Úrskurður yfirskattanefndar
- Lífeyrissparnaður
- Sérstakur tekjuskattur
Úrskurður nr. 362/2003
Gjaldár 2002
Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. Lög nr. 149/2000, ákvæði til bráðabirgða II, III og IV (brl. nr. 133/2001, 41. gr.) Lög nr. 129/1997, 11. gr.
Kærandi fékk að eigin ósk greiddan út séreignarsparnað sinn hjá lífeyrissjóði árið 2001 sem leiddi til álagningar sérstaks tekjuskatts á kæranda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 þar sem tekjuskattsstofn var umfram fjárhæðarmörk sérstaks tekjuskatts. Kröfu kæranda um niðurfellingu hins sérstaka tekjuskatts, sem byggði á því að honum hefði ekki verið kunnugt um að úttekt á innstæðu lífeyrissparnaðar í einu lagi hefði í för með sér slíka skattlagningu, var hafnað þar sem lagaheimild skorti til þess að unnt væri að taka kröfuna til greina.
I.
Málavextir eru þeir að kærandi fékk greiddan út lífeyrissparnað árið 2001 frá Séreignalífeyrissjóðnum að fjárhæð samtals 10.402.383 kr. og færði þá fjárhæð til tekna í lið 2.3 í skattframtali sínu árið 2002. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 var lagður á kæranda sérstakur tekjuskattur að fjárhæð 450.751 kr. auk þess sem honum var ákvörðuð fyrirframgreiðsla sérstakt tekjuskatts 434.641 kr.
Með kæru, dags. 4. ágúst 2002, mótmælti kærandi álagningu sérstaks tekjuskatts og ákvarðaðri fyrirframgreiðslu sérstaks tekjuskatts. Fór kærandi fram á að sérstakur tekjuskattur yrði felldur niður þar sem hann hefði ekki vitað af skattinum þegar hann hefði ákveðið að taka út séreignarlífeyrissparnað sinn hjá Séreignalífeyrissjóðnum árið 2001 til þess að greiða upp lán frá Landsbanka Íslands hf. Hefði þjónustufulltrúi Búnaðarbanka Íslands hf., rekstraraðila lífeyrissjóðsins, ekki upplýst kæranda um skattinn og bent honum á að dreifa úttekt lífeyrissparnaðar á þrjú ár, en með því móti hefði kærandi komist hjá greiðslu sérstaks tekjuskatts af sparnaðinum. Í niðurlagi kærunnar tók kærandi fram að ein lausn á vanda hans gæti verið sú að dreifa úttekt lífeyrissparnaðar á þrjú ár, þ.e. árin 2002, 2003 og 2004.
Skattstjóri tók umsókn kæranda um lækkun fyrirframgreiðslu sérstaks tekjuskatts til afgreiðslu hinn 3. september 2002 og féllst á hana, sbr. heimild í ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 149/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Með kæruúrskurði, dags. 29. nóvember 2002, hafnaði skattstjóri hins vegar kröfu kæranda um niðurfellingu sérstaks tekjuskatts 450.751 kr. Kom fram í úrskurðinum að álagning skattsins byggðist á ákvæði til bráðabirgða XLV með lögum nr. 75/1981 og væri ákvæðið birt með 41. gr. laga nr. 133/2001. Kæmi fram í ákvæðinu að gjaldárið 2002 skyldi leggja á sérstakan tekjuskatt sem næmi 7% á tekjuskattsstofn umfram 7.730.000 kr. í tilviki hjóna. Álagning hins sérstaka tekjuskatts ætti sér þannig skýra lagastoð í birtum lögum og gæti vanþekking kæranda eða þriðja aðila á efni laganna ekki leitt til niðurfellingar á álagningu sérstaks tekjuskatts. Því væri kröfu kæranda hafnað.
II.
Með kæru, dags. 25. febrúar 2003, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 29. nóvember 2002, til yfirskattanefndar. Er vísað til þeirra raka sem fram koma í kæru kæranda til skattstjóra, dags. 4. ágúst 2002, og sérstaklega bent á að álagning hins sérstaka tekjuskatts hafi í för með sér að af uppsöfnuðum séreignarsparnaði kæranda, sem numið hafi um 10,4 milljónum króna, standi einungis eftir um 5,9 milljónir sem þýði að um 43,3% sparnaðarins renni til ríkisins í formi skatta. Kemur fram að hefði kærandi tekið út sparnaðinn á þremur árum, þ.e. árin 1999, 2000 og 2001, hefði ekki komið til álagningar sérstaks tekjuskatts. Kæranda hafi hins vegar ekki verið kunnugt um þá staðreynd þegar hann hafi ákveðið að taka út innstæðuna á einu bretti í maí 2000. Þótt e.t.v. sé heimilt samkvæmt lögum að leggja á kæranda sérstakan tekjuskatt vegna úttektar hans á lífeyrissparnaði þá telji kærandi að yfirskattanefnd sé heimilt að fella skattlagningu þessa niður á þeim grundvelli að um mistök hafi verið að ræða.
III.
Með bréfi, dags. 11. apríl 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
IV.
Eins og fram er komið fékk kærandi að eigin ósk greiddan út lífeyrissparnað sinn hjá Séreignalífeyrissjóðnum árið 2001 að fjárhæð 10.402.383 kr., sbr. 11. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, þar sem fjallað er um útborgun á innstæðu lífeyrissparnaðar. Er óumdeilt að um er að ræða skattskyldar tekjur kæranda, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Krafa kæranda lýtur hins vegar að niðurfellingu sérstaks tekjuskatts sem lagður var á kæranda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 149/2000, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Er sú krafa í meginatriðum byggð á því að kæranda hafi ekki verið kunnugt um að úttekt hans á innstæðu lífeyrissparnaðar í einu lagi árið 2001 hefði í för þá skattlagningu sem um ræðir og að þjónustufulltrúi banka hafi ekki upplýst hann um það. Hefur kærandi bent á að honum hefði verið unnt að dreifa úttekt sparnaðarins á þrjú ár sem leitt hefði til þess að ekki hefði komið til álagningar sérstaks tekjuskatts.
Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 149/2000, sbr. a-lið 41. gr. laga nr. 133/2001, um breyting á ýmsum skattalögum, skal árið 2002 leggja sérstakan tekjuskatt á tekjuskattsstofn manna vegna tekna árið 2001 eins og nánar greinir í ákvæðinu. Á tekjuskattsstofn einstaklinga umfram 3.865.000 kr. eða tekjuskattsstofn hjóna umfram 7.730.000 kr. skal reikna sérstakan 7% tekjuskatt. Í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 149/2000 er tekið fram að um sérstakan tekjuskatt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II og III skuli ákvæði VIII.-XIII. kafla laganna gilda eftir því sem við á. Ljóst er samkvæmt þessu að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 bar skattstjóra að leggja á kæranda sérstakan tekjuskatt þar sem tekjuskattsstofn kæranda og eiginkonu hans umrætt gjaldár var umfram fjárhæðarmörk samkvæmt fyrrgreindu ákvæði til bráðabirgða. Lagaheimild skortir til þess að unnt sé að taka kröfu kæranda um niðurfellingu hins sérstaka tekjuskatts til greina. Samkvæmt því verður að hafna kröfu kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.