Úrskurður yfirskattanefndar

  • Ótakmörkuð skattskylda
  • Tekjur erlendis
  • Álag

Úrskurður nr. 230/2004

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 1. gr. 1. mgr. 2. tölul., 106. gr. 2. mgr.  

Skattstjóri skattlagði hjá kæranda, sem flutt hafði úr landi og fellt niður heimilisfesti sitt hér, greiðslur frá dönsku fyrirtæki vegna starfa kæranda í Líbanon á árinu 2000. Byggði sú ákvörðun skattstjóra á því að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði greitt skatta erlendis af greindum tekjum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981. Yfirskattanefnd taldi bera að skýra umrætt ákvæði svo að áskilin væri sönnun fyrir skattskyldu í öðru ríki vegna búsetu eða dvalar þar og að takmörkuð skattskylda vegna tekna eða eigna í öðru ríki kæmi ekki til álita í því sambandi. Viðbára kæranda um takmarkaða skattskyldu í Danmörku gæti því ekki leyst kæranda undan skattskyldu hér á landi vegna umræddra tekna. Þá voru engin gögn lögð fram um skattskyldu í Líbanon vegna starfa þar í landi. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að ótakmarkaðri skattskyldu hans hér á landi hefði lokið við brottflutning hans frá landinu í ársbyrjun 2000. Þá var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að um skattskyldu hefði verið að ræða að neinu leyti í Danmörku. Var kröfum kæranda hafnað að því frátöldu að fallist var á kröfu hans um niðurfellingu álags, en kærandi hélt því fram að hann hefði talið að ekki væri um að ræða skattskyldar tekjur hér á landi.

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 17. október 2003, er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði um endurákvörðun, dags. 19. ágúst 2003, að færa kæranda til tekna í reit 21 í skattframtali hans árið 2001 greiðslur frá erlendu fyrirtæki, X, vegna starfa kæranda í Líbanon árið 2000, að fjárhæð 2.850.653 kr. að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Forsendur skattstjóra voru þær að um væri að ræða skattskyldar tekjur kæranda samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, enda hefði kærandi ekki sýnt fram á að hann væri skattskyldur í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hefði fullnægt þeim skattskyldum sínum, sbr. ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981. Af hálfu kæranda er þess krafist að ákvörðun skattstjóra verði felld niður. Þá er sérstaklega krafist niðurfellingar álags. Loks er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að skattstjóri ritaði kæranda bréf, dags. 13. mars 2002, þar sem skattstjóri greindi frá því að samkvæmt upplýsingum frá dönskum skattyfirvöldum, sem aflað hefði verið á grundvelli Norðurlandasamnings um aðstoð í skattamálum, sbr. lög nr. 46/1990, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Norðurlanda um aðstoð í skattamálum, hefði kærandi fengið greiðslur frá X árið 2000 að fjárhæð 279.750 danskar krónur. Tók skattstjóri fram að þessara greiðslna væri ekki getið í skattframtali kæranda árið 2001 og óskaði eftir skýringum kæranda á því. Þá óskaði skattstjóri eftir upplýsingum frá kæranda um tilefni greiðslnanna og skoraði á kæranda að leggja fram gögn varðandi þær.

Kærandi svaraði fyrirspurn skattstjóra með bréfi, dags. 21. mars 2002, þar sem fram kom að kærandi hefði í ársbyrjun 2000 farið að vinna fyrir fyrirtækjasamsteypuna Y í Líbanon. Væri um að ræða fyrirtæki sem stofnað hefði verið um hafnarverkefni í Beirút í Líbanon og væri með skráða starfsstöð þar í landi. Kærandi hefði flutt lögheimili sitt til Líbanon og greitt skatta þar samkvæmt þarlendum lögum. Með þessu hefði kærandi afsalað sér ýmsum réttindum og skyldum á Íslandi. Gat kærandi þess að umrædd tilhögun hefði verið samkvæmt ráði löggilts endurskoðanda og að sami háttur hefði verið hafður á málum þegar kærandi hefði starfað í Bangladesh á árunum 1996 til 1998.

Með bréfi til kæranda, dags. 17. apríl 2002, skoraði skattstjóri á kæranda að leggja fram gögn frá skattyfirvöldum í Líbanon sem sýndu fram á skattskyldu kæranda og að skattur hefði verið greiddur þar í landi. Vísaði skattstjóri í því sambandi til ákvæðis 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í svarbréfi kæranda, dags. 20. maí 2002, kom fram að kærandi hefði engin gögn undir höndum um skattgreiðslur í Líbanon og gæti ekki aflað slíkra gagna þar sem fyrirtækið Y væri ekki lengur starfandi. Benti kærandi á að Y væri skráð firma í Beirút í Líbanon og hefði fyrirtækið sótt um atvinnuleyfi þar í landi fyrir kæranda. Til þess að fá slíkt leyfi þyrfti Y að sýna fram á að nauðsynlegt væri að ráða útlending til starfa, enda væri útgáfa atvinnuleyfa háð ströngum skilyrðum í Líbanon og þau þyrfti að endurnýja á þriggja mánaða fresti. Til þess að fá atvinnuleyfi þyrfti viðkomandi að vera með þriggja mánaða vegabréfsáritun. Gat kærandi þess að fleiri starfsmenn fyrirtækisins hefðu komið frá Norðurlöndum.

Með bréfi, dags. 16. janúar 2003, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárið 2001 þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til tekna sem launatekjur í reit 21 í skattframtali hans árið 2001 fyrrgreindar greiðslur frá X að fjárhæð 2.850.653 kr. að viðbættu 25% álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í bréfi sínu rakti skattstjóri fyrri bréfaskipti í málinu. Þá tók skattstjóri fram að samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981 bæri þeim mönnum skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra væri aflað, og eignarskatt af öllum eignum sínum, hvar sem þær væru, sem heimilisfastir hefðu verið hér á landi en flutt úr landi og fellt niður heimilisfesti sitt hér, nema þeir sönnuðu að þeir væru skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hefðu fullnægt þeim skattskyldum sínum. Skattskylda þessi gilti þó aðeins í þrjú ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag. Benti skattstjóri á að kærandi hefði ekki lagt fram nein gögn sem sönnuðu skattskyldu hans í Líbanon og að skattur hefði verið greiddur þar í landi af umræddum tekjum. Ekki væri unnt að taka viðbáru kæranda varðandi gagnaleysi gilda þar sem kærandi sjálfur hlyti að hafa gögn undir höndum sem staðfestu skattgreiðslur ef skattur hefði í raun og veru verið greiddur af tekjunum. Þá hefði kærandi ekki orðið við ósk skattstjóra um að leggja fram gögn varðandi greiðslur þessar. Væri því fyrirhugað að færa kæranda umræddar greiðslur til tekna í reit 21 í skattframtali hans árið 2001 að viðbættu 25% álagi, enda væri um vanframtaldar tekjur að ræða.

Næst gerðist það í málinu að hinn 27. janúar 2003 afhenti kærandi skattstjóra gögn um greiðslur frá X á árinu 2002, þ.e. afrit af launaseðlum fyrir júní, júlí og ágúst 2002, eyðublaði frá dönskum skattyfirvöldum („oplysningsseddel“) vegna tekna á árinu 2000 og ráðningarsamningi hans, dags. 3. janúar 2000, við Y. Af þessu tilefni ritaði skattstjóri kæranda bréf, dags. 4. mars 2003, og fór fram á að kærandi legði fram skriflega staðfestingu og gögn frá Y um að kærandi hefði greitt skatta af þeim tekjum sem hann hefði haft frá félaginu í Danmörku árið 2000. Gat skattstjóri þess að á framlögðum launaseðlum og skattframtali kæmi ekkert fram um afdregna staðgreiðslu skatta í Danmörku á árinu 2000. Af hálfu kæranda var bréfi skattstjóra ekki svarað.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 19. ágúst 2003, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum á skattframtali kæranda árið 2001 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2001 vegna umræddra tekna hans frá X árið 2000. Efnisleg umfjöllun í úrskurði skattstjóra var á sömu lund og í boðunarbréfi hans. Tók skattstjóri fram að þar sem þau gögn sem kærandi hefði lagt fram hinn 27. janúar 2003 hefðu engan veginn borið með sér að kærandi hefði greitt skatta erlendis af tekjum sínum frá hinu danska fyrirtæki hefði skattstjóri skorað á kæranda að leggja fram gögn til staðfestingar skattgreiðslum erlendis, sbr. bréf skattstjóra, dags. 4. mars 2003. Ekkert svar hefði borist við bréfinu og því kæmi boðuð endurákvörðun til framkvæmda. Skattskyldar launatekjur í reit 21 í skattframtali kæranda árið 2001 væru því hækkaðar um 2.850.653 kr. þar sem hinar umdeildu tekjur væru skattskyldar samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. einnig 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. sömu laga. Varðandi álagsbeitingu tók skattstjóri fram að kærandi hefði engar athugasemdir gert vegna beitingar álags og þar af leiðandi ekki fært fram nein rök fyrir því að honum yrði ekki kennt um annmarka á skattframtali, sbr. 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 17. október 2003, er þess krafist að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 19. ágúst 2003, verði felldur niður. Þá er krafist niðurfellingar álags hver sem úrslit málsins verði að öðru leyti. Ennfremur er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti eða að mati yfirskattanefndar.

Í kærunni kemur fram að kærandi hafi í ársbyrjun 2000 ráðist til starfa við hafnargerð í Beirút í Líbanon og hafi verið um að ræða samstarfsverkefni á vegum dansks fyrirtækis, X. Hafi kærandi í framhaldi þess flutt af landi brott 3. janúar 2000 og flutt aftur heim frá Líbanon 1. september 2000, sbr. skráningu Hagstofu Íslands. Kærandi hafi unnið sér inn 279.750 dkr. með störfum sínum í Líbanon og hafi launin verið greidd af samstarfsverkefni X, en fyrirtækið sé heimilisfast í Danmörku. Eðlilega hefði kærandi því átt að greiða skatt af umræddum tekjum í Danmörku á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu þar í landi. Í dönskum skattalögum sé hins vegar tekið fram að dvelji launþegi lengur en 183 daga erlendis við störf og ákvæðum skattalaga („kildeskatteloven“) um frádrátt frá skatti vegna erlendra tekna sé fullnægt séu slíkar tekjur undanþegnar skatti í því landi. Samkvæmt gögnum málsins liggi fyrir að kærandi hafi uppfyllt öll skilyrði fyrir undanþágu tekna sinna frá skatti í Danmörku. Jafnframt liggi fyrir að vinnuveitanda kæranda, X, hafi samkvæmt ráðningarsamningi borið að halda eftir sköttum vegna hugsanlegrar skattkröfu í því landi þar sem unnið hafi verið, þ.e. í Líbanon. Sé það skilyrði í samræmi við skattalög í því landi þar sem framtalsskylda sé lögð á launagreiðanda.

Fram kemur í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar að krafa kæranda sé byggð á því að samkvæmt meginreglum alþjóðlegs skattaréttar hafi kæranda borið að greiða skatta af tekjum sínum í Danmörku, enda hafi launagreiðandi kæranda verið danskt fyrirtæki, sbr. til hliðsjónar ákvæði b-liðar 2. gr. í viðeigandi dönskum skattalögum („kildeskatteloven“) sem sé efnislega samhljóða ákvæði 2. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981. Eins og aðrir menn sem sendir séu til vinnu frá Danmörku á vegum danskra fyrirtækja hafi kærandi hins vegar verið undanþeginn skattskyldu í Danmörku þar sem hann hafi uppfyllt öll skilyrði þar að lútandi. Slík undanþáguákvæði séu af pólitískum toga til þess að auðvelda dönskum fyrirtækjum að ráðast í víking á erlendri grund. Varasamt sé því fyrir annað ríki, eins og Ísland, að hrófla við slíku fyrirkomulagi. Jafnframt liggi fyrir að vinnuveitanda kæranda hafi borið samkvæmt líbönskum lögum að halda eftir sköttum af launum hans til fullnustu á hugsanlegum skattkröfum þess ríkis þar sem vinnan hafi verið innt af hendi þar í landi. Er í því sambandi vísað til meðfylgjandi upplýsinga um skattkerfi Líbanon. Af launaseðlum kæranda að dæma hafi engir slíkir skattar þó verið greiddir og sé ekki unnt að túlka þá staðreynd á annan veg en þann að engin skattkrafa hafi verið höfð uppi. Með vísan til alls framanritaðs verði að telja að kærandi hafi fært sönnur á að hann hafi verið skattskyldur í Danmörku og fullnægt þeirri skattskyldu sinni á sama hátt og menn heimilisfastir þar. Sama gildi um skattskyldu hans í Líbanon. Af þeim sökum séu ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að skattleggja kæranda á Íslandi vegna umræddra tekna frá Líbanon vegna starfa á vegum dansks fyrirtækis árið 2000. Sé þess því krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.

Til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags er tekið fram í kærunni að kærandi hafi ekki talið fram erlendar tekjur sínar í skattframtali árið 2001 af þeirri einföldu ástæðu að hann hafi talið að ekki væri um skattskyldar tekjur hér á landi að ræða, enda hafi kærandi fullnægt skattskyldu sinni bæði í Danmörku og Líbanon. Sé þess því krafist að álag verði fellt niður. Varðandi málskostnaðarkröfu kemur fram að kostnaður kæranda sé vegna 10 klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda og fylgir kærunni yfirlit málskostnaðar þar sem málskostnaður er tilgreindur 106.448 kr. með virðisaukaskatti.

IV.

Með bréfi, dags. 19. desember 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, (áður lög nr. 75/1981) kemur fram að full og ótakmörkuð skattskylda hvíli á þeim sem heimilisfastir hafa verið hér á landi en flutt úr landi og fellt hafa niður heimilisfesti sína hér, nema þeir sanni að þeir séu skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skattskyldum sínum. Skattskylda þessi gildir þó eigi lengur en í 3 ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, þjóðskrá var kærandi með skráð lögheimili í Líbanon frá 3. janúar 2000 til 1. september s.á. Kærandi hefur ekki lagt fram staðfestingu á því að hann hafi borið fulla og ótakmarkaða skattskyldu í öðru ríki, hvorki í Líbanon né í Danmörku, eftir að hann skráði lögheimili sitt erlendis. Af þeim sökum bar hann fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. þágildandi laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt (nú lög nr. 90/2003) á tekjuárinu 2000. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á að skattur af tekjum hans á þessum tímabili hafi sætt skattlagningu, hvorki í Danmörku né í Líbanon.

Í kæru til yfirskattanefndar segir: „...ekki verður annað sagt en að umbjóðandi minn hafi fært sönnur á að hann hafi verið skattskyldur í Danmörku og hafi fullnægt skattskyldu þar eins og menn heimilisfastir í því ríki. Sama gildir um skattskyldu hans, þar á meðal fullnægingu á henni, í Líbanon.“

Rétt er að taka fram að í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að meðal fylgigagna með kæru sé afrit af dönskum álagningarseðli 2000. Hið rétta er að um er að ræða upplýsingaseðil (oplysningsseddel) frá dönskum skattyfirvöldum til kæranda um hvaða tekjur hann hafði frá dönskum aðilum á tekjuárinu 2000 en ekki álagningarseðil (årsopgørelse).

Það að leggja fram upplýsingaseðil um erlendar tekjur ásamt yfirliti yfir helstu efnisatriði danskra skattalaga varðandi vinnu manna erlendis á vegum danskra fyrirtækja og yfirliti yfir helstu efnisatriði líbanskra tekjuskattslaga er ekki sönnun þess að kærandi hafi borið skattskyldu í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar. Fullnægjandi sönnun á skattskyldu í öðru ríki fæst eingöngu með framlagningu á vottorði frá þar til bærum yfirvöldum í viðkomandi ríki.

Með vísan til framangreinds og forsendna í hinum kærða úrskurði krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 31. desember 2003, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2004, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Ítrekar umboðsmaðurinn fyrri rök þess efnis að kærandi hafi verið skattskyldur í Danmörku á árinu 2000 vegna níu mánaða dvalar við störf í Líbanon á vegum dansks fyrirtækis, en vegna sérstakra ákvæða í dönskum skattalögum hafi kærandi ekki þurft að greiða skatt þar í landi. Ekki sé því unnt að skattleggja kæranda á Íslandi. Þá hafi ekki komið til skattlagningar í Líbanon þar sem skattskylda samkvæmt þarlendum lögum takmarkist við starfsmenn innlendra fyrirtækja. Sú staðreynd geti þó fráleitt bakað kæranda skattskyldu á Íslandi. Ekki verði séð að máli skipti hvort gögn sem kæranda hafi borist frá dönskum skattyfirvöldum kallist upplýsingaseðill eða álagningarseðill, enda sé upplýsingaseðillinn grundvöllur álagningar og samkvæmt honum sé hafið yfir allan vafa að tekjur kæranda í Líbanon árið 2000 séu ekki skattskyldar í Danmörku. Séu kröfur kæranda því ítrekaðar.

V.

Ágreiningur í máli þessu varðar skattlagningu tekna kæranda af störfum í Líbanon á vegum erlends fyrirtækis, Y, á árinu 2000. Kærandi hélt utan vegna þessara starfa í ársbyrjun 2000 og var við störf í Líbanon fram til september sama ár. Flutti kærandi lögheimili sitt til Líbanon þann 3. janúar 2000 og aftur hingað til lands 1. september 2000, sbr. skráningu í þjóðskrá Hagstofu Íslands. Var álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 2001 hagað í samræmi við 3. mgr. 70. gr. laga nr. 75/1981 og miðað við 125 daga dvöl hér á landi á árinu 2000. Hin kærða ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 19. ágúst 2003, um skattlagningu tekna kæranda af umræddum störfum í Líbanon árið 2000 sem launatekna í skattframtali hans árið 2001, var byggð á ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt því ákvæði bera þeir sem heimilisfastir hafa verið hér á landi en flutt hafa úr landi og fellt niður heimilisfesti sitt hér ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi í allt að þrjú ár frá næstu áramótum eftir brottflutningsdag, nema þeir sanni að þeir séu skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar og hafi fullnægt þeim skattskyldum sínum. Taldi skattstjóri að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði greitt skatta erlendis af umræddum tekjum af störfum í Líbanon, sbr. greint ákvæði. Skattstjóri bætti jafnframt 25% álagi við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda gjaldárið 2001 sem leiddi af breytingu skattstjóra á skattframtali kæranda umrætt ár, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt og er sú krafa byggð á því að kærandi hafi verið skattskyldur í Danmörku árið 2000 þar sem launagreiðandi hans var danskt fyrirtæki. Þá er ljóst að af hálfu kæranda er litið svo á að skattskyldu í Líbanon hafi verið fullnægt af hans hálfu þar sem vinnuveitanda kæranda hafi borið að halda eftir sköttum af launum hans til fullnustu á hugsanlegum skattkröfum þess ríkis. Að því er varðar skattskyldu kæranda í Danmörku kemur fram í kæru til yfirskattanefndar að þar sem laun kæranda hafi verið greidd af dönsku fyrirtæki hafi kærandi átt að greiða skatt af þeim í Danmörku „sem takmarkað skattskyldur aðili þar“. Þar sem kærandi hafi hins vegar dvalist lengur en 183 daga í Líbanon við störf á vegum dansks fyrirtækis séu tekjur hans undanþegnar skattlagningu í Danmörku, enda sé skilyrðum danskra laga fyrir skattfrelsi manna vegna starfa erlendis á vegum danskra fyrirtækja fullnægt í tilviki kæranda. Er í kæru til yfirskattanefndar vísað til tilgreindra ákvæða í dönskum lögum í þessu sambandi og til meginreglna alþjóðlegs skattaréttar.

Fyrir liggur að ekki var um ótakmarkaða skattskyldu kæranda að ræða í Danmörku vegna búsetu eða dvalar þar í landi þann hluta ársins 2000 sem málið varðar, svo sem telja verður að sé óumdeilt. Skýra verður ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981 þannig samkvæmt hljóðan þess, sbr. orðalagið „skattskyldir í öðru ríki á sama hátt og menn heimilisfastir þar“, að ákvæðið áskilji sönnun fyrir skattskyldu í öðru ríki vegna búsetu eða dvalar þar og að takmörkuð skattskylda í öðru ríki vegna tekna frá því ríki eða eigna þar komi ekki til álita í þessu sambandi. Þykir sá skýringarkostur auk þess frekast í samræmi við tilgang ákvæðisins, sbr. athugasemdir við 1. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og sjónarmið í dómi Hæstaréttar Íslands frá 9. nóvember 2000 í málinu nr. 97/2000 (H 2000:3587). Ljóst er samkvæmt framansögðu að viðbára umboðsmanns kæranda varðandi takmarkaða skattskyldu kæranda í Danmörku vegna hinna umdeildu tekna getur ekki leyst kæranda undan skattskyldu á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981. Að því athuguðu og þar sem kærandi hefur, þrátt fyrir áskorun skattstjóra í bréfi, dags. 17. apríl 2002, ekki lagt fram nein gögn um skattskyldu í Líbanon vegna starfa þar í landi á árinu 2000 verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að ótakmarkaðri skattskyldu hans hér á landi hafi lokið við brottflutning hans frá landinu 3. janúar 2000, sbr. fyrrgreint ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1981. Verður krafa hans því ekki tekin til greina á þeim grundvelli.

Með bréfi sínu til kæranda, dags. 4. mars 2003, krafði skattstjóri kæranda um gögn varðandi meinta skattskyldu kæranda í Danmörku vegna umræddra tekna frá hinu danska fyrirtæki. Af hálfu kæranda hafa engin slík gögn verið lögð fram. Verður að taka undir með skattstjóra og ríkisskattstjóra að bréf frá Told Skat („oplysningsseddel 2000“), sem kærandi lagði fram hjá skattstjóra 27. janúar 2003, verður ekki talið fullnægjandi í þessu sambandi, enda er hvorki um skattframtal né álagningarseðil að ræða og ber gagn þetta ekkert með sér um skattalega meðferð í Danmörku vegna hinna umdeildu tekna kæranda eða afstöðu þarlendra skattyfirvalda til skattalegrar stöðu kæranda að öðru leyti. Þykir kærandi því ekki hafa sýnt fram á að um skattskyldu hafi verið að ræða að neinu leyti í Danmörku þannig að huga þurfi að ákvæðum samnings milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun að því er varðar skatta á tekjur og eignir, sem birtur var sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 11/1997 í C-deild Stjórnartíðinda, vegna hinnar kærðu skattlagningar.

Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu hins kærða úrskurðar skattstjóra um endurákvörðun.

Eins og fram er komið bætti skattstjóri 25% álagi við þá hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda sem leiddi af breytingu hans á skattframtali kæranda árið 2001 og vísaði í því sambandi til heimildarákvæðis í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt ákvæðinu má skattstjóri, séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr., eða einstakir liðir ranglega fram taldir, bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Af hálfu kæranda er krafist niðurfellingar álags með þeim rökum að hann hafi talið að ekki væri um skattskyldar tekjur að ræða hér á landi. Að virtum þeim skýringum og atvikum málsins að öðru leyti þykir mega taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til greina.

Það athugast að skattstjóri hefur miðað fjárhæð danskra tekna í krónum talið við „meðalgengi“ danskrar krónu á árinu 2000 10,19 kr. Samkvæmt gengisskráningu Seðlabanka Íslands var meðalkaupgengi danskrar krónu það ár lægra eða 9,713 kr. Þegar litið er til þess að kærandi aflaði umræddra tekna á tímabilinu janúar til og með ágúst það ár og að meðalkaupgengi danskrar krónu á því tímabili var lægra eða 9,603 kr. þykir rétt að leggja það gengi til grundvallar. Með vísan til þess er fjárhæð danskra tekna 279.750 dkr. leiðrétt til lækkunar með úrskurði þessum úr 2.850.653 kr. í 2.686.439 kr. eða um 164.214 kr. og lækkar tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda um þá fjárhæð og verður að teknu tilliti til niðurfellingar álags 3.468.991 kr.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykja ekki vera fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álag fellur niður. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja