Úrskurður yfirskattanefndar

  • Reiknað endurgjald, barn

Úrskurður nr. 233/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að á landbúnaðarskýrslu með skattframtali kæranda 1990 vegna rekstrar félagsbús, sem kærandi var aðili að, var gjaldfært reiknað endurgjald barna að fjárhæð 380.000 kr. Reiknað endurgjald þetta var vegna vinnu tveggja sona kæranda sem fæddir eru 1974 og 1975. Skattstjóri óskaði eftir skýringum á reiknuðu endurgjaldi barna þar eð það þætti „óeðlilega hátt og ekki í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra, en þar er gert ráð fyrir að hámark þess sé kr. 7.356 til kr. 8.408 á viku.“ Í svarbréfi kæranda kom fram að reiknað endurgjald barna væri eðlilegt með tilliti til vinnuframlags þeirra. Um væri að ræða 16 vikna sumarvinnu og vinnu flestar helgar allt árið.

Skattstjóri endurákvarðaði áður álögð gjöld kæranda með úrskurði, dags. 11. janúar 1991, og lækkaði reiknað endurgjald um 63.888 kr. Í bréfi skattstjóra segir meðal annars: „Litið er svo á að heildarvinnuframlag barna á aldrinum 13 til 15 ára sé hæfilega metið með 16 vikum og ekki sé ástæða til að ætla að þau vinni nokkuð að ráði um helgar þann tíma sem þau ganga í skóla.“

Kærandi kærði ákvörðun skattstjóra og taldi að viðmiðunartala ríkisskattstjóra, 134.400 kr., samsvaraði dagvinnu sumarsins, en líta mætti þannig á að það sem umfram væri, 55.600 kr., teldist greiðsla fyrir yfirvinnu allt árið. Ef miðað væri við 190 kr. á klukkustund, samsvöruðu 55.600 kr. um 293 stundum á ári eða 24 stundum á mánuði að jafnaði.

Í úrskurði, dags. 24. apríl 1991, synjaði skattstjóri kröfum kæranda. Þar segir meðal annars: „Ekki hefur verið sýnt fram á að vinnuframlag umræddra drengja sé vanmetið með endurgjaldi því, sem fallist hefir verið á að reikna þeim.“

II.

Með kæru, dags. 22. maí 1991, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Farið er fram á að upphaflegt reiknað endurgjald, 190.000 kr. hjá hvorum dreng, verði látið standa óbreytt.

Með bréfi, dags. 16. júlí 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Eftir atvikum þykir mega falla frá álagsbeitingu.“

III.

Að virtum þeim skýringum sem fram hafa komið á vinnuframlagi barnanna, þykir lækkun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi vegna vinnuframlags þeirra eigi nægilega rökstudd. Krafa kæranda er því tekin til greina. Reiknað endurgjald drengjanna standi óbreytt 200.000 kr. hjá A og 180.000 kr. hjá B.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa kæranda er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja