Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði
  • Bifreiðageymsla

Úrskurður nr. 349/1992

Gjaldár 1988 og 1989

Lög nr. 88/1987, 3. gr., 4. gr.   Lög nr. 100/1988, 3. gr., 4. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að 22. mars 1990 barst ríkisskattstjóra bréf frá umboðsmanni kæranda með beiðni um leiðréttingu eignarskatts, sérstaks eignarskatts og sérstaks eignarskatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði vegna gjaldáranna 1988 og 1989. Erindinu fylgdi úrskurður yfirfasteignamatsnefndar þar sem fram kom að fasteignamat X hefði verið lækkað miðað við 1. desember 1987 og 1. desember 1988. Hinn 8. október 1990 tók ríkisskattstjóri erindið til afgreiðslu og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda í samræmi við leiðréttingar á fasteignamati sem fram komu í tilvitnuðum úrskurði. Jafnframt tók ríkisskattstjóri fram að við athugun á framtalsgögnum hefði komið í ljós að stofn fyrir sérstakan skatt af verslunar- og skrifstofuhúsnæði samkvæmt framtölum 1988 og 1989 væri vantalinn sem næmi fasteignamati á eignarhluta kæranda í bílageymslum í X. Þetta atriði væri því tekið til leiðréttingar.

Með kæru, dags. 2. nóvember 1990, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu á stofni til sérstaks eignarskatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Sagði svo í kærunni:

„Umræddur bílapallur er sérhannað mannvirki og nýtist ekki við skrifstofu- og verslunarrekstur fremur en aðrar sérhannaðar bifreiðageymslubyggingar, enda er fasteignin ekki notuð til annars en að geyma bifreiðar. Í 3. gr. laga nr. 88/1987 og 3. gr. laga nr. 100/1988 um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði segir að stofn til sérstaks eignarskatts skal vera fasteignamatsverð í árslok 1987 og 1988 á fasteign sem nýtt er við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds ásamt tilheyrandi lóð. Í 4. gr. sömu laga segir að við ákvörðun á því hvaða eignir myndi stofn til sérstaks eignarskatts skuli miðað við raunverulega notkun fasteignanna í árslok 1987 og 1988. Samkvæmt þessu er ljóst að umrædd fasteign fellur ekki undir þær skilgreiningar sem áðurnefnd lög taka til um skattskyldar fasteignir.

Eins og kunnugt er eru sérstök bílageymsluhús algeng í stórborgum erlendis og eru þau einnig að rísa hér á landi. Slík hús eru yfirleitt rekin með sérstakri gjaldtöku eins og t.d. Kolaportið í Reykjavík og hefur verið hugað að því í X. Engum hefur dottið í hug að kalla þessi mannvirki skrifstofu- eða verslunarhús.

Þess er hér með krafist að umrætt mannvirki verði ekki talið sem verslunar- eða skrifstofuhúsnæði og álagður sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði vegna 1988 og 1989 verði lækkaður samsvarandi.“

Með kæruúrskurði, dags. 9. apríl 1991, hafnaði ríkisskattstjóri kröfunni. Taldi ríkisskattstjóri ótvírætt að umrætt bílskýli eða bílpallur væri hluti af mannvirkjum sem tengdust beint verslunarrekstri. Fyrir lægi m.a. í málinu úrskurður yfirfasteignamatsnefndar, dags. 8. mars 1990, þar sem kröfum umboðsmanns kæranda um að undanþiggja bílgeymsluna fasteignamati var hafnað. Forsendur þess úrskurðar þættu og styðja niðurstöðu ríkisskattstjóra um eðli umræddrar eignar. Vísaði ríkisskattstjóri einnig til 1. mgr. 4. gr. og 3. gr. laga nr. 88/1987 og 1. mgr. 4. gr. og 3. gr. laga nr. 100/1988 til stuðnings úrskurði sínum.

II.

Með kæru, dags. 11. apríl 1991, skaut umboðsmaður kæranda úrskurði ríkisskattstjóra til ríkisskattanefndar. Vísar hann til fyrri rökstuðnings en bendir auk þess á að geymsla bifreiða á umræddum bílapöllum tengist ekki einungis verslunarrekstri, heldur sé ýmiss konar annar rekstur í X, svo sem veitingarekstur, læknastofur, hárgreiðslustofur o.fl. Ekki sé sjálfgefið að notkun bílapalla sé í hlutfalli við eignarhlut í húsinu og sá mælikvarði því umdeilanlegur.

Með bréfi, dags. 7. júní 1991, krefst ríkisskattstjóri þess f.h. gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kærandi rekur verslun að X og verður að líta svo á að hann nýti umræddar bílageymslur í þágu þeirrar starfsemi í samræmi við eignarhlutdeild sína í þeim. Með þessari athugasemd er úrskurður ríkisskattstjóra staðfestur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður ríkisskattstjóra er staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja