Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði
  • Frestun á skattlagningu söluhagnaðar
  • Kaupsamningur, riftun

Úrskurður nr. 42/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 16. gr. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að kærandi seldi íbúð að X, á árinu 1987, ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni. Söluhagnaður nam alls 818.920 kr. og var hlutdeild kæranda í söluhagnaði þessum helmingur hans eða 409.460 kr. Fór kærandi fram á frestun á skattlagningu hagnaðarins samkvæmt heimild 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. bréf kæranda til skattstjóra, dags. 12. apríl 1989. Með bréfi, dags. 26. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda að söluhagnaður þessi, er næmi framreiknaður 593.020 kr., hefði verið færður honum til tekna í reit 77 í skattframtali árið 1990 með því að kærandi hefði ekki enn aflað annars íbúðarhúsnæðis. Kærandi lagði fram kæru, dags. 9. ágúst 1990, og andæfði skattlagningunni. Lagði hann fram samkomulag sitt og A sf., dags. 5. desember 1989, um riftun kaupsamnings, dags. 15. júní 1988, um íbúð að B, vegna vanefnda sinna. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 19. nóvember 1990. Sagði svo í úrskurði þessum:

„Kaupsamningur yðar og A sf. um B varð í reynd aldrei virkur þar sem hann var ógiltur með riftun. Því hefir sá samningur engin áhrif á heimild til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar. Þér selduð íbúð yðar 1987 og heimilt var að fresta skattlagningu yfir tvenn áramót. Þar sem samningur yðar um kaup á B var ógiltur höfðuð þér ekki fest kaup á öðru íbúðarhúsnæði hinn 31.12.1989 er frestunarheimild rann út, þannig að ekki verður framhjá því komist að skattleggja hinn frestaða söluhagnað skv. framtali yðar 1990.“

Kærandi skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. nóvember 1990. Mótmælir hann skattlagningu söluhagnaðarins. Telur hann að byggja beri á því að með kaupum á íbúðarhúsnæði að B, hafi hann uppfyllt skilyrði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi endurfjárfestingu í íbúðarhúsnæði þó svo að kaupunum hafi verið rift á árinu 1989.

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. - Riftun kaupsamnings hefur sömu áhrif og ef kaupsamningur hefði aldrei komist á. - Ekki er hægt að leyfa frestun skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981 þar sem kærandi hefur þegar fengið frestun á skattlagningu söluhagnaðar um tvenn áramót.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Fyrir liggur í málinu samkomulag kæranda og A sf., dags. 5. desember 1989, um riftun kaupsamnings, dags. 15. júní 1988, um íbúð að B, vegna vanefnda kæranda, er hefur og að geyma uppgjör milli aðila út af því að kaupin gengu af þessum sökum til baka. Verður því ekki á það fallist með kæranda að hann hafi með kaupum þessum uppfyllt skilyrði 2. mgr. 16. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um endurfjárfestingu í íbúðarhúsnæði innan þargreindra tímamarka.

Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja