Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 44/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður 3. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að kærendur færðu í reit 87 í skattframtali sínu árið 1990 vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa 1.907.137 kr.

Meðal vaxtagjalda voru færðar uppreiknaðar verðbætur við sölu, 1.259.109 kr., og vaxtagjöld af víxilskuldum við A hf., 327.739 kr., og Sparisjóð D, 62.990 kr. Með bréfi, dags. 7. maí 1990, krafði skattstjóri kærendur um upplýsingar um kaupár íbúðarhúsnæðis að X, og á hvaða byggingarstigi eignin hefði verið við kaupin. Húsnæði þetta seldu kærendur 8. maí 1989. Þá krafðist skattstjóri upplýsinga um fyrrnefndar víxilskuldir og skýringa á því hvernig skuldir þessar tengdust öflun íbúðarhúsnæðis. Varðandi verðbætur þá tók skattstjóri fram að gjaldfærsla þeirra til útreiknings vaxtabóta væri óheimil, sbr. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Ekki barst svar við bréfi þessu. Hinn 26. júlí 1990 tilkynnti skattstjóri kærendum um eftirfarandi breytingar á vaxtagjöldum til ákvörðunar á vaxtabótum: 1) Vaxtagjöld af lánum teknum 1987 og 1988 væru færð í reit 88, þar sem ekki yrði annað séð en tímamörk vegna þessara skulda væru liðin (þ.e. vegna fasteignarinnar X), sbr. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. 2) Áfallnar uppsafnaðar verðbætur, samtals 1.259.109 kr., væru felldar úr reit 87, sbr. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. 3) Felld væru niður vaxtagjöld af víxilskuldum, 327.739 kr. og 62.990 kr., í reit 87 og færð í reit 88 með því að ekkert svar hefði borist varðandi skuldir þessar.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 20. ágúst 1989 (sic). Með bréfi, dags. 15. október 1990, í framhaldi af kærunni fylgdi ljósrit makaskiptasamnings frá 12. febrúar 1983 vegna kaupa á X, þar sem fram kom byggingarstig hússins. Þá fylgdu kvittanir og tekið var fram að víxillánin hefðu verið tekin vegna tímabundinna erfiðleika við greiðslu annarra fjárskuldbindinga.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 19. desember 1990. Hafnaði hann kröfu kærenda á svohljóðandi forsendum:

„Innsent ljósrit af makaskiptasamningi sýnir að fasteign yðar að X, var keypt á árinu 1983 og eru vaxtagjöld af lánum þeim er stofnað var til á árunum 1987-1988 því eigi innan gildandi tímamarka sbr. 1. tl. 3. mgr. c-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 og leyfast vextir þeirra lána kr. 212.995 því eigi til útreiknings vaxtabóta.

Í kæru kemur fram að meðfylgjandi séu gögn varðandi uppsafnaðar verðbætur kr. 1.259.109 vegna láns við byggingarsjóð ríkisins. Engin slík gögn fylgdu kæru og falla vaxtagjöld að fullu niður.

Með fyrirspurnarbréfi skattstjóra B-umdæmis dags. 7. maí sl. var meðal annars óskað skýringa á því hvernig víxilskuldir við Sparisjóð D og A hf. tengdust öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Jafnframt var óskað eftir sundurliðun á skuldum þessum, kvittanir vegna vaxtagjalda til A hf. óskuðust sendar og upplýsingar um hvort skuld kæranda við A hf. væri tilkomin vegna bifreiðakaupa þar sem eigi yrði séð að um fjárþörf á árinu væri að ræða varðandi öflun íbúðarhúsnæðis.

Í kæru kemur fram að víxillánin hafa verið tekin vegna tímabundinna erfiðleika við greiðslu annarra lána en þó eigi vegna bifreiðakaupa. Umbeðnar kvittanir vegna lánanna sýna að kr. 20.400 voru vegna lokagreiðslu vegna kaupa bifreiðar. Eigi kemur fram ástæða annarra greiðslna. Með vísan til 1. tl. 3. mgr. c-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981 verður eigi séð að lántökur þessar séu vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og vaxtagjöld vegna umræddra lána kr. 390.729 leyfast því eigi til útreiknings vaxtabóta.“

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. janúar 1991. Krafist er fullra vaxtabóta á grundvelli gagna og skýringa. Því er mótmælt að gögn um áfallnar, uppreiknaðar verðbætur hafi ekki fylgt. Ljósrit af kaupsamningnum hefði fylgt kæru, þar sem staða lána við yfirtöku kæmi fram, sbr. og eyðublöð RSK 3.02. Þá er mótmælt ályktun skattstjóra og niðurstöðu varðandi vaxtagjöld af víxillánum.

Með bréfi, dags. 7. júní 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Samkvæmt breytingum skattstjóra lækkuðu vaxtagjöld í reit 87 úr 1.907.137 kr. í 44.304 kr. Leiddu breytingar skattstjóra til þess að kærendum voru ekki ákvarðaðar vaxtabætur. Breytingar skattstjóra á tilfærðum vaxtagjöldum eru þríþættar og verður nú vikið að einstökum þáttum:

1. Skattstjóri felldi niður vaxtagjöld samtals 212.995 kr. af skuldum við Sparisjóð D og Búnaðarbankann á þeim forsendum að lánin hefðu verið tekin árin 1987-1988 og væru því ekki innan þeirra tímamarka sem greinir í 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sbr. það sem áður hefur fram komið um kaupár eignarinnar. Þessa breytingu framkvæmdi skattstjóri með bréfi sínu, dags. 26. júlí 1990, án þess að nokkuð hefði verið að lánum þessum vikið í bréfi hans, dags. 7. maí 1990. Þannig hefur eigi verið gætt ákvæða 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 við breytingu þessa. Að þessu virtu og með vísan til þess að skattstjóri hefur fallist á vaxtagjöld af lánum þessum til ákvörðunar vaxtaafsláttar gjaldárið 1989 er krafa kærenda tekin til greina varðandi þennan þátt kærunnar.

2. Á það er út af fyrir sig fallist með skattstjóra að kærendur hafi ekki gert nægilega skilmerkilega grein fyrir áföllnum verðbótum af lánum er yfirtekin voru af kaupanda hinnar seldu eignar, þótt sýnt þyki að um slíkar verðbætur hafi verið að ræða að því er varðar kærendur. Skattstjóri vefengdi hinsvegar þennan lið á þeim grundvelli að lagaheimild skorti, sbr. lokamálslið 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og ákvæði þessu var breytt með 9. gr. laga nr. 117/1989. Með ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 112/1990, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, var mælt svo fyrir að breytingar 9. gr. laga nr. 117/1989 á lokamálslið 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981 er girtu fyrir að verðbætur slíkar, sem hér um ræðir, teldust til vaxtagjalda hjá seljanda, tækju ekki til þeirra er selt hefðu íbúðarhúsnæði á árinu 1989. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er breyting skattstjóra felld úr gildi varðandi þennan lið.

3. Kærendur þykja ekki hafa sýnt fram á að vaxtagjöld af víxlum þeim, sem í málinu greinir, uppfylli lagaskilyrði vaxtagjalda vegna íbúðarkaupa. Er kröfu þeirra því synjað varðandi þetta kæruatriði.

Samkvæmt framangreindu ákvarðast vaxtagjöld í reit 87 samtals 1.516.408 kr. Að teknu tilliti til ákvæða 2. ml. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, takmarkast vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtabóta við 650.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Vaxtagjöld í reit 87 ákvarðast 1.516.408 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja