Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sjómannaafsláttur
  • Hlutaráðinn landmaður

Úrskurður nr. 350/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 68. gr. B-liður 2. og 3. mgr.   Reglugerð nr. 79/1988, 12. gr. 2. mgr.  

I.

Kæruefnið í máli þessu er synjun skattstjóra á sjómannaafslætti kæranda til handa gjaldárið 1991, sbr. bréf skattstjóra, dags. 17. júlí 1991, og kæruúrskurð hans, dags. 30 september 1991. Kærandi starfaði við söltun grásleppuhrogna og taldi að sér bæri sjómannaafsláttur miðaður við 41 dag á fyrri helmingi ársins 1990, sbr. greinargerð kæranda um sjómannaafslátt, dags. 25. júlí 1991. Skattstjóri áleit að störf þessi teldust ekki sjómannsstörf í skilningi reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, ódagsettri en móttekinni 17. október 1991. Er þess krafist að kæranda verði ákvarðaður sjómannaafsláttur. Vísað er til þess að í 3. mgr. B- liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sé skýrt tekið fram að hlutaráðnir sjómenn og landmenn, er ekki séu lögskráðir, skuli njóta sjómannaafsláttar. Þá sé í 2. mgr. B-liðs þessarar lagagreinar tekið fram að nánari reglur um framkvæmd skuli settar í reglugerð og tíunduð atriði er reglugerðin skuli taka til. Ljóst sé að reglugerðin varði aðeins framkvæmd og ráðstöfun afsláttarins en alls ekki skerðingu réttar til sjómannaafsláttar. Í reglugerð nr. 79/1988 sé afslátturinn bundinn við beitningamenn og því sé með reglugerðinni skertur sá réttur sem lagagreinin veitir. Ekki verði séð að þessi skerðing sé heimil. Þess er getið að hjá útgerð þeirri sem kærandi starfi fyrir séu sjómenn á hlut samtals 50% af söluverðmæti afurða. Af sama söluverðmæti óskiptu komi 5% í hlut kæranda. Kærandi sé því hvorki á tímakaupi né ákvæðisvinnu heldur hlutaráðinn landmaður. Vísað er til þess að samkvæmt orðabók Menningarsjóðs sé merking orðsins landmaður m.a. þessi „-maður, sem vinnur að afla (útgerðarstörfum) í landi“. Vinna kæranda við lokafrágang á afla falli undir þessa skilgreiningu á landmanni, enda taki allir, er starfa hjá útgerðinni, hlut af sama verðmæti.

Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Samkvæmt málsgögnum og skýringum kæranda starfaði hann við söltun grásleppuhrogna hjá X hf. tímabilið 20. apríl 1990 til 30. júní 1990. Samkvæmt framtali voru tekjur kæranda frá útgerðarfyrirtæki þessu 81.738 kr. Telur kærandi sig eiga rétt á sjómannaafslætti miðað við 41 dag vegna starfa þessara á þeim grundvelli að líta beri á hann sem hlutaráðinn landmann. Á það verður ekki fallist að telja beri kæranda hlutaráðinn landmann í skilningi 3. mgr. B-liðs 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, vegna þeirra starfa hans sem í málinu greinir. Vísast í því sambandi til skilgreiningar í 1. ml. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 79/1988, um persónuafslátt og sjómannaafslátt. Er kröfu kæranda því synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja