Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frávísunarúrskurður skattstjóra
  • Kæra send skattstjóra til meðferðar

Úrskurður nr. 255/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 30/1992, 12. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 1990 færði kærandi sér til tekna ökutækjastyrk 154.770 kr. frá launagreiðanda sínum, X. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar sem kostnað á móti ökutækjastyrknum. Með skattframtalinu fylgdi útfyllt greinargerð, RSK 3.04, um endurgreiddan bifreiðakostnað, ökutækjastyrk og ökutækjarekstur. Undirritaði kærandi í skýrslunni yfirlýsingu um að hann væri reiðubúinn til að leggja fram fullnægjandi akstursbækur eða akstursskýrslur og önnur gögn varðandi greiðslur fyrir afnot af bifreið sinni í þágu vinnuveitanda.

Með bréfi, dags. 21. janúar 1991, krafði skattstjóri kæranda um akstursdagbók til staðfestingar kostnaðinum.

Af hálfu kæranda var kröfu skattstjóra svarað með bréfi, dags. 19. febrúar 1991. Kom þar fram að kærandi, sem var árið 1989 stjórnarformaður X, hefði ekki haldið dagbók um akstur í þágu vinnuveitanda, en kærandi gerði grein fyrir því að starfinu hefðu fylgt mikil funda- og félagsstörf og hefði hann sótt marga fundi frá sumarheimili sínu í Z. Orðið hafði að samkomulagi að hann fengi greidda 6.600 km á taxta ríkisstarfsmanna vegna aksturs í þágu vinnuveitanda, en það svaraði til 20 ferða úr Z til Reykjavíkur og auk nokkurs aksturs í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 21. mars 1991, boðaði skattstjóri breytingar á álögðum gjöldum kæranda gjaldárið 1990, á þeim forsendum að akstursdagbók hefði ekki verið lögð fram, að rekstrarreikningur bifreiðar teldist ekki fullnægjandi þar sem engin grein hefði verið gerð fyrir heildarakstri og skiptingu hans, ekki hefði verið lögð fram staðfesting launagreiðanda auk þess sem akstur milli heimilis og vinnustaðar, samkvæmt fram komnum skýringum kæranda, teldist í eigin þágu og væri því ekki frádráttarbær.

Í framhaldi af mótmælum kæranda, dags. 8. apríl 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 1991, að hann hefði fellt umræddan frádrátt frá greiddum ökutækjastyrk niður og endurákvarðað áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1990 í samræmi við það.

Með kæru til skattstjóra, dags. 19. ágúst 1991, var af hálfu umboðsmanns kæranda breytingum skattstjóra í skattframtali kæranda 1991 mótmælt og boðað að frekari rökstuðningur yrði sendur síðar.

Með kæruúrskurði, dags. 20. september 1991, vísaði skattstjóri kröfu kæranda frá sem tilefnislausri þar sem í skattframtali hans árið 1991 hefði hvorki verið tekjufærður bifreiðastyrkur né gjaldfærður rekstrarkostnaður bifreiðar.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. október 1991. Gerir kærandi þá kröfu að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og tilgreind fjárhæð til frádráttar greiddum ökutækjastyrk verði látin óbreytt standa. Mótmælir kærandi því að einungis hafi verið um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar. Er það mat kæranda af yfir 300 km ferðalag formanns til þess að mæta á og stýra stjórnarfundi í stórfyrirtæki eða önnur álíka tilefni geti ekki fallið undir hina almennu reglu um akstur milli heimilis og vinnustaðar, jafnvel þótt upphafs- og lokapunktur ferðalagsins sé heimili hans. Þá telur kærandi að virða beri það að „vinnustaður“ formanns stórs fyrirtækis með dreifða starfsemi sé annars eðlis en vinnustaður venjulegs starfsmanns með fasta viðveru og afmörkuð verkefni. Með kærubréfinu fylgdi listi yfir mætingu kæranda á fundi X í Reykjavík.

III.

Með bréfi, dags. 20. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Kæruefni það er hér er til umfjöllunar er vegna framtals 1990 sbr. endurákvörðunarúrskurð skattstjóra, dags. 26.07.1991 og hefur sá úrskurður ekki verið kærður til skattstjóra, sbr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Kærubréf til skattstjóra, dags. 19. 08.1991, varðar aðeins framtal 1991 og hefur skattstjóri úrskurðað til samræmis við það með úrskurði sínum, dags. 20.09.1991.

Er því krafist frávísunar kæru þessarar frá ríkisskattanefnd þar sem úrskurður skattstjóra sem kæranlegur til hennar hefur enn ekki verið kveðinn upp varðandi álagningu 1990.“

IV.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Af gögnum málsins má ráða að kæra umboðsmanns kæranda, dags. 19. ágúst 1991, varðaði breytingu skattstjóra á skattframtali 1990, sbr. tilkynningu, dags. 26. júlí 1991, enda var engin breyting gerð á bifreiðakostnaði í framtali 1991. Þykir af þessari ástæðu rétt að hnekkja frávísunarúrskurði skattstjóra.

Vegna frávísunar skattstjóra hefur mál þetta ekki fengið þá meðferð á skattstjórastigi sem lög nr. 75/1981 gera ráð fyrir. Með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir bera að vísa kæru, með þeim rökstuðningi sem fram kemur í kæru til ríkisskattanefndar, til skattstjóra til meðferðar lögum samkvæmt.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd og send skattstjóra til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja