Úrskurður yfirskattanefndar
- Virðisaukaskattur
- Innskattur
- Sérstök skráning
- Frjáls skráning vegna útleigu fasteigna
Úrskurður nr. 8/2006
Virðisaukaskattur 2004
Lög nr. 50/1988, 2. gr. 1. og 3. mgr. 6. tölul., 6. gr. 1. mgr., 12. gr. 4. mgr., 16. gr. 1. mgr. Reglugerð nr. 577/1989, 1. gr., 4. gr., 6. gr. Reglugerð nr. 192/1993, 1. gr.
Kærandi í máli þessu var skráður sérstakri skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts vegna byggingar atvinnuhúsnæðis og síðar frjálsri skráningu vegna útleigu umrædds húsnæðis. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda um frádrátt innskatts sem féll til í tengslum við sölu þeirrar fasteignar sem sérstök og frjáls skráning kæranda tók til, þ.e. vegna sölulauna, á þeim forsendum að ekki væri um að ræða virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu vörðuðu sölu vöru eða skattskyldrar þjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga, enda tæki skattskyldusvið laganna ekki til fasteigna.
I.
Með kæru, dags. 24. janúar 2005, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 19. janúar 2005, vegna ákvörðunar virðisaukaskatts uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004 en með úrskurði þessum staðfesti skattstjóri synjun um endurgreiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 1.127.000 kr. vegna þóknunar fasteignasala fyrir milligöngu um sölu fasteignarinnar X, sbr. bréf skattstjóra, dags. 20. október 2004.
Í kæru til yfirskattanefndar krefst umboðsmaður kæranda þess að fallist verði á umræddan innskattsfrádrátt. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
II.
Málavextir eru þeir að í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. m.a. bréf skattstjóra, dags. 6. júlí og 31. ágúst 2004, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 7. september 2004, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 15. september 2004, að fyrirhugað væri að hafna endurgreiðslu virðisaukaskatts af söluþóknun vegna fasteignarinnar X sem færður væri sem innskattur samkvæmt leiðréttri virðisaukaskattsskýrslu kæranda vegna skráningarnúmers 01 uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004. Yrði álagning virðisaukaskatts umrætt uppgjörstímabil því óbreytt frá því sem áður hefði verið ákvarðað, þ.e. skattskyld velta 0 kr., útskattur 0 kr. og innskattur 226.335 kr. Umboðsmaður kæranda mótmælti fyrirætlan skattstjóra með bréfi, dags. 17. september 2004, en með bréfi, dags. 20. október 2004, tilkynnti skattstjóri kæranda um ákvörðun virðisaukaskatts í samræmi við það sem boðað hefði verið. Af hálfu skattstjóra kom fram að kærandi hefði verið skráður sérstakri skráningu vegna byggingar umræddrar fasteignar að X á grundvelli reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign. Í framhaldi af sérstöku skráningunni hefði kæranda verið veitt frjáls skráning samkvæmt sömu reglugerð vegna útleigu greindrar fasteignar. Frjáls skráning vegna útleigu atvinnuhúsnæðis væri undantekning frá þeirri meginreglu 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 að fasteignaleiga væri undanþegin virðisaukaskatti. Innskattsheimildir leigusala væru sérstaklega tilgreindar í 7. gr. reglugerðar nr. 577/1989 og tækju til kaupa hans á vörum og þjónustu vegna endurbóta og viðhalds þeirrar fasteignar sem frjáls skráning tæki til, svo og vegna rekstrar- og stjórnunarkostnaðar sem varðaði eignina. Frjáls skráning félli úr gildi þegar útleigu væri hætt og húsnæði selt. Söluþóknun fasteignasala vegna sölu eignarinnar teldist að mati skattstjóra ekki vera kostnaður sem félli til vegna endurbóta eða viðhalds né rekstrarkostnaður í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt áliti ríkisskattstjóra nr. 432/92 væri sala eignar, sem skráð hefði verið frjálsri skráningu, ekki þáttur í útleigu eignarinnar, enda ætti frjálsri skráningu að vera lokið ef um sölu húsnæðisins væri að ræða. Komið hefði fram í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 7. september 2004, að öll fasteignin hefði verið leigð út með virðisaukaskatti. Þar sem eignin hefði þannig að öllu leyti verið tekin undir virðisaukaskattsskyldan rekstur með frjálsri skráningu teldi skattstjóri að kærandi hefði ekki heimild til að færa til innskatts virðisaukaskatt vegna sölu eignarinnar á grundvelli sérstakrar skráningar kæranda svo sem umboðsmaður kæranda héldi fram. Í niðurlagi bréfs skattstjóra var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til skattstjóra samkvæmt 29. gr. laga nr. 50/1988 vegna ákvörðunar virðisaukaskatts.
Með kæru, dags. 26. október 2004, skaut umboðsmaður kæranda synjun skattstjóra til yfirskattanefndar. Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist með bréfi, dags. 10. desember 2004, að kærunni yrði vísað frá yfirskattanefnd þar sem ekki lægi fyrir kæranlegur úrskurður skattstjóra, enda væri ákvörðun skattstjóra, dags. 20. október 2004, kæranleg til skattstjóra samkvæmt 29. gr. laga nr. 50/1988. Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. desember 2004, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Í framhaldi af þessu fór umboðsmaður kæranda þess á leit við skattstjóra með bréfi, dags. 15. desember 2004, að málið yrði tekið til kærumeðferðar hjá því embætti og með bréfi, dags. 5. janúar 2005, afturkallaði umboðsmaðurinn kæru sína til yfirskattanefndar.
Með kæruúrskurði, dags. 14. janúar 2005, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að söluþóknun félli ekki undir kostnað sem tilgreindur væri í 7. gr. reglugerðar nr. 577/1989 svo og kæmi fram í áliti ríkisskattstjóra nr. 432/92 að sala fasteignar teldist ekki vera þáttur í útleigu fasteignarinnar. Í úrskurðinum var tekið fram að kærufrestur til ríkisskattstjóra væri 30 dagar frá dagsetningu úrskurðarins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 19. janúar 2005, afturkallaði skattstjóri úrskurð sinn, dags. 14. janúar 2005, og kvað upp nýjan úrskurð, dags. 19. janúar 2005, sem var samhljóða fyrri úrskurði að öllu leyti nema því að tekið var fram að kærufrestur til yfirskattanefndar væri 30 dagar (sic) frá dagsetningu úrskurðarins, sbr. 29. gr. laga nr. 50/1988.
III.
Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 24. janúar 2005, er gerð grein fyrir því að kærandi hafi átt og rekið fasteign að X. Við upphaf byggingar hússins árið 1998 hafi verið sótt um sérstaka skráningu vegna eignarinnar og hafi skattstjóri fallist á skráningu án athugasemda og úthlutað kæranda skráningarnúmerinu 01 sem sé enn opið. Á grundvelli þeirrar skráningar hafi allur virðisaukaskattur vegna byggingar hússins verið endurgreiddur sem innskattur. Hinn 1. janúar 2004 hafi kærandi selt fasteign sína og í tengslum við söluna orðið fyrir nokkrum kostnaði, m.a. hafi þóknun vegna sölu hússins numið 5.727.000 kr. Virðisaukaskattur af söluþóknun hafi verið færður á virðisaukaskattsskýrslu vegna frjálsrar (sic) skráningar, en skattstjóri hafi hafnað innskattinum með hinum kærða úrskurði.
Umboðsmaður kæranda tekur fram að útleiga fasteigna sé ekki virðisaukaskattsskyld. Byggi maður fasteign í þeim tilgangi að leigja hana út sé því almennt óheimilt að innskatta byggingarkostnað hennar. Þó megi víkja frá þessari reglu sé fyrirhugað að selja fasteignina virðisaukaskattsskyldum aðila og helgist það umfram allt af samkeppnisaðstæðum. Samkvæmt reglugerð nr. 577/1989 sé undanþágan framkvæmd með sérstakri skráningu og hafi kærandi fengið slíka skráningu. Sérstök skráning veiti rétt til að innskatta allan byggingarkostnað byggingar eða mannvirkis, þar með talið stofnkostnað, byggingarkostnað og sölukostnað, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 577/1989.
Skattstjóri telji að sérstök skráning kæranda hafi fallið niður þegar kærandi hafi fengið leyfi til frjálsrar skráningar vegna útleigu fasteignarinnar. Sala fasteignar sé ekki þáttur í útleigu hennar og þar af leiði að óheimilt sé að innskatta söluþóknunina. Kærandi sé ósammála þessu. Sérstök skráning kæranda hafi verið í gildi þegar hann seldi fasteign sína og hafi skráningarnúmerið 01 enn verið opið. Sérstök skráning sé ekki bundin við ákveðinn tíma. Ef kærandi hefði selt fasteign sína að lokinni byggingu hefði þóknun vegna sölunnar verið innskattshæf. Með því að synja um innskattinn sé því verið að mismuna honum. Með því að draga söluna sé staða hans því lakari og veiki það samkeppnisstöðu hans.
Á vissan hátt sé sala síðasta aðgerð vegna byggingar fasteignar sem aðili hefur fengið heimild til að innskatta með sérstakri skráningu. Samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi undirgangist kaupandi fasteignarinnar allar kvaðir sem af honum leiði, þar á meðal vegna sölunnar. Öll umrædd gögn hafi verið send skattstjóra til skoðunar. Hvergi í þeim hafi innskattur vegna sölu eignarinnar verið undanskilinn. Synjun um innskatt af söluþóknuninni sé því með öllu óskiljanleg. Lagagrundvöllur hennar sé að minnsta kosti afar veikur.
IV.
Með bréfi, dags. 23. september 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:
„Fasteignaleiga er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 6. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nema leigusali afli sér frjálsrar skráningar vegna útleigunnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna og reglugerð nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign. Um skráningarheimild er því að ræða í þessum tilvikum en ekki skráningarskyldu þá sem tilgreind er í 5. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Frá og með 1. janúar 2001 sótti félagið um frjálsa skráningu vegna útleigu fasteignar sinnar að X, þar með lauk sérstakri skráningu félagsins vegna sömu fasteignar sem félaginu var veitt í júní 1998. Frjáls skráning vegna útleigu tekur til ákveðinnar fasteignar eða hluta hennar og varðar eingöngu þá starfsemi að leigja hana út. Sala viðkomandi fasteignar getur því að mati ríkisskattstjóra ekki verið liður í þeirri starfsemi að leigja hana út.
Jafnframt vísast í þessu sambandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 217/2005.
Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 26. september 2005, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Með bréfi, dags. 7. október 2005, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Ítrekar umboðsmaðurinn að í málinu sé deilt um rétt kæranda til frádráttar innskatts vegna kostnaðar við sölu á fasteign sem sérstök skráning hafi tekið til og að heimild til frádráttar á grundvelli sérstakrar skráningar hafi verið í gildi þegar sala fasteignarinnar átti sér stað. Skattstjóri hafi hins vegar hafnað innskattinum vegna þess að heimild til að innskatta kostnað vegna byggingarframkvæmda hafi fallið niður vegna frjálsrar skráningar kæranda. Leiði þessi niðurstaða til mismunandi meðferðar innskatts hjá byggjendum fasteigna eftir því hvort þeir selji fasteign strax að lokinni byggingu eða síðar. Það telji kærandi ekki fá staðist.
V.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi, þá Y ehf., skráður sérstakri skráningu í júní 1998 með skráningarnúmer 01 vegna byggingar atvinnuhúsnæðis að X, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. einnig I. kafla reglugerðar nr. 577/1989, um frjálsa og sérstaka skráningu vegna leigu eða sölu á fasteign, en fyrir var kærandi skráður almennri skráningu (skráningarnúmer 02) samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988 vegna heildverslunar. Í apríl 2001 var kærandi skráður frjálsri skráningu (skráningarnúmer 03) vegna útleigu eignarinnar að X, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988 og II. kafla reglugerðar nr. 577/1989. Sérstök skráning kæranda vegna byggingar umræddrar eignar stóð þó áfram.
Hinn 2. apríl 2004 stóð kærandi með rafrænum hætti skil á virðisaukaskattsskýrslu vegna sérstakrar skráningar sinnar fyrir uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004 þar sem innskattur var færður með 226.335 kr. og inneign virðisaukaskatts með sömu fjárhæð. Eftir því sem fram kemur í upplýsingakerfi ríkisskattstjóra ákvarðaði skattstjóri hinn 13. maí 2004 virðisaukaskatt kæranda til endurgreiðslu í samræmi við greinda skýrslu, sbr. 1. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Hinn 2. apríl 2004 stóð kærandi einnig skil á rafrænni virðisaukaskattsskýrslu vegna heildverslunar (skráningarnúmer 02), þar sem tilgreindur var útskattur 166.952 kr. og innskattur 2.564.461 kr., en samkvæmt skýrslu sama dag vegna frjálsrar skráningar kæranda (skráningarnúmer 03) var hvorki um að ræða skattskylda veltu né innskatt uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004. Við athugun skattstjóra á virðisaukaskattsskilum kæranda, sbr. bréf skattstjóra, dags. 7. apríl 2004, og móttekin gögn í framhaldi af því, kom í ljós að kærandi hefði tilgreint sem innskatt í skýrslu vegna almennrar skráningar m.a. virðisaukaskatt að fjárhæð 1.127.000 kr. vegna þóknunar fasteignasala fyrir milligöngu um sölu fasteignarinnar X. Hinn 4. maí 2004 stóð kærandi skil á leiðréttri virðisaukaskattsskýrslu uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004 vegna almennrar skráningar þar sem m.a. kom fram lækkun innskatts um greinda fjárhæð 1.127.000 kr. auk annarra leiðréttinga og tók skattstjóri þessa skýrslu til afgreiðslu samdægurs. Hinn 27. maí 2004 stóð kærandi skil á leiðréttri skýrslu, dags. þann dag, vegna sérstakrar skráningar (skráningarnúmer 01) þar sem innskattur var tilgreindur 1.127.000 kr. hærri en í upphaflegri skýrslu. Kæruefnið í máli þessu er synjun skattstjóra að taka til greina umrædda hækkun innskatts samkvæmt leiðréttri skýrslu vegna sérstakrar skráningar kæranda.
Ekki verður betur séð en að skattstjóri hafi tekið afstöðu til innsendrar leiðréttingarskýrslu kæranda, dags. 27. maí 2004, á þeim grundvelli að um væri að ræða ákvörðun virðisaukaskatts í skilningi 25. gr. laga nr. 50/1988 og leiðbeindi skattstjóri í samræmi við það um kæruheimild samkvæmt ákvæðum 29. gr. þeirra laga í bréfi sínu, dags. 20. október 2004. Þetta stenst þó ekki, enda hafði skattstjóri þegar hinn 13. maí 2004 ákvarðað virðisaukaskatt kæranda vegna sérstakrar skráningar uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004 er hann tók leiðréttingarskýrslu kæranda til meðferðar 20. október 2004. Þar sem leiðréttingarskýrsla kæranda barst skattstjóra innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 vegna greindrar ákvörðunar virðisaukaskatts hefði verið rétt að skattstjóri tæki hana til meðferðar sem kæru samkvæmt greindri lagagrein. Samkvæmt þessu má líta svo á að úrskurður skattstjóra, dags. 20. október 2004, hafi verið kæranlegur til yfirskattanefndar samkvæmt 4. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 7. gr. laga nr. 149/1996, þannig að ekki hafi verið efni til viðbragða umboðsmanns kæranda í kjölfar kröfugerðar ríkisskattstjóra, dags. 10. desember 2004, vegna fyrri kæru umboðsmannsins til yfirskattanefndar sem hann afturkallaði með bréfi, dags. 5. janúar 2005.
Víkur þá að efnisatriðum málsins. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að synja kæranda um frádrátt innskatts uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004 vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 1.127.000 kr. samkvæmt reikningi frá Z ehf. vegna söluþóknunar í tengslum við sölu kæranda á atvinnuhúsnæði við X. Eins og fram er komið var kærandi, sem byggði húsnæði þetta, skráður sérstakri skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts með skráningarnúmer 01 vegna byggingarframkvæmda sinna, sbr. 4. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988 og I. kafla reglugerðar nr. 577/1989. Hinn 26. apríl 2001 var kærandi síðan skráður frjálsri skráningu í grunnskrá virðisaukaskatts með skráningarnúmer 03 frá og með 1. janúar 2001 vegna útleigu húsnæðisins, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988 og II. kafla reglugerðar nr. 577/1989. Krafa kæranda um frádrátt innskatts er þó ekki reist á því að frádráttarréttur samkvæmt frjálsri skráningu félagsins taki til umrædds virðisaukaskatts, heldur byggir kærandi á því að um frádráttarrétt vegna sérstakrar skráningar félagsins sé að ræða, enda hafi sú skráning enn verið í gildi uppgjörstímabilið janúar-febrúar 2004. Sé sérstök skráning ekki bundin við ákveðinn tíma, hvorki í virðisaukaskattslögum né reglugerðum sem settar hafi verið samkvæmt þeim, og á vissan hátt sé sala síðasta aðgerð vegna byggingar fasteignar sem aðili hafi fengið heimild til að innskatta með sérstakri skráningu.
Fasteign telst ekki vara í skilningi laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og eru viðskipti með fasteignir því ekki skattskyld samkvæmt lögunum. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laganna geta aðilar, sem í atvinnuskyni stunda byggingarstarfsemi eða mannvirkjagerð á eigin kostnað í þeim tilgangi að selja virðisaukaskattsskyldum (skráðum) aðilum fasteignir, sótt um sérstaka skráningu til skattstjóra. Heimili skattstjóri slíka skráningu er aðila heimilt að færa til frádráttar sem innskatt virðisaukaskatt af öllum aðföngum er varða sölu hans á fasteign til hins skráða kaupanda, sbr. 1. mgr. 16. gr. laganna. Nánari ákvæði um skráningu samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laga nr. 50/1988 hafa verið sett með reglugerð nr. 577/1989. Samkvæmt 2. gr. þeirrar reglugerðar hefur sérstök skráning í meginatriðum þá þýðingu að skylda byggingaraðila til að skila virðisaukaskatti af byggingarframkvæmdum sínum, sbr. 2. og 3. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 og reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, fellur niður, svo og fær byggingaraðili endurgreiddan þann skatt sem hann hefur skilað af framkvæmdum sínum fram að gildistöku skráningarinnar. Jafnframt öðlast byggingaraðilinn rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem honum var áður óheimilt að telja til innskatts, þ.e. skatts sem tilgreindur er í 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 576/1989.
Þá er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, nema leigusali afli sér frjálsrar skráningar vegna útleigunnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna og reglugerð nr. 577/1989. Sá sem í atvinnuskyni leigir fasteign eða hluta fasteignar getur sótt um frjálsa skráningu til skattstjóra, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 577/1989. Leigusali, sem fær heimild til frjálsrar skráningar, skal innheimta útskatt af leigugjaldinu, þ.m.t. tryggingarfé sem hann kann að krefja leigutaka um, sbr. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Í 7. gr. reglugerðar nr. 577/1989, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 697/1997, um breyting á hinni fyrrnefndu reglugerð, kemur fram að leigusali geti samkvæmt almennum ákvæðum laga nr. 50/1988 og reglugerða, sem settar eru samkvæmt þeim, talið til innskatts þann virðisaukaskatt sem fellur eftir skráninguna á kaup hans á vörum og þjónustu vegna endurbóta og viðhalds þeirrar fasteignar sem frjáls skráning tekur til, svo og vegna reksturs- og stjórnunarkostnaðar sem varðar eignina.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, sem vísað er til í greindu ákvæði 4. mgr. 6. gr. laganna, sbr. og skírskotan til „almennra ákvæða“ í reglugerðarákvæðum um frjálsa skráningu, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili, sbr. 24. gr. sömu laga, virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er fjármálaráðherra heimilað að setja reglur um að til innskatts megi telja ákveðinn hluta af virðisaukaskatti innkaupa sem ekki varða eingöngu sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. Á grundvelli nefndrar heimildar hefur fjármálaráðherra sett reglugerð nr. 192/1993, um innskatt. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að aðili sem skráður hafi verið samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, megi telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem frá og með skráningardegi falli á kaup hans á skattskyldum vörum og þjónustu til nota í rekstrinum, enda byggist innskattskrafa hans gagnvart ríkissjóði á skjölum og bókhaldi sem fullnægjandi er samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Sá virðisaukaskattur, sem um er deilt í málinu, féll til í tengslum við sölu þeirrar fasteignar sem sérstök og síðar frjáls skráning kæranda tók til. Er því ekki um að ræða virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða sölu vöru eða skattskyldrar þjónustu í skilningi virðisaukaskattslaga, sbr. áskilnað 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 og 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, enda tekur skattskyldusvið virðisaukaskattslaga ekki til fasteigna. Tekið skal fram að því er hvorki haldið fram af hálfu kæranda né verður séð af gögnum málsins að um sé að ræða eignayfirfærslu sem fellur undir 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988. Með vísan til framangreinds, sbr. og úrskurðaframkvæmd, m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 217/2005 sem birtur er á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is), verður að hafna kröfu kæranda um frádrátt hins umdeilda virðisaukaskatts.
Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kröfu þess efnis er því hafnað.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.