Úrskurður yfirskattanefndar

  • Þungaskattur
  • Tímamörk endurákvörðunar

Úrskurður nr. 222/2004

Þungaskattur 1999-2002

Lög nr. 3/1987, 4. gr. B-liður, 6. gr., 7. gr. B-liður 3. mgr., 14. gr. 1. mgr., 16. gr. (brl. nr. 68/1996)  

Ríkisskattstjóri endurákvarðaði þungaskatt kæranda árin 1999-2002 þar sem þungaskattur var vanreiknaður greind ár vegna skekkju í álestrarskrá ríkisskattstjóra. Yfirskattanefnd taldi að heimild til endurákvörðunar þungaskatts næði til vanálagðs þungaskatts sem rekja mætti til slíkra mistaka í álagningu. Á hinn bóginn var talið að frestur ríkisskattstjóra til endurákvörðunar samkvæmt 16. gr. laga nr. 3/1987 hefði verið liðinn vegna fyrsta gjaldtímabils árið 2001 og fyrri gjaldtímabila sem málið varðaði, enda yrði kæranda ekki kennt um vanálagningu þungaskatts. Var endurákvörðun ríkisskattstjóra því felld úr gildi að hluta til.

I.

Með kæru, dags. 21. júlí 2003, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 29. apríl 2003, um endurákvörðun þungaskatts vegna bifreiðarinnar X á 3. gjaldtímabili árið 1999 og öllum gjaldtímabilum árin 2000, 2001 og 2002. Af hálfu kæranda er þess krafist að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 26. mars 2003, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun þungaskatts vegna bifreiðarinnar X fyrir tímabilið 15. október 1999 til 10. október 2002. Vísaði ríkisskattstjóri til erindis, sem borist hefði embættinu, þar sem fram kæmi að margfeldi ökumælis ökutækisins hefði verið ranglega skráð í álestrarskrá í október 1999. Við skoðun á álestrarskrá ökutækisins hefði komið í ljós að frá árinu 1995 hefði margfeldi ökumælis, sem væri tala sem talning ökumælis væri margfölduð með til þess að finna kílómetrafjölda, verið 7,41. Löggild ökumælaverkstæði skyldu finna út margfeldi hvers ökumælis og skrá það, ásamt öðrum upplýsingum um ökumæli, í akstursbók ökutækisins. Við upptöku nýs tölvukerfis í október 1999 hefðu gagnaflutningar ekki tekist sem skyldi og hefði margfeldi ökumælis bifreiðar kæranda verið skráð 1 í stað 7,41 frá þeim tíma. Við álagningu þungaskatts fyrir 3. gjaldtímabil árið 1999 og síðari gjaldtímabil árin 2000, 2001 og 2002 hefði álagning þungaskatts vegna bifreiðar kæranda miðast við ranga skráningu margfeldis ökumælisins í álestrarskrá og þar með rangan kílómetrafjölda. Rakti ríkisskattstjóri að svo búnu skráðan akstur bifreiðarinnar í kílómetrum samkvæmt álestrarskrá vegna þeirra gjaldtímabila árin 1999, 2000, 2001 og 2002 sem málið varðar og hverju raunverulegur akstur bifreiðarinnar hefði numið á sömu tímabilum miðað við margfeldið 7,41. Þá vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, skyldi ríkisskattstjóri endurákvarða þungaskatt vegna vantalins aksturs bærist honum tilkynning um að ökutæki hefði verið heimildarlaust í umferð án þess að vera búið ökumæli, eða hefði ökumælir verið óvirkur, innsigli rofið eða mælir talið of lítið eða teldi ríkisskattstjóri að öðru leyti að akstur ökutækis hefði verið meiri en álestur af ökumæli gæfi til kynna. Væri fyrirhugað að endurákvarða þungaskatt vegna ökutækis kæranda vegna tímabilsins 15. október 1999 til 10. október 2002 miðað við rétt margfeldi ökumælis samkvæmt framangreindu. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir fyrirhugaðri hækkun þungaskatts sem af endurákvörðuninni myndi leiða, nánar tiltekið 49.585 kr. vegna 3. gjaldtímabils 1999, 36.098 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2000, 51.320 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2000, 20.556 kr. vegna 3. gjaldtímabils 2000, 27.708 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2001, 28.551 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2001, 65.600 kr. vegna 3. gjaldtímabils 2001, 35.776 kr. vegna 1. gjaldtímabils 2002, 31.098 kr. vegna 2. gjaldtímabils 2002 og 55.098 kr. vegna 3. gjaldtímabils 2002 eða samtals 401.390 kr. vegna allra framangreindra gjaldtímabila. Í niðurlagi boðunarbréfsins kom fram að skráning á margfeldi ökumælis bifreiðar kæranda hefði verið leiðrétt frá og með álestri þann 10. febrúar 2003 og yrði álagður þungaskattur vegna bifreiðarinnar á 1. gjaldtímabili 2003 miðaður við margfeldið 7,41.

Kærandi andmælti boðuðum breytingum ríkisskattstjóra á þungaskatti með bréfi, dags. 15. apríl 2003. Kom fram hjá kæranda að hann hefði ítrekað spurst fyrir um ástæðu lækkunar á þungaskatti en án árangurs. Vísaði kærandi til ákvæðis 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, og tók fram að með hliðsjón af efni ákvæðisins og ástæðu ranglega ákvarðaðs þungaskatts vegna bifreiðar hans, sem kærandi ætti enga sök á, væri ekki heimilt að endurákvarða þungaskatt með svo afturvirkum hætti sem raun væri á. Gæti vart samrýmst almennum stjórnsýslureglum að leiðrétta slík mistök með svo íþyngjandi hætti, enda hefði kærandi verið í góðri trú. Eftir framkomnar upplýsingar væru ekki gerðar athugasemdir við breytta álagningu þungaskatts frá október 2002.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 29. apríl 2003, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum á þungaskatti kæranda vegna bifreiðarinnar X fyrir 3. gjaldtímabil árið 1999 og öll gjaldtímabil áranna 2000, 2001 og 2002 í framkvæmd. Nam hækkun þungaskatts samkvæmt úrskurðinum alls 401.390 kr. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri málavexti og rök fyrir hækkun þungaskatts með hliðstæðum hætti og í boðunarbréfi. Vegna athugasemda kæranda í bréfi hans, dags. 15. apríl 2003, vísaði ríkisskattstjóri sérstaklega til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 297/2000 þar sem fjallað hefði verið um sambærilegt álitaefni og í máli kæranda. Tók ríkisskattstjóri fram að með úrskurði þessum hefði yfirskattanefnd staðfest heimild ríkisskattstjóra til að endurákvarða þungaskatt í þeim tilvikum þegar margfeldi ökumælis væri rangt skráð í álestrarskrá, sbr. forsendur úrskurðarins sem ríkisskattstjóri tók orðrétt upp að hluta. Samkvæmt því hefði þungaskattur bifreiðar kæranda verið endurákvarðaður frá álestri 15. október 1999 til álesturs 10. október 2002 og endurákvörðunin tekið mið af réttu margfeldi ökumælis. Var gerð sundurliðuð grein fyrir breytingum á þungaskatti þau gjaldtímabil sem málið varðar í töflu í úrskurði ríkisskattstjóra.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 21. júlí 2003, er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun þungaskatts kæranda, dags. 29. apríl 2003, verði felldur úr gildi. Vísar kærandi um rökstuðning í því sambandi til bréfs síns til ríkisskattstjóra frá 15. apríl 2003. Ítrekar kærandi að hann hafi ekki átt neina sök á þeim mistökum sem leitt hafi til rangrar ákvörðunar á þungaskatti vegna bifreiðarinnar X og telji kærandi að það geti vart samrýmst almennum stjórnsýslureglum að leiðrétta mistök, sem hann hafi enga sök átt á, með svo íþyngjandi og afturvirkum hætti sem raun ber vitni. Hafi kærandi verið í góðri trú og ekki reiknað með slíkum bakreikningi þungaskatts sem hin kærða ákvörðun ríkisskattstjóra hafi haft í för með sér.

IV.

Með bréfi, dags. 12. september 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar, úrskurðar yfirskattanefndar nr. 297/2000 og þess sem fram kemur í umsögn þessari.

I.

Í fyrsta lagi krefst kærandi niðurfellingar á úrskurði ríkisskattstjóra þar sem lagaheimild hafi skort til álagningarinnar.

Ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, tekur einnig til þess ef t.d. skráning á margfeldi ökumælis er röng en ákvæðið er svohljóðandi:

„Berist ríkisskattstjóra, fyrir eða eftir álagningu, tilkynning um að ökutæki hafi heimildarlaust verið í umferð án þess að vera búið ökumæli, akstur hafi verið ranglega færður eða ekki færður í akstursbók, ökumælir hafi verið óvirkur, innsigli verið rofið eða mælir talið of lítið eða telji ríkisskattstjóri að öðru leyti að akstur ökutækis hafi verið meiri en álestur af ökumæli gefur til kynna skal hann tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun vegna vantalins aksturs og skora á hann að láta í té skýringar og gögn innan a.m.k. fimmtán daga.“

Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 297/2000 er tekið undir þetta en þar segir: „Samkvæmt 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. c-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, um breytingu á þeim lögum, er ríkisskattstjóra heimilt að endurákvarða þungaskatt vegna þungaskattsskylds ökutækis komi fram við eftirlit, álestur eða með öðrum hætti að akstur ökutækis hafi verið meiri en skráning á álestri gefur til kynna. Í tilviki kæranda er um það að ræða að margföldunarstuðull ökumælis eftirvagnsins [ ... ] var rangt skráður í álestrarskrá ríkisskattstjóra er leiddi til vanálagningar þungaskatts.“

Þegar ákvæði 14. gr. laga nr. 3/1987, sbr. breytingalög nr. 68/1996, er skoðað svo og greinargerðir með frumvörpunum kemur í ljós að hvergi er tekið fram að sanna beri hverjum er um að kenna þegar ökumælir telur rangt. Eigandi/umráðamaður ökutækis ber ábyrgð á því ef ökumælir hans telur rangt og enginn annar.

Í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 942/1998, 943/1998, 944/1998, 945/1998 og 946/1998, en þar var um að ræða bilaða ökumæla, segir orðrétt: „Tekið er undir það með ríkisskattstjóra að það telst vera á ábyrgð eiganda og umráðamanns ökutækis að ökumælir gefi rétta mynd af akstri ökutækis og telji rétt, sbr. nú 3. mgr. 6. gr. laga nr. 3/1987, sbr. 8. gr. laga nr. 68/1996.“

II.

Í öðru lagi krefst kærandi niðurfellingar á úrskurði ríkisskattstjóra þar sem hann hafi verið í góðri trú og gat ekki búist við bakreikningi. Það geti varla samrýmst almennum stjórnsýslureglum að unnt sé að leiðrétta mistök sem hann hafi engan þátt átt í með svo íþyngjandi hætti. Kærandi kveðst ítrekað hafa spurst fyrir án árangurs um ástæður lækkunar þungaskatts.

Í gögnum ríkisskattstjóra er hvergi að finna fyrirspurn um ástæðu lækkunar þungaskatts. Vill ríkisskattstjóri benda á að kæranda bar að skrá stöðu ökumælis og hraðamælis X í akstursbók einu sinni í mánuði skv. ákvæðum 6. gr. laga nr. 3/1987, sbr. 8. gr. laga nr. 68/1996. Kæranda var það ljóst að misræmi var í talningu aksturs hraðamælis og ökumælis bifreiðarinnar, en það var hins vegar ekki fyrr en þann 10. febrúar 2003 að álestraraðili tekur eftir þessu misræmi.

Þannig vissi kærandi að umrædd 10 gjaldtímabil var einungis verið að greiða 1/7 af sannanlega eknum kílómetrum og komu eknir kílómetrar einnig fram á greiðsluseðli. Munur á því sem greitt var fyrir og því sem ekið var er 741% (9.333 km/69.159 km er rúmlega sjöfaldur munur). Kæranda hefur verið það ljóst að ekki var verið að greiða fyrir ekna kílómetra þar sem svo gífurlegur munur var á því sem greitt var fyrir og þess sem ekið var.

Ríkisskattstjóri vill taka það fram að í úrskurði dags. 29. apríl 2003, tilvísun 200300810 11449 er að finna innsláttarvillu í töflu á blaðsíðu tvö. Þar sem segir að margfeldi sé 6,23 á að standa 7,41. Allar fjárhæðir í töflunni eru réttar og miða við margfeldið 7,41 þannig að ljóst má vera af samhenginu að margfeldið á að vera 7,41.

Ríkisskattstjóri fer fram á að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar og úrskurðar yfirskattanefndar nr. 297/2000 auk þeirra röksemda sem fram hafa komið í kröfugerð ríkisskattstjóra, þar sem framkomin gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 17. september 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar endurákvörðun þungaskatts kæranda vegna tímabilsins frá 15. október 1999 til 10. október 2002, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. apríl 2003. Forsendur endurákvörðunarinnar voru þær að ökumælir í bifreið kæranda, X, hefði ekki haft rétt margfeldi í álestrarskrá. Af því hefði leitt að röng og of lág kílómetratala hefði verið lögð til grundvallar við ákvörðun þungaskatts þannig að skatturinn hefði verið vanreiknaður um tilgreindar fjárhæðir eða um samtals 401.390 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist að endurákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi. Hefur kærandi í því sambandi lagt áherslu á að hann eigi enga sök á því að margfeldi ökumælis hafi ekki verið rétt í álestrarskrá og sé þar af leiðandi í góðri trú, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, sem kærandi hefur vísað til. Telur kærandi í fyrsta lagi að lagaheimild hafi ekki staðið til endurákvörðunarinnar. Í öðru lagi telur kærandi að það samrýmist ekki almennum stjórnsýslureglum að unnt sé að leiðrétta mistök, sem hann beri enga ábyrgð á, með svo íþyngjandi hætti.

Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, sbr. 4. mgr. 4. gr. sömu laga, skal þungaskattur af bifreiðum, sem nota annan orkugjafa en bensín og eru 4.000 kg eða meira að leyfðri heildarþyngd, greiðast í formi gjalds fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt ökumæli og koma í stað árlegs þungaskatts samkvæmt A-lið greinarinnar þegar bifreiðar eiga í hlut. Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 308/1996, um ökumæla, verkstæði, álestraraðila og eftirlitsaðila þungaskatts, skulu ökutæki, sem greiða skal þungaskatt af samkvæmt 1. gr., sbr. B-lið 4. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, búnir ökumælum til ákvörðunar þungaskatts. Í 3. og 4. gr. reglugerðarinnar er fjallað um verkstæði sem setja ökumæla í ökutæki og frágang akstursbókar. Í f-lið 1. mgr. 4. gr. kemur fram að skrá skal í akstursbók drifhlutfall, margfeldi eða kvörðunarstuðul ökumælis. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 308/1996 segir að álestraraðili skuli lesa af kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis og skrá hana í akstursbók. Jafnframt skulu álestraraðilar m.a. athuga hvort ökumælir hafi verið óvirkur eða hvort hann hefur talið of lítið, sbr. c-lið nefndrar greinar.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 3/1987, sbr. c-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, er ríkisskattstjóra heimilt að endurákvarða þungaskatt vegna þungaskattsskylds ökutækis komi fram við eftirlit, álestur eða með öðrum hætti að akstur ökutækis hafi verið meiri en skráning á álestri gefur til kynna. Í tilviki kæranda er um það að ræða að margföldunarstuðull ökumælis bifreiðarinnar X var rangt skráður í álestrarskrá ríkisskattstjóra er leiddi til vanálagningar þungaskatts. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 3/1987, sbr. 8. gr. laga nr. 68/1996, skal ökumaður ökutækis sem þungaskattur er greiddur af samkvæmt B-lið 4. gr. við lok hvers dags sem ökutæki er ekið, lesa kílómetrastöðu af ökumæli og skrá hana í sérstaka akstursbók sem ríkisskattstjóri gefur út, sbr. og 16. gr. reglugerðar nr. 309/1996, um ákvörðun þungaskatts og skyldur ökumanna. Ef annars konar ökumælir en ökuriti er notaður skal ökumaður skrá kílómetrastöðu hraðamælis daglega í akstursbókina, hins vegar er honum einungis skylt að skrá kílómetrastöðu ökumælis einu sinni í viku. Ökumaður skal athuga hvort ökuriti eða ökumælir hafi talið rétt og að kílómetrastöðu beri saman við akstur dagsins. Eiganda eða umráðamanni fólksbifreiðar sem er undir 4.000 kg að leyfðri heildarþyngd og ekki er nýtt til atvinnurekstrar er ekki skylt að skrá kílómetrastöðu ökumælis og hraðamælis oftar en einu sinni í mánuði, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar ber eigandi eða umráðamaður ábyrgð á að ökumælir telji rétt og að akstur sé skráður í akstursbók við lok hvers dags sem ökutæki er ekið, sbr. 4. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 309/1996. Í 3. mgr. B-liðar 7. gr. framangreindra laga segir að komi í ljós við skráningu á kílómetrastöðu ökurita eða ökumælis og hraðamælis, sbr. 6. gr., eða við skoðun á skráningarblöðum ökurita að einhver fyrrgreindra mæla telji rangt eða telji ekki skuli ökumaður svo fljótt sem unnt er tilkynna til Vegagerðarinnar um bilun mælis, sbr. 5. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 309/1996.

Í máli þessu er ekki um að ræða ranga talningu mælis heldur stafaði vanálagning þungaskatts af skekkju í skrá ríkisskattstjóra. Ekki er þó talið varhugavert að endurákvarða þungaskatt, er svo stendur á, á grundvelli 1. mgr. 14 gr. laga nr. 3/1987, sbr. c-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, enda verður að telja að atvik af þessum toga, sem rekja má til mistaka í álagningu, falli undir endurákvörðunarheimild greinarinnar. Þessu til stuðnings þykja og vera almennar athugasemdir með frumvarpi því er varð að lögum nr. 68/1996, en þar segir:

„Í þriðja lagi skortir með öllu ákvæði í lögin [þ.e. lög nr. 3/1987 - innsk. yfirskattanefndar] um skyldu ökumanna til skráningar á akstri og eftirlits með því að mælabúnaður sé í lagi.

[...]

Í lögum nr. 3/1987 er ekki að finna neinar heimildir til endurákvörðunar þungaskatts ef í ljós kemur að þungaskattur hefur ekki verið réttilega á lagður. Einungis er gert ráð fyrir að beitt verði viðurlögum er samsvara allt að 10.000 km akstri á mánuði ef í ljós kemur að ökumælir er óvirkur, innsigli rofið eða ekki hefur verið komið með ökutæki til álestrar. Því er gert ráð fyrir að beitt sé refsikenndum viðurlögum sem háð eru mati hverju sinni, í stað endurákvörðunar á þungaskatti, ef ætla má að akstur hafi verið vantalinn af fyrrgreindum sökum. Þá er ekki að finna neinar heimildir til endurákvörðunar þungaskatts ef hann hefur af öðrum ástæðum verið ranglega á lagður. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir ítarlegum ákvæðum að þessu leyti.“

Þá teljast ákvæði 16. gr. laganna, sbr. e-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, skjóta frekari stoðum undir þessa niðurstöðu. Það hve ríkar skyldur ökumenn, eigendur og umráðamenn bera samkvæmt öðrum þeim ákvæðum laga nr. 3/1987, sem að ofan voru rakin, til að fylgjast með því að þungaskattur af ökutækjum, sem búin eru ökumælum, svari til raunverulegs aksturs, ber að virða á sömu lund.

Að því virtu sem hér að framan hefur verið rakið verður krafa kæranda um að úrskurður ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 29. apríl 2003, verði felldur úr gildi að öllu leyti, þar sem lagaheimild skorti fyrir endurákvörðuninni, ekki tekin til greina.

Samkvæmt 16. gr. laga nr. 3/1987, sbr. e-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, nær heimild til endurákvörðunar skatts samkvæmt 12., 14. og 15. gr. til þungaskatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram. Verði skattskyldum aðila eigi um það kennt að þungaskattur var vanálagður er þó eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst eru á undan því ári sem endurákvörðun fer fram á. Eins og atvikum var háttað verður að telja einsýnt að niðurlagsákvæði greinarinnar eigi við í tilviki kæranda, sbr. og niðurstöðu í úrskurði yfirskattanefndar nr. 296/2000 sem kveðinn var upp sama dag og úrskurður nefndarinnar nr. 297/2000 sem ríkisskattstjóri hefur vísað til í máli kæranda. Hin kærða endurákvörðun fór fram hinn 29. apríl 2003 og tók til 3. gjaldtímabils árið 1999 og allra gjaldtímabila árin 2000, 2001 og 2002. Samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 3/1987 skal greiða þungaskatt samkvæmt B-lið 4. gr. þrisvar á ári eftir á og eru gjalddagar skattsins 11. febrúar, 11. júní og 11. október ár hvert. Er upphaf gjaldárs 11. október ár hvert. Samkvæmt þessu og öðrum ákvæðum laganna, sbr. m.a. ákvæði til bráðabirgða I með lögum nr. 68/1996, er ljóst að gjaldtímabil eru 11. október til 10. febrúar, 11. febrúar til 10. júní og 11. júní til 10. október ár hvert. Ljóst er samkvæmt þessu að ákvæði 16. gr. laganna tekur ekki mið af þeirri tilhögun laganna, sem felst í gjaldtímabilum. Upphaf þess tímabils, sem endurákvörðun ríkisskattstjóra tók til, er á 3. gjaldtímabili árið 1999 og lok á 3. gjaldtímabili árið 2002. Með tilliti til orðalags niðurlagsákvæðis 16. gr. og að virtu því fyrirkomulagi um gjaldtímabil, sem hér hefur verið lýst, verður að telja að frestur til endurákvörðunar þungaskatts kæranda hafi verið liðinn þegar ríkisskattstjóri hratt endurákvörðuninni í framkvæmd hinn 29. apríl 2003 að því er tekur til 1. gjaldtímabils árið 2001, sem hófst 11. október 2000 og lauk 10. febrúar 2001, og fyrri gjaldtímabila sem mál þetta varðar, þ.e. 3. gjaldtímabils árið 1999 og allra gjaldtímabila árið 2000. Verður því að fella endurákvörðun ríkisskattstjóra úr gildi að því er varðar umrædd gjaldtímabil árin 1999, 2000 og 2001. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað, enda er ekki dregið í efa af hálfu kæranda að umræddar leiðréttingar ríkisskattstjóra hafi verið efnislega og tölulega réttar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Endurákvörðun ríkisskattstjóra er felld úr gildi vegna þriðja gjaldtímabils árið 1999, allra gjaldtímabila árið 2000 og fyrsta gjaldtímabils árið 2001. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja