Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur á móti endurgreiddum bifreiðakostnaði
- Upplýsingaskylda skattaðila
- Matsreglur ríkisskattstjóra
Úrskurður nr. 453/1992
Gjaldár 1991
Reglugerð nr. 591/1987
I.
Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1991. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 sætti hann því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagningin kærð með kæru, dags. 26. ágúst 1991, og boðað að framtal yrði sent fljótlega. Með bréfi, dags. 11. september 1991, sendi umboðsmaður kæranda framtal hans árið 1991 og fór fram á að það yrði lagt til grundvallar álagningu. Hinn 30. september 1991 tók skattstjóri kæruna til úrlausnar og féllst á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu í stað áætlunar með þeirri breytingu að „frádráttur á móti ökutækjastyrk [kæranda] frá A lækkar úr kr. 81.975 í kr. 59.990, sbr. framtalinn aksturskostnað á ekinn km kr. 17.14.“ Frádráttur á móti ökutækjastyrk lækkaði úr 182.193 kr. í 160.208 kr. Skattstjóri bætti 15% álagi við gjaldstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.
II.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. október 1991. Þar mótmælir hann breytingu skattstjóra á framtali kæranda og fer fram á að frádráttur á móti ökutækjastyrk verði færður í fyrra horf. Í kæru kemur fram að umræddur ökutækjastyrkur frá A var greiddur samkvæmt framlögðum akstursskýrslum og að greiðsla fyrir hvern ekinn kílómetra hafi verið í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra. Við framtalsgerð hafi verið gerð grein fyrir þessum ökutækjastyrk á greinargerð RSK 3.04 undir liðnum „Endurgreiddur bifreiðakostnaður“. Í greinargerðinni hafi jafnframt verið gerð grein fyrir ökutækjastyrk frá Launaskrifstofu ríkisins, en sá ökutækjastyrkur hafi ekki verið greiddur eftir framlögðum akstursskýrslum. Til frádráttar hafi kærandi síðan fært að fullu endurgreiddan bifreiðakostnað frá A og reiknaðan frádrátt á móti ökutækjastyrk frá Launaskrifstofu ríkisins. Kærandi mótmælir forsendum skattstjóra þess efnis að reikna beri endurgreiddan bifreiðakostnað á raunverulegum kostnaði pr. ekinn kílómetra og vísar til leiðbeininga ríkisskattstjóra.
Með bréfi, dags. 19. desember 1991, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
III.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Samkvæmt innsendri greinargerð (RSK 3.04) um endurgreiddan bifreiðakostnað, ökutækjastyrk og ökutækjarekstur fékk kærandi endurgreiddan bifreiðakostnað frá A 81.975 kr. vegna 3.500 km aksturs. Í úrskurði sínum vefengir skattstjóri hvorki uppgefinn kílómetrafjölda né hina greiddu fjárhæð. Ekki er af hálfu skattstjóra gerð athugasemd við það að kærandi hefur ekki undirritað yfirlýsingu um framlagningu gagna varðandi frádrátt endurgreidds bifreiðakostnaðar.
Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1990, birtum í 9. tbl. Lögbirtingablaðs 1991, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, er kæranda ekki skylt að gera nánari grein fyrir kostnaði þessum en hann hefur gert með framlagðri greinargerð. Að þessu virtu og því sem fyrr segir um meðferð málsins hjá skattstjóra er fallist á kröfu kæranda varðandi frádrátt á móti endurgreiddum bifreiðakostnaði, enda eru fjárhæðir innan þeirra marka sem ríkisskattstjóri hefur sett varðandi gjaldárið 1989.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Fallist er á kröfu kæranda. Frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk í reit 32 verður 182.193 kr.