Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Refsiábyrgð fyrirsvarsmanna lögaðila
  • Sektarlágmark

Úrskurður nr. 243/2004

Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.)   Lög nr. 45/1987, 30. gr. 2. mgr. (brl. nr. 42/1995, 2. gr.)   Lög nr. 19/1940, 74. gr. 1. mgr. 8. tölul.   Lög nr. 138/1994, 40. gr. 1. mgr., 123. gr. 1. mgr.  

Skattrannsóknarstjóri ríkisins krafðist þess að B, stjórnarformanni og prókúruhafa X ehf., og A, skráðum framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa félagsins, yrði gerð sekt fyrir að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. árin 2001 og 2002. Að virtum framburði A og B var talið að leggja yrði til grundvallar að B hefði í raun gegnt starfi framkvæmdastjóra X ehf. en ekki A. Þá var talið að byggja yrði á því að A hefði sagt sig úr stjórn félagsins í apríl 2001 og frá sama tíma látið af formlegu fyrirsvari að öðru leyti. Var ekki talið að sýnt hefði verið fram á það með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að A bæri refsiábyrgð vegna vanrækslu á skilum virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda nema vegna greiðslutímabilanna janúar, febrúar og mars 2001 vegna staðgreiðslu. Við skiptingu sektarfjárhæðar milli A og B var litið til þess að þáttur A varðaði aðeins hluta málsins auk þess sem byggt var á því að hann hefði í raun ekki haft með höndum stjórnunarstörf hjá X ehf.

I.

Með bréfi, dags. 30. apríl 2003, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A, B og X ehf., nú þrotabú, fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2001 og 2002, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuáranna 2001 og 2002.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A, sem stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa X ehf., og B, sem stjórnarformanni og prókúruhafa X ehf., er gefið að sök eftirfarandi:

1. Vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna.

A og B er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna greiðslutímabilanna janúar, febrúar, mars, apríl, maí, júní, júlí, ágúst, september, október og nóvember tekjuárið 2001 og janúar og febrúar tekjuárið 2002. Vangoldin afdregin skilaskyld staðgreiðsla opinberra gjalda launamanna X ehf. vegna framangreindra greiðslutímabila nemur samtals kr. 1.257.296. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

...

Það er mat skattrannsóknarstjóra, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A og B gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A og B brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 20. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1.-3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Framangreind háttsemi varðar A og B sektum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.

Háttsemin varðar X ehf. sektum samkvæmt 2. mgr., sbr. 9. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.

2. Vangoldinn virðisaukaskattur.

A og B er gefið að sök að hafa ekki staðið innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri X ehf. vegna uppgjörstímbilanna júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember tekjuárið 2001 og janúar-febrúar tekjuárið 2002. Vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna framangreindra uppgjörstímabila nemur samtals kr. 872.171. Fjárhæðin sundurliðast svo sem hér greinir:

...

Er það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins, byggt á gögnum málsins, að þetta hafi A og B gert á saknæman hátt, að því er frekast verður séð af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi.

Telst þessi háttsemi A og B brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tl. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A og B sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Háttsemin varðar X ehf. sektum samkvæmt 1. mgr., sbr. 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Þess er krafist að A, B og X ehf. verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 30. apríl 2003, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 6. maí 2003, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda, A.

Hinn 22. maí 2003 barst yfirskattanefnd ódagsett bréf gjaldanda, B, þar sem fram kom að ekki væru réttar fjárhæðir í málinu þar sem X ehf. hefði fengið endurgreiddan virðisaukaskatt hinn 7. apríl 2003 að fjárhæð 1.225.000 kr. og hefði sú fjárhæð farið í þær skuldir sem fyrir voru.

Með bréfi, dags. 23. maí 2003, beindi yfirskattanefnd því til skattrannsóknarstjóra ríkisins að leggja fram frekari gögn og athugasemdir varðandi skuldajöfnun sem greint var frá í bréfi gjaldanda, mótt. 22. maí 2003. Í svarbréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 10. júní 2003, kom fram að ekki yrði séð af tekjubókhaldi ríkissjóðs að neinar greiðslur hefðu átt sér stað frá X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs á tímabilinu 6. ágúst 2002 til og með 2. júní 2003. Bréfinu fylgdu útprentanir úr tekjubókhaldi ríkissjóðs og samantekt á greiðsluyfirlitum úr tekjubókhaldi. Með bréfi, dags. 11. júní 2003, lagði skattrannsóknarstjóri ríkisins fram frekari gögn vegna málsins. Í bréfinu kom fram að tilgreint einkahlutafélag hefði lagt fram virðisaukaskattsskýrslu til skattstjórans í Reykjavík hinn 3. apríl 2003 þar sem virðisaukaskattsnúmer X ehf. hefði ranglega verið tilgreint. Af þessum sökum hafi skattstjóri tilkynnt X ehf. um inneign til útborgunar hjá innheimtumanni ríkissjóðs, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 23. apríl 2003. Sú inneign hefði í raun ekki tilheyrt X ehf., svo sem ráða mætti af meðfylgjandi gögnum. Með úrskurði skattstjóra, dags. 7. maí 2003, hefðu þessi mistök verið leiðrétt.

Með bréfi, dags. 12. júní 2003, sendi yfirskattanefnd gjaldanda, B, ljósrit af greindum bréfum skattrannsóknarstjóra ríkisins og gögnum sem þeim fylgdu og gaf honum kost á að gera athugasemdir í tilefni af þeim, en engar athugasemdir hafa borist.

III.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 30. apríl 2003, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, þar sem þeir hafi sem fyrirsvarsmenn X ehf. vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins tiltekin greiðslutímabil árin 2001 og 2002 og virðisaukaskatti vegna þeirra uppgjörstímabila árin 2001 og 2002 sem greinir í bréfinu. Þá er þess krafist að gjaldanda, X ehf., verði gerð sekt af sömu ástæðu.

Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist aðrar en í fyrrgreindu bréfi gjaldanda, B, mótt. 22. maí 2003. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf í ágúst 2002 rannsókn á skattskilum X ehf. er beindist að skilum á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti félagsins árin 2000, 2001 og 2002 og lauk rannsókninni með skýrslu, dags. 3. janúar 2003. Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að rannsóknin hafi m.a. verið byggð á upplýsingum sem gjaldendur, A og B, hafi veitt við skýrslutökur hjá embættinu sem fram fóru 13. ágúst 2002 og 12. september 2002, gögnum og upplýsingum frá hlutafélagaskrá, staðgreiðsluskilagreinum ásamt sundurliðunum vegna staðgreiðsluskila og virðisaukaskattsskýrslum félagsins, sem eru meðal fylgiskjala með skýrslunni, svo og tekjubókhaldi ríkissjóðs, sbr. fylgiskjöl með skýrslunni, en þar er um að ræða yfirlit um greiðslur X ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, virðisaukaskatts og opinberra gjalda.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins kemur fram að rannsókn embættisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafi m.a. falist í því að bera saman fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu samkvæmt innsendum staðgreiðsluskilagreinum félagsins og greiðslur þess til innheimtumans ríkissjóðs. Rannsókn á virðisaukaskattsskilum hafi m.a. verið fólgin í því að bera fjárhæðir innheimts virðisaukaskatts skattaðilans samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum félagsins saman við greiðslur þess til innheimtumanns ríkissjóðs. Í skýrslunni er gerð grein fyrir þeirri niðurstöðu rannsóknarinnar að vangoldin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna þrettán greiðslutímabila árin 2001 og 2002 nemi 1.257.296 kr. og vangoldinn virðisaukaskattur vegna sex uppgjörstímabila sömu ár nemi 1.160.591 kr., hvort tveggja miðað við greiðslustöðu 12. september 2002. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að neinir annmarkar á grundvelli fyrirliggjandi virðisaukaskattsskýrslna og staðgreiðsluskilagreina X ehf. hafi verið leiddir í ljós við rannsóknina.

Við skýrslutöku af gjaldanda, A, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 13. ágúst 2002, var hann spurður um tengsl sín við X ehf. og svaraði gjaldandi því til að bróðir sinn, B, eigandi félagsins, hefði beðið sig um að taka sæti í stjórn þess. Gjaldandi kvaðst ekki hafa lagt pening í félagið og ekki stjórnað því á neinn hátt. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda gögn frá hlutafélagaskrá með upplýsingum um X ehf. og sagði gjaldandi aðspurður að upplýsingar sem þar kæmu fram væru réttar. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda ljósrit af skilagreinum staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra greiðslu- og uppgjörstímabila og honum kynnt niðurstaða rannsóknarinnar um vangreidda staðgreiðslu X ehf. að fjárhæð 1.443.006 kr. og vangreiddan virðisaukaskatt að fjárhæð 1.628.533 kr. umrædd tímabil. Kvaðst gjaldandi ekki hafa séð skilagreinar þessar og skýrslur áður og vildi ekki tjá sig um niðurstöður rannsóknarinnar. Þá kvaðst gjaldandi ekki vita hvernig fjármunum þessum hefði verið ráðstafað eða hver bæri ábyrgð á því að afdreginni staðgreiðslu og innheimtum virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað. Áréttaði gjaldandi að hann hefði aldrei komið nálægt rekstri X ehf.

Við skýrslutöku af gjaldanda, B, sem fram fór hjá skattrannsóknarstjóra 12. september 2002, kom fram að hann hefði verið eigandi og framkvæmdastjóri X ehf. með prókúruumboð. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda gögn frá hlutafélagaskrá með upplýsingum um X ehf. og hann spurður hvort upplýsingar sem þar kæmu fram væru réttar. Gjaldandi kvað A hafa hætt í stjórn X ehf. í apríl 2001, en það hefði ekki verið tilkynnt hlutafélagaskrá. Að öðru leyti væru upplýsingarnar réttar. Við skýrslutökuna voru borin undir gjaldanda ljósrit af skilagreinum staðgreiðslu og virðisaukaskattsskýrslum vegna fyrrgreindra greiðslu- og uppgjörstímabila. Kvaðst gjaldandi kannast við skýrslur þessar og skilagreinar og staðfesti að hann hefði undirritað sumar þeirra en tilteknar skilagreinar og skýrslur hefðu bókari félagsins eða faðir gjaldanda undirritað. Sagði gjaldandi að þær gæfu rétta mynd af rekstri félagsins. Við skýrslutökuna var gjaldanda kynnt niðurstaða rannsóknarinnar um að vangreidd staðgreiðsla X ehf. umrædd greiðslutímabil næmi 1.443.006 kr. og var gjaldandi spurður hvort hann vildi tjá sig um þá fjárhæð. Gjaldandi svaraði því neitandi. Gjaldandi kvaðst hafa greitt 600.000 kr. til innheimtumanns ríkissjóðs hinn 6. september 2002 en ekki vita hvernig greiðslunni hefði verið ráðstafað. Gjaldandi var spurður hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á afdreginni staðgreiðslu á lögmæltum tíma og sagði gjaldandi að reksturinn hefði gengið illa og ekki hefðu verið til peningar til að greiða afdregna staðgreiðslu. Aðspurður um það hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að ekki hefðu verið staðin skil á afdreginni staðgreiðslu kvaðst gjaldandi ekki vilja svara því. Af hálfu gjaldanda kom fram að laun hefðu verið greidd launamönnum að fullu samkvæmt launaseðlum þrátt fyrir vanskil á staðgreiðslu og oftast á réttum tíma. Þá var borin undir gjaldanda niðurstaða rannsóknarinnar um vangoldinn virðisaukaskatt að fjárhæð 1.628.533 kr. og hann spurður hvers vegna ekki hefðu verið staðin skil á innheimtum virðisaukaskatti á réttum tíma. Gjaldandi sagði þessa fjárhæð vera of háa, enda hefði hann greitt inn á skuldina 6. september 2002, en kvaðst ekki vita hvers vegna virðisaukaskatti hefði ekki verið skilað. Aðspurður um það hver hefði tekið ákvörðun um og borið ábyrgð á því að ekki hefðu verið staðin skil á virðisaukaskatti svaraði gjaldandi að hann hefði tekið þá ákvörðun og bæri þá ábyrgð. Þá var gjaldandi spurður hvort greiðslum X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs vegna skattskulda hefði verið ráðstafað í samræmi við vilja fyrirsvarsmanna félagsins og svaraði gjaldandi að svo hefði verið.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert ef skattskyldur maður afhendir eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 (H 2000:1422), geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Eins og fyrr greinir kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. janúar 2003, að hinn 12. september 2002 hafi vangreidd afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda X ehf. árin 2001 og 2002 numið 1.257.296 kr. Þá er talið í skýrslunni að vangreiddur virðisaukaskattur félagsins vegna sömu ára nemi 1.160.591 kr. Um er að ræða nokkru lægri fjárhæðir en gengið var út frá við skýrslutökur af gjaldendum 13. ágúst og 12. september 2002. Að því er varðar staðgreiðslu opinberra gjalda svarar mismunur 185.710 kr. til greiðslu X ehf. til innheimtumanns, sem innt var af hendi 10. janúar 2002, að því leyti sem greiðslu þessari var ráðstafað til lúkningar höfuðstól staðgreiðsluskuldar vegna greiðslutímabilanna september og desember 2000. Mismunur vegna virðisaukaskatts nemur 467.942 kr. og er þar um að ræða hluta innborgunar alls að fjárhæð 600.000 kr. hinn 6. september 2002, en greindum hluta innborgunar var ráðstafað til greiðslu höfuðstóls virðisaukaskatts uppgjörstímabilin september-október og nóvember-desember 2000 og janúar-febrúar og mars-apríl 2001. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra er byggð á fyrrgreindum niðurstöðum skýrslu hans, að því frátöldu að tekið er tillit til greiðslu inn á höfuðstól virðisaukaskatts árið 2001 að fjárhæð 288.420 kr. svo sem gerð er grein fyrir í greinargerð skattrannsóknarstjóra til yfirskattanefndar, dags. 30. apríl 2003. Í bréfi gjaldanda, B, mótt. 22. maí 2003, var niðurstöðum skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts X ehf. mótmælt og í því sambandi vísað til tiltekinnar ákvörðunar skattstjórans í Reykjavík um virðisaukaskatt. Að virtum gögnum sem skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur lagt fyrir yfirskattanefnd með bréfum sínum, dags. 10. og 11. júní 2003, verður ekki talið að þessi mótmæli gjaldanda eigi við rök að styðjast. Að öðru leyti hafa gjaldendur ekki gert athugasemdir við niðurstöður skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins um fjárhæðir vangreidds virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda.

Umræddar skuldir X ehf. vegna staðgreiðslu og virðisaukaskatts byrjuðu að myndast 5. desember 2000. Frá þeim tíma og til 9. apríl 2003 voru alls greiddar til innheimtumanns ríkissjóðs 449.967 kr. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og 2.306.213 kr. vegna virðisaukaskatts X ehf. Þar af var 347.062 kr. ráðstafað til greiðslu höfuðstóls staðgreiðslu og 1.646.069 kr. til greiðslu höfuðstóls virðisaukaskatts og hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins tekið tillit til þeirra greiðslna að því leyti sem þeim hefur verið ráðstafað inn á skattskuldir vegna greiðslu- og uppgjörstímabila sem málið varðar. Sá hluti greiðslna á umræddu tímabili, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu dráttarvaxta, álags og kostnaðar, nemur 102.905 kr. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og 660.144 kr. vegna virðisaukaskatts. Þá kemur fram í gögnum málsins að greiðslur til innheimtumanns ríkissjóðs vegna opinberra gjalda X ehf., þ.m.t. tryggingagjalds, á þeim tíma sem hér skiptir máli, námu 7.989 kr. og var innborgunum að hluta varið til greiðslu dráttarvaxta og kostnaðar. Með dómi Hæstaréttar Íslands 2. október 2003, sem varðar hliðstætt mál, var því hafnað að greiðslur, sem innheimtumaður hefur ráðstafað upp í álag, dráttarvexti og kostnað, geti haft áhrif á sakarmat og komið með beinum hætti til frádráttar skattskuld sem viðurlagaákvörðun tekur til. Af dómi þessum og öðrum dómum Hæstaréttar í hliðstæðum málum, m.a. H 2000:2387, verður hins vegar ályktað að taka beri tillit til greiðslna viðkomandi aðila á skattskuldum við ákvörðun refsingar. Verður ekki annað séð en það geti einnig átt við um fjárhæðir sem innheimtumaður hefur ráðstafað inn á álag, dráttarvexti og kostnað. Geta umtalsverðar greiðslur skattaðila þá við ákveðnar aðstæður haft í för með sér að færa megi fésekt niður fyrir lögbundið lágmark sektarrefsingar, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. H 2000:2387.

Samkvæmt gögnum málsins var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. fyrir greiðslutímabilin janúar til og með nóvember 2001 og janúar og febrúar 2001, samtals að fjárhæð 1.257.296 kr., ekki greidd til innheimtumanns ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987. Þá var virðisaukaskattur félagsins uppgjörstímabilin júlí-ágúst, september-október og nóvember-desember 2001 og janúar-febrúar 2002, samtals 872.171 kr., ekki greiddur innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988.

Gjaldandi, B, var samkvæmt útskrift fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands, dags. 29. júlí 2002, formaður stjórnar og prókúruhafi X ehf. á þeim tíma sem mál þetta varðar. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 12. september 2002 staðfesti gjaldandi að upplýsingar hlutafélagaskrár væru réttar að þessu leyti. Jafnframt kom fram af hálfu gjaldanda við skýrslutökuna að hann hefði verið framkvæmdastjóri X ehf. og m.a. haft umsjón með skattskilum þess. Að þessu virtu verður að telja að nægilega hafi verið sýnt fram á að gjaldandi hafi borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, og verið til þess bær að taka ákvörðun um hvaða kröfur á hendur félaginu skyldu greiddar og hverjar ekki. Samkvæmt framangreindu telst gjaldandi hafa borið ábyrgð á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti X ehf. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins bar gjaldandi því við að fjárskortur hafi valdið því að ekki voru gerð skil á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti. Vegna þessarar viðbáru gjaldanda skal tekið fram að ekki telst tæk varnarástæða að fé hafi ekki verið til í rekstri félagsins til að standa skil á umræddum gjöldum, sbr. m.a. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands frá 30. mars 2000 (H 2000:1422).

Sektarkrafa á hendur gjaldanda, A, er reist á því að hann beri sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi X ehf. ábyrgð ásamt B á vanskilum þeim sem í málinu greinir. Í útskrift fyrirtækjaskrár Hagstofu Íslands, dags. 29. júlí 2002, kemur fram að gjaldandi, A, sé meðstjórnandi í stjórn X ehf., framkvæmdastjóri félagsins og prókúruhafi. Við skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 13. ágúst 2002 sagði gjaldandi aðspurður að þessar upplýsingar fyrirtækjaskrár væru réttar. Gjaldandi kvaðst hafa tekið sæti í stjórn X ehf. að beiðni B, en ekki hafa lagt fé til félagsins, ekki setið neina fundi í félaginu og ekki stjórnað því á neinn hátt. Eins og fyrr segir bar B í skýrslugjöf sinni að hann hefði sjálfur gegnt starfi framkvæmdastjóra félagsins. Þá kom fram í framburði B að gjaldandi, A, hefði hætt í stjórn félagsins í apríl 2001 án þess að það hefði verið tilkynnt til hlutafélagaskrár. Þess er að gæta að samkvæmt sundurliðunarfærslum í staðgreiðsluskrá, sem eru meðal fylgiskjala með skýrslu skattrannsóknarstjóra, voru engar launagreiðslur til gjaldanda frá X ehf. eftir febrúar 2001.

Að virtum framburði gjaldenda þykir verða að leggja til grundvallar að í raun hafi gjaldandi, A, ekki gegnt starfi framkvæmdastjóra X ehf. á þeim tíma sem málið varðar. Allan þann tíma sem málið tekur til var gjaldandi hins vegar skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og hefur hann sjálfur engar athugasemdir gert að því er þær tilgreiningar varðar. Af hálfu B hefur á hinn bóginn komið fram að gjaldandi, A, hafi „hætt í stjórn félagsins í apríl 2001“, en það ekki verið tilkynnt til hlutafélagaskrár. Engin umfjöllun er um framangreind atriði í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins og m.a. er framburði gjaldenda, sem að framan er rakinn, engin skil gerð í skýrslunni. Þá verður ekki séð að nein frekari athugun hafi farið fram á réttmæti staðhæfingar um að gjaldandi, A, hafi látið af stjórnarsetu í félaginu í apríl 2001, svo sem hvort gögn liggi fyrir um þá breytingu varðandi fyrirsvar félagsins, og þá leitast við að upplýsa af hvaða ástæðu breytingin var ekki tilkynnt til hlutafélagaskrár. Tekið skal fram að samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, skal stjórnarmaður í einkahlutafélagi, sem segir starfa sínum lausum, tilkynna það stjórn félagsins, en tilkynningar til hlutafélagaskrár um breytingu á stjórn o.fl. skulu undirritaðar af meiri hluta stjórnar eða prókúruhafa, sbr. 1. mgr. 123. gr. laganna.

Eins og málið liggur fyrir samkvæmt framansögðu þykir verða að byggja á því að gjaldandi, A, hafi sagt sig úr stjórn X ehf. í apríl 2001. Þá verður gengið út frá því að gjaldandi hafi frá sama tíma látið af formlegu fyrirsvari að öðru leyti, enda þykir framburður B frekast benda í þá átt. Til þess tíma að gjaldandi sagði störfum sínum lausum hvíldu á honum þær skyldur til að fara með stjórn félagsins sem kveðið er á um í 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og bar gjaldandi í samræmi við það ábyrgð að lögum á skattskilum vegna rekstrarins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands frá 14. október 1999 (H 1999:3633) er kvað á um refsiábyrgð í hliðstæðu máli þegar sakborningur var skráður stjórnarformaður og framkvæmdastjóri hlutafélags án þess að hafa gegnt stjórnunarstörfum í félaginu í raun. Að þessu virtu verður að telja að gjaldandi, A, hafi með stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn skyldum sínum til að hlutast til um skil á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda greiðslutímabilin janúar, febrúar og mars 2001. Á hinn bóginn verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á það með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi beri refsiábyrgð vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda vegna annarra greiðslutímabila sem greinir í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra né vanrækslu á skilum virðisaukaskatts sem um ræðir.

Samkvæmt framansögðu verður talið að fullnægt sé í tilviki gjaldenda, A og B, þeim huglægu refsiskilyrðum sem fram koma í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og ber að ákvarða gjaldendum sekt samkvæmt þessum lagaákvæðum vegna vanrækslu á skilum staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts sem að framan greinir. Eins og lög nr. 45/1987 og nr. 50/1988 hljóða eftir breytingar, sem á þeim voru gerðar með lögum nr. 42/1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á, þó að teknu tilliti til álags. Eins og fyrr greinir hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands í hliðstæðum málum verið tekið tillit til greiðslna til innheimtumanns ríkissjóðs sem inntar hafa verið af hendi eftir gjalddaga og talið að við vissar aðstæður megi fara niður fyrir lögbundið sektarlágmark, sbr. H 2000:2387. Í tilviki gjaldenda er um að ræða greiðslur samtals að fjárhæð 771.038 kr. sem inntar voru af hendi á svipuðum tíma og vanskil áttu sér stað og telja verður að nemi verulegu hlutfalli skattfjárhæðar sem í málinu greinir. Með vísan til 8. tölul. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir við þessar aðstæður mega fara niður fyrir sektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Þegar höfð eru í huga lagarök, sem búa að baki framangreindum ákvæðum um lágmarks- og margfeldissektir, með tilliti til háttsemi gjaldenda og afleiðinga hennar, þykir rétt að ákveða sektarfjárhæð í máli þessu heildstætt en með tiltekinni skiptingu milli gjaldenda. Í því sambandi er til þess að líta að þáttur gjaldanda, A, varðar aðeins hluta málsins auk þess sem byggt er á því að hann hafi í raun ekki haft með höndum stjórnunarstörf í X ehf. Þykir rétt að taka tillit til þeirra aðstæðna við skiptingu sektarfjárhæðar milli gjaldenda, sbr. m.a. sjónarmið í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar Íslands frá 14. október 1999 (H 1999:3633). Samkvæmt framangreindu og að teknu tilliti til álags samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 þykir sekt gjaldenda hæfilega ákveðin 3.150.000 kr. til ríkissjóðs sem skiptist þannig milli þeirra að gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 150.000 kr. og gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 3.000.000 kr.

Upplýst hefur verið í máli þessu að X ehf. hefur verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Að því virtu og svo sem mál þetta liggur fyrir þykja ekki efni til að gera félaginu sekt vegna framangreindra brota á lögum nr. 45/1987 og 50/1988.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 150.000 kr. til ríkissjóðs. Gjaldandi, B, greiði sekt að fjárhæð 3.000.000 kr. til ríkissjóðs. Þrotabúi X ehf. verður ekki gerð sekt í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja