Úrskurður yfirskattanefndar
- Álag á virðisaukaskatt
Úrskurður nr. 125/1992
Virðisaukaskattur 1990
Lög nr. 50/1988, 18. gr. 1. mgr., 27. gr. 1., 2. og 6. mgr. Reglugerð nr. 501/1989, 22. gr., 23. gr., 24. gr. og 25. gr.
I.
Kæruefnið er ákvörðun skattstjóra um álag á vangreiddan virðisaukaskatt kæranda vegna uppgjörstímabilsins september - 15. nóvember 1990.
Málavextir eru þeir að samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir framangreint uppgjörstímabil var útskattur 8.282.291 kr. og innskattur 5.031.500 kr. Kærandi greiddi virðisaukaskatt samkvæmt skýrslunni, 3.250.791 kr., á gjalddaga 5. desember 1990.
Með bréfi, dags. 15. apríl 1991, sem áritað er móttekið af skattstjóra 2. maí 1991, gerði umboðsmaður kæranda grein fyrir því að við afstemmingu á virðisaukaskatti fyrir árið 1990 hafi komið í ljós þau mistök að innskattur fyrir tímabilið júlí-ágúst 1990 hefði einnig verið talinn til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu fyrir tímabilið september - 15. nóvember 1990. Er því lýst að við uppgjör virðisaukaskatts sé prentaður út hreyfingalisti innskattslykla fyrir tímabilið og saldótala tímabilsins höfð til grundvallar við gerð skýrslu. Síðan séu niðurstöðutölur inn- og útskattslykla millifærðar yfir á uppgjörsreikning virðisaukaskatts. Þegar þessi millifærsla hafi verið gerð vegna júlí-ágúst 1990 hafi kreditfærsla innskatts ekki verið færð á réttan lykil og bættist sú fjárhæð við innskatt vegna tímabilsins september - 15. nóvember 1990. Síðan segir í bréfi umboðsmanns:
„Vegna mikils vinnuálags bókara og óvenju skamms tíma frá lokum uppgjörstímabils til greiðslu skattsins, slapp þessi villa í gegn en við förum vinsamlegast fram á að ekki verði beitt álagi að þessu sinni með tilliti til aðstæðna sem reynt hefur verið að lýsa í þessu bréfi.“
Með bréfi þessu fylgdi útprentun á hreyfingalista innskatts úr bókhaldi. Þá fylgdi óundirritað samanburðarblað virðisaukaskatts (RSK 10.26) og virðisaukaskattsskýrslur fyrir tímabilin september - 15. nóvember og 16. nóvember - 31. desember 1990, einnig án undirritunar. Bera skýrslurnar áritunina: „Leiðr. v/fyrri skýrslu.“ Samkvæmt skýrslu fyrir fyrrnefnda tímabilið, sem hér skiptir ein máli, er neikvæður innskattur 743.584 kr. og sama fjárhæð til greiðslu.
Með tilkynningu, dags. 9. júlí 1991, ákvarðaði skattstjóri kæranda lækkun innskatts fyrir september - 15. nóvember 1990 um 743.584 kr. og ákvarðaði honum jafnframt álag að fjárhæð 148.717 kr. Ekki var í tilkynningu þessari sérstaklega vikið að þeim óskum sem fram höfðu komið af hálfu kæranda um niðurfellingu álags.
Næst gerðist það í málinu að skattstjóri kvað upp úrskurð, dags. 2. ágúst 1991, „í tilefni af kæru X hf. [kæranda] á álögðu álagi á virðisaukaskatt fyrir virðisaukaskattstímabilið 1. sept. til 15. nóv. 1990, sem fram kemur í bréfi félagsins dagsettu 15.04.1991, mótteknu á skattstofu Reykjavíkur 02.05.1991“. Var það niðurstaða skattstjóra samkvæmt úrskurði þessum að skýringar kæranda á ranglega tilgreindum innskatti þættu ekki gildar málsbætur skv. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, enda bæri framlagður hreyfingalisti innskattsreiknings með sér að reikningnum hafi ekki verið lokað að liðnu júlí-ágúst tímabili þrátt fyrir skyldu þar um skv. 25. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Kærandi hefur með bréfi umboðsmanns síns, dags. 30. ágúst 1991, kært úrskurð skattstjóra til ríkiskattanefndar. Í kæru er því mótmælt sem fram komi í úrskurði skattstjóra að ekki hafi verið fylgt fyrirmælum 25. gr. reglugerðar nr. 501/1989 um lokun virðisaukaskattsreikninga. Hins vegar hafi lokunin ekki verið bókuð rétt og villan ekki uppgötvast fyrr en farið var að vinna í ársuppgjöri fyrir kæranda.
Með bréfi, dags. 29. júní 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra. Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að þær ástæður sem raktar eru í kærubréfi nægi til að fella niður álag skv. 2. mgr. 27. gr. virðisaukaskattslaga.“
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Rétt hefði verið af skattstjóra að taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til rökstuddrar úrlausnar samhliða tilkynningu um endurákvörðun.
Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er boðið að skattskyldur aðili skuli sæta álagi til viðbótar virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu ef skatturinn er ekki greiddur á tilskildum tíma. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Fram kemur í málinu af kæranda hálfu að vangreiðsla hans hafi stafað af mistökum starfsmanna hans við færslu á bókhaldsreikninga fyrir þær fjárhæðir er færa skal á virðisaukaskattsskýrslu, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og 22.-25. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Er hér um að ræða atriði er kærandi einn ber ábyrgð á, en verða ekki að neinu leyti kennt utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Þykja skýringar kæranda í þessu máli ekki geta leyst hann undan greiðslu álags skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.