Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Stofnkostnaður

Úrskurður nr. 385/2003

Gjaldár 2002

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 31. gr. A 2. mgr.   Lög nr. 73/1997, 52. gr.   Lög nr. 88/1991, 10. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 3. gr. 7. mgr.   Reglugerð nr. 441/1998  

Kröfu kæranda, sem var sjálfstætt starfandi húsasmiður, um gjaldfærslu kostnaðar vegna námskeiðs, sem kærandi sótti til að hljóta löggildingu sem iðnmeistari, var hafnað þar sem talið var að um persónulegan kostnað kæranda væri að ræða en ekki frádráttarbæran námskeiðskostnað. Á hinn bóginn var fallist á að kæranda væri heimilt að færa kostnað vegna gjalds til umhverfisráðuneytisins fyrir löggildingarleyfið til frádráttar tekjum sem frádráttarbæran stofnkostnað.

I.

Með kæru, dags. 6. október 2003, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 18. september 2003, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2002. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður í rekstrarreikningi vegna húsasmíði sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2002 gjaldfærðan kostnað að fjárhæð 75.000 kr. vegna löggildingarleyfis, sbr. bréf skattstjóra, dags. 14. febrúar 2003, þar sem hann krafði kæranda um rökstuðning fyrir gjaldfærslu umrædds kostnaðar, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 3. mars 2003, þar sem greint var frá því að annars vegar væri um að ræða námskeiðsgjald 70.000 kr. vegna námskeiðs hjá Menntafélagi byggingariðnaðarins til löggildingar iðnmeistara og hins vegar gjald til umhverfisráðuneytisins vegna löggildingarinnar 5.000 kr. Forsenda skattstjóra fyrir hinni kærðu breytingu á skattframtali kæranda var sú, sbr. boðunarbréf skattstjóra, dags. 9. maí 2003, sem kærandi svaraði ekki, og hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 18. september 2003, að ekki yrði séð að umræddur kostnaður vegna löggildingarleyfis félli undir frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt ákvæði 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er þess krafist að breytingu skattstjóra verði hnekkt. Þá er krafist málskostnaðar til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum, og er tekið fram að áætlaður kostnaður kæranda vegna reksturs málsins nemi 20.000 kr. Í kærunni kemur fram að kærandi sé sjálfstætt starfandi húsasmíðameistari og að löggildingarleyfi geri honum kleift að afla frekari verkefna og tryggja þannig grundvöll rekstrar síns. Þá vísar umboðsmaðurinn til 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 varðandi nauðsyn löggildingar og tekur fram að slík löggilding sé forsenda þess að kærandi geti tekið að sér verkefni sem krefjist ábyrgðar iðnmeistara. Sé því um nokkurs konar atvinnurekstrarleyfi að ræða. Telji kærandi því að um sé að tefla nauðsynlegan kostnað til þess að auka möguleika til tekjuöflunar í sjálfstæðri starfsemi og sé því ótvírætt að um sé að ræða frádráttarbæran rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

II.

Með bréfi, dags. 5. desember 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Útgjöld vegna viðbótarnáms eða nám til öflunar starfsréttinda eru almennt ekki frádráttarbær. Benda má á úrskurði yfirskattanefndar nr. 403/1999 og 317/2000 þessu til stuðnings. Ríkisskattstjóri gerir þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.“

III.

Í úrskurðaframkvæmd hefur verið litið svo á að kostnaður vegna námskeiða starfsmanna eða sjálfstætt starfandi manna geti talist falla undir frádráttarbæran rekstrarkostnað, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, enda sé gerð fullnægjandi grein fyrir þeim námskeiðum sem sótt eru og tengslum þeirra við tekjuöflun rekstraraðila. Samkvæmt 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, telst til rekstrarkostnaðar kostnaður við námskeið sem tengjast starfinu beint. Tekur það m.a. til námskeiða sem ætluð eru til viðhalds menntun í starfsgrein viðkomandi aðila og til þess að fylgjast með nýjungum í starfsgreininni. Almennt verður hins vegar að líta svo á að útgjöld vegna viðbótarnáms eða náms til öflunar starfsréttinda séu ekki frádráttarbær, sbr. m.a. úrskurð ríkisskattanefndar nr. 815/1987 sem birtur er í úrskurðasafni nefndarinnar fyrir árin 1986-1989 og úrskurð yfirskattanefndar nr. 403/1999.

Fram er komið að gjaldfærður kostnaður vegna löggildingarleyfis 75.000 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2001, sem skattstjóri felldi niður með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 18. september 2003, er tvíþættur. Er annars vegar um að ræða kostnað 70.000 kr. vegna námskeiðs á vegum Menntafélags byggingariðnaðarins sem kærandi sótti til að hljóta löggildingu sem iðnmeistari, sbr. 52. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og viðeigandi ákvæði byggingarreglugerðar nr. 441/1998, og hins vegar gjald til umhverfisráðuneytisins 5.000 kr. vegna löggildingarinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Að því er varðar hinn fyrrnefnda kostnað vegna námskeiðs verður að telja að um sé að ræða kostnað við nám til öflunar starfsréttinda, sem meta verður persónulegan kostnað kæranda, en ekki frádráttarbæran námskeiðskostnað, sbr. og fyrrgreindan úrskurð yfirskattanefndar nr. 403/1999. Er kröfu kæranda um gjaldfærslu þess kostnaðar því hafnað. Kostnað vegna gjalds samkvæmt 10. gr. laga nr. 88/1991 þykir hins vegar mega telja til þess kostnaðar sem um getur í a-lið 2. mgr. 31. gr. A laga nr. 75/1981, þannig að heimilt sé að færa kostnaðinn að fullu til frádráttar tekjum á því ári sem hann myndast. Um úrskurðaframkvæmd í þessu efni má vísa til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 109/1985. Er krafa kæranda um gjaldfærslu umrædds kostnaðar að fjárhæð 5.000 kr. vegna gjalds til umhverfisráðuneytisins því tekin til greina.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með hliðsjón af framkomnum upplýsingum um málskostnað kæranda og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 10.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á gjaldfærslu kostnaðar 5.000 kr. vegna gjalds til umhverfisráðuneytisins. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 10.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja