Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur á móti ökutækjastyrk
- Matsreglur fjármálaráðherra
Úrskurður nr. 376/2005
Gjaldár 2004
Lög nr. 90/2003, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. Reglur fjármálaráðherra nr. 6/2003 um skattmat tekjuárið 2003.
Fallist var á með skattstjóra að virða bæri akstur kæranda, sem var hjúkrunarfræðingur, milli heimilis og vinnustaðar sem akstur í eigin þágu. Skipti ekki máli í því sambandi hvort um væri að ræða ferðir á reglubundnum vinnutíma eða í útkall á bakvakt.
I.
Með kæru, dags. 27. apríl 2005, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 1. febrúar 2005, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2004. Kæruefnið er niðurfelling frádráttar að fjárhæð 110.000 kr. á móti fengnum ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004. Er þess krafist í kærunni að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.
II.
Málavextir eru þeir að kærandi færði til tekna í reit 22 í skattframtali sínu árið 2004 ökutækjastyrk frá launagreiðanda sínum, X, að fjárhæð 133.287 kr. og til frádráttar styrknum í reit 33 færði kærandi 110.000 kr. Skattframtalinu fylgdi ökutækjaskýrsla (RSK 3.04) vegna bifreiðarinnar Z þar sem fram kom að um væri að ræða 2.000 km akstur í þágu launagreiðanda á árinu 2003. Vinnustaður kæranda var tilgreindur Y-gata í Reykjavík. Þá kom fram að ökutækjastyrkurinn hefði verið greiddur samkvæmt kílómetragjaldi.
Með bréfi, dags. 4. október 2004, óskaði skattstjóri eftir að kærandi léti í té gögn og skýringar og sýndi þannig fram á réttmæti frádráttar á móti ökutækjastyrk vegna aksturs í þágu launagreiðanda á árinu 2003, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Skyldi kærandi leggja fram akstursdagbók eða akstursskýrslur vegna aksturs í þágu launagreiðanda, öll gögn er stæðu að baki rekstrarkostnaði vegna notkunar á bifreið eða bifreiðum á árinu 2003 og einnig skýra frá því hvaða störfum kærandi gegndi hjá þeim launagreiðanda sem greiddi henni ökutækjastyrk á árinu 2003.
Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 11. október 2004, var greint frá því að hvorki akstursdagbók né akstursskýrslur vegna aksturs kæranda í þágu vinnuveitanda á árinu 2003 lægju fyrir. Greiðsla ökutækjastyrks til kæranda hefði tekið mið af fjölda útkalla sem kærandi þyrfti að sinna í hverjum mánuði og væri þeim í hagræðingarskyni jafnað út yfir árið. Starf kæranda, sem væri hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri við X, væri fólgið í yfirumsjón með skjólstæðingum X. Fyrirkomulag vinnu væri með þeim hætti að ávallt þyrfti einn hjúkrunarfræðingur að vera til staðar alla daga ársins og skiptu fjórir hjúkrunarfræðingar þeirri vinnu með sér í formi bakvakta. Sá hjúkrunarfræðingur sem væri á bakvakt hverju sinni þyrfti því að koma á staðinn væri þess óskað. Kærandi byggi við N-götu í Reykjavík og stysta vegalengd frá heimili hennar til vinnustaðar væri um 8 km aðra leið þannig að hver ferð krefðist um 16 km aksturs. Ökutækjastyrkur árið 2003 hefði verið greiddur vegna 2.425 km sem næmi um það bil 200 km á mánuði sem jafngilti um 10-12 útköllum á mánuði. Þá hefði kærandi lagt til bifreið sína þegar útvega hefði þurft aðföng, fara á námskeið, sækja vörur eða þjónustu fyrir skjólstæðinga o.fl., en slík tilvik væru þó fremur fátíð.
Með bréfi, dags. 1. desember 2004, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hygðist fella niður tilfærðan frádrátt á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004 og endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2004 til samræmis. Til stuðnings hinni boðuðu breytingu vísaði skattstjóri til 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að matsreglur fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2003, framtalsárið 2004, sem birtar hefðu verið sem auglýsing nr. 6 í B-deild Stjórnartíðinda 2003, ættu sér lagastoð í ákvæðinu. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 11. október 2004, hefði verið gerð grein fyrir störfum kæranda í þágu launagreiðanda á árinu 2003 og almennt getið um aksturstilefni. Ekki hefðu verið lögð fram nein þau gögn sem skattstjóri hefði óskað eftir, svo sem akstursdagbók eða akstursskýrsla, sem þó bæri að halda samkvæmt 5. mgr. í lið 3.1 í fyrrgreindum matsreglum. Að svo komnu máli yrði ekki séð að kærandi hefði sýnt fram á réttmæti tilfærðs frádráttar 110.000 kr. á móti ökutækjastyrk í skattframtali sínu árið 2004 og hygðist skattstjóri því fella niður frádráttinn.
Með bréfi, dags. 15. desember 2004, mótmælti umboðsmaður kæranda hinni boðuðu niðurfellingu frádráttar á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004. Í bréfinu kom fram að eftir ítarlega leit hefði akstursdagsbók kæranda vegna ársins 2003 loks fundist. Fylgdi akstursdagbókin í ljósriti.
Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 1. febrúar 2005, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd, felldi niður frádrátt að fjárhæð 110.000 kr. á móti fengnum ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004 og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2004 til samræmis. Fram kom í úrskurðinum að heimild til frádráttar kostnaðar á móti ökutækjastyrk væri að finna í 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Ættu matsreglur fjármálaráðherra um frádrátt á móti ökutækjastyrk tekjuárið 2003, sem birtar hefðu verið í B-deild Stjórnartíðinda nr. 6/2003, og fyrirmæli og skýringar í greinargerð um ökutækjastyrk (RSK 3.04), sér lagastoð í því lagaákvæði. Í 2. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, sbr. 121. gr. laga nr. 90/2003, væri skattstjóra falið að kanna réttmæti skattskila og frádráttarliða. Teldi skattstjóri þörf á skýringum á einhverju atriði í framtalsskilum skyldi hann skriflega skora á skattaðila að láta í té skriflegar skýringar og þau gögn sem skattstjóri teldi þörf á, sbr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Þá tók skattstjóri fram að samkvæmt akstursdagbók kæranda fyrir árið 2003, sem fylgt hefði bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 15. desember 2004, yrði ekki annað séð en að greitt hefði verið fyrir akstur til og frá vinnu, en allar færslur í akstursdagbókinni væru „X-bakvakt“ og tilgreindur 20 km akstur vegna hverrar ferðar. Akstur til og frá vinnu teldist vera í þágu launamanns en ekki launagreiðanda. Yrði því ekki séð að sá kostnaður vegna aksturs sem kærandi hefði fært til frádráttar fengnum ökutækjastyrk uppfyllti skilyrði frádráttar, sbr. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Kæmi hin boðaða breyting því til framkvæmda.
III.
Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 27. apríl 2005, er þess krafist að ákvörðun skattstjóra um niðurfellingu tilfærðs frádráttar á móti ökutækjastyrk í skattframtali kæranda árið 2004 verði hnekkt. Í kærunni eru skýringar kæranda í bréfi til skattstjóra, dags. 11. október 2004, áréttaðar. Er ítrekað að bakvaktir kæranda taki við þegar venjulegum vinnudegi hennar ljúki og standi frá kl. 16:00 og til kl. 8:00 að morgni næsta dags. Komi til útkalls á bakvakt þurfi kærandi því að aka aftur til vinnustaðar síns og heim aftur. Kærandi líti svo á að slíkur akstur vegna útkalls á bakvakt teljist ekki til aksturs til og frá vinnu í skilningi laga heldur sé um akstur í þágu vinnuveitanda að ræða. Á þeim grundvelli hafi kærandi dregið kostnað vegna umrædds aksturs frá fengnum ökutækjastyrk í skattframtali sínu.
IV.
Með bréfi, dags. 22. júlí 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að tilteknum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2003 (framtalsárið 2004), sbr. auglýsingu nr. 6/2003, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð er hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 591/1987 um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra telst allur akstur milli heimilis og vinnustaðar í einkaþágu. Ekki verður talið að kærandi hafi sýnt fram á að akstur sá sem hún hefur tilfært í þágu vinnuveitanda sé annað en akstur milli heimilis og vinnustaðar.
Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
V.
Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu sönnuð og í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra. Samkvæmt lið 3.1. í matsreglum fjármálaráðherra fyrir tekjuárið 2003 (framtalsárið 2004), sbr. reglur nr. 6, 8. janúar 2003 í B-deild Stjórnartíðinda, þarf framteljandi að hafa fært akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð sé hver ferð, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, kílómetragjald, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis, sbr. reglugerð nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Skal færa þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum þegar þau óska þess. Þá telst ökutækjakostnaður því aðeins sannaður að gerð sé grein fyrir kostnaði við rekstur ökutækisins og notkun ökutækis sundurliðuð með nánar tilgreindum hætti.
Í matsreglum fjármálaráðherra kemur fram að akstur til og frá vinnu teljist allur vera í eigin þágu launamanns. Matsregla þessi er fortakslaus og er því ekki hægt að draga þá ályktun að tilefni aksturs til og frá vinnu skipti máli. Svo sem regla þessi er orðuð er ekki hægt að fallast á það með kæranda að akstur hennar á milli heimilis og vinnustaðar sé í þágu launagreiðanda, hvort sem um er að ræða ferðir á reglubundnum vinnutíma eða í útkall á bakvakt. Kröfu kæranda er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda er hafnað.