréfs fasteignasala þar sem B hefði verið tilgreindur sem kaupandi íbúðarinnar og að hann hefði átt samskipti við fasteignasalann vegna kaupanna, svo sem nánar var rakið. Skattstjóri tók fram að fyrir lægi yfirlýsing frá móður B um styrk að fjárhæð 3.500.000 kr. til handa kæranda vegna umsóknar um íbúðarlán en ekki yrði ráðið af skattframtölum kæranda árin 2002 og 2003 að styrkurinn hefði verið veittur. Óskaði skattstjóri eftir því að kærandi gerði grein fyrir því hverju það sætti að B hefði komið fram fyrir hennar hönd í fasteignaviðskiptum árin 2001 og 2002 í ljósi þess sem fram hefði komið hjá umboðsmanni kæranda um að samskipti hennar og B hefðu einungis verið eins og tíðkaðist á milli leigusala og leigutaka á þessum tíma. Fyrir liggur að skattstjóri óskaði eftir sambærilegum upplýsingum frá B með bréfi, dags. sama dag.
Skattstjóri óskaði jafnframt eftir því að kærandi gerði grein fyrir því hvort B hefði tekið þátt í því með henni að fjármagna kaup á íbúð að Y-götu og ef svo væri, þá hvers vegna, og að kærandi gerði grein fyrir framfærslu sinni árið 2002, en samkvæmt skattframtali hefði lífeyrir verið neikvæður um a.m.k. 1.934.261 kr., svo sem nánar var sundurliðað. Vegna skýringa umboðsmanns kæranda í bréfi, dags. 8. október 2003, um útleigu hluta íbúðarinnar að Y-götu óskaði skattstjóri eftir því að kærandi gerði grein fyrir því hvers vegna engra leigutekna hefði verið getið í skattframtali kæranda árið 2003.
Með bréfi, dags. 1. mars 2004, ítrekaði skattstjóri ósk sína um að kærandi veitti þær upplýsingar og svaraði þeim spurningum sem skattstjóri hefði lagt fyrir hana með bréfi sínu, dags. 21. nóvember 2003. Veittur var 10 daga frestur frá dagsetningu bréfsins og gerð grein fyrir að málið yrði tekið fyrir samkvæmt 1. og 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem þegar hefðu komið fram ef ekkert svar bærist frá kæranda.
Með bréfi, dags. 7. apríl 2004, tilkynnti skattstjóri að hann hygðist endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2003 á grundvelli 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Skattstjóri rakti atvik málsins og þau gögn sem fram hefðu komið og vísaði til þess að engin viðbrögð hefðu orðið af hálfu kæranda við bréfum skattstjóra, dags. 21. nóvember 2003 og 1. mars 2004. Skattstjóri tók fram að telja yrði öll gögn benda til þess að kærandi og B hefðu tekið upp sambúð á árinu 2002 en ekki 1. janúar 2003 eins og kærandi héldi fram, svo sem rakið var nánar á sama hátt og áður. Vísaði skattstjóri til og tók upp orðrétt ákvæði 3. mgr. 62. gr., 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, sem ættu við í málinu, en samkvæmt síðastgreindum ákvæðum bæri að skipta barnabótum og vaxtabótum til helminga milli sambýlisfólks sem uppfyllti í lok tekjuárs skilyrði fyrir samsköttun.
Skattstjóri tók fram að ekki yrði annað séð en að kynni kæranda og B hefðu byrjað þegar á árinu 2001 og að ekki væri óvarlegt að líta svo á að sambúð þeirra hefði byrjað í upphafi ársins 2002, enda bentu tvær tilkynningar þeirra hjá opinberum aðilum til þess að svo hefði verið. Kærandi hefði flutt með þrjú börn inn á heimili móður B að X-götu þann 22. ágúst 2001, þar sem B hefði þá einnig verið skráður með lögheimili sitt. Þau hefðu bæði fyllt út flutningstilkynningar á Bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar þann 16. október 2001 um flutning hinn 20. sama mánaðar frá X-götu að Y-götu, í íbúð merkta 0101 í eigu kæranda. Þá rakti skattstjóri að þann 6. desember 2001 hefði B tilkynnt flutning frá Y-götu að X-götu og síðan aftur frá X-götu að Y-götu þann 28. janúar 2002 og tilgreint 1. janúar 2002 sem flutningsdag og að flutt væri í íbúð 0101. Þann 11. júní 2003 hefðu kærandi og B síðan tilkynnt þjóðskrá um skráningu í óvígða sambúð, þar sem upphafsdagur sambúðar hefði verið tilgreindur 1. janúar 2002, sem væri í samræmi við lögheimilisflutning B samkvæmt tilkynningu þann 28. janúar 2002.
Skattstjóri tók fram að B hefði komið mjög að kaupum kæranda á fasteigninni að Y-götu. Hann hefði vottað undirskrift kaupsamnings vegna eignarinnar, dags. 5. október 2001, og einnig fasteignaveðbréf og viðbótarlán. Auk þess hefði legið fyrir á þeim tíma greind yfirlýsing, dags. 12. september 2001, um styrk til kæranda vegna íbúðarkaupa frá móður B, í tengslum við umsókn kæranda um greiðslumat. Þá lægi fyrir kvittun, dags. 15. maí 2002, þar sem fram kæmi að B hefði greitt seljanda Y-götu 550.000 kr. vegna umræddrar fasteignar. Þá rakti skattstjóri þær upplýsingar sem fyrir lægju frá fasteignasala sem séð hefði um viðskiptin með Y-götu þar sem staðfest væri að B hefði átt samskipti við fasteignasalann vegna kaupanna. Taldi skattstjóri að B hefði nánast komið fram sem kaupandi í þeim viðskiptum. Þegar til alls þessa væri litið og þess að samkvæmt skattframtali kæranda árið 2003 hafi kærandi ekki ein og óstudd haft fjárhagslegt bolmagn til að kaupa Y-götu, sbr. lífeyrisútreikning í bréfi skattstjóra, dags. 21. nóvember 2003, yrði að telja að lögfull sönnun væri komin fyrir því að kærandi og B hefðu keypt umrædda eign í sameiningu og búið í henni á árinu 2002.
Skattstjóri vísaði til þess að kæranda og B hefði fæðst barn í maí 2003 og kærandi hefði því verið barnshafandi á síðustu mánuðum ársins 2002. Þegar málum væri þannig háttað nægði að kærandi og B hefðu verið í sambúð hluta ársins. Ekki þyrfti að uppfylla skilyrði um eins árs sambúðartíma þegar kona væri barnshafandi eins og átt hefði við í tilviki kæranda, auk þess sem þau hefðu verið skráð með sameiginlegt lögheimili að Y-götu allt árið 2002. Skattstjóri taldi það ekki breyta þessari niðurstöðu þótt B hefði að lokinni álagningu 2003 með bréfi til Hagstofu Íslands, dags 7. ágúst 2003, krafist leiðréttingar á sambúðarskráningu á þeim grunni að ártal í tilkynningu hefði misritast. Þætti greint bréf bera þess merki að verið væri að bregðast við því að ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur kæranda í álagningu gjaldárið 2003 hefðu verið lægri en kærandi hefði reiknað með. Skattstjóri tók fram að sú viðbára að B hefði búið í lítilli stúdíóíbúð að Y-götu þætti ekki trúverðug með hliðsjón af atvikum málsins. Samkvæmt þessu hygðist skattstjóri skattleggja kæranda og B sem sérskattað sambýlisfólk gjaldárið 2003 með vísan til 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, og ákvarða barnabætur í samræmi við 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laganna og vaxtabætur í samræmi við 7. mgr. B-liðar 68. gr. laganna, svo sem nánar var rakið.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 2. júní 2004, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd á sömu forsendum og fram komu í boðunarbréfi, dags. 7. apríl 2004, og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda í samræmi við það. Fram kom í úrskurðinum að engar athugasemdir hefðu borist frá kæranda.
IV.
Með kæru, dags. 2. september 2004, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 2. júní 2004, til yfirskattanefndar, og gert þær kröfur að úrskurðurinn verði ómerktur og álagning miðuð við að kærandi hafi verið einstætt foreldri í árslok 2002. Þá er þess krafist að kæranda verði ákvarðaður málskostnaður samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðarreikningi eða að mati yfirskattanefndar.
Í kærunni kemur fram að skattstjóri hafi ekki getað með fullnægjandi hætti sýnt fram á að kærandi hafi verið í óvígðri sambúð með B á árinu 2002. Skerðing á barnabótum og vaxtabótum kæranda sé því óréttmæt. Rétt sé að kærandi hafi dvalið á heimili móður B frá ágúst til október árið 2001 en þar hafi B einnig verið skráður til heimilis. Hún hafi svo keypt fasteign að Y-götu í Hafnarfirði í október 2001 og flutt þangað. B hafi aðstoðað kæranda í sambandi við íbúðarkaupin, greitt innborgun kaupverðs, kvartað yfir galla og fleira. Það þýði hins vegar ekki að kærandi og B hafi byrjað formlega sambúð á árinu 2001. Kærandi hafi búið í leiguíbúð og átt erfitt með að standa í skilum með leigugreiðslurnar. Hafi hún þá kynnst móður B sem hafi boðið henni að búa hjá sér og síðar hvatt hana til að kaupa sér íbúð. Hún hafi jafnframt heitið að styrkja hana svo auðveldara yrði að fá jákvæða niðurstöðu úr greiðslumati hjá Íbúðarlánasjóði. Kærandi hafi keypt íbúðina að Y-götu og henni hafi fylgt lítil stúdíóíbúð sem B hafi ákveðið að leigja af kæranda. Í kjölfar fasteignakaupanna hafi svo komið upp gallamál tengt fasteigninni. Hafi kærandi borið upp kvartanir sínar við fasteignasalann vegna þessa en lítið orðið ágengt fyrr en B hafi farið og talað hennar máli. Móðir B hafi samið um yfirdrátt í viðskiptabanka sínum, um það bil 500.000 kr., sem B hafi farið með til fasteignasala sem hluta af kaupverði íbúðarinnar. Hann hafi fengið kvittun fyrir greiðslunni en sú kvittun geri það ekki að verkum að telja beri B kaupanda íbúðarinnar. Hafi í kjölfarið tekist kunningsskapur með kæranda og B og þau kynni orðið náin. Í október 2002 hafi þau íhugað sambúð þar sem kærandi hafi verið barnshafandi. Þau hafi hins vegar ekki látið verða af því að hefja sambúð fyrr en 1. janúar 2003. Fram að þeim tíma hafi kærandi búið í íbúð sinni en B í stúdíóíbúð hennar í kjallaranum.
V.
Með bréfi, dags. 8. október 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. október 2004, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.
Með bréfi, dags. 18. október 2004, ítrekar umboðsmaður kæranda mótmæli við niðurstöðu skattstjóra sem byggi á gögnum sem séu fyrst og fremst dæmi um ytri auðkenni. Tilgangur núverandi sambýlismanns kæranda á þessum tíma hafi fyrst og fremst verið greiðasemi og velvilji. Greiðslukvittun á nafni B sýni ekki að um hafi verið að ræða greiðslu á hluta af íbúðarverði kæranda heldur móttöku á greiðslu fyrir hönd kæranda. Núverandi sambýlismaður kæranda, B, hafi á þessum tíma ekki búið með kæranda, heldur leigt hluta af íbúð hennar, stúdíóíbúð, sem algjörlega hafi verið aðskilin frá íbúð kæranda. Hafi kærandi orðið barnshafandi á árinu 2002 en á þeim tímapunkti hafi verið alls óvíst hvort þau hæfu sambúð eða ekki. Liggi ekki annað fyrir en kærandi hafi ein og óstudd séð um framfærslu barna sinni á árinu 2002 og eigi hún því rétt á óskertum barnabótum umrætt ár.
VI.
Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, skulu karl og kona sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, eiga rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í að minnsta kosti eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Í 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 segir að hjón sem skattlögð eru samkvæmt 62. gr. laganna teljist bæði framfærendur og skuli barnabætur skiptast milli þeirra til helminga. Hið sama gildi um sambýlisfólk sem uppfylli í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr. enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Í 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um að við útreikning vaxtabóta hjá hjónum eða sambýlisfólki sem uppfyllti skilyrði 3. mgr. 62. gr. laganna í lok tekjuárs skuli miða við sameiginlegar tekjur beggja og tilteknar skerðingarreglur, svo sem nánar er kveðið á um. Í 7. mgr. lagagreinarinnar segir að þannig ákvarðaðar vaxtabætur skuli skiptast til helminga milli hjóna og það sama gildi um sambýlisfólk sem uppfylli skilyrði til samsköttunar.
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi hafi verið í sambúð með B í árslok 2002. Skattstjóri taldi að svo væri og lagði til grundvallar að framangreind ákvæði um barnabætur og vaxtabætur ættu við í tilviki kæranda gjaldárið 2003 og endurákvarðaði opinber gjöld hennar umrætt gjaldár til samræmis, sbr. hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 2. júní 2004. Af hálfu kæranda er hins vegar byggt á því að upphaf sambúðar þeirra B hafi verið 1. janúar 2003 og kærandi því verið einstætt foreldri í árslok 2002. Fyrir liggur að kærandi varð þunguð á árinu 2002 og samkvæmt gögnum málsins fæddist barn þeirra B í maí 2003. Þungun kæranda í árslok 2002 leiðir til þess að skilyrði til skattlagningar kæranda og B samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 teljast uppfyllt í árslok 2002 verði litið svo á að sambúð þeirra hafi hafist fyrir 1. janúar 2003.
Eins og rakið hefur verið í málavaxtalýsingu að framan aflaði skattstjóri gagna frá þjóðskrá Hagstofu Íslands um flutninga kæranda og B árin 2001 og 2002, tilkynningar þeirra um sambúð og leiðréttingarbeiðni B á þeirri tilkynningu. Auk þess aflaði skattstjóri gagna varðandi kaup kæranda á íbúð að Y-götu samkvæmt kaupsamningi, dags. 5. október 2001. Öll þau gögn sem skattstjóri aflaði og gerði skilmerkilega grein fyrir í bréfi til kæranda, dags. 21. nóvember 2003, svo og atvik málsins í heild, þykja bera þess merki að kærandi og B hafi í raun haft stöðu sambúðarfólks í árslok 2002. Er hér m.a. litið til flutnings kæranda og barna hennar inn á heimili móður B, þar sem hann átti jafnframt lögheimili, flutning kæranda og B á sama tíma að Y-götu, aðkomu B að fasteignakaupum kæranda og þungun kæranda seinni part árs 2002. Þykja fram komnar skýringar kæranda varðandi þessi atriði ekki vera trúverðugar og getur leiðrétting sambýlismanns kæranda á skráningu í þjóðskrár um upphaf sambúðarinnar með bréfi, dags. 7. ágúst 2003, ekki ráðið hér úrslitum, en að öðru leyti hafa engin gögn verið lögð fram af hálfu kæranda til stuðnings fullyrðingu um að sambúð hennar og B hafi ekki hafist fyrr en 1. janúar 2003 þótt telja verði að kæranda hafi verið unnt að leggja slík gögn fram ef sú var raunin.
Með vísan til framanritaðs og að virtum öðrum þeim atriðum sem skattstjóri hefur fært fram til stuðnings hinni kærðu ákvörðun verður að telja að nægilega sé fram komið að kærandi og B hafi í árslok 2002 uppfyllt skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 til að óska eftir samsköttun. Af því leiðir að skattstjóri hefur með hinum kærða úrskurði ákvarðað kæranda barnabætur og vaxtabætur árið 2003 í samræmi við lög. Samkvæmt því verður að hafna kröfu kæranda um að endurákvörðun skattstjóra verði hnekkt.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis og er kröfu þar að lútandi því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.