Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt
  • Rafræn greiðslufyrirmæli í netbanka

Úrskurður nr. 320/2004

Virðisaukaskattur 2003

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.   Reglugerð nr. 667/1995, 9. gr.  

Hinn 29. júlí 2003 sendi kærandi, sem var hlutafélag, rafræn fyrirmæli til viðskiptabanka síns um greiðslu á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2003 hinn 5. ágúst 2003, þ.e. svonefnda framvirka greiðslu. Vegna lokunar stórgreiðslukerfis Seðlabanka Íslands 5. ágúst 2003 fór greiðsla þó ekki fram og sætti kærandi álagsbeitingu skattstjóra vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti umrætt uppgjörstímabil. Yfirskattanefnd taldi að almennt yrði að ganga út frá því að treysta mætti því að greiðslufyrirmæli með notkun netbanka næðu fram að ganga væri ekki til að dreifa atvikum sem vörðuðu greiðanda, enda væri byggt á því í reglugerð nr. 667/1995. Að virtum atvikum var fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

I.

Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 4. nóvember 2003, um að beita álagi vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatt fyrir uppgjörstímabilið maí-júní 2003, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er gerð sú krafa í kæru til yfirskattanefndar, dags. 3. febrúar 2004, að álag verði fellt niður, sbr. 6. mgr. sömu lagagreinar. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað að álitum, sbr. heimild í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi skráði gíróseðil vegna greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið maí-júní 2003 í svokallað framvirkt greiðslukerfi Kaupþings Búnaðarbanka hf. og átti að skuldfæra greiðsluna af bankareikningi kæranda þann 5. ágúst 2003. Greiðsla af reikningi kæranda fór hins vegar ekki fram greindan dag og var virðisaukaskattur kæranda fyrir umrætt uppgjörstímabil ekki greiddur fyrr en 19. ágúst 2003. Vegna síðbúinna skila virðisaukaskatts ákvarðaði skattstjóri 10% álag að fjárhæð 3.156.296 kr. samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með kæru til skattstjóra, dags. 30. september 2003, fór kærandi fram á að álag á virðisaukaskatt fyrir uppgjörstímabilið maí-júní 2003 yrði fellt niður. Kærunni fylgdi bréf frá Kaupþingi Búnaðarbanka hf., dags. 25. ágúst 2003, þar sem málavextir voru skýrðir. Kom fram að kærandi hefði notast við framvirka greiðslu í tölvukerfi bankans sem hefði átt að skuldfæra greiðsluna af bankareikningi kæranda hinn 5. ágúst 2003. Kæranda hefði borist staðfesting frá bankanum um að millifærslan hefði tekist. Kerfið hefði tvívegis reynt að skrá greiðsluna þann 5. ágúst 2003 og næstu tvo daga á eftir, en án árangurs. Frekari tilraunir hefðu ekki verið gerðar. Ástæða þess að ekki hefði tekist að skrá greiðsluna væri sú að stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands, sem Reiknistofa bankanna noti, hefði verið lokað, en kerfi þetta þyrfti að vera opið til að hærri færslur en 25 milljónir króna gætu farið milli banka. Undantekningartilvik í tölvukerfum hefði valdið því að greiðslan hefði ekki farið í gegn. Vegna sumarleyfa starfsmanns kæranda hefðu mistökin ekki uppgötvast fyrr en 19. ágúst 2003 og hefði verið gengið frá greiðslu þann dag.

Með kæruúrskurði, dags. 4. nóvember 2003, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Skattstjóri tók fram að í 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, væri fjallað um gjalddaga og uppgjörstímabil virðisaukaskatts og í 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, kæmi fram að það teldust fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef greitt væri í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga. Gjalddagi umrædds uppgjörstímabils hefði verið 5. ágúst 2003 en innheimtumanni ríkissjóðs hefði borist greiðsla kæranda þann 19. ágúst 2003. Þá vísaði skattstjóri til upplýsinga, sem hann hefði fengið símleiðis frá tölvudeild Kaupþings Búnaðarbanka hf., að ef greiðanda tækist ekki að inna af hendi framvirka greiðslu væri tilkynnt um leið á tölvuskjánum að greiðsla hefði mistekist. Í kæru segði að staðfesting hefði komið frá bankanum um greiðsluna án þess þó að lögð hefðu verið fram gögn þessu til staðfestingar. Í bréfi bankans kæmi fram að vegna sumarleyfis starfsmanns hefði kærandi ekki fylgst með því að greiðsla gengi í gegn. Samkvæmt framanröktu hefði kærandi fengið staðfestingu á því að greiðslufyrirmæli framvirkrar greiðslu í netbanka hefði tekist, en hins vegar yrði ekki séð að kærandi hefði fylgst með því að greiðslan hefði sannanlega verið innt af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs. Það að kæranda hefði vegna sumarleyfis starfsmanns ekki verið unnt að fylgjast með því hvort greiðslan skilaði sér yrði ekki talið atvik er ríkissjóður bæri ábyrgð á. Vísaði skattstjóri í því sambandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 55/2003, þar sem gjaldandi hefði verið talinn bera ábyrgð á því að greiðsla virðisaukaskatts hefði dregist fram yfir gjalddaga vegna mistaka starfsmanns við frágang á greiðslufyrirmælum í netbanka. Þótt málsatvik væru ekki alveg sambærileg mætti draga þá ályktun að ekki væri nægilegt að greiðslufyrirmæli í netbanka tækjust heldur beri gjaldendum að ganga úr skugga um að greiðslan væri sannarlega innt af hendi með þessari aðferð. Yrði því talið að umrætt atvik væri á ábyrgð kæranda. Væru því ekki efni til að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 3. febrúar 2004, er þess krafist að álag verði fellt niður. Jafnframt er gerð krafa um málskostnað að álitum, sbr. heimild í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Byggt er á því að vegna atvika, sem kærandi hafi engu ráðið um en varði samskipti fjármálastofnana og stoðfyrirtækja þeirra, hafi greiðsla virðisaukaskatts fyrir umrætt uppgjörstímabil ekki verið innt af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs fyrr en hið kærða álag hafi verið að fullu fallið til. Ekki sé hægt að leggja annað til grundvallar en að kærandi hafi í góðri trú staðið skil á hinni gjaldföllnu greiðslu á réttum tíma með fullnægjandi greiðslu til bankastofnunar sem hafi tekið að sér að standa skil á greiðslunni til innheimtumanns ríkissjóðs. Málið sé því ekki samkynja máli sem fjallað sé um í úrskurði yfirskattanefndar nr. 55/2003 þar sem um hafi verið að ræða mistök starfsmanns gjaldanda. Séu málavextir í þessu máli líkari aðstæðum í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 495, 496 og 497/2002, þar sem niðurstaðan hafi orðið sú að fullnægjandi skil hefðu verið gerð með því að inna greiðslu af hendi til banka. Kærunni fylgir ljósrit af útprentun úr bankalínu Búnaðarbankans, dags. 29. júlí 2003, um greiðslu á 31.562.962 kr. og bréfi Kaupþings Búnaðarbanka hf. til skattstjóra, dags. 25. ágúst 2003.

IV.

Með bréfi, dags. 26. mars 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda.

Í kæru er því haldið fram að málavextir í máli kæranda séu samkynja þeim sem voru til umfjöllunar í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 495-497/2002. Af þessu tilefni skal tekið fram að virðisaukaskattsskyldir aðilar skulu gera grein fyrir virðisaukaskatti, sem þeim ber að standa skil á eða þeir eiga rétt á að fá endurgreiddan, á sérstökum virðisaukaskattsskýrslum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Ríkisskattstjóri getur einnig á grundvelli skriflegrar umsóknar skattaðila heimilað honum að skila skýrslu á rafrænu formi, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Í 9. gr. reglugerðarinnar er svo kveðið á um hvað teljist fullnægjandi skil á virðisaukaskatti. Samkvæmt ákvæðunum teljast það því aðeins fullnægjandi skil á virðisaukaskatti að greiðsla, ásamt skýrslu (RSK 10.09 - gíróseðill), sé innt af hendi í banka, sparisjóði eða hjá innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga eða að póstlögð greiðsla berist innheimtumanni í síðasta lagi á gjalddaga. Einnig er hægt að senda virðisaukaskattsskýrslur rafrænt til skattyfirvalda um upplýsingavef ríkisskattstjóra (www.rsk.is) og jafnframt að greiða skattinn rafrænt í gegnum vefbanka en sækja þarf um heimild til rafrænna skila til ríkisskattstjóra. Í framangreindum úrskurðum yfirskattanefndar voru málavextir í öllum tilvikum þeir sömu, þ.e. að kærandi stóð skil á virðisaukaskattskýrslu, RSK 10.09, ásamt greiðslu, í banka á gjalddaga en gjaldkeri sem tók við greiðslu bókaði hana þó ekki fyrr en degi síðar. Kærandi í því máli sem hér er til umfjöllunar kaus hins vegar að standa skil á virðisaukaskatti um fyrirtækjabanka Kaupþings Búnaðarbanka en skýrslunni sjálfri í pappírsformi til skattstjóra. Af þessum orsökum einum eru málavextir í máli kæranda annars vegar og nefndum úrskurðum yfirskattanefndar hins vegar ósambærilegir. Einnig vill ríkisskattstjóri ítreka það, vegna tilvísunar kæranda í 2. málsl. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar, að með greiðslu á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla í skilningi ákvæðisins er aðeins átt við rafræn skil um heimasíðu ríkisskattstjóra. Greiðslufyrirkomulag kæranda uppfyllti því ekki skilyrði nefndra ákvæða og verður kærandi einn að bera ábyrgð á því að greiðslan var ekki innt af hendi til innheimtumanns ríkissjóðs á gjalddaga, þ.e. 5. ágúst 2003. Með vísan til framangreinds er það mat ríkisskattstjóra að taka beri undir þá niðurstöðu skattstjóra að ekki sé tilefni til þess að falla frá beitingu álags.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. mars 2004, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 19. apríl 2004, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er áréttað að það liggi fyrir í málinu að kærandi hafi þann 29. júlí 2003 sent viðskiptabanka sínum fyrirmæli um greiðslu þann 5. ágúst 2003. Jafnframt liggi fyrir að virðisaukaskattskýrslu kæranda hafi verið skilað innan tilskilins frests skv. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Í 9. gr. reglugerðarinnar komi fram að greiðsla í banka í síðasta lagi á gjalddaga feli í sér fullnægjandi skil á virðisaukaskatti. Fyrirmæli kæranda til viðskiptabanka síns í gegnum rafrænt kerfi feli í raun í sér greiðslu í banka í skilningi 1. tölul. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995 í síðasta lagi á gjalddaga þar sem greiðslufyrirmælin hafi verið alveg skýr og kærandi hafi í höndum staðfestingu bankans á þeim fyrirmælum. Að öðru leyti eru fyrri röksemdir ítrekaðar.

V.

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir. Í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2001, segir að það teljist fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef greitt er í banka eða sparisjóði í síðasta lagi á gjalddaga. Greiðsla á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla telst því aðeins innt af hendi á gjalddaga, að greiðslufyrirmælin berist banka eða sparisjóði innan þeirra tímamarka sem viðkomandi banki eða sparisjóður setur fyrir því að greiðsla teljist hafa farið fram á þeim degi. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla skv. 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Í málinu liggur fyrir að hinn 29. júlí 2003 sendi kærandi rafræn fyrirmæli til viðskiptabanka síns um greiðslu á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilsins maí-júní 2003 hinn 5. ágúst 2003, þ.e. framvirka greiðslu, og liggur fyrir staðfesting bankans um móttöku greiðslufyrirmælanna. Vegna lokunar svonefnds stórgreiðslukerfis Seðlabanka Íslands 5. ágúst 2003 fór greiðsla þó ekki fram þann dag og ekki daginn eftir, en frekari tilraunir viðskiptabanka kæranda til greiðslu samkvæmt fyrirmælum kæranda voru ekki gerðar. Almennt verður að ganga út frá því að treysta megi því að greiðslufyrirmæli með notkun netbanka nái fram að ganga sé ekki til að dreifa atvikum sem varði greiðanda, enda er byggt á því í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995. Þá verður í ljósi atvika ekki talið að óeðlilegur dráttur hafi orðið á því að kærandi hlutaðist til um greiðslu á skattfjárhæð sem honum bar að standa skil á. Að svo vöxnu þykir mega taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til greina, sbr. heimild í 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Af hálfu kæranda hafa hvorki verið lagðir fram reikningar um útlagðan kostnað hans vegna meðferðar málsins né með öðrum hætti gerð grein fyrir slíkum kostnaði, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu slíks kostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 20.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda. Álag á virðisaukaskatt að fjárhæð 3.156.296 kr. uppgjörstímabilið maí-júní 2003 fellur niður. Málskostnaður ákveðst 20.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja