Úrskurður yfirskattanefndar
- Teknategund
- Tekjur af fæðissölu
Úrskurður nr. 289/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 67/1971 Lög nr. 46/1980 Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður Lög nr. 91/1989, 35. gr.
I.
Kæruefni í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra að leggja gjaldárið 1990 aðstöðugjald og launatengd gjöld á kæranda, sem er prestfrú í sveit, vegna fæðissölu á árinu 1989, sbr. tilkynningu skattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda, dags. 21. desember 1990, sem send var kæranda að undangengnum bréfaskiptum, og kæruúrskurð, dags. 8. mars 1991. Í kæruúrskurði kemur fram svofelldur rökstuðningur:
„Tekjur kæranda vegna fæðissölu teljast til tekna sem skattskyldar eru skv. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981. Af eigin launum við starfsemina ber kæranda því að greiða launatengd gjöld sbr. ákvæði 36. gr. laga nr. 67/1971 og laga nr. 46/1980. Kostnaður vegna starfseminnar telst til aðstöðugjaldsskylds reksturskostnaðar skv. 35. gr. laga nr. 91/1989.“
Kærandi mótmælti álagningunni, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 4. febrúar 1991, og til ríkisskattanefndar, dags. 5. apríl 1991. Krefst kærandi niðurfellingar hennar. Telur kærandi sig ekki hafa stundað verktakastarfsemi á árinu 1989 hvorki í lagalegum né málfræðilegum skilningi. Kærandi upplýsir að á árinu 1989 hafi verið byggt við íbúðarhús það sem kærandi hefur afnot af og það endurbætt. Húsasmiður hafi tekið að sér verkið fyrir fast verð. Honum hafi borið að greiða lögboðin gjöld samkvæmt verksamningnum þar á meðal af fæðiskostnaði. Telur kærandi því að vissu leyti vera um tvísköttun að ræða vegna sama hlutarins. Kærandi kveður fæðissölu sína tilkomna af greiðasemi og til sparnaðar fyrir ríkissjóð sem eiganda íbúðarhússins. Greiðsla hafi verið samtals 182.250 kr. eða 900 kr. á dag sem hafi gert lítið meira en greiða tilkostnað. Í framtali hafi 32.850 kr. verið taldar til tekna sem laun vegna þessarar fæðissölu. Hafi sú fjárhæð verið færð í reit 21 á framtali og þar eigi hún að vera. Kærandi telur sig og aðrar prestfrúr í dreifbýli oft hafa tekið menn í fæði og húsnæði vegna viðhalds og endurbóta á íbúðarhúsum á prestsetrum og sparað með því ríkissjóði hundruð þúsunda króna gegnum árin. Kærandi þekkir ekki dæmi þess að á slíka þjónustu og greiðasemi hafi verið litið sem verktakastarfsemi og sérstakir skattar verið lagðir á af þeim sökum.
Með bréfi, dags. 22. ágúst 1991, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Ekki verður séð að fæðissala kæranda hafi á árinu 1989 verið þess eðlis að hún geti fallið undir ákvæði B-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Af þessum sökum er fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álagðs aðstöðugjalds og launatengdra gjalda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Álagt aðstöðugjald og launatengd gjöld 1990 falli niður.