Úrskurður yfirskattanefndar

  • Arðsfrádráttur

Úrskurður nr. 406/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 32/1978, 107. gr. 1. mgr., 108. gr.   Lög nr. 75/1981, 31. gr. 8. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er hlutafélag, færði til frádráttar tekjum í skattframtali sínu árið 1991 úthlutaðan arð 900.000 kr., sbr. 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Með bréfi, dags. 22. júlí 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda að sú breyting hefði verið gerð á framtalinu að frádráttur vegna arðs hefði verið lækkaður í 222.000 kr. eða 3,7% af hlutafé. Vísaði skattstjóri til þess að samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, væri hlutafélögum óheimilt að greiða hærri arð en næmi þeim hundraðshluta af greiddu hlutafé sem svaraði til vaxta á almennum sparisjóðsbókum nema varasjóður næmi 1/10 af hlutafé hið minnsta. Tók skattstjóri fram að kærandi hefði ekki lagt í varasjóð og samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands hefðu meðaltalsvextir almennra sparisjóðsbóka árið 1990 verið 3,7%.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 29. ágúst 1991. Kom fram af hálfu umboðsmannsins að hann taldi að skattstjóri hefði ekki gætt réttra aðferða við hina kærðu breytingu. Skattstjóri hefði við framkvæmd breytingarinnar farið eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga svo sem borið hefði að gera. Efnislega vék umboðsmaðurinn að breytingum á vaxta- og peningamálum og sparnaðarformum frá því að lög nr. 32/1978, um hlutafélög, voru sett. Miðað hafi verið við algengasta sparnaðarformið á þeim tíma er lögin voru sett. Aðstæður væru allt aðrar nú svo sem umboðsmaðurinn rakti nánar og vék að vöxtum á innlánsreikningum. Í ljósi þeirra breytinga taldi umboðsmaðurinn viðmiðun hlutafélagalaganna ekki raunhæfa. Þá taldi umboðsmaðurinn ekki unnt að miða við ákvæði hlutafélagalaga án tillits til ákvæða skattalaga því að skattalög hefðu ekki að geyma nein ákvæði sem gerðu arðsúthlutunina óheimila. Það væri ekki hlutverk skattstjóra fylgja eftir ákvæðum hlutafélagalaga og beita ákvæðum skattalaga ef út af væri brugðið. Hlutafélögum bæri við vissar aðstæður að leggja í varasjóð, en ljóst væri að fjölmörg hlutafélög hefðu ekki gert það og það hefði verið látið óátalið.

Með kæruúrskurði, dags. 9. september 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda og tók fram að miða bæri álagningu við gildandi lög þótt einstaka gjaldandi kynni að telja lögin óeðlileg. Benti skattstjóri á að engin breyting hefði verið gerð á hinu umdeilda ákvæði hlutafélagalaga með lögum nr. 69/1989, er breyttu lögum nr. 32/1978, um hlutafélög. Skattalög takmörkuðu hvað af löglega ákvörðuðum arði væri frádráttarbær þannig að ekki væri ljóst hvernig umboðsmaður kæranda kæmist að þeirri niðurstöðu að ef ekki mætti draga frá tekjum ólögmætan arð hlyti að mega draga frá allan löglega ákvarðaðan arð.

II.

Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. september 1991. Er þess krafist að breytingu skattstjóra verði hrundið og frádráttur arðs látinn standa óbreyttur eins og hann var tilfærður í skattframtali. Umboðsmaðurinn ber fyrir sig sem áður að breytinguna beri að fella úr gildi af formlegum ástæðum þar sem skattstjóri hafi ekki gætt réttrar málsmeðferðar. Efnislega heldur umboðsmaðurinn því fram að í hlutafélagalögum sé gerður greinarmunur á greiddum arði og úthlutuðum arði, sbr. lokamálsgrein 109. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög. Í 2. ml. 1. mgr. 107. gr. laga þessara, sem skattstjóri byggi ákvörðun sína á, sé tekið fram að ekki megi greiða hærri arð en þar sé nánar kveðið á um. Kærandi hafi ekki greitt arð á árinu 1990. Hann hafi hins vegar úthlutað arði og því verði ákvörðun skattstjóra ekki byggð á lagagrein þessari. Þá víkur umboðsmaðurinn að 108. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, er mæli fyrir um skyldu til að leggja í varasjóð. Ljóst sé að fjöldi hlutafélaga hafi ekki farið eftir þessu ákvæði án þess að skattyfirvöld eða aðrir aðilar hafi gert athugasemdir við það. Einnig séu mörg dæmi um það að hlutafélög hafi greitt arð án þess að uppfyllt hafi verið skilyrði 107. gr. laganna um varasjóð. Ekki hafi heldur verið gerðar athugasemdir við það. Þá sé það ekki hlutverk skattstjóra að hafa eftirlit með því að ákvæði hlutafélagalaga séu virt. Slíkt fái ekki samrýmst 150. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, þar sem lögfest séu úrræði til handa ráðherra ef lagaskyldur eru ekki uppfylltar.

Með bréfi, dags. 19. desember 1991, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Ekki verður talið að neinir þeir formgallar hafi verið á hinni kærðu breytingu skattstjóra að ómerkja beri hana af þeim sökum. Hugtakið arð samkvæmt 8. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þykir verða að skýra í samræmi við ákvæði laga nr. 32/1978, um hlutafélög, um arð. Kærandi lagði ekki í varasjóð samkvæmt 108. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög. Sætti hann því þeim hömlum á arðgreiðslur sem mælt er fyrir um í 2. ml. 1. mgr. 107. gr. sömu laga, enda verður ákvæði þetta ekki skilið svo að það taki ekki til kæranda þar sem arðurinn hafi ekki verið greiddur á árinu 1990 svo sem kærandi heldur fram. Að þessu athuguðu og þar sem út af fyrir sig er ekki ágreiningur um það að skattstjóri hafi beitt þeim hundraðshluta sem svarar til vaxta á almennum sparisjóðsbókum á árinu 1990 er kröfu kæranda synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja