Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður hlutabréfa
  • Tapað hlutafé

Úrskurður nr. 271/2005

Gjaldár 2004

Lög nr. 90/2003, 24. gr. 1. mgr.  

Yfirskattanefnd taldi að kæranda væri ekki heimilt við uppgjör söluhagnaðar hlutabréfa að draga frá söluhagnaðinum tapað hlutafé í erlendu félagi, enda væri ekki um tap af sölu hlutabréfa að ræða.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 2004 fylgdi greinargerð um kaup og sölu hlutabréfa (RSK 3.09) þar sem m.a. var tilgreind sala á hlutabréfum í erlendu félagi, X, Inc., á árinu 2003. Fram kom að hlutabréfin hefðu verið keypt á árinu 1999 fyrir 500.000 kr. en söluverð bréfanna að frádregnum kostnaði var tilgreint 0 kr. Var sölutap samkvæmt þessu 500.000 kr. dregið frá söluhagnaði annarra seldra hlutabréfa. Samkvæmt greinargerðinni nam hagnaður af sölu hlutabréfa samtals 274.731 kr. og að teknu tilliti til frítekjumarks vegna sérstakra hlutabréfa 314.449 kr., sbr. 6. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, kom ekki til tekjufærslu söluhagnaðar í reit 164 í skattframtali kæranda.

Með bréfi, dags. 28. júlí 2004, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, um þá breytingu á skattframtali kæranda árið 2004 að skattstjóri hefði fellt niður tilfært tap af sölu hlutabréfa í X, Inc., að fjárhæð 500.000 kr. og fært kæranda til skattskyldra fjármagnstekna í skattframtalinu hagnað af sölu hlutabréfa að fjárhæð 460.282 kr. Tók skattstjóri fram að ekki yrði séð að gjöf kæranda á hlutabréfum teldist vera tap sem fært yrði til frádráttar heildarhagnaði af sölu hlutabréfa, sbr. ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003, sem skattstjóri vísaði til í þessu sambandi. Því væri tilfært tap fellt niður og hagnaður af sölu hlutabréfa færður til tekna.

Með kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 2004, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 15. september 2004, mótmælti kærandi framangreindri breytingu skattstjóra. Í kærunni kom fram að kærandi hefði á árinu 1999 keypt hlutabréf í X, Inc., með aðsetur í Bandaríkjunum, fyrir 500.000 kr. af Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., sbr. meðfylgjandi yfirlit, dags. 16. janúar 2000. Í apríl 2003 hefðu fréttir borist af því að fyrir dyrum stæði að slíta félaginu vegna erfiðleika í rekstri þess og í kjölfar þess hefði kæranda borist bréf frá félaginu, dags. 15. september 2003, þar sem greint hefði verið frá rekstrarlokum þess. Hlutabréf kæranda í félaginu, sem hann hefði keypt á árinu 1999, hefðu þannig verið orðin verðlaus á árinu 2003 og hefði kærandi dregið tap af upplausn félagsins frá hagnaði af sölu hlutabréfa í skattframtali sínu árið 2004. Ekki væri því um að ræða neina kaupendur að hinum verðlausu hlutabréfum, „þó hefði í raun verið leikur einn að selja umrædd gögn á 1 krónu eða álíka ef það hefði þurft til að ofangreint tap mætti nýtast“, eins og sagði í kærunni. Væri því farið fram á að tap af greindum hlutabréfaviðskiptum yrði dregið frá hagnaði af öðrum viðskiptum með hlutabréf.

Með kæruúrskurði, dags. 23. nóvember 2004, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum vísaði skattstjóri til ákvæðis 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og upphafsákvæðis þeirrar lagagreinar og kvað ljóst samkvæmt þeim ákvæðum að allur söluhagnaður væri skattskyldur, sbr. og 1. mgr. 12. gr. sömu laga. Þó væri undantekningu frá því að finna í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003 þar sem heimilað væri að draga frá heildarhagnaði af sölu eigna það tap sem skattaðili kynni að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári. Samkvæmt greindu lagaákvæði væri ljóst að einungis væri heimilt að draga sölutap af hlutafé frá söluhagnaði. Hlutafé sem tapaðist vegna þess að félag yrði gjaldþrota teldist hins vegar ekki sala í skilningi skattalaga. Því gæti skattstjóri ekki fallist á að tapað hlutafé kæranda í X, Inc., væri frádráttarbært frá söluhagnaði hlutabréfa á árinu 2003. Tók skattstjóri fram að óumdeilt væri að um tapað hlutafé væri að tefla og gilti þá einu hvort framkvæmdur hefði verið málamyndagerningur um sölu hlutafjárins fyrir 1 kr. Undantekningarákvæði skattalaga heimiluðu einungis að draga sölutap frá söluhagnaði en ekki tapað hlutafé. Kröfu kæranda væri því hafnað.

II.

Með kæru, dags. 22. febrúar 2005, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 23. nóvember 2004, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefnið sé sú breyting sem skattstjóri hafi gert á skattframtali kæranda árið 2004. Um rökstuðning vísar kærandi til bréfs síns til skattstjóra, dags. 15. september 2004, og tekur fram að niðurstaða skattstjóra hafi byggst á þröngri túlkun skattstjóra á skattalögum. Krefjist kærandi þess að viðkomandi lagagrein verði túlkuð með rýmri hætti þannig að vanþekking kæranda á skattalögum verði honum ekki til tjóns. Ekki sé um að tefla háar fjárhæðir í máli kæranda heldur sé fremur um að ræða sanngirnismál varðandi skattlagningu.

III.

Með bréfi, dags. 3. desember 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

IV.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kæranda sé heimilt við uppgjör söluhagnaðar hlutabréfa í skattframtali sínu árið 2004 að draga frá söluhagnaði hlutabréfa 774.731 kr. tapað hlutafé í erlendu félagi, X, Inc., sem kærandi keypti fyrir 500.000 kr. á árinu 1999. Er komið fram af hálfu kæranda að félaginu hafi verið slitið vegna rekstrarerfiðleika á árinu 2003 og hafi hlutabréf hans í félaginu þá verið orðin verðlaus, sbr. og gögn sem fylgdu bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 15. september 2004. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er óheimilt að draga tap af sölu eigna, sem ekki eru notaðar í atvinnurekstri, frá skattskyldum tekjum. Áður en skattskyldur hagnaður af sölu eigna er ákveðinn má skattaðili þó draga frá heildarhagnaðinum það tap sem hann kann að hafa orðið fyrir vegna sölu sams konar eigna á sama ári. Síðastnefnt ákvæði á ekki við í tilviki kæranda, enda er ekki um að ræða tap af sölu hlutabréfa heldur varðar krafa kæranda tapað hlutafé. Samkvæmt því og þar sem öðrum lagagrundvelli er ekki til að dreifa fyrir hinum umdeilda frádrætti verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja