Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Bensínstyrkur

Úrskurður nr. 171/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 67/1971, 12. gr. 2. mgr.   Lög nr. 75/1981, 29. gr. 1. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að skattstjóri færði kæranda til tekna greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins 37.770 kr., sbr. endurákvörðun skattstjóra, dags. 26. febrúar 1991, á áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1990. Í kæru, dags. 9. mars 1991, mótmælti umboðsmaður kæranda skattlagningunni og tók fram að umrædd greiðsla væri bensínstyrkur til að mæta auknum akstri er leiddi af hjartasjúkdómi kæranda. Því væri litið á greiðslu þessa sem hreina endurgreiðslu á útlögðum kostnaði. Með kæruúrskurði, dags. 2. apríl 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með því að ekki væri að finna í skattalögum heimildir fyrir frádrætti slíkum sem um ræddi.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. apríl 1991, og er þess krafist að skattlagning umræddrar greiðslu verði niður felld. Umboðsmaðurinn tekur fram að greiðslan hafi verið færð til tekna í reit 22 og til frádráttar í reit 32 í framtalinu, enda hefði við mat á aðstæðum kæranda verið talið að um hreina endurgreiðslu á útlögðum kostnaði væri að ræða. Úrskurður skattstjóra sem byggði á því að um vantaldar tekjur væri að ræða væri því ekki á rökum reistur. Ætti ágreiningurinn að snúast um það hvort kærandi ætti rétt á frádrætti á móti endurgreiddum bifreiðakostnaði. Umboðsmaðurinn vék að því að samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins ættu öryrkjar, sem talið væri að gætu ekki án bifreiðar verið, rétt á svonefndum bensínstyrk. Gerð var grein fyrir heilsufari kæranda er krefðist fjárútláta meðal annars í sambandi við bifreiðarekstur.

Með bréfi dags. 13. ágúst 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda að kæruúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsenda hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Óumdeilt er í málinu að umrædd greiðsla til kæranda hafi verið vegna aukakostnaðar er hann hefur vegna örorku sinnar, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar. Engin heimild þykir vera fyrir hendi til þess að fella greiðslu þessa undan skattlagningu eins og kærandi krefst. Er kröfu kæranda því synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja