Úrskurður yfirskattanefndar

  • Verðbreytingarfærsla
  • Ógreidd hlutafjárloforð

Úrskurður nr. 208/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 53. gr. 4. mgr. (brl. 97/1988, 5. gr.)  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 27. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda, sem er hlutafélag, að verðbreytingarfærsla til gjalda að fjárhæð 2.224.000 kr. hefði verið felld af ársreikningi kæranda vegna ársins 1989 er fylgdi skattframtali hans 1990. Forsenda breytingarinnar var að á efnahagsreikningi 31. desember 1988 væri engin slík peningaleg fjárhæð að hún gæti myndað stofn til útreiknings færslunnar. Eignamegin á efnahagsreikningi voru færð hlutafjárloforð að fjárhæð 20.000.000 kr. og sama fjárhæð var færð sem eigið fé.

Með kæru til skattstjóra, dags. 21. ágúst 1990, krafðist umboðsmaður kæranda gjaldfærslu verðbreytingarfærslunnar með þeim rökum að hún væri reiknuð af þeim hluta hlutafjárloforða sem gjaldfallinn hafi verið við stofnun félagsins. Þau hlutafjárloforð sem ekki hefðu verið greidd á tilskildum tíma hafi verið vaxtareiknuð og þeir vextir tekjufærðir í rekstrarreikningi ársins 1989.

Með kæruúrskurði skattstjóra, dags. 29. apríl 1991, var kröfunni hafnað. Vísaði skattstjóri til þess að í 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1988, kæmi fram að ógreidd hlutafjárloforð teljast ekki til eigna við útreikning verðbreytingarfærslu nema því aðeins að inneignir séu vaxtareiknaðar með sambærilegum kjörum og gilda í innlánsstofnunum á hverjum tíma. Rekur skattstjóri að samkvæmt tilkynningu kæranda til hlutafélagaskrár hafi fjórðungur af 20.000.000 kr. heildarhlutafé verið þegar greiddur en eftirstöðvar kræfar á árinu 1989. Á efnahagsreikningi 31. desember 1988 séu eignfærð hlutafjárloforð 20.000.000 kr. og í efnahagsreikningi 31. desember 1989 séu eignfærð hlutafjárloforð að meðtöldum vöxtum 5.548.430 kr. auk eignfærðra „ógjaldfallinna hlutafjárloforða“10.000.000 kr. Taldi skattstjóri að þá fyrst yrði um að ræða inneign í skilningi 53. gr. nefndra laga þegar vaxtareikningur vegna vanefnda hefjist. Ljóst hafi þótt vera af fyrirliggjandi upplýsingum að í árslok 1988 hafi ekki verið um að ræða vaxtareiknaða inneign vegna vanefnda á greiðslu hlutafjárloforða.

II.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. maí 1991. Kemur fram í kæru að hlutafélagið hafi verið stofnað 29. desember 1988. Þá hafi verið ákveðið að fjórðung hlutafjár skyldi greiða innan mánaðar en eftirstöðvar á árinu 1989. Síðar hafi verið ákveðið að fyrsti fjórðungur skyldi falla í eindaga 1. apríl 1989, annar fjórðungur 1. júlí 1989, en innheimtu eftirstöðva var frestað ótímabundið. Jafnframt hafi verið ákveðið að vaxtareikna þann hluta hlutafjárloforða sem ekki væri greiddur á eindaga. Telur umboðsmaðurinn að krafan myndi stofn til verðbreytingarfærslu þar sem hún yrði vaxtareiknuð ef hún lenti í vanskilum. Gerir hann kröfu um að verðbreytingarfærsla verði reiknuð af þeim hluta hlutafjár sem gjaldféll á árinu 1989, þ.e. að stofn til útreiknings verði 10.000.000 kr. og verðbreytingarfærsla til gjalda 2.224.000 kr.

Með bréfi, dags. 19. desember 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur f.h. gjaldkrefjenda í málinu:

„Aðallega að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Til vara er gerð sú krafa að vextir á ógreidd hlutafjárloforð verði reiknaðir á ársgrundvelli með sambærilegum kjörum og gilda í innlánsstofnunum á hverjum tíma, sbr. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1988.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Fyrir liggur í málinu að umrædd hlutafjárloforð hafi ekki verið vaxtareiknuð á árinu 1988. Þau fullnægja því ekki skilyrðum 2. ml. 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1988, um sambærilegan vaxtareikning og hjá innlánsstofnunum. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð skattstjóra að niðurstöðu til.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja