Úrskurður yfirskattanefndar
- Teknategund
- Veiðileigutekjur
- Beinn kostnaður
Úrskurður nr. 438/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður og C-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1991 fylgdi landbúnaðarskýrsla. Tekjumegin færði kærandi veiðileigutekjur 506.875 kr. og vaxtatekjur 791 kr. Gjaldamegin færði kærandi ýmsa liði svo sem kaupgreiðslur, rekstrarkostnað bifreiðar, rafmagn, tryggingar, fyrningar útihúsa og ræktunar. Samtals námu gjöld 466.766 kr. Þá reiknaði kærandi sér endurgjald 60.000 kr. Að teknu tilliti til þess nam rekstrartap 19.100 kr. Yfirfæranlegt rekstrartap til næsta árs nam 1.171.588 kr. samkvæmt landbúnaðarskýrslunni. Í bréfi, dags. 24. maí 1991, tók skattstjóri fram að af fyrirliggjandi gögnum yrði ekki annað ráðið en tekjur á landbúnaðarskýrslu 507.666 kr. teldust til þeirra tekna sem skattskyldar væru samkvæmt 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til frádráttar þessum tekjum væri einungis heimill beinn kostnaður, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Ekki yrði séð að tilgreindur kostnaður á landbúnaðarskýrslu tengdist öflun fyrrgreindra tekna. Gefinn var 10 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins. Ekki barst svar við bréfi þessu innan svarfrests og með bréfi, dags. 25. júlí 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda að gjöld á landbúnaðarskýrslu hefðu verið felld niður og veiðileigutekjur 506.876 kr. færðar í reit 72 í skattframtali árið 1991.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hafði bréfi skattstjóra, dags. 24. maí 1991, verið svarað með bréfi, dags. 10. júní 1991, þ.e. að svarfresti liðnum. Var þar farið fram á að þær breytingar yrðu gerðar á landbúnaðarskýrslu að á móti óbreyttum tekjum 507.666 kr. kæmu tryggingar 32.550 kr., aðstöðugjald 2.150 kr., fasteignagjöld 28.367 kr. og fyrningar 32.555 kr. eða alls 95.622 kr. Þá yrði reiknað endurgjald ákvarðað 170.000 kr. Mismunur 242.044 kr. yrði tekinn af rekstrartapi fyrri ára og yrði framreiknað rekstrartap þá 864.068 kr. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 1. nóvember 1991, og synjaði henni. Byggði skattstjóri á því að líta bæri á veiðileigutekjur kæranda sem tekjur er skattskyldar væru samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt því væri einungis heimill beinn kostnaður til frádráttar þeim tekjum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. nefndra laga. Hvorki af kærubréfi né öðrum fyrirliggjandi gögnum þætti ljóst hvernig kostnaðarliðir þeir sem tilgreindir væru í kærubréfi tengdust öflun veiðileiguteknanna. Eftirstöðvar rekstrartapa frá fyrri árum væri aðeins heimilt að færa til frádráttar tekjum af atvinnurekstri, þ.e. tekjum sem skattskyldar væru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981.
II.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 27. nóvember 1991. Getur umboðsmaðurinn þess að kærandi búi á hluta af jörðinni X og telji hann því að tekjur beri að flokka undir B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981 þó svo að kærandi stundi ekki hefðbundinn búskap vegna aldurs. Sé honum því heimilt að telja til gjalda þá frádráttarliði sem um getur í bréfi, dags. 10. júní 1991. Því er mótmælt að tekjurnar séu taldar tekjur samkvæmt C-lið 7. gr. laga nr. 75/1981.
Með bréfi, dags. 13. febrúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Fallist ríkisskattanefnd á að umþrættar tekjur falli undir B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er samt sem áður gerð krafa um að hafnað verði frádráttarkröfu kæranda. Ekki verður séð á hvern hátt þeir kostnaðarliðir sem krafa er gerð um að komi til frádráttar tengjast öflun veiðileigutekna.“
III.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Skattstjóri hefur fært kæranda til tekna í reit 72 í skattframtali árið 1991 veiðileigutekjur 506.875 kr. á þeim grundvelli að tekjur þessar teldust til þeirra tekna sem greinir í 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Óumdeilt er að kærandi er hættur búskap sínum. Þegar litið er til þess verður að fallast á niðurstöðu skattstjóra. Kemur þá til skoðunar hvort efni séu til þess að lækka fjárhæð í reit 72 með tilliti til beins kostnaðar, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Af þeim kostnaðarliðum sem um getur í bréfi kæranda, dags. 10. júní 1991, þykja einungis fasteignagjöld koma til álita í þessu sambandi. Ekki liggur fyrir hve mikill hluti gjaldanna er vegna lax- og silungsveiðihlunninda. Eftir fyrirliggjandi gögnum þykir því mega áætla þann hluta og lækka fjárhæð í reit 72 í 485.000 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hreinar tekjur af veiðileigu í reit 72 í skattframtali árið 1991 verða 485.000 kr.