Úrskurður yfirskattanefndar
- Þungaskattur
- Bifreiðagjald
- Undanþága frá gjaldskyldu
Úrskurður nr. 231/2004
Gjaldár 2003
Lög nr. 3/1987, 7. gr. A-liður 3. mgr. (brl. nr. 68/1996, 9. gr.) Lög nr. 39/1988, 4. gr. d-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.)
Kærandi krafðist niðurfellingu þungaskatts og bifreiðagjalds af bifreið sinni frá og með 8. ágúst 2003 á þeim forsendum að bifreiðin hefði eyðilagst í óhappi þann dag og ekki verið í notkun frá þeim tíma. Ríkisskattstjóri taldi hins vegar að miða bæri niðurfellingu gjalda af bifreiðinni við 29. ágúst 2003 þegar skráningarmerki bifreiðarinnar voru afhent skráningaraðila til geymslu. Yfirskattanefnd benti á að bifreiðin hefði ekki verið afskráð sem ónýt í kjölfar umferðaróhappsins og væru þegar af þeirri ástæðu ekki lagaskilyrði til að endurgreiða þungaskatt af henni vegna þess tímabils sem leið frá umferðaróhappi og fram að innlögn skráningarmerkja, enda var ekki fallist á með kæranda að sérákvæði varðandi bifreiðir sem ekki væru í notkun vegna viðgerðar á viðurkenndum verkstæðum ætti við í tilviki hans. Þá var ekki talið að skilyrði fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds á þeim grundvelli að bifreiðin hefði verið ónýt væru uppfyllt. Var í því sambandi m.a. vísað til þess að nýr eigandi bifreiðarinnar hefði látið gera hana ökuhæfa á ný. Var kröfum kæranda hafnað.
I.
Samkvæmt gögnum málsins eru málavextir þeir að af hálfu kæranda var leitað til ríkisskattstjóra hinn 3. september 2003 og farið fram á niðurfellingu bifreiðagjalds og þungaskatts vegna bifreiðarinnar X tímabilið 8. til 29. ágúst 2003. Erindinu fylgdi lögregluskýrsla vegna umferðaróhapps sem kærandi varð fyrir á umræddri bifreið þann 8. ágúst 2003. Hinn 29. ágúst 2003 voru skráningarmerki bifreiðarinnar lögð inn til geymslu hjá skráningaraðila.
Með úrskurði, dags. 8. október 2003, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Í úrskurðinum vísaði ríkisskattstjóri til d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, og 3. mgr. 7. gr. A laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og tók fram að samkvæmt þeim ákvæðum væri ekki heimilt að fella niður bifreiðagjald eða þungaskatt nema skráningarmerki bifreiðar hefðu verið lögð inn eða sýnt hefði verið fram á að bifreið væri ónýt og sannanlega ekki verið í notkun á gjaldtímabili. Þá sagði svo í úrskurði ríkisskattstjóra:
„Við mat á því hvenær bifreið er ónýt og sannanlega ekki í notkun er stuðst við verklagsreglur frá fjármálaráðuneytinu, samanber bréf, dags. 1. ágúst 1995. Þar segir að gera verði strangar kröfur til eiganda um sönnun á þessu atriði. Orðrétt segir: „Þau atriði sem talin hafa verið orka til sönnunar á fullyrðingu eiganda eru einkum upplýsingar um að bifreið hafi eyðilagst í umferðarslysi (t.d. lögregluskýrsla) og yfirlýsing bílapartasölu um viðtöku bifreiðar, enda styðji önnur gögn fullyrðingu eiganda, einkum yfirlýsing tryggingafélags um að trygging hafi fallið niður af bifreiðinni og upplýsingar úr bifreiðaskrá varðandi aldur bifreiðar og það hvenær bifreið var síðast skoðuð. Meta verður sönnunargildi framkominna gagna í hverju tilviki fyrir sig en almennt verður að gera ríkar kröfur til eiganda um sönnun fullyrðingar um að bifreið sé ónýt. Heimild þessi miðast við að bifreið hafi verið afskráð.“
Þér hafið þegar fengið niðurfellt bifreiðagjald frá þeim tíma er skráningarnúmer voru lögð inn til geymslu á grundvelli framangreinds ákvæðis. Þar sem umrædd bifreið hefur ekki verið afskráð sem ónýt, heldur þvert á móti hafa skráningarnúmer hennar verið tekin út aftur af nýjum eiganda, er erindi um niðurfellingu bifreiðagjalds synjað. Forsenda niðurfellingar er ekki bara sú að bifreið hafi verið óökuhæf heldur einnig ónýt og afskráð.“
II.
Með kæru, dags. 14. október 2003, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 8. október 2003, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess aðallega krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og bifreiðagjald og þungaskattur vegna bifreiðarinnar X verði fellt niður vegna tímabilsins 8.–29. ágúst 2003 „og kæranda endurgreitt ásamt dráttarvöxtum frá 3.10.2003 til greiðsludags“. Til vara er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og bifreiðagjald af bifreiðinni X verði fellt niður vegna tímabilsins 8.–29. ágúst 2003 „og kæranda endurgreitt ásamt dráttarvöxtum frá 3.10.2003 til greiðsludags“. Til þrautavara er gerð sú krafa að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og þungaskattur af bifreiðinni X verði felldur niður vegna tímabilsins 8.–29. ágúst 2003 „og kæranda endurgreitt ásamt dráttarvöxtum frá 3.10.2003 til greiðsludags“. Loks er í öllum tilvikum krafist greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði að fjárhæð 42.675 kr. og vísað til meðfylgjandi málskostnaðarreiknings í því sambandi.
Í kærunni er málavöxtum lýst og kemur fram að kærandi hafi orðið fyrir því óláni þann 8. ágúst 2003 að keyra á hross á leið sinni suður ... á bifreiðinni X. Degi síðar hafi kærandi tilkynnt tryggingafélagi sínu, Vátryggingafélagi Íslands hf., um tjón á bifreiðinni og þegar kærandi hafi snúið til baka úr sumarfríi erlendis þann 21. ágúst 2003 hafi tryggingafélagið tilkynnt honum að bifreiðin væri ónýt og að félagið myndi kaupa bifreiðina í samræmi við skilmála húftryggingar hennar. Eftir nokkurt samningaþóf um kaupverð hafi samkomulag náðst við tryggingafélagið þann 27. ágúst 2003. Hafi tryggingafélagið tekið að sér að leggja inn númer bifreiðarinnar sem gert hafi verið þann 29. ágúst 2003. Bifreið kæranda hafi staðið við lögreglustöðina á Z frá tjónsdegi þar til hún hafi verið færð til tjónaskoðunar í Kópavogi þar sem úrskurðað hafi verið að um altjón væri að ræða.
Umboðsmaður kæranda tekur fram að krafa kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds vegna umrædds tímabils sé byggð á ákvæði 3. málsl. d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, þar sem fram komi að ríkisskattstjóri skuli fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafi ekki verið í notkun á gjaldtímabili. Kærandi telji sig hafa sýnt fram á að bifreiðin X hafi ekki verið í notkun á viðkomandi tímabili, enda hafi bifreiðin verið ónýt. Kærandi hafi sjálfur verið erlendis á tímabilinu og kveikjuláslyklar bifreiðarinnar verið í vörslu annarra, fyrst lögreglunnar á Z og síðan tjónaskoðun Vátryggingafélags Íslands hf. Þessar staðreyndir megi auðveldlega færa sönnur á með sönnunargögnum. Er tekið fram að telji yfirskattanefnd að framlögð gögn málsins séu ófullnægjandi í því sambandi sé þess óskað að mál kæranda verði munnlega flutt í samræmi við 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Að því er varðar kröfu kæranda um niðurfellingu þungaskatts vegna bifreiðarinnar vísar umboðsmaður kæranda til 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, og 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 309/1996, um ákvörðun þungaskatts og skyldur ökumanna. Í ákvæðum þessum sé gert að skilyrði fyrir niðurfellingu þungaskatts að bifreið hafi ekki verið í notkun hér á landi vegna viðgerðar á viðurkenndu verkstæði. Hafi kærandi sýnt fram á að bifreiðin X hafi ekki verið í notkun hér á landi á tímabilinu 8. ágúst 2003 til 29. sama mánaðar og megi segja að bifreiðin hafi verið á viðurkenndu verkstæði á þessum tíma, enda hafi hún verið til skoðunar á tjónaskoðunarstöð Vátryggingafélags Íslands hf. Öll rök standi því til þess að beita ákvæðum 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987 og 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 309/1996 með rýmkandi skýringu eða lögjöfnun í tilviki kæranda, enda sé það meginregla í stjórnsýslurétti að beita meðalhófi við töku íþyngjandi ákvarðana, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í hinum kærða úrskurði hafi ríkisskattstjóri byggt höfnun sína m.a. á því að bifreið kæranda hafi ekki verið afskráð sem ónýt heldur hafi númer hennar verið tekin úr geymslu af nýjum eiganda. Þessu sé mótmælt, enda hafi bifreiðin verið metin ónýt af tryggingafélagi kæranda og þótt félagið hafi síðar selt einhverjum öðrum bifreiðina, sem síðan hafi gert við hana, breyti það ekki þeirri staðreynd að bifreiðin hafi verið ónýt á þeim tíma þegar kærandi fékk andvirði hennar greitt úr húftryggingu. Í niðurlagi kærunnar kemur fram að krafa kæranda um dráttarvexti sé byggð á 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Kærunni fylgir lögregluskýrsla vegna tjóns kæranda, dags. 9. ágúst 2003, tjónskvittun Vátryggingafélags Íslands hf., dags. 27. ágúst 2003, og afsal, dags. sama dag.
III.
Með bréfi, dags. 9. janúar 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Að synjunarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Ríkisskattstjóra barst erindi frá sýslumanninum á Eskifirði þar sem farið var fram á niðurfellingu bifreiðagjalds og fasts gjalds þungaskatts frá 8. ágúst 2003 til 29. ágúst 2003 þar sem ökutækið X hafi ekki verið í ökuhæfu ástandi. Þann 8. ágúst 2003 lenti bifreiðin í umferðaróhappi. Skráningarnúmer bifreiðarinnar voru lögð inn til geymslu þann 29. ágúst 2003. Meðfylgjandi erindinu var lögregluskýrsla vegna umferðaróhapps dags. 8. ágúst 2003.
Ríkisskattstjóri synjaði erindi kæranda með úrskurði dags. 8. október 2003, tilvísun ... Í synjunarúrskurði ríkisskattstjóra kemur fram að skráningarnúmer ökutækisins voru lögð inn til geymslu þann 29. ágúst 2003 og hafi kærandi þegar fengið niðurfellingu á bifreiðagjaldi og þungaskatti frá þeim degi. Bifreiðin hafi ekki verið afskráð ónýt, heldur þvert á móti hafi skráningarnúmer hennar verið tekin út aftur af nýjum eiganda. Forsenda niðurfellingar sé ekki aðeins sú að bifreið hafi verið óökuhæf heldur einnig ónýt og afskráð.
Athugasemdir umboðsmanns kæranda dags. 14. október 2003 voru mótteknar hjá yfirskattanefnd þann 15. október 2003 og mótteknar hjá ríkisskattstjóra 30. október 2003. Í athugasemdunum er þess krafist aðallega að bifreiðagjald og þungaskattur verði felld niður af bifreiðinni fyrir tímabilið 8. ágúst 2003 til 29. ágúst 2003. Til vara er krafist niðurfellingar á bifreiðagjaldi og til þrautavara er krafist niðurfellingar á þungaskatti fyrir sama tímabil. Í öllum tilfellum er krafist dráttarvaxta frá 3. október 2003 til greiðsludags auk málskostnaðar úr ríkissjóði skv. meðfylgjandi reikningi.
Kröfu um niðurfellingu bifreiðagjalds byggir kærandi á 3. ml. d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Kærandi telur sig hafa sannað svo ekki verði um villst að bifreiðin hafi ekki verið í notkun, enda ónýt og óökuhæf skv. úrskurði Vátryggingarfélags Íslands hf.
Kröfu um niðurfellingu þungaskatts byggir kærandi á 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar og 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 309/1996, um ákvörðun þungaskatts og skyldur ökumanna. Kærandi telur að segja megi að bifreiðin hafi verið á viðurkenndu verkstæði með rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun enda var hún til skoðunar á Tjónaskoðunarmiðstöð VÍS.
Bifreiðagjald:
Í 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. síðari breytingar, eru taldar upp þær bifreiðir sem eru undanþegnar gjaldskyldu bifreiðagjalds og segir þar í d. lið greinarinnar: „Bifreiðir þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu. Undanþága þessi miðast við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskattstjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu.“
Samkvæmt framangreindu ákvæði er ekki heimilt að fella niður bifreiðagjald nema númer hafi verið lögð inn eða sýnt fram á að bifreið hafi verið ónýt og sannanlega ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu. Við mat á því hvenær bifreið telst vera ónýt og sannanlega ekki í notkun er stuðst við verklagsreglur frá fjármálaráðuneytinu sbr. bréf dags. 1. ágúst 1995. Þar segir að gera verði strangar kröfur til eiganda um sönnun á þessu atriði. Orðrétt segir “Þau atriði sem talin hafa verið orka til sönnunar á fullyrðingu eiganda eru einkum upplýsingar um að bifreið hafi eyðilagst í umferðaslysi (t.d. lögregluskýrsla) og yfirlýsing bílapartasölu um viðtöku bifreiðar, enda styðji önnur gögn fullyrðingu eiganda, einkum yfirlýsing tryggingarfélags um að trygging hafi fallið niður af bifreiðinni og upplýsingar úr bifreiðaskrá varðandi aldur bifreiðar og það hvenær bifreið var síðast skoðuð. Meta verður sönnunargildi framkominna gagna í hverju tilviki fyrir sig en almennt verður að gera ríkar kröfur til eiganda um sönnun fullyrðingar um að bifreið sé ónýt. Heimild þessi miðast við að bifreið hafi verið afskráð.“
Þrátt fyrir að innsend gögn beri með sér að ökutækið hafi sennilega ekki verið í ökuhæfu ástandi getur ríkisskattstjóri ekki fallist á rök kæranda. Forsenda niðurfellingar er ekki aðeins sú að bifreið hafi verið óökuhæf heldur einnig ónýt og afskráð. Þar sem umrædd bifreið hefur ekki verið afskráð sem ónýt, heldur hafa skráningarnúmer hennar verið tekin úr innlögn af nýjum eiganda sem gert hefur við bifreiðina, eru skilyrði undanþágu frá gjaldskyldu samkvæmt d-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 ekki uppfyllt í tilviki bifreiðarinnar X. Með vísan til þess, úrskurðar yfirskattanefndar nr. 310/2003 og þar sem lagaheimild er ekki fyrir hendi til þess að fella niður bifreiðagjald á þeim grundvelli einum að bifreið hafi ekki verið í notkun um tiltekið tímabil er krafist staðfestingar á synjunarúrskurði ríkisskattstjóra dags. 8. október 2003, tilvísun ... Þegar hefur bifreiðagjald verið fellt niður frá þeim tíma er skráningarnúmer voru lögð inn til geymslu. Engin gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið hafa komið fram sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.
Þungaskattur:
3. ml. 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, er svohljóðandi: „Þá skal ríkisskattstjóri lækka eða endurgreiða fast gjald að réttri tiltölu ef sýnt er fram á það með fullnægjandi hætti að bifreið hafi ekki verið í notkun hér á landi í a.m.k. þrjátíu daga samfellt vegna viðgerðar á viðurkenndu verkstæði, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur gjaldi í þrjátíu daga.“
Kærandi telur að með rýmkandi lögskýringu eða lögjöfnun megi segja að bifreiðin hafi verið á viðurkenndu verkstæði þar sem hún var til skoðunar á Tjónaskoðunarmiðstöð VÍS. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á það að Tjónaskoðunarmiðstöð VÍS teljist viðurkennt verkstæði. Enginn reikningur liggur fyrir vegna viðgerðar bifreiðarinnar. Þar að auki var það ekki kærandi sem lét gera við ökutækið heldur var það nýr eigandi þess eins og fram kemur í kröfugerð kæranda. Þá er tímabilið frá 8. ágúst 2003 til 29. ágúst 2003 að báðum dögum meðtöldum ekki nema 22 dagar en skv. 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987 þarf bifreið að vera a.m.k. þrjátíu daga samfellt til viðgerðar á viðurkenndu verkstæði til að lækkun eða endurgreiðsla þungaskatts komi til greina. Með vísan til þess og þar sem lagaheimild er ekki fyrir hendi til þess að fella niður þungaskatt er krafist staðfestingar á synjunarúrskurði ríkisskattstjóra dags. 8. október 2003, tilvísun ... Þegar hefur þungaskattur verið felldur niður frá þeim tíma er skráningarnúmer voru lögð inn til geymslu. Engin gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið hafa komið fram sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. janúar 2004, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Með bréfi, dags. 15. janúar 2004, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er ítrekað í bréfinu að bifreiðin X hafi verið ónýt samkvæmt lögregluskýrslu og mati tryggingafélags þann 8. ágúst 2003, hvað sem síðar hafi orðið. Þá bendir umboðsmaður kæranda á, vegna tilvísunar ríkisskattstjóra til þess að reikningur vegna viðgerðar á bifreiðinni liggi ekki fyrir, að röksemdir í þá veru eigi ekki við í málinu, enda sé því ekki haldið fram að gert hafi verið við bifreiðina af hálfu kæranda. Einungis sé verið að sýna fram á að bifreiðin hafi verið ónýt og ónothæf fyrir kæranda á því tímabili sem um ræðir og af þeim sökum sé óeðlilegt og ósanngjarnt að krefja hann um greiðslu bifreiðagjalds vegna viðkomandi tímabils. Að öðru leyti eru áður fram komnar kröfur kæranda ítrekaðar.
IV.
Eins og að framan greinir varðar kæra í máli þessu úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 8. október 2003, þar sem ríkisskattstjóri synjaði beiðni um niðurfellingu þungaskatts og bifreiðagjalds af bifreiðinni X. Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurði ríkisskattstjóra laut beiðnin að niðurfellingu þungaskatts og bifreiðagjalds frá og með 8. ágúst 2003 til og með 29. sama mánaðar, þ.e. vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember 2003 að hluta, sbr. 1. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum. Umrædd beiðni byggði á því að bifreiðin X hefði eyðilagst í óhappi þann 8. ágúst 2003 og hefði ekki verið í notkun frá þeim tíma, sbr. lögregluskýrslu, dags. 9. ágúst 2003, sem mun hafa fylgt erindi kæranda. Ríkisskattstjóri synjaði beiðni kæranda með þeim rökum að undanþága frá gjaldskyldu til þungaskatts og bifreiðagjalds væri bundin við afskráðar og ónýtar bifreiðar eða bifreiðar þegar skráningarmerki þeirra hefðu verið lögð inn. Telja verður að umrædd ákvörðun ríkisskattstjóra sé kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt almennum reglum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, svo sem ekki er deilt um, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í úrskurði yfirskattanefndar nr. 462/1998, sem birtur er í 2. hefti Skatta- og tollatíðinda 1998 (ST 1998:131) og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is).
Fast gjald þungaskatts skal greiða tvisvar á ári og eru gjaldtímabil 1. janúar til 30. júní og 1. júlí til 31. desember. Árlegir gjalddagar skattsins eru 1. janúar og 1. júlí en eindagar eru 15. febrúar og 15. ágúst ár hvert, sbr. 1. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Samkvæmt 3. mgr. sama stafliðar skal lækka eða endurgreiða þungaskatt að réttri tiltölu hafi skattskyld bifreið verið afskráð sem ónýt eða skráningarmerki bifreiðar verið afhent Skráningarstofunni hf. til geymslu. Þá skal ríkisskattstjóri lækka eða endurgreiða fast gjald að réttri tiltölu ef sýnt er fram á það með fullnægjandi hætti að bifreið hafi ekki verið í notkun hér á landi í a.m.k. þrjátíu daga samfellt vegna viðgerðar á viðurkenndu verkstæði, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur gjaldi í þrjátíu daga. Síðastnefnt ákvæði var lögtekið með b-lið 9. gr. laga nr. 68/1996, um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 68/1996, kom fram að með ákvæðinu væri lagt til að ríkisskattstjóra yrði heimilað að lækka eða endurgreiða fast gjald ef sýnt væri fram á að bifreið hefði ekki verið í notkun í a.m.k. þrjátíu daga samfellt vegna viðgerðar á viðurkenndu verkstæði. Þá var bent á að eigandi eða umráðamaður ökutækis gæti tekið skráningarmerki af ökutæki og afhent til geymslu ef fyrir lægi að viðgerð tæki lengri tíma en þrjátíu daga.
Bifreiðagjald skal greiða tvisvar á ári og eru gjaldtímabil og árlegir gjalddagar þeir sömu og vegna þungaskatts, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum. Í 4. gr. laganna er fjallað um undanþágu frá gjaldskyldu til bifreiðagjalds. Samkvæmt d-lið greinarinnar eru bifreiðir undanþegnar bifreiðagjaldi þegar skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til varðveislu og miðast undanþágan við dagsetningu innlagnar skráningarmerkja. Jafnframt skal ríkisskattstjóri fella niður bifreiðagjald af ónýtum bifreiðum sem sannanlega hafa ekki verið í notkun á gjaldtímabilinu.
Samkvæmt því sem að framan greinir eru ákvæði um lækkun eða endurgreiðslu þungaskatts annars vegar og niðurfellingu bifreiðagjalds hins vegar ekki að öllu leyti hliðstæð. Í báðum lögum er kveðið á um niðurfellingu gjalda ef skráningarmerki hafa verið afhent skráningaraðila til geymslu, svo og af ónýtum bifreiðum, en ekki er til að dreifa heimild til lækkunar bifreiðagjalds á þeim grundvelli að bifreið hafi staðið til viðgerðar á verkstæði, sbr. á hinn bóginn lokamálslið 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, að því er þungaskatt varðar. Þá eru ákvæði um niðurfellingu gjalda þessara af ónýtum bifreiðum ekki orðuð með sama hætti. Þannig verður að telja fortakslaust að niðurfelling þungaskatts af bifreið af þeirri ástæðu að hún sé ónýt, sbr. 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, komi ekki til álita nema bifreiðin hafi verið afskráð sem ónýt. Í d-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 er ekki vikið að afskráningu í þessu sambandi. Þrátt fyrir að ákvæðið áskilji þannig ekki afskráningu sem skilyrði fyrir lækkun bifreiðagjalds af ónýtum bifreiðum á sama hátt og gildir um lækkun þungaskatts verður allt að einu að telja að afskráning bifreiðar hafi verulega þýðingu til sönnunar um rétt til undanþágu frá gjaldskyldu til bifreiðagjalds af framangreindri ástæðu.
Fyrir liggur að skráningarmerki bifreiðarinnar X voru afhent skráningaraðila til geymslu hinn 29. ágúst 2003. Krafa kæranda um niðurfellingu þungaskatts og bifreiðagjalds vegna þess tímabils sem leið frá umferðaróhappi þann 8. ágúst 2003 og fram að innlögn skráningarmerkja bifreiðarinnar 29. sama mánaðar er byggð á því að bifreiðin hafi ekki verið í notkun á þessu tímabili, enda hafi Vátryggingafélag Íslands hf. metið bifreiðina ónýta eftir óhappið. Að því er varðar þungaskatt sérstaklega er því m.a. haldið fram af hálfu kæranda að tilvikið falli undir ákvæði lokamálsliðar 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, þar sem leggja megi tjónaskoðunarstöð tryggingafélagsins að jöfnu við viðurkennt verkstæði í skilningi ákvæðisins.
Samkvæmt gögnum málsins var bifreiðin X ekki í ökuhæfu ástandi eftir umferðaróhappið 8. ágúst 2003. Bifreiðin var hins vegar ekki afskráð sem ónýt í kjölfar umferðaróhappsins sem telja verður samkvæmt framansögðu að sé lagaskilyrði fyrir endurgreiðslu þungaskatts á umræddu tímabili. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á endurgreiðslu þungaskatts á grundvelli 1. málsl. 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987. Vegna þess sjónarmiðs kæranda, að ákvæði lokamálsliðar sömu málsgreinar eigi við í tilviki hans, skal tekið fram að um er að ræða sérákvæði sem sérstaklega tekur til bifreiða sem ekki eru í notkun vegna viðgerðar á viðurkenndum verkstæðum, sbr. fyrrgreind lögskýringargögn. Fyrir liggur að engin viðgerð fór fram á bifreiðinni X af hálfu kæranda þar sem vátryggjandi bifreiðarinnar taldi að um algjört tjón væri að ræða og greiddi kæranda bætur í samræmi við það gegn afsali fyrir bifreiðinni samkvæmt skilmálum húftryggingar. Voru skráningarmerki bifreiðarinnar í kjölfar þess afhent skráningaraðila til geymslu eins og fyrr greinir. Verður því að telja að um heimild til lækkunar eða endurgreiðslu þungaskatts vegna bifreiðar kæranda fari eftir upphafsákvæði 3. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987.
Ekki verður ráðið af gögnum málsins að bifreiðin X hafi verið ónýt í almennum skilningi þess orðs, hvað sem líður upplýsingum um tilhögun á uppgjöri vátryggingafélags við kæranda vegna tjónsins. Er þá m.a. litið til þess að óumdeilt er að nýr eigandi bifreiðarinnar hafi látið gera hana ökuhæfa á ný. Samkvæmt þessu verður ekki talið að skilyrði d-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 séu uppfyllt í tilviki kæranda.
Samkvæmt framansögðu og þar sem ekki er lagaheimild til þess að fella niður þungaskatt og bifreiðagjald af bifreiðinni X vegna þess tímabils sem leið frá umferðaróhappi þann 8. ágúst 2003 og þar til skráningarmerki bifreiðarinnar voru lögð inn til geymslu hjá skráningarraðila 29. sama mánaðar verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis og er kröfu þar að lútandi því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.