Úrskurður yfirskattanefndar
- Afturköllun sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins
- Málskostnaður
Úrskurður nr. 3/2006
Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)
Skattrannsóknarstjóri ríkisins afturkallaði kröfu sína til yfirskattanefndar um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á skattalögum og var málið í samræmi við það fellt niður hjá yfirskattanefnd. Talið var að kröfu um greiðslu málskostnaðar yrði ekki komið fyrir yfirskattanefnd nema í tengslum við úrlausn kæranlegrar ákvörðunar eða umfjöllun um sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Var kröfu gjaldanda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði því vísað frá yfirskattanefnd.
I.
Með bréfi, dags. 16. desember 2005, hefur umboðsmaður gjaldanda farið fram á að yfirskattanefnd úrskurði um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði vegna kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 3. nóvember 2004, um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda vegna meintra brota á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með áorðnum breytingum, en krafa þessi var til meðferðar fyrir yfirskattanefnd með málsnúmer 366/2004 uns skattrannsóknarstjóri ríkisins afturkallaði kröfuna með bréfi, dags. 13. desember 2005. Með bréfi, dags. 13. desember 2005, tilkynnti yfirskattanefnd gjaldanda og umboðsmanni hans að greint mál hefði þann dag verið fellt niður hjá yfirskattanefnd.
Í bréfi umboðsmanns gjaldanda, dags. 16. desember 2005, er afgreiðslu á máli gjaldanda mótmælt með skírskotan til þess að auk kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi legið fyrir yfirskattanefnd krafa gjaldanda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. bréf umboðsmanns gjaldanda, dags. 21. desember 2004 og 22. nóvember 2005, en þá kröfu verði að afgreiða þótt sektarkrafa skattrannsóknarstjóra hafi verið afturkölluð. Kostað hafi mikla vinnu að kanna mál gjaldanda og gögn þess. Umboðsmaður gjaldanda hafi þegar gert gjaldanda reikning að fjárhæð 56.025 kr. vegna málsins og síðan hafi bæst við vinna sem hóflega megi reikna 10.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti. Þar sem krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins hafi verið afturkölluð teljist gjaldandi hafa unnið mál sitt að öllu leyti þannig að honum beri að fá málskostnað sinn greiddan að fullu. Því sé gerð krafa um greiðslu málskostnaðar að fjárhæð 66.025 kr.
II.
Eins og fram er komið afturkallaði skattrannsóknarstjóri ríkisins með bréfi, dags. 13. desember 2005, kröfu sína til yfirskattanefndar, dags. 3. nóvember 2004, um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda sökum meintra brota á skattalögum, sbr. mál yfirskattanefndar nr. 366/2004. Í samræmi við það felldi yfirskattanefnd umrætt mál niður og tilkynnti gjaldanda þau málalok með bréfi, dags. 13. desember 2005. Af hálfu gjaldanda er því mótmælt að mál gjaldanda hafi verið fellt niður fyrir yfirskattanefnd án þess að afstaða væri tekin til fyrirliggjandi kröfu gjaldanda um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Ákvæði þetta er svohljóðandi:
„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.“
Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, er ljóst að kröfu um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði verður ekki komið fyrir yfirskattanefnd nema í tengslum við úrlausn kæranlegrar ákvörðunar, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga þessara, eða umfjöllun um sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, sbr. 3. mgr. 2. gr. og 22. gr. laganna. Að þessu virtu og þar sem sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins á hendur gjaldanda, dags. 3. nóvember 2004, kom ekki til úrlausnar yfirskattanefndar, enda afturkölluð af hálfu embættisins, ber að vísa kröfu gjaldanda um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði frá yfirskattanefnd.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Erindi gjaldanda, dags. 16. desember 2005, er vísað frá yfirskattanefnd.