Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lánveiting einkahlutafélags til tengds aðila

Úrskurður nr. 119/2006

Gjaldár 2003

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 3. mgr.   Lög nr. 138/1994, 79. gr. 1. mgr.  

Kærandi, sem var framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu, fékk greiðslur frá X ehf. á árinu 2002 sem tilgreindar voru sem lán í bókum félagsins. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að umræddar greiðslur X ehf. hefðu ekki verið heimilar að lögum sem lánveitingar til kæranda, enda þótti vafalaust að ekki væri um venjuleg viðskiptalán að ræða. Bæri því samkvæmt 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að telja greiðslurnar til tekna sem laun í skattframtali kæranda árið 2003. Vegna athugasemda kæranda um endurgreiðslur á árinu 2003 var tekið fram að eftir breytingar á skattareglum um óheimilar lánveitingar til hluthafa og stjórnenda með lögum nr. 133/2001 væri ótvírætt að endurgreiðslur slíkra lána hefðu ekki þýðingu varðandi þá skattlagningu sem lögin mæltu fyrir um í þessum tilvikum, enda væru ákvæði laganna fortakslaus að því leyti. Var kröfum kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Með bréfi til X ehf., dags. 22. janúar 2004, óskaði skattstjóri eftir upplýsingum um lán til eiganda að fjárhæð 4.526.572 kr. sem tilgreint væri í ársreikningi X ehf. fyrir árið 2002 sem fylgt hefði skattframtali félagsins árið 2003. Vísaði skattstjóri í bréfi sínu til ákvæða 1. og 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem fram kæmi að telja bæri til skattskyldra tekna lán til starfsmanna sem óheimil væru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög sem og lán til hluthafa og stjórnarmanna sem óheimil væru samkvæmt sömu lögum, sbr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem skattstjóri vísaði til. Í svarbréfi, dags. 12. mars 2004, sem kærandi undirritaði f.h. X ehf., kom eftirfarandi fram:

„Þegar laun starfsmanns, sem jafnframt er eigandi félagsins, voru ákvörðuð í upphafi árs 2002 var horft til auglýsingar ríkisskattstjóra nr. 4 frá 17. janúar 2002 um reiknað endurgjald 2002. Samkvæmt því átti umræddur starfsmaður að reikna sér kr. 485.000 í laun á mánuði, eða kr. 5.400.000 í árslaun. Í árslok 2002 varð ljóst þegar afkomutölur voru skoðaðar að ekki voru forsendur fyrir svo háum launagreiðslum til umrædds starfsmanns. Tekin var ákvörðun um að lækka laun starsfmannsins afturvirkt allt árið 2002 úr kr. 450.000 í kr. 330.000 þannig að starfsmaðurinn myndi kerfisbundið endurgreiða ofgreidd laun vegna ársins 2002. Skuld starfsmannsins við félagið vegna þessa var kr. 1.440.000.

Á árinu 2002 tók sami starfsmaður lán hjá félaginu sem til stóð að greiða upp innan ársins. Útbúinn var viðskiptareikningur starfsmanns við X [ehf.] þar sem þetta lán var fært. Staða þessa láns í árslok 2002 var kr. 3.086.572. Frá því félaginu varð ljóst að lánveitingar til tengdra aðila eru ekki heimilar hefur umræddur starfsmaður með kerfisbundnum hætti verið að greiða lánið niður. Ekki er hægt að greina frá stöðu lánsins að svo stöddu þar sem bókhaldi ársins 2003 er ekki lokið.“

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2005, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2003, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fyrirhugað væri að færa kæranda til skattskyldra tekna í skattframtali hans árið 2003 lán frá X ehf. að fjárhæð 4.526.572 kr. Í bréfinu rakti skattstjóri fyrri bréfaskipti í málinu. Þá vísaði skattstjóri til ákvæða 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, þar sem fram kæmi m.a. að einkahlutafélagi væri hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán eða setja tryggingar fyrir þá né aðilum sem tengdir eru þeim á nánar tilgreindan hátt. Ákvæðið tæki þó ekki til venjulegra viðskiptalána. Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 bæri að telja til skattskyldra tekna lán til starfsmanna sem óheimil væru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Þá kæmi fram í 4. tölul. A-liðar sömu lagagreinar að til skattskyldra gjafa teldust lán til hluthafa og stjórnarmanna sem væru óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög.

Með bréfi, dags. 2. maí 2005, mótmælti umboðsmaður kæranda hinni boðuðu breytingu skattstjóra. Gat umboðsmaður kæranda þess að lokastaða á viðskiptareikningi kæranda hjá X ehf. hefði numið 4.003.494 kr. í árslok 2002 samkvæmt bókhaldi félagsins. Lokastaða á hreyfingalista yfir lán til eigenda og stjórnenda hefði numið 523.078 kr. í árslok 2002. Samtals væri því um að ræða 4.526.571 kr. (sic) sem væri sú fjárhæð sem skattstjóri hygðist tekjufæra. Vísaði umboðsmaður kæranda í þessu sambandi til gagna sem fylgdu bréfinu. Tók umboðsmaðurinn fram að athygli skattstjóra væri vakin á því að í hreyfingalista í bókhaldi X ehf. kæmi fram að lokastaða á viðskiptareikningi kæranda hjá félaginu næmi 2.936.116 kr. í árslok 2003 og því hefði skuld kæranda lækkað nokkuð milli ára eða um 1.067.378 kr. Með vísan til þess að kærandi hefði þannig greitt verulegan hluta skuldar sinnar við X ehf. niður væri þess farið á leit að skattstjóri félli frá hinni fyrirhuguðu breytingu sinni, en til vara væri þess krafist að sú fjárhæð sem skattstjóri hygðist tekjufæra hjá kæranda yrði lækkuð, enda lægi fyrir að lánið hefði að verulegu leyti verið endurgreitt.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 25. júlí 2005, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og færði kæranda til skattskyldra tekna með launum í reit 21 í skattframtali hans árið 2003 lán frá X ehf. að fjárhæð 4.526.571 kr. Í úrskurði sínum rakti skattstjóri fyrri bréfaskipti í málinu og ítrekaði tilvísun til ákvæða 3. mgr. 1. tölul. og 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og 79. gr. laga nr. 138/1994. Kvaðst skattstjóri telja að lán kæranda frá X ehf. félli undir framangreind ákvæði. Vegna athugasemda umboðsmanns kæranda um endurgreiðslu lánsins tók skattstjóri fram að endurgreiðslan hefði ekki áhrif á þá staðreynd að kærandi hefði fengið lán frá félaginu sem í árslok 2002 hefði numið 4.526.571 kr. Samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994 hefði lánveitingin verið óheimil og bæri því samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 að telja lánið til skattskyldra tekna kæranda.

II.

Með kæru, dags. 9. september 2005, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 25. júlí 2005, til yfirskattanefndar. Í kærunni er greint frá málavöxtum. Fram kemur að annars vegar hafi myndast skuld kæranda við X ehf. á árinu 2002 að fjárhæð 1.440.000 kr. vegna ofgreiddra launa sem hafi verið leiðrétt og hins vegar hafi kærandi tekið lán hjá félaginu á því ári 3.086.572 kr. Ítrekað er að skuld kæranda við X ehf. hafi lækkað milli áranna 2002 og 2003. Þá hafi kærandi með kerfisbundnum hætti verið að greiða lánið niður. Nánar kemur fram í kærunni að hluti umræddrar „skuldar“ kæranda við X ehf. sé til kominn vegna þess að launagreiðslur til kæranda í formi reiknaðs endurgjalds hafi verið hærri en félagið hafi getað staðið undir og því hafi verið gripið til þess ráðs að lækka launagreiðslurnar með afturvirkum hætti. Hafi verið um ráðstafanir að ræða sem hafi verið liður í því að halda rekstri félagsins gangandi og naumast um lán að ræða. Að öðru leyti sé um að ræða eftirstöðvar á viðskiptamannareikningi kæranda. Það vekti athygli að skattstjóri hafi ekki að neinu leyti grennslast fyrir um þau viðskipti sem legið hafi að baki viðskiptareikningi kæranda og virðist sem skattstjóri hafi gefið sér þá forsendu að um hreinar peningaúttektir hafi verið að ræða. Að þessu leyti verði að gera athugasemdir við málsmeðferð skattstjóra, enda geti málið vart talist nægjanlega upplýst. Vegna endurgreiðslna kæranda á skuld sinni við X ehf. hafi þess verið krafist á skattstjórastigi málsins að fallið yrði frá hinni kærðu tekjufærslu eða til vara að tekjufærð fjárhæð yrði lækkuð. Séu þær kröfur ítrekaðar fyrir yfirskattanefnd. Talsverðir hagsmunir séu í húfi fyrir kæranda þar sem ákvörðun skattstjóra hafi haft í för með sér verulega hækkun gjalda, m.a. vegna lækkunar barnabóta, en kærandi sé einstæður þriggja barna faðir. Sé þess því aðallega krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt, en til vara að tekjufærsla skattstjóra verði lækkuð umtalsvert eða sem nemi fjárhæð greiðslna kæranda sem komið hafi til lækkunar á skuld hans við X ehf. í árslok 2003 eða samtals 1.067.378 kr. Þá sé þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Kærunni fylgir yfirlit málskostnaðar þar sem fram kemur að kostnaður kæranda af rekstri málsins nemi samtals 61.425 kr. án virðisaukaskatts vegna 6,25 klst. vinnu umboðsmanns kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 4. nóvember 2005, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. nóvember 2005, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. áður 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst til arðs af hlutum og hlutabréfum í félögum, sem um ræðir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, auk venjulegrar arðgreiðslu, „sérhver afhending verðmæta til hlutareiganda eða hluthafa er telja verður sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu“. Arður af hlutum og hlutabréfum telst til skattskyldra tekna, sbr. 4. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Á það hefur reynt í nokkrum málum fyrir yfirskattanefnd hvort virða beri lánveitingar til hluthafa sem slíka afhendingu verðmæta sem um ræðir í 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981 (duldar arðgreiðslur). Eftir gildistöku 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, frá og með 1. janúar 1995, sem kveða á um fortakslaust bann við slíkum lánveitingum, enda sé ekki um venjuleg viðskiptalán að ræða, hefur komið til þess að slíkar greiðslur væru virtar sem tekjur af hlutareign samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 223/1999 og 264/2000. Þess ber að geta að forsenda niðurstaðna í úrskurðum þessum, miðað við þágildandi lagagrundvöll, var m.a. að endurgreiðslur hefðu ekki farið fram og að ekkert lægi fyrir um að endurgreiðslur væru ráðgerðar, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 267/2002 sem birtur er á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is).

Með lögum nr. 133/2001, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og fleiri lögum urðu verulegar breytingar á skattareglum um þessi efni. Með b-lið 3. gr. greindra laga var nýrri málsgrein bætt við 9. gr. laga nr. 75/1981, þar sem fjallað var um skattlagningu arðs, sem varð 2. mgr. greinarinnar, sbr. nú 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003. Kemur fram í 2. mgr. greinarinnar að úthlutun verðmæta samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar til hluthafa eða hlutareiganda sem jafnframt er starfsmaður félags, eða tengds félags, teljist vera laun samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. ef hún er óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða lögum um einkahlutafélög. Ef úthlutun til annarra en starfsmanna sé óheimil samkvæmt lögum um hlutafélög eða einkahlutafélög skuli skattleggja úthlutunina sem tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. Ef slík úthlutun eigi sér stað til sameignarfélags, þar sem einn sameigenda sé hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins sem úthlutar verðmætum, skuli úthlutunin teljast til tekna hjá honum samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. Með b-lið 2. gr. laga nr. 133/2001 var jafnframt bætt nýrri málsgrein við 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, sem varð 3. mgr. þess töluliðar, sbr. nú 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, þar sem fram kemur að lán til starfsmanna sem óheimil eru samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög teljist til tekna sem laun. Ennfremur var nýrri málsgrein bætt við 4. tölul. A-liðar sömu lagagreinar, sbr. c-lið 2. gr. laga nr. 133/2001, þess efnis að lán til hluthafa og stjórnarmanna sem óheimil séu samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög teljist til skattskyldra gjafa, sbr. nú 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

Um ástæður þessara breytinga kemur eftirfarandi fram í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sbr. þskj. 461 á 127. löggjafarþingi 2001-2002:

„Lagt er til að bætt verði við 2. og 3. gr. frumvarpsins ákvæðum þess efnis hvað skuli talið til tekna og skattskyldra gjafa, en skv. 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er óheimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félags eða móðurfélags lán eða setja tryggingu fyrir þá. Í skattframkvæmd mun nokkuð hafa borið á slíkum lántökum og tilhneiging virðist hafa verið til að úthluta fjármunum til eigenda í formi láns án þess að burðir séu í reynd til endurgreiðslu fyrr en skattstjóri gerir athugasemd við hina ólögmætu lánveitingu. Meiri hlutinn leggur því til að slík lán verði meðhöndluð í skattalegu tilliti með sama hætti og tíðkast í skattalöggjöf nágrannalandanna. Þá leggur meiri hlutinn til að á sama hátt og verði farið með úthlutun verðmæta úr félagi til starfsmanna þess ef úthlutunin fer í bága við lög um hlutafélög og lög um einkahlutafélög.“

Framangreind ákvæði breytingarlaga nr. 133/2001 öðluðust gildi 1. janúar 2002 og komu til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2003, sbr. 56. gr. laga nr. 133/2001.

Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, er hlutafélagi og einkahlutafélagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán eða setja tryggingar fyrir þá né aðilum sem eru tengdir þeim á nánar tilgreindan hátt. Undanskilin eru þó venjuleg viðskiptalán. Í athugasemdum við 82. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 137/1994, um breytingu á lögum nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum, en lög þessi voru endurútgefin sem lög nr. 2/1995, var tekið fram að greint ákvæði um bann við lánveitingum tæki til láns á peningum eða ígildi þeirra, t.d. í formi ávísana, víxla, skuldabréfa og hlutabréfa. Takmörkunin næði ekki til venjulegra viðskiptalána, t.d. greiðslukortaviðskipta, eða til lána til fyrirtækja sem væru hluthafar ef þau væru liður í viðskiptum og venjubundin bæði í fyrirtækinu og almennt í slíkum fyrirtækjum (Alþt. 1994, A-deild, bls. 810). Tekið er fram í 4. mgr. 104. gr. laga nr. 2/1995 og 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 að ef hlutafélag eða einkahlutafélag innir af hendi greiðslur í tengslum við ráðstafanir, sem andstæðar eru fyrrgreindum ákvæðum, skuli endurgreiða þær með dráttarvöxtum.

Með bréfi sínu til X ehf., dags. 22. janúar 2004, spurðist skattstjóri fyrir um lán til eiganda að fjárhæð 4.526.572 kr. sem tilgreint var í ársreikningi félagsins fyrir árið 2002 sem fylgdi skattframtali þess árið 2003. Í svarbréfi kæranda fyrir hönd X ehf., dags. 12. mars 2004, kom fram að annars vegar væri um að ræða skuld að fjárhæð 1.440.000 kr. vegna ofgreiddra launa til kæranda á árinu 2002 og hins vegar lán sem kærandi hefði tekið hjá félaginu á árinu 2002, en staða þess láns í árslok 2002 hefði numið 3.086.572 kr.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er tekið fram að hluti skuldar kæranda við X ehf. sé til kominn vegna afturvirkrar leiðréttingar á launagreiðslum til kæranda sem vart geti talist lán, enda hafi verið um að ræða ráðstafanir sem hafi verið liður í því að halda rekstri félagsins gangandi. Að öðru leyti sé um að ræða eftirstöðvar á viðskiptamannareikningi kæranda. Er fundið að því í kærunni að skattstjóri „[hafi] ekki að neinu leyti grennslast fyrir um það hvaða viðskipti liggi í raun að baki þessum reikningi en virðist gefa sér þær forsendur að þarna sé um hreinar peningaúttektir að ræða“, eins og segir í kærunni. Sé málsmeðferð skattstjóra því ábótavant, enda geti málið vart talist nægilega upplýst fyrir vikið. Af þessu tilefni skal tekið fram að hvorki í bréfi kæranda f.h. X ehf. til skattstjóra, dags. 12. mars 2004, né í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 2. maí 2005, kom neitt fram þess efnis að skuld kæranda við X ehf. væri að einhverju leyti til komin vegna viðskipta kæranda við félagið. Þvert á móti kom fram í bréfi kæranda vegna X ehf. til skattstjóra, dags. 12. mars 2004, að um væri að ræða lán sem kærandi hefði tekið hjá X ehf. á árinu 2002 sem staðið hefði til að greiða upp innan ársins og að útbúinn hefði verið viðskiptareikningur kæranda við félagið þar sem lánið hefði verið fært. Hið sama kom fram í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 2. maí 2005. Verður því ekki talið að neitt tilefni hafi verið til þess fyrir skattstjóra, eins og skýringar kæranda lágu fyrir honum, að huga sérstaklega að færslum á skuld kæranda við X ehf. eða hreyfingum á greindum viðskiptareikningi í bókhaldi félagsins. Þá gaf reikningsyfirlit úr bókhaldi X ehf. fyrir árið 2003, þ.e. „reikningsyfirlit lánardrottins“ vegna kæranda, sem fylgdi bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 2. maí 2005, ekkert tilefni til slíkrar athugunar af hendi skattstjóra. Verður því ekki fallist á með umboðsmanni kæranda að málsmeðferð skattstjóra hafi verið áfátt að þessu leyti. Að því er snertir þann hluta skuldar kæranda við X ehf. sem er til kominn vegna ofgreiddra launa er til þess að líta að um þetta liggur ekki annað fyrir en sem fram kom í bréfi kæranda f.h. X ehf. til skattstjóra, dags. 12. mars 2004, þ.e. að í ljósi afkomu félagsins hefði í árslok 2002 verið tekin ákvörðun um að kærandi myndi kerfisbundið endurgreiða hin ofgreiddu laun. Miðað við þessar skýringar kæranda verður að líta svo á að um sé að ræða sérstakan gerning um lánveitingu X ehf. til kæranda á andvirði ofgreiddra launa, enda verður að ganga út frá því í samræmi við almennar reglur að hin ofgreiddu laun hafi verið gjaldkræf frá þeim tíma þegar í ljós kom að ofgreiðsla hafði átt sér stað. Fyrir liggur og að umrædd fjárhæð var tilgreind sem lán í ársreikningi X ehf. fyrir árið 2002.

Ljóst er og óumdeilt að umræddar greiðslur X ehf. til kæranda á árinu 2002 voru ekki lögmæt úthlutun af fjármunum félagsins, sbr. 73. gr. laga nr. 138/1994. Með vísan til þess og samkvæmt því sem að framan greinir verður að telja að hinar umdeildu greiðslur X ehf. til kæranda á árinu 2002 að fjárhæð samtals 4.526.572 kr. teljist að öllu leyti vera lán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, eins og skýra verður ákvæðið með hliðsjón af lögskýringargögnum, sbr. hér að framan. Kærandi er framkvæmdastjóri og stjórnarmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu. Af því leiðir að umræddar greiðslur einkahlutafélagsins til kæranda voru ekki heimilar að lögum sem lánveitingar til hans, enda þykir vafalaust að ekki var um venjuleg viðskiptalán að ræða, sbr. fyrrgreint ákvæði. Samkvæmt þessu ber að telja kæranda greiðslurnar til tekna sem laun í skattframtali hans árið 2003, sbr. 3. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, enda verður að skýra ákvæði 3. mgr. 1. tölul. og 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laganna til samræmis og með hliðsjón af 2. mgr. 11. gr. sömu laga þannig að skattleggja beri óheimila lánveitingu hlutafélags eða einkahlutafélags til hluthafa, sem jafnframt er starfsmaður félagsins, sem launatekjur hans samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna, svo sem skattstjóri hefur miðað við. Vegna athugasemda í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar um endurgreiðslur kæranda á árinu 2003, sbr. og varakröfu í kærunni, skal tekið fram að eftir þær breytingar á skattareglum um óheimilar lánveitingar til hluthafa og stjórnenda með lögum nr. 133/2001, sem gerð er grein fyrir hér að framan, er ótvírætt að endurgreiðslur slíkra lána hafa ekki þýðingu varðandi þá skattlagningu sem lögin mæla fyrir um í þessum tilvikum, enda eru ákvæði 2. og 3. gr. laga nr. 133/2001 fortakslaus að þessu leyti, sbr. nú 3. mgr. 1. tölul. og 2. mgr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2003 og fyrrgreind lögskýringargögn.

Samkvæmt framansögðu verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja