Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Aksturssamningur

Úrskurður nr. 38/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul., 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að í reit 22 í skattframtali sínu árið 1990 færði kærandi sér til tekna ökutækjastyrk 297.496 kr. frá vinnuveitanda sínum, X. Til frádráttar í reit 32 sem kostnað á móti ökutækjastyrknum færði kærandi 217.308 kr. Í greinargerð um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur (RSK 3.04), sem fylgdi skattframtali kæranda, kom fram að heildarakstur nam 29.000 km og þar af taldi kærandi akstur í þágu vinnuveitanda hafa numið 18.200 km. Kostnað vegna þess aksturs færði kærandi til frádráttar í framtali sínu. Akstur til og frá vinnu taldi kærandi hafa verið 4.800 km og annan akstur í eigin þágu 6.000 km.

Með bréfi, dags. 22. maí 1990, krafði skattstjóri kæranda skýringa og upplýsinga um ökutækjastyrkinn og ákvörðun hans, þar á meðal um akstur og aksturstilefni í þágu vinnuveitanda. Þá tók skattstjóri fram að sérgreinda greiðslu vegna ferða úr og í vinnu (rútupeninga) bæri að færa með launum. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 1. júní 1990, og lagði fram gögn, þar á meðal ljósrit af aksturssamningi. Gerði kærandi grein fyrir störfum sínum … og akstursþörfum í því starfi. Taldi hann beinan akstur í tengslum við starfið nema 14.276 km á ári. Þá vildi kærandi telja hluta af akstri milli heimilis og vinnustaðar í þágu starfsins eða 2.000 km af 4.752 km. Kærandi féllst á athugasemd skattstjóra varðandi rútupeninga. Hinn 26. júlí 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda að rútupeningar 34.400 kr. færðust í reit 21 og ökutækjastyrkur í reit 22 yrði 263.096 kr. Þá væri frádráttur í reit 32 lækkaður í 84.057 kr. og væri í þeim efnum miðað við aksturssamning, enda hefði kærandi ekki gert sennilegt að akstur í þágu launagreiðanda væri jafnmikill og tilgreint væri í greinargerð kæranda.

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 27. ágúst 1990, og krafðist hann þess að frádráttur í reit 32, 217.308 kr., yrði látinn standa óraskaður. Kærandi bar fyrir sig að umræddur aksturssamningur hefði verið gerður við hann þegar hann var bókari hjá X og miðaðist við minni akstursþarfir í starfi. Greinargerð (RSK 3.04) miðaðist við akstur eins og hann væri nú. Kærandi benti og á akstursskyldur í þágu vinnuveitanda samkvæmt aksturssamningi. Með kæruúrskurði, dags. 17. desember 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, enda kæmi ekkert fram í kæru sem ekki hefði legið fyrir þegar hin kærða breyting var ákveðin.

Með kæru, dags. 13. janúar 1991, skaut kærandi kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og skírskotar hann til kæru sinnar, rökstuðnings og gagna við meðferð málsins á skattstjórastigi.

Með bréfi, dags. 21. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kærandi krefst þess í máli þessu að frádráttur í reit 22 verði látinn óbreyttur standa frá því sem hann færði í framtali. Sú frádráttarfjárhæð miðast við meiri akstur í þágu vinnuveitanda en kærandi telur sig hafa ekið, sbr. svarbréf hans til skattstjóra, dags. 1. júní 1990. Skattstjóri hefur miðað frádráttarfjárhæð við þann kílómetrafjölda sem tilgreindur er í aksturssamningi kæranda við vinnuveitanda og er ekki um það deilt að ekki sé gert ráð fyrir meiri akstri samkvæmt gildandi samningi. Það þykir bera undir kæranda að sýna fram á að honum beri frádráttur kostnaðar vegna meiri aksturs en samningur tiltekur. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á slíkt. Að svo vöxnu verður að synja kærunni.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Álögð opinber gjöld gjaldárið 1990 standi óbreytt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja