Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Sönnun

Úrskurður nr. 387/2003

Gjaldár 2002

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 3. mgr.  

Skattstjóri taldi að kærendur hefðu ekki uppfyllt skilyrði fyrir samsköttun í árslok 2001 og benti m.a. á að samkvæmt skráningu þjóðskrár Hagstofu Íslands hefði sambúð kærenda ekki hafist fyrr en 9. október 2001. Fyrir lá að kærendur keyptu saman íbúð í september 2000 sem bar samkvæmt kaupsamningi að afhenda þeim 1. febrúar 2001. Með hliðsjón af því féllst yfirskattanefnd á kröfu kærenda.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur stóðu skil á sameiginlegu skattframtali árið 2002 og fóru fram á að þau yrðu skattlögð eftir þeim reglum sem gilda um hjón, sbr. heimild í 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Með bréfi, dags. 29. júlí 2002, tilkynnti skattstjóri kærendum með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981 að málaleitan þeirra um samsköttun væri hafnað. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt skráningu í þjóðskrá Hagstofu Íslands hefðu kærendur hafið sambúð þann 9. október 2001 og uppfylltu því ekki skilyrði samsköttunar samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 þar sem m.a. væri áskilið að sambúð hefði varað samfleytt í a.m.k. eitt ár.

Með kæru til skattstjóra, dags. 13. ágúst 2002, sbr. og bréf, dags. 15. sama mánaðar, mótmælti umboðsmaður kærenda framangreindri synjun skattstjóra. Kom fram í kærunni að til staðfestingar sambúð kærenda mætti benda á að þau hefðu keypt íbúð að X í Kópavogi í júní 2000 og flutt í íbúðina í september sama ár. Væri í því sambandi vísað til skattframtala kærenda árið 2001. Fór umboðsmaður kærenda fram á að skattstjóri féllist á að sambúð kærenda hefði hafist við kaup þeirra á íbúðinni eða frá og með september 2000. Þá gerði umboðsmaðurinn grein fyrir sameiginlegum eignum og skuldum kærenda.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 26. nóvember 2002, og hafnaði henni. Ítrekaði skattstjóri að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands hefðu kærendur hafið sambúð þann 9. október 2001 og um leið tilkynnt um flutning í sameiginlega íbúð að X í Kópavogi. Samkvæmt útfylltu eyðublaði um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna kaupa kæranda, A, á íbúðinni að X væri kaupsamningur gerður þann 21. september 2000 og afhendingardagur eignarinnar tilgreindur 1. febrúar 2001. Hefði kærandi, A, selt íbúð að Y í Reykjavík þann 18. september 2000 og væri afhendingardagur þeirrar íbúðar tilgreindur 1. janúar 2001. Staðhæfingar kærenda um upphaf sambúðar við kaup á X fengju því ekki staðist með tilliti til kaupsamninga og þess að seljendur X hefðu ekki flutt lögheimili sitt þaðan fyrr en 1. febrúar 2001 er þeir hefðu flutt í nýtt húsnæði. Umrætt húsnæði hefðu seljendur ekki fengið afhent fyrr en 20. janúar 2001 og þeir því væntanlega ekki getað afhent kærendum íbúðina fyrr en þann dag sem getið væri í kaupsamningi. Í fasteignaviðskiptum væri ekki óalgengt að 3-4 mánuðir liðu frá undirskrift kaupsamnings þar til húsnæði væri afhent þar sem seljendur húsnæðis þyrftu svigrúm til þess að rýma húsnæðið auk þess sem þeir væru jafnframt bundnir af afhendingardegi nýs húsnæðis. Væri ólíklegt að flutt væri inn sama dag og skrifað væri undir kaupsamning þar sem í flestum tilvikum þyrfti að gera íbúðum einhver skil, svo sem varðandi þrif og málningu auk annarra lagfæringa, svo ekki væri talað um frágang greiðslna, þinglýsingar o.fl. er tilheyrði íbúðarskiptum. Í slíkum tilvikum væri ekki unnt að miða upphaf sambúðar við kaupdagsetningu íbúðar. Væri einungis tekið mið af opinberum upplýsingum sem kærendur hefðu sjálfir veitt þjóðskrá Hagstofu Íslands um upphaf sambúðar og lögheimilisflutning henni samfara. Með vísan til framanritaðs og ákvæðis 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981 væru skilyrði samsköttunar ekki uppfyllt í tilviki kærenda og beiðni þeirra um samsköttun því hafnað.

II.

Með kæru, dags. 31. janúar 2003, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 26. nóvember 2002, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefnið sé sú niðurstaða skattstjóra að kærendur uppfylli ekki skilyrði samsköttunar samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981. Er þess krafist að fallist verði á samsköttun þar sem kærendur hafi verið í sambúð frá september 2000. Þá er tekið fram að verði ekki fallist á þá ósk kærenda sé þess krafist að kærendur „fái vaxtabætur í samræmi við eign á sameiginlegri íbúð að X og sameiginlegum skuldum vegna íbúðareignarinnar“, eins og segir í kærunni.

III.

Með bréfi, dags. 9. maí 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

IV.

Samkvæmt 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. nú 3. mgr. 62. gr. laga nr. 92/2003, um sama efni, eiga karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.

Fram er komið að kærendur keyptu saman íbúð í september 2000 sem bar samkvæmt kaupsamningi að afhenda þeim 1. febrúar 2001, sbr. m.a. greinargerðir um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) með skattframtölum kærenda árið 2001. Með hliðsjón af því þykir mega fallast á að kærendur hafi uppfyllt lagaskilyrði til samsköttunar í árslok 2001. Er krafa þeirra í máli þessu því tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja