Úrskurður yfirskattanefndar
- Fæðiskostnaður, frádráttarbærni
Úrskurður nr. 332/1992
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul., 92. gr. 1. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 8. mars 1991, sendi kærandi skattstjóra ársreikning (sjávarútvegsskýrslu) vegna útgerðar sinnar og meðeiganda síns fyrir árið 1987 og óskaði leiðréttingar á álögðum gjöldum sínum 1988 með hliðsjón af ársreikningnum og þeim breytingum á framtali sem hann taldi leiða af reikningnum. Hinn 22. mars 1991 endurákvarðaði skattstjóri álögð gjöld kæranda gjaldárið 1988 með hliðsjón af innsendum gögnum að gerðum breytingum. Meðal annars hafnaði hann að samþykkja gjaldaliðinn fæði, 521.749 kr., sem útgerðarkostnað þar sem ekki lá fyrir hverjir hefðu neytt fæðisins. Hinn 26. mars 1991 kærði umboðsmaður kæranda afgreiðslu þessa til skattstjóra. Upplýsti hann að fæðiskostnaður væri tilkominn vegna landana utan heimahafnar. Þar hefði verið lagt út fyrir kostnaði sem ekki væri eðlilegt að áhöfnin tæki á sig. Því taldi hann kostnað þennan frádráttarbæran og óskaði að skattstjóri félli frá breytingum varðandi þennan lið. Einnig lagði hann fram nýjar upplýsingar um önnur atriði ársreikningsins og óskaði breytinga á afgreiðslu skattstjóra samkvæmt þeim. Með kæruúrskurði, dags. 26. júlí 1991, féllst skattstjóri á kröfur kæranda að öðru leyti en varðaði frádrátt fæðiskostnaðar. Taldi hann að þar sem reiknuð laun væru hærri en greidd laun samkvæmt ársreikningnum ættu eigendur trúlega helming hins umkrafða frádráttar. Ekkert hefði komið fram um hverjir nutu fæðishlunninda, er koma hefðu átt fram á launamiðum.
Með kæru, dags. 26. ágúst 1991, skaut umboðsmaður kæranda kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Mótmælir hann „höfnun skattstofu á niðurfellingu fæðiskostnaðar fyrir árið 1987“ (sic). Kostnaður þessi sé til kominn vegna landana fjarri heimahöfn. Ekki sé hægt að fallast á að hásetar greiði sjálfir fæði við slíkar aðstæður og jafnframt telur hann eðlilegt að þessi kostnaður verði viðurkenndur sem rekstrarkostnaður fyrirtækisins.
Með bréfi, dags. 19. desember 1991, krefst ríkisskattstjóri staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Þrátt fyrir tilefni við endurákvörðun skattstjóra og í kæruúrskurði hans hefur kærandi ekki upplýst hverjir hafi neytt gjaldfærðs fæðis eða gert að öðru leyti grein fyrir umræddum gjaldalið. Fallast verður á það með skattstjóra að líklegt sé að útgerðarmennirnir, þ.e. kærandi og meðeigandi hans, hafi sjálfir neytt hluta hins gjaldfærða fæðis. Sá hluti telst persónulegur kostnaður þeirra og er ekki frádráttarbær sem rekstrarkostnaður skv. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981. Sá hluti fæðisins sem neytt er af öðrum skipverjum er hins vegar rekstrarkostnaður samkvæmt nefndri lagagrein. Eins og mál þetta liggur fyrir verður að áætla umræddan gjaldalið. Að virtum gögnum málsins telst hann hæfilega metinn 150.000 kr. og hækkar útgerðarkostnaður sem því nemur. Ekki skiptir hér máli hvort fæðishlunnindi skipverja hafa verið gefin upp á launamiðum svo sem skylt er, sbr. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, en lögfest eru önnur úrræði til að knýja fram þær upplýsingar.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hlutdeild kæranda í rekstrarhagnaði lækkar um 75.000 kr. Aðstöðugjald breytist tilsvarandi.