Úrskurður yfirskattanefndar

  • Launauppgjöf
  • Skilyrði frádráttar greiðslna fyrir vinnu

Úrskurður nr. 201/2004

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 2. mgr. (brl. nr. 147/1994, 3. gr.), 92. gr.   Lög nr. 37/1993, 12. gr.  

Skattstjóri felldi niður gjaldfærð laun og launatengd gjöld í skattskilum kæranda á þeim forsendum að hann hefði ekki orðið við áskorun skattstjóra um að leggja fram upplýsingar um launagreiðslur og greiðslur vegna aðkeyptrar þjónustu. Yfirskattanefnd hafnaði því sjónarmiði kæranda að með niðurfellingu á gjaldfærðum launum hefði verið brotið gegn meðalhófsreglu og benti á að heimild skattstjóra samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 til þess að synja um frádrátt vegna slíkra greiðslna væri í eðli sínu úrræði til þess að knýja á um lögboðna upplýsingagjöf. Á hinn bóginn fékk ekki staðist að fella niður á þessum grundvelli gjaldfærslur vegna reiknaðs endurgjalds, lífeyrissjóðs og tryggingagjalds í rekstrarreikningi kæranda og var sá þáttur ákvörðunar skattstjóra felldur úr gildi.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2001 og sættu kærendur af þeim sökum áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæru til skattstjóra, dags. 27. ágúst 2001, kærði umboðsmaður kærenda álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001 og boðaði framlagningu rökstuðnings með kærunni innan tíðar. Með kæruúrskurði, dags. 14. febrúar 2002, vísaði skattstjóri kærunni frá sem vanreifaðri þar sem boðaður rökstuðningur fyrir kæruatriðum hefði ekki borist honum.

Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 13. ágúst 2003, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal kærenda árið 2001 og fór fram á að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2001 í stað áætlunar. Með bréfi, dags. 15. ágúst 2003, framsendi ríkisskattstjóri skattstjóra erindi kærenda til afgreiðslu, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Áður en skattstjóri tók erindið til úrlausnar ritaði hann kærendum bréf, dags. 28. október 2003, þar sem skattstjóri fór fram á að kærendur legðu fram launa- og verktakamiða vegna ársins 2000 og greiðslumiða vegna greiddrar húsaleigu á sama ári. Ítrekaði skattstjóri fyrirspurn sína með bréfi, dags. 21. nóvember 2003. Af hálfu kærenda var bréfi skattstjóra ekki svarað og með kæruúrskurði, dags. 15. desember 2003, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kærenda árið 2001 til grundvallar álagningu opinberra gjalda umrætt gjaldár í stað áætlunar, en að gerðum tilteknum breytingum á framtalinu, nánar tiltekið gjaldahlið rekstrarreiknings vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda, A, árið 2000. Felldi skattstjóri niður gjaldaliðina „laun og launatengd gjöld“ 14.769.251 kr., „aðkeyptir verktakar“ 28.032 kr., „hljómsveitir, skemmtikraftar“ 2.813.185 kr., „reikningsleg aðstoð“ 136.000 kr., „bókhaldsaðstoð“ 404.593 kr. og „húsaleiga“ 2.602.600 kr. og vísaði til þess að umbeðin gögn hefðu ekki verið lögð fram, sbr. og 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sem skattstjóri vísaði til í þessu sambandi. Jafnframt fólst í breytingum skattstjóra, sem hann vék ekki sérstaklega að, að lækkun reiknaðs endurgjalds um 977.586 kr. með vísan til 59. gr. laga nr. 75/1981 var felld niður. Þannig miðaði skattstjóri við í breytingum sínum að rekstrarniðurstaða fyrir gerðar breytingar væri tap 5.981.105 kr. en ekki tap 5.003.519 kr. sem gerð var grein fyrir á samræmingarblaði.

II.

Með kæru, dags. 13. mars 2004, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 15. desember 2003, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að skattstjóri hafi fellt niður gjaldaliði í rekstrarreikningi kæranda, A, á þeim forsendum að launa- og verktakamiðum hafi ekki verið skilað. Sé breyting skattstjóra því væntanlega gerð á grundvelli 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 92. gr. sömu laga. Gerir umboðsmaður kærenda athugasemd við að skattstjóri hafi fellt niður gjaldfærð laun og launatengd gjöld í rekstrarreikningi kæranda í heild sinni á fyrrgreindum forsendum og bendir á að m.a. sé um að ræða reiknuð laun rekstraraðila 2.177.586 kr., lífeyrissjóð 678.794 kr., tryggingagjald 591.673 kr. og lækniskostnað 8.140 kr. Sé óásættanlegt að skattstjóri hafi hafnað öllum launum sem rekstrarkostnaði, enda liggi fyrir skattstjóra upplýsingar úr staðgreiðsluskrá um launagreiðslur kæranda á árinu 2000. Verði ekki annað séð en að skattstjóri hafi með þessu brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða lækkun gjaldfærðs kostnaðar um tæp 30% af heildarkostnaði og verði að líta svo á að skattstjóra hafi borið „að fara aðrar leiðir til að upplýsa málið og taka tillit til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja hjá skattyfirvöldum áður en svo harkalegar aðgerðir voru framkvæmdar“, eins og segir í kærunni. Í staðgreiðsluskrá séu upplýsingar um launagreiðslur sem nemi um 75% þess kostnaðar sem skattstjóri hafi fellt niður. Vísar umboðsmaður kærenda til meðfylgjandi verktakamiða og greiðslumiða vegna húsaleigu og tekur fram að launamiðum vegna greiddra launa hafi verið skilað til skattstjóra. Þá segir svo í niðurlagi kærunnar:

„Með vísan í ofanritað er því farið fram á við yfirskattanefnd að hún felli úrskurð skattstjóra úr gildi að því marki sem snýr að launum og tengdum gjöldum. Þá er farið fram á að annar rekstrarkostnaður sem skattstjóri hafnaði verði samþykktur í samræmi við meðfylgjandi verktaka- og greiðslumiða.“

III.

Með bréfi, dags. 16. apríl 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Með kæru til yfirskattanefndar fylgja m.a. verktakamiðar og greiðslumiðar sem skattstjóri hafði óskað eftir en ekki fengið fyrir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar. Þar sem kærandi hefur lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til skattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar.“

IV.

Eins og greinir hér að framan lutu breytingar skattstjóra á síðbúnu skattframtali kæranda árið 2001 samkvæmt hinum kærða úrskurði, dags. 15. desember 2003, að niðurfellingu tiltekinna gjaldaliða í rekstrarreikningi með framtalinu, m.a. niðurfellingu gjaldfærðra launa og launatengdra gjalda samtals 14.769.251 kr. Samkvæmt sundurliðun þess gjaldaliðar í rekstrarreikningnum er um að ræða laun 11.313.058 kr., reiknuð laun 2.177.586 kr., lífeyrissjóð 678.794 kr., tryggingagjald 591.673 kr. og lækniskostnað 8.140 kr. Voru forsendur skattstjóra þær að kærandi hefði ekki orðið við áskorun skattstjóra um að leggja fram launa- og verktakamiða og greiðslumiða vegna greiddrar húsaleigu og er þannig ljóst að breytingar skattstjóra byggðu á ákvæði 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 147/1994, sbr. nú 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fram kemur að hafi skyldu til að afhenda skattstjóra upplýsingar um launagreiðslur og/eða verktakasamninga vegna vinnu, sbr. 92. gr. laganna, að aðgættum ákvæðum 96. gr., eigi verið fullnægt sé skattstjóra heimilt að synja um frádrátt vegna þeirra greiðslna eða hlunninda. Taka verður undir það með umboðsmanni kæranda að ekki fékk staðist að fella niður á þessum grundvelli gjaldfærslur vegna reiknaðs endurgjalds, lífeyrissjóðs og tryggingagjalds í rekstrarreikningi kæranda, sbr. orðalag ákvæðisins. Á hinn bóginn er ekki unnt að taka undir sjónarmið umboðsmannsins varðandi brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með tilliti til niðurfellingar skattstjóra á gjaldfærðum launagreiðslum, enda verður að telja að heimild skattstjóra samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 til þess að synja um frádrátt vegna slíkra greiðslna sé í eðli sínu úrræði til þess að knýja á um lögboðna upplýsingagjöf samkvæmt 92. gr. sömu laga, sbr. m.a. athugasemdir við 3. gr. frumvarps þess, sem varð að lögum nr. 147/1994. Um úrskurðaframkvæmd vísast m.a. til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 350/1997 sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum ST 1997:76 og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is).

Samkvæmt framansögðu verður að hnekkja hinni kærðu breytingu skattstjóra að því er varðar reiknuð laun 2.177.586 kr. að teknu tilliti til lækkunar þess um 977.586 kr. eða 1.200.000 kr., lífeyrissjóð 678.794 kr. og tryggingagjald 591.673 kr. Að því er snertir breytingar skattstjóra að öðru leyti eru kröfur kæranda studdar upplýsingum um greiðslur til verktaka og leigugreiðslur á árinu 2000 sem ekki lágu fyrir á skattstjórastigi og skattstjóri hefur þannig ekki tekið neina afstöðu til. Þá kemur fram í kæru umboðsmanns kæranda að launamiðum vegna greiddra launa árið 2000 hafi verið skilað til skattstjóra. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af þeim lagarökum sem búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir rétt að vísa kærunni til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða niðurfelling skattstjóra á gjaldfærðum kostnaði 2.470.467 kr. vegna reiknaðra launa, lífeyrissjóðs og tryggingagjalds er felld úr gildi. Að öðru leyti er kærunni vísað til skattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja