Úrskurður yfirskattanefndar

  • Reiknað endurgjald
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 304/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 59. gr. 1. mgr., 96. gr. 1. og 3. mgr.   Reglugerð nr. 79/1988, 14. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 20. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda að reiknað endurgjald hans gjaldárið 1990 hefði verið hækkað úr 33.265 kr. í 400.000 kr. Þá færði skattstjóri kæranda gjaldfærslu vegna verðbreytinga 64.496 kr. til gjalda. Við þetta nam gjaldahlið rekstrarreiknings vegna smábátaútgerðar (RSK 4.06) 975.663 kr. Tekjuhlið nam 777.089 kr. og rekstrartap því 198.574 kr. Yfirfæranlegt tap frá fyrri árum nam 232.657 kr. Skattstjóri tók fram að yfirfæranlegt tap til næsta árs næmi 198.574 kr.

Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi mótmælt í kæru, dags. 28. ágúst 1990, og gerð nokkur grein fyrir vinnuframlagi og tekið fram að tekjur kæranda kæmu af ellilífeyri sjómanna og að heilsufar leyfði ekki erfiðisvinnu. Með kæruúrskurði, dags. 10. desember 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til forsendna í bréfi skattstjóra, dags. 20. júlí 1990, og eigin greinargerðar kæranda um reiknað endurgjald til staðgreiðslu á tekjuárinu 1989.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. janúar 1991. Kröfugerðin er svohljóðandi:

„Undirritaður mótmælir úrskurði skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi fyrir árið 1990. Undirritaður telur að ekki hafi verið tekið tillit til ákvæða 5. málsliðar 1. mgr. 59. gr. l. 75. 1981, samkvæmt þeim málslið má reiknað endurgjald ekki mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr.

Samkv. meðfylgjandi ljósriti af rekstrarreikningi eru tekjur umfram gjöld (án reiknaðs endurgjalds) kr. 265.922 og gjaldfærsla skv. úrsk. skattstjórans í ... kr. 64.496. Samkvæmt ofanskráðu verður því reiknað endurgjald kr. 330.418, en ekki kr. 400.000.

Óskað er eftir sjómannafrádrætti fyrir 86 úthaldsdaga að upphæð kr. 48.250.“

Með bréfi, dags. 18. júní 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kæran varðar annars vegar fjárhæð reiknaðs endurgjalds og hins vegar kröfu um sjómannaafslátt.

Varðandi fyrra atriðið ber kærandi fyrir sig lokamálslið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í því sambandi skal bent á að hreinar tekjur að teknu tilliti til óumþrættrar gjaldfærslu vegna verðbreytinga og án reiknaðs endurgjalds nema 201.426 kr. Fjárhæð gjaldfærslu nemur 64.496 kr. og almennar fyrningar 179.088 kr. Heftu ákvæði þessi því út af fyrir sig ekki skattstjóra við hina umdeildu ákvörðun. Tilgreining reiknaðs endurgjalds kæranda fékk ekki staðist og var rétt að skattstjóri skoraði á kæranda að bæta úr þessum ágalla. Hinsvegar verður að telja að skattstjóra hafi borið að gefa kæranda kost á að gæta hagsmuna sinna og koma að athugasemdum sínum og skýringum áður en hann ákvarðaði fjárhæð reiknaðs endurgjalds, sbr. 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en skv. 2. ml. 1. mgr. 59. gr. sömu laga varð skattstjóri við þessa ákvörðun sína að gæta að atriðum sem ekki verður séð að hafi legið fyrir honum með þeim hætti að ekki þyrfti nánar um að véla. Skattstjóri gætti þessa ekki og af þeim sökum þykir bera að fella hækkun hans á reiknuðu endurgjaldi með öllu úr gildi. Þá er það að athuga við ákvarðanir skattstjóra að fjárhæð yfirfæranlegs taps er ranglega ákvörðuð af hans hendi, sbr. bréf skattstjóra, dags. 20. júlí 1990. Tap ársins eftir breytingar skattstjóra nam 198.574 kr. en ónotuð rekstrartöp frá fyrri árum 232.657 kr. Samkvæmt niðurstöðu í úrskurði þessum verður yfirfæranlegt tap til næsta árs 64.496 kr.

Kærandi hefur ekki gert þá grein fyrir kröfu sinni um sjómannaafslátt sem mælt er fyrir um í 14. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Málsgögn benda þó óyggjandi til þess að hann eigi rétt á slíkum afslætti. Með vísan til þess og kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir mega fallast á kröfu kæranda um þetta kæruatriði, en fjárhæð sjómannaafsláttar takmarkast vegna ákvæða 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 79/1988.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hækkun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi er niður felld. Fallist er á kröfu kæranda um sjómannaafslátt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja