Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 25/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður 5. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 11. desember 1991, tilkynnti skattstjóri kærendum að fyrirhugað væri að gera þá breytingu á skattframtali þeirra gjaldárið 1991 að fella niður í reit 87 vaxtagjöld 402.831 kr. vegna íbúðarkaupa og færa í reit 88, enda mynduðu aðeins vaxtagjöld af lánum, er tekin væru vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, stofn til vaxtabóta. Skattstjóri vísaði til þess að kærendur hafðu ekki verið skráðir til lögheimilis að X, á árinu 1990. Ekki barst svar við bréfi þessu og hinn 15. janúar 1992 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 1991 m.a. af fyrrgreindum sökum. Umboðsmaður kærenda mótmælti breytingu skattstjóra í kæru, dags. 21. janúar 1992. Vísaði hann til 5. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er kvæði á um, að réttur til vaxtabóta stofnaðist á því ári þegar íbúðarhúsnæði til eigin nota væri keypt eða bygging þess hæfist. Hélt umboðsmaðurinn því fram að í þessum efnum skipti lögheimili ekki máli. Kærendur ættu lögheimili á þessum stað nú og hlytu því að teljast hafa keypt íbúðarhúsnæðið til eigin nota, þótt ekki hefði það orðið íbúðarhæft fyrr en á árinu 1990.

Áður en skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði krafði hann kærendur með bréfi, dags. 19. febrúar 1992, um upplýsingar um notkun íbúðarinnar að X, á árunum 1989 og 1990. Vísaði skattstjóri til þess að kærendur hefðu keypt íbúðina 13. ágúst 1989 og fengið afhenta samdægurs. Íbúðin virtist ekki hafa verið nýtt til eigin íbúðar árin 1989 og 1990, þar sem kærandi, A, hefði átt lögheimili að Y, og kærandi, B, flutt þangað úr D 24. apríl 1990. Í svarbréfi, dags. 2. mars 1992, gerðu kærendur grein fyrir ástæðum þess að ekki hefði reynst kleyft að nýta eignina til íbúðar strax m.a. vegna viðgerða. Þá var gerð grein fyrir lögheimilisskráningu. Með kæruúrskurði, dags. 16. mars 1992, synjaði skattstjóri kröfum kærenda á þeim forsendum að af framtalsgögnum kærenda yrði ekki ráðið að íbúðarhúsnæði þeirra að X, hefði verið nýtt í eigin þágu á árinu 1990 og þrátt fyrir áskorun skattstjóra hefðu kærendur ekki sýnt fram á að íbúðin hefði verið nýtt í eigin þágu.

II.

Með bréfi, dags. 19. mars 1992, skaut umboðsmaður kærenda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst hann þess að breytingum skattstjóra verði hrundið og kærendum ákvarðaðar vaxtabætur, enda hafi íbúðin verið keypt til eigin nota. Það sé sannað, þar sem skattstjóri sendi öll sín bréf til kærenda á heimilisfang þeirra að X. Vísar umboðsmaðurinn sem áður til 5. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

III.

Með bréfi, dags. 29. maí 1992, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Yfirskattanefnd fjallar um mál þetta samkvæmt 23. gr. laga nr. 30/1992.

Skattstjóri hefur byggt hina umdeildu niðurfellingu vaxtagjalda í reit 87 á því, að kærendur hafi ekki sýnt fram á að umrædd íbúð hafi verið til eigin nota á árinu 1990, sbr. áskilnað C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þegar litið er til málsatvika og framkominna skýringa kærenda í máli þessu þykja engin efni til þess að draga í efa að þau uppfylli fyrrgreind lagaskilyrði. Er krafa þeirra því tekin til greina.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja