Úrskurður yfirskattanefndar
- Óvenjuleg skipti í fjármálum
Úrskurður nr. 352/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981, 58. gr. 2. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að skattframtal árið 1990, fyrir kæranda, sem er sameignarfélag, barst skattstjóra 18. júlí 1990. Skattstjóri tók framtalið sem kæru, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lagði það til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1990 með breytingum sem tilgreindar eru í kæruúrskurði skattstjóra, dags. 27. maí 1991. Meðal annars taldi hann kæranda hafa selt fasteign sína og vélar og tæki úr rekstri sínum óeðlilega lágu verði og lagði með vísan til 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, mat á hvað væri eðlilegt söluverð. Kærandi hafði selt fasteign sína fyrir 800.000 kr. og vélar og tæki fyrir 780.000 kr. Taldi skattstjóri eðlilegt söluverð fasteignarinnar hafa verið 2.100.000 kr. en véla og tækja 1.010.000 kr. Endurreiknaði hann söluhagnað/tap með tilliti til þessara fjárhæða og leiðrétti skattframtalið til samræmis.
II.
Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. júní 1991. Krafðist hann viðurkenningar á raunverulegu söluverði hinna seldu eigna sem grundvelli álagningar og færði rök fyrir hvers vegna hann teldi það verð hafa verið eðlilegt. Taldi hann vélar úreldast fljótt og sagði að örðugleikar hefðu verið á starfrækslu stærstu vélar fyrirtækisins. Ástand húsnæðis þess taldi hann hafa verið lélegt. Um hefði verið að ræða 41,3 m² eignarhluta í X, en húsnæðið væri langt og mjótt og verulegur hluti þess færi í ganga. Þetta væri iðnaðarhúsnæði þar sem loftræstingu vantaði, veggir hefðu þarfnast málningar og á gólfum hefði verið ónýtur gólfdúkur. Fyrir hefði legið að brjóta hefði þurft upp gólf til endurnýjunar á ónýtum leiðslum. Hefði því eðlilegt söluverð verið talið um 20.000 kr. á fermetra. Fram kom að fasteignamat húss var á söludegi 1.262.000 kr. en lóðar 248.000 kr. eða samtals 1.510.000 kr. Einnig kom fram að annar kaupenda eignanna var dóttir aðaleigenda kæranda og eigandi lítils eignarhluta í kæranda.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi dags. 17. september 1991 gert svofelldar kröfur og athugasemdir f.h. gjaldkrefjenda:
„Framkomnar skýringar í kæru verða ekki taldar fallnar til að hnekkja ákvörðun skattstjóra. Er því sú krafa gerð að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
III.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Samkvæmt 2. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geta skattyfirvöld metið hvað telja skuli eðlilegt kaup- eða söluverð ef skattaðili kaupir eign á óeðlilega háu verði eða selur eign á óeðlilega lágu verði. Skal þá telja mismun kaupverðs eða söluverðs annars vegar og matsverðs hins vegar til skattskyldra tekna hjá þeim aðila sem slíkra viðskipta nýtur.
Við sölu á óeðlilega lágu verði verður að líta svo á að kaupandi njóti viðskiptanna í þeim skilningi sem það orðasamband er notað í 2. mgr. 58. gr. Skattstjóri hefur metið viðskipti kæranda og kaupenda hinna seldu eigna þannig að þau ættu undir þetta lagaákvæði. Mismun samningsverðs og matsverðs hefur skattstjóri hins vegar fært kæranda til tekna, en ekki þeim sem þessara viðskipta nutu. Samkvæmt þessu ber að hnekkja úrskurði skattstjóra.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Breytingu skattstjóra er hnekkt.