Úrskurður yfirskattanefndar
- Vaxtabætur
- Greiðsluerfiðleikalán
Úrskurður nr. 118/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður
I.
Málavextir eru þeir að kærendur færðu vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa 323.756 kr. í reit 87 í skattframtali sínu árið 1991, sbr. greinargerð um vaxtagjöld af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis (RSK 3.09), er fylgdi skattframtalinu. Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 4. apríl 1991, og að fengnu svarbréfi kærenda, dags. 11. apríl 1991, tilkynnti skattstjóri kærendum að vaxtagjöld af lánum í reit 87 hefðu verið lækkuð um 251.460 kr. og færð í reit 88 á þeim forsendum að ekki hefði verið sýnt fram á að lán, sem tekin hefðu verið árið 1986 og síðar, þ.e. eftir að meira en 7 ár væru liðin talið frá og með byggingarári, uppfylltu skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
Í kæru, dags. 21. ágúst 1991, gerðu kærendur grein fyrir nokkrum lána þessara. Um var að ræða 3 lán frá Byggingarsjóði ríkisins sem tekin voru á árunum 1986-1988 samtals að fjárhæð 1.050.000 kr. (greiðsluerfiðleikalán). Gátu kærendur þess að lánum þessum hefði verið ráðstafað beint til greiðslu á húsnæðislánum bæði hjá ríkinu og lífeyrissjóði. Þá viku kærendur að lánum frá Sparisjóði X samtals 810.000 kr., er tekin voru árin 1988-1989, og gátu þess að það hefði verið skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikalánunum að Sparisjóðurinn breytti lánum sínum og lengdi lánstíma. Með kæruúrskurði, dags. 5. júní 1992, synjaði skattstjóri kröfu kærenda að því er varðaði vaxtagjöld af lánum sem tekin voru 1986 og síðar. Í úrskurði skattstjóra sagði:
„Bygging íbúðarhúsnæðis kæranda hófst skv. fyrirliggjandi gögnum á árinu 1979 og var tekið í notkun á árinu 1983.
Lán hjá Byggingarsjóði ríkisins frá árinu 1985 er því tekið innan 7 ára frá upphafsári byggingar og er þess vegna fallist á að vaxtagjöld af því teljist með þeim vaxtagjöldum sem mynda stofn til útreiknings vaxtabóta. Í greinargerð um vaxtagjöld eru lán hjá Byggingarsjóði ríkisins frá árunum 1985, 1986 og 1988 færð í einu lagi og ekki liggur því fyrir hver er rétt fjárhæð vaxta og verðbóta af láni frá 1985. Vaxtagjöld af því láni eru því áætluð kr. 8.000.
Hvorki hafa verið lögð fram gögn sem sýna að skuldum sem stofnað var til á árunum 1986, 1988 og 1989 hafi verið varið til skuldbreytinga eða greiðslu vanskila af lánum sem stofnað var til á fyrstu 7 árum talið frá og með upphafsári byggingar, né verður ráðið af greinargerðum um vaxtagjöld sem fylgja skattframtölum að svo hafi verið. Með kæru fylgir yfirlýsing Sparisjóðs X þar sem staðfest er að lánum nr. 28208 og nr. 27941 hjá Sparisjóðnum (frá árunum 1988 og 1989) hafi verið ráðstafað til íbúðarhúsbyggingar enda hafi verið til þess lánað.
Til vaxtagjalda sem mynda stofn til útreiknings vaxtabóta teljast (aðeins) vaxtagjöld af lánum sem tekin hafa verið til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. 69. gr. C í lögum nr. 75/1981.
Eftir að liðin eru meira en 7 ár, talið frá og með því ári sem bygging hófst eða allt frá því ári er íbúðarhúsnæði er tekið í notkun ef nýbygging tekur lengri tíma en 7 ár er einungis heimilt að telja til vaxtagjalda í þessu sambandi vaxtagjöld af fasteignaveðlánum og lánum hjá lánastofnunum með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára sem sannanlega hafa verið notuð til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.“
Af hálfu kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. júní 1992. Ítreka kærendur skýringar sínar varðandi ráðstöfun greiðsluerfiðleikalána frá Byggingarsjóði ríkisins. Þá víkja kærendur að lántöku hjá Sparisjóði X 510.000 kr. á árinu 1988 og kveða þá lánveitingu tilkomna vegna óska frá Byggingarsjóði ríkisins um að tilgreindum þremur lánum hjá sparisjóðnum yrði breytt í eitt lán. Vísa kærendur til staðfestingar Sparisjóðs X, dags. 13. ágúst 1990, varðandi ráðstöfun láns 300.000 kr., er tekið var 1989, til íbúðarhúsbyggingar.
Með bréfi, dags. 12. ágúst 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kærenda.“
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Skilja verður málatilbúnað kærenda svo að þau krefjist þess að vaxtagjöld af lánum teknum hjá Byggingarsjóði ríkisins á árunum 1986-1988 og Sparisjóði X árin 1988 og 1989 verði látin standa í reit 87 en að ekki sé gerð athugasemd við aðrar breytingar skattstjóra á vaxtagjöldum. Samkvæmt þessu krefjast kærendur þess að vaxtagjöld í reit 87 verði 200.460 kr. Að því virtu sem upplýst er um nefnd lán í málinu og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir mega taka kröfu kærenda til greina.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kærenda í máli þessu.