Úrskurður yfirskattanefndar
- Styrkur
- Beinn kostnaður
Úrskurður nr. 237/2005
Gjaldár 2004
Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr., 95. gr. 2. mgr.
Yfirskattanefnd synjaði kröfu kærenda um frádrátt kostnaðar vegna gleraugnakaupa og krabbameinsskoðunar á móti fengnum styrk frá stéttarfélagi þar sem um væri að ræða persónuleg útgjöld þeirra.
I.
Málavextir eru þeir að í reit 96 í skattframtali kæranda B árið 2004 var tilgreind greiðsla að fjárhæð 34.806 kr. með skýringunni „Endurgr. kostnaður v/gleraugnakaupa“ og í reit 157 var sama upphæð færð til frádráttar. Í skattframtali kæranda A var með sama hætti tilgreind greiðsla að fjárhæð 41.050 kr. og frádráttur sömu fjárhæðar. Samkvæmt gögnum málsins voru umræddar fjárhæðir tilgreindar í launauppgjöf sjúkrasjóðs Verslunarmannafélags Reykjavíkur vegna kærenda sem endurgreiðsla kostnaðar og með textanum „Endurgr. útl. kostn.“.
Með bréfi, dags. 28. júlí 2004, tilkynnti skattstjóri kærendum um breytingar á skattframtali þeirra með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Sagði í bréfinu að styrkir vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, krabbameinsskoðunar, skoðunar hjá Hjarta- og lungnastöðinni, heilsufarstrygginga, gleraugnakaupa og hjálpartækja féllu ekki undir undanþáguákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, heldur bæri að telja slíkar greiðslur til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar l. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003. Ekki væri heldur fallist á að færa mætti til frádráttar kostnað við öflun þessara tekna þar sem um persónulegan kostnað væri að ræða sem fallið hefði til hvort sem styrkur hefði verið veittur eða ekki. Með vísan til þessa væri tilfærður frádráttur hjá báðum kærendum á móti styrkjum frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur felldur niður.
Kærendur mótmæltu breytingum skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 2004. Kom fram í kærunni að hún væri á því byggð að styrkur frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur teldist ekki til tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, en til vara á því að til frádráttar kæmi kostnaður við öflun styrksins, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Í kærunni var m.a. vísað til reglugerðar og starfsreglna fyrir sjúkrasjóð Verslunarmannafélags Reykjavíkur og bent á að þar kæmi fram að styrkfjárhæðir væru ekki til frjálsrar ráðstöfunar. Væri um að ræða endurgreiðslu vegna útlagðs kostnaðar og kæmi styrkur ekki til greiðslu nema útlagður kostnaður næmi helmingi hærri fjárhæð en veittur styrkur. Væru styrkveitingarnar bundnar við ákveðið forvarnarstarf og einstaklingsbundnar. Gætu þær því ekki talist til beinna tekna. Ef skattyfirvöld teldu að styrkinn bæri að telja til skattskyldra tekna væri til þess vísað að um væri að ræða endurgreiðslu útlagðs kostnaðar eins og skýrt kæmi fram í skattframtali. Þá var tekið fram að meðfylgjandi kvittanir sýndu að kostnaður við öflun styrkjanna væri hærri en fjárhæð þeirra.
Í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 12. október 2004, var vísað til innsendra ljósrita vegna gleraugnakaupa og skoðunar hjá Krabbameinsfélaginu. Skattstjóri áréttaði að styrkir vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, krabbameinsskoðunar, skoðunar hjá Hjarta- og lungnastöðinni, heilsufarstrygginga, gleraugnakaupa og hjálpartækja féllu ekki undir undanþáguákvæði 2. tölul. 28. gr. laga nr. 90/2003, heldur bæri að telja slíkar greiðslur til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 90/2003. Ekki væri heldur fallist á að færa mætti til frádráttar kostnað við öflun þessara tekna, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga, þar sem um persónulegan kostnað væri að ræða sem fallið hefði til hvort sem styrkur hefði verið veittur eða ekki. Samkvæmt þessu yrðu gjaldstofnar óbreyttir og væri kröfum kærenda hafnað.
II.
Með kæru, dags. 11. janúar 2005, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 12. október 2004, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kærendur hafi sem félagsmenn í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur fengið greidda styrki frá sjúkrasjóði félagsins. Kærandi B hafi fengið greiddar 34.806 kr. vegna gleraugnakaupa og kærandi A 52.300 kr. (sic) vegna gleraugnakaupa og vegna gjalds fyrir krabbameinsskoðun, en um hafi verið að ræða helming heildarkostnaðar þeirra. Því sé mótmælt að umræddar greiðslur falli undir 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Um sé að ræða afmarkaðan styrk sem til sé kominn vegna útlagðs kostnaðar kærenda við að tryggja sér góða sjón til að geta stundað vinnu sína, sem og útlagðan kostnað við heilsufarsrannsókn, en ekki launa- eða framfærslustyrki sem falli undir 2. tölul. A-liðar 7. gr. Í grein 2.1 í reglum sjúkrasjóðs sé fjallað um greiðslur til félagsmanna og í nánari útfærslu í grein 6.4 í starfsreglum sjóðsins segi að fjárhæð styrkja skuli ekki fara fram úr 50% af útlögðum kostnaði, auk þess sem fram komi að styrkirnir séu ekki til frjálsrar ráðstöfunar og að þeir séu bundnir við áður útlagðan kostnað. Sé því ekki um beinar tekjur að ræða heldur endurgreiðslu útlagðs kostnaðar vegna læknisskoðunar og hjálpartækja vegna sjóndepru. Styrkurinn geti því ekki talist til beinna tekna eins og skattstjóri haldi fram. Þá segir í kærunni að ef yfirskattanefnd komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða skattskyldan styrk sé byggt á 2. mgr. 30. gr. greindra laga og því að endurgreiddur hafi verið útlagður kostnaður, enda sé styrkur ekki greiddur nema sýnt sé fram á greiðslu kostnaðar við að fá styrkinn, en þannig hafi skattstjóri til þessa túlkað styrkveitingar úr styrktar- og sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Verði ekki fallist á framangreind sjónarmið sé þess farið á leit við yfirskattanefnd að „úrskurður hennar hafi ekki afturvirk áhrif heldur miðist við álagningu vegna næsta skattárs til að unnt sé að gera félagsmönnum stéttarfélaga grein fyrir breyttri túlkun og afstöðu skattyfirvalda til umræddra styrkja“.
III.
Með bréfi, dags. 29. apríl 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda er niðurstaða skattstjóra í samræmi við úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 803/1997.“
Kærendum var með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. maí 2005, sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og að leggja fram gögn til skýringar. Veittur var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.
IV.
Mál þetta varðar tilfærðan frádrátt að fjárhæð 34.806 kr. í reit 157 í skattframtali kæranda B árið 2004 og tilfærðan frádrátt að fjárhæð 41.050 kr. í reit 157 í skattframtali kæranda A á móti tekjufærðum greiðslum í reitum 96 í skattframtölum kærenda að sömu fjárhæðum, en frádráttarliði þessa felldi skattstjóri niður með tilkynningu sinni, dags. 28. júlí 2004. Eins og fram er komið fór skattstjóri með hinar kærðu breytingar eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Þar er mælt svo fyrir að skattstjóri geti leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skuli skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild skattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans eða slíkt sé augljóslega óþarft. Ljóst er af tilkynningu skattstjóra, dags. 28. júlí 2003, að hann byggði á fyrirliggjandi framtalsgögnum og hefur skattstjóri talið að á þessum grundvelli væri fullnægt framangreindum skilyrðum 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 fyrir breytingum samkvæmt því ákvæði. Að athuguðum þeim upplýsingum, sem lágu fyrir í framtalsgögnum kæranda varðandi kæruefnið, verður ekki fundið að því að skattstjóri færi með hina kærðu breytingu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003.
Umræddir styrkir sem kærendur fengu á árinu 2003 frá stéttarfélagi sínu að fjárhæð 34.806 kr. í tilviki kæranda B og 41.050 kr. í tilviki kæranda A voru vegna gleraugnakaupa auk þess sem fram er komið að hluti styrks A var vegna kostnaðar við krabbameinsskoðun. Styrkir þessir teljast til skattskyldra tekna kærenda samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, svo sem ekki er deilt um. Um frádrátt frá slíkum tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. nefndra laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, samt sem áður gilda um beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eftir því sem við á, þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á, og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar.
Það leiðir af tilvísun 2. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 til 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna að við skilgreiningu á beinum kostnaði ber að fara eftir almennum reglum um rekstrarkostnað, eftir því sem við á, með þeim takmörkunum sem ákvæðið sjálft mælir fyrir um. Persónuleg útgjöld heimilast ekki til frádráttar sem rekstrarkostnaður. Útgjöld kærenda vegna gleraugnakaupa og krabbameinsskoðunar verða að teljast persónulegur kostnaður sem ekki kæmi til álita að heimila til frádráttar sem rekstrarkostnað. Samkvæmt því og með vísan til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 803/1997, sem birtur er í 3. hefti Skatta- og tollatíðinda 1997 (ST 1997:179) og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is), verður að hafna kröfu kærenda í máli þessu.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kærenda er hafnað.