Úrskurður yfirskattanefndar

  • Málsmeðferð skattstjóra

Úrskurður nr. 229/2005

Gjaldár 2004

Lög nr. 37/1993, 13. gr.   Lög nr. 90/2003, 99. gr. 1. mgr.  

Með bréfi, dags. 7. júní 2004, skoraði skattstjóri á kæranda að leggja fram upplýsingar og gögn varðandi frádrátt á móti dagpeningum í skattframtali kæranda árið 2004. Var gefinn 10 daga svarfrestur frá póstlagningu bréfsins. Svarbréf kæranda barst skattstjóra hinn 28. júní 2004 eða að liðnum svarfresti. Í úrskurði yfirskattanefndar var ekki talið tilefni til athugasemda vegna þeirrar ákvörðunar skattstjóra að taka svarbréf kæranda til meðferðar sem kæru á álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2004. Á hinn bóginn kvað skattstjóri upp kæruúrskurð vegna málsins þann 24. ágúst 2004 eða áður en lögboðinn kærufrestur til skattstjóra vegna álagningar opinberra gjalda umrætt gjaldár var liðinn. Sú málsmeðferð var ekki talin fá staðist. Var kæruúrskurður skattstjóra því felldur úr gildi og kæran framsend skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

I.

Málavextir eru þeir að í reit 23 í skattframtali sínu árið 2004 færði kærandi sér til tekna dagpeninga að fjárhæð 855.000 kr. frá vinnuveitanda sínum, X ehf., og sömu fjárhæð til frádráttar í reit 33 í skattframtalinu. Tilfærð laun kæranda frá einkahlutafélaginu námu 2.400.000 kr. Framtalinu fylgdi greinargerð um dagpeninga (RSK 3.11) þar sem tilgreindur var frádráttur 855.400 kr. vegna heilsdagsfæðis í 164 daga og vegna hálfsdagsfæðis í einn dag á árinu 2003.

Með bréfi, dags. 7. júní 2004, skoraði skattstjóri á kæranda að leggja fram gögn og upplýsingar varðandi frádrátt á móti dagpeningum í skattframtali kæranda árið 2004. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði verið á sjó í 365 daga samkvæmt greinargerð um sjómannaafslátt (RSK 3.13) sem fylgt hefði skattframtali hans. Lagði skattstjóri fyrir kæranda að upplýsa um tilgang ferða og sundurliða ferðir með tilliti til dvalartíma. Þá skyldi kærandi sýna fram á að greiddir dagpeningar væru vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda og að dagpeningafrádráttur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, ætti við í tilviki kæranda. Gefinn var 10 daga svarfrestur frá póstlagningu bréfsins.

Með bréfi, dags. 28. júlí 2004, tilkynnti skattstjóri kæranda, sbr. 3. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um þá breytingu á skattframtali hans árið 2004 að tilfærður frádráttur að fjárhæð 855.000 kr. á móti fengnum dagpeningum hefði verið felldur niður. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði ekki sýnt fram á að greiddir dagpeningar væru vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda og að frádráttur frá dagpeningum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 ætti við í tilviki kæranda. Í bréfinu gat skattstjóri þess að svarbréf frá kæranda hefði ekki borist „fyrr en álagningarvinnu skattstjóra var lokið“ og yrði svarbréfið tekið til meðferðar sem kæra. Samkvæmt gögnum málsins barst skattstjóra svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 22. júní 2004, vegna bréfs skattstjóra frá 7. júní 2004, hinn 28. júní 2004 eða að liðnum svarfresti. Í umræddu bréfi umboðsmanns kæranda kom fram að kærandi hefði róið út frá Y á árinu 2003 þar sem það hafi þótt hagstæðara fyrir útgerðina þar sem styttra væri á miðin. Útgerð frá Y sparaði þannig bæði siglingartíma og olíukostnað, auk þess sem hærra verð hefði fengist fyrir aflann með þessu móti. Teldi kærandi að um tilfallandi ferðir væri að ræða „því þetta gæti breyst fljótlega og gert yrði út frá Z“, eins og sagði í bréfinu. Bréfinu fylgdi yfirlit yfir dagpeninga kæranda.

Skattstjóri tók greint bréf umboðsmanns kæranda, dags. 22. júní 2004, sem kæru, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, og kvað upp kæruúrskurð hinn 24. ágúst 2004 þar sem hann hafnaði kröfum kæranda. Í úrskurði skattstjóra kom fram að kærandi hefði fengið greidda dagpeninga á árinu 2003 fyrir 94 daga í heilsdagsfæði og einn dag í hálfsdagsfæði á tímabilinu janúar til apríl og fyrir 70 daga í heilsdagsfæði á tímabilinu október til desember, sbr. innsenda greinargerð um dagpeninga (RSK 3.11). Kærandi væri eigandi X ehf. Hefði komið fram í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 22. júní 2004, að kærandi hefði dvalið á Y stóran hluta ársins 2003 og gert þaðan út. Ekki væri fallist á að dvöl kæranda á Y vegna eigin útgerðar gæti talist til tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda og að frádráttur frá dagpeningum vegna þeirrar dvalar ætti við í tilviki kæranda, sbr. 1. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 90/2003, sbr. ennfremur auglýsingu fjármálaráðherra nr. 6/2003 frá 8. janúar 2003, þ.e. skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2003. Með vísan til framangreinds væri kæru kæranda synjað.

II.

Með kæru, dags. 19. nóvember 2004, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 6. desember 2004, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 24. ágúst 2004, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og að tilfærður frádráttur á móti dagpeningum standi óhaggaður í skattframtali kæranda árið 2004. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Í kærunni kemur fram að krafa kæranda sé bæði byggð á formgöllum á málsmeðferð skattstjóra og efnislegum ástæðum. Að því er varðar formhlið málsins er tekið fram að fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 7. júní 2004, hafi verið svarað af hálfu kæranda 15 dögum síðar eða þann 22. júní 2004. Hafi skattstjóri þrátt fyrir það tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 28. júlí 2004, um höfnun dagpeningafrádráttar, án þess að taka tillit til fyrirliggjandi svarbréfs kæranda. Í fyrsta lagi sé augljóst að skattstjóra hafi ekki verið kleift að líta framhjá svarbréfi kæranda frá 22. júní 2004 sem borist hafi skattstjóra að liðnum 15 dögum frá fyrirspurnarbréfi hans. Sé bæði um að ræða brot á andmælareglu 96. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og rannsóknarreglu 10. gr. síðarnefndra laga. Í öðru lagi hafi skattstjóri kveðið upp kæruúrskurð í málinu þann 24. ágúst 2004 eða áður en kærufrestur vegna álagningar opinberra gjalda umrætt gjaldár hafi verið liðinn. Kærandi hafi augljóslega þurft að koma frekari andmælum að í málinu en skattstjóri hafi ekki leiðbeint kæranda um þann rétt né gefið kæranda kost á að koma að frekari andmælum. Í þriðja lagi sé rökstuðningi skattstjóra í hinum kærða úrskurði áfátt, enda uppfylli rökstuðningurinn hvorki kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né 96. gr. laga nr. 90/2003. Virðist skattstjóri í rökstuðningi sínum ekki fallast á að um tilfallandi ferðir hafi verið að ræða í tilviki kæranda á grundvelli þess að kærandi sé eigandi þess félags sem greitt hafi honum dagpeninga og þar sem kærandi hafi dvalið stóran hluta ársins 2003 á Y. Um frekari rökstuðning sé ekki að ræða og sé það ófullnægjandi, enda þurfi skattstjóri að greina frá því hvers vegna hann telji ferðir kæranda ekki tilfallandi. Kæranda sé ekki unnt að átta sig á ástæðum skattstjóra fyrir hinum kærðu breytingum þar sem rökstuðningi sé áfátt og geri það kæranda erfitt um vik við varnir í málinu.

Varðandi efnishlið málsins kemur fram í kærunni að því sé mótmælt sem lögleysu að eiganda félags sem jafnframt sé starfsmaður þess sé óheimilt að færa frádrátt vegna dagpeninga á sama hátt og aðrir launþegar. Fullyrðingum skattstjóra þess efnis að ekki hafi verið um tilfallandi ferðir að ræða sé sömuleiðis mótmælt. Kærandi hafi ferðast frá heimili sínu að Y þar sem gert sé út af hagkvæmnisástæðum eins og fram hafi komið. Starfsstöð félagsins og heimili kæranda sé hins vegar á Z. Þá séu líkur á því að gert verði út frá Z á nýjan leik innan skamms og sé því um að ræða tímabundið ástand. Verði ekki fallist á fullan frádrátt á móti dagpeningum í tilviki kæranda sé þess krafist að viðurkenndur verði frádráttur vegna þeirra daga sem kærandi hafi dvalist í landi á Y. Sé miðað við þá daga falli sú röksemd skattstjóra, að kærandi hafi dvalið stóran hluta ársins á Y, um sjálfa sig. Þegar litið sé til markmiðs að baki reglum um dagpeningafrádrátt hljóti að verða að fallast á að dvöl kæranda fjarri heimili sínu og aðalstarfsstöð útgerðarinnar í þeim tilgangi að stunda róðra uppfylli skilyrði frádráttar. Þetta eigi einnig við ef ekki sé litið til þess tíma sem kærandi hafi verið á sjó. Líta verði til þess að um ferðir sé að ræða sem farnar hafi verið tímabundið af hagkvæmnisástæðum fyrir félagið. Áætla yrði dvöl kæranda í landi á Y í þessu sambandi á grundvelli meðfylgjandi yfirlits Fiskistofu yfir landanir á árinu 2003.

Í niðurlagi kærunnar kemur fram að vinnustundir umboðsmanns kæranda vegna málsins séu 15 og kostnaður kæranda samkvæmt því 130.500 kr. án virðisaukaskatts. Sé þess því krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður að fjárhæð 130.500 kr.

III.

Með bréfi, dags. 28. janúar 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Eins og fram er komið krafði skattstjóri kæranda um gögn og skýringar varðandi frádrátt á móti dagpeningum í skattframtali kæranda árið 2004 með bréfi sínu, dags. 7. júní 2004. Var kæranda veittur 10 daga svarfrestur frá póstlagningu bréfsins. Þar sem svar barst ekki innan svarfrests felldi skattstjóri niður tilfærðan frádrátt 855.000 kr. á móti dagpeningum í skattframtalinu með tilkynningu sinni, dags. 28. júlí 2004, á þeim forsendum að kærandi hefði ekki sýnt fram á að skilyrði slíks frádráttar samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, væru uppfyllt. Síðbúið svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 22. júní 2004, sem barst skattstjóra 28. sama mánaðar samkvæmt áritun hans um móttöku þess, tók skattstjóri til meðferðar sem kæru, sbr. undirstöðurök 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Verður ekki fundið að málsmeðferð skattstjóra að þessu leyti. Tekið skal fram að ekki verður talið að sá frestur, sem kæranda var veittur með bréfi skattstjóra, dags. 7. júní 2004, hafi verið svo skammur, þótt hann hafi verið í knappara lagi, að efni séu til að álíta að lögmæltur andmælaréttur kæranda hafi verið fyrir borð borinn, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda laut fyrirspurn skattstjóra eingöngu að hinum umdeilda frádrætti á móti dagpeningum í skattframtali kæranda auk þess sem skorað var á kæranda að gera grein fyrir hlutabréfaeign.

Samkvæmt framansögðu er ekki tilefni til athugasemda vegna þeirrar ákvörðunar skattstjóra að taka síðbúið svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 22. júní 2004, til meðferðar sem kæru. Eins og umboðsmaður kæranda hefur bent á kvað skattstjóri hins vegar upp kæruúrskurð vegna málsins þann 24. ágúst 2004. Kærufrestur til skattstjóra er 30 dagar frá dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu sé lokið, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003. Auglýsing um að álagningu væri lokið á einstaklinga, dags. 30. júlí 2004, birtist í 92. tbl. Lögbirtingablaðsins 2004, sem kom út 30. júlí 2004, þar sem tekið var fram að kærufrestur væri til og með 30. ágúst 2003 (sic). Samkvæmt framansögðu hefur skattstjóri kveðið upp úrskurð um kæru kæranda vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2004 áður en lögboðinn kærufrestur til skattstjóra vegna álagningarinnar var liðinn. Slík málsmeðferð fær ekki staðist, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kemur að skattstjóri skuli innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests hafa úrskurðað kærur. Þegar af þessari ástæðu er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð skattstjóra. Af því leiðir að framsenda verður skattstjóra kæru kæranda til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnis málsins.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn vegna meðferðar málsins, en umboðsmaður kæranda hefur greint frá slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 25.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hinn kærði úrskurður skattstjóra er felldur úr gildi og kæran framsend skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 25.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja