Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi

Úrskurður nr. 464/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul.   Skattmat í staðgreiðslu árið 1989  

I.

Kæruefni máls þessa er ákvörðun skattstjóra um að hækka bifreiðahlunnindi kæranda á skattframtali 1990 um 116.322 kr.

Málavextir eru þessir: Kærandi er starfsmaður og hluthafi í endurskoðunarstofu. Á skattframtali 1990 taldi hann fram bifreiðahlunnindi frá vinnuveitanda að fjárhæð 105.005 kr. Með bréfi, dags. 7. desember 1990, skoraði skattstjóri á kæranda að gera grein fyrir afnotum sínum af bifreið launagreiðanda. Í svarbréfi, dags. 14. desember 1990, kom fram af hálfu kæranda að í samkomulagi milli sín og vinnuveitanda væri litið svo á að hann hefði takmörkuð afnot af umræddri bifreið, en óhjákvæmilegt væri að hafa bifreið til umráða við störf hans vegna ferða til viðskiptamanna. Gerði kærandi grein fyrir því að samkvæmt akstursbók fyrir árið 1989 hefði hann ekið 21.484 km á því ári, þar af var akstur í þágu vinnuveitanda 10.983,5 km og akstur í eigin þágu, þ.m.t. akstur milli heimilis og vinnustaðar, 10.500,5 km.

Með bréfi, dags. 4. janúar 1991, boðaði skattstjóri kæranda hækkun tekjuskattsstofns sem næmi mismun þegar skattlagðra bifreiðahlunninda og 15% af kostnaðarverði nefndrar bifreiðar eins og það væri skilgreint í skattmatsreglum ríkisskattstjóra. Féllist skattstjóri ekki á skýringar kæranda í svarbréfi hans. Mótmælti kærandi fyrirhugaðri endurákvörðun með bréfi, dags. 10. janúar 1991, með vísan til fyrri rökstuðnings og þess að í reglum vinnuveitanda væri kveðið á um að afnot annarra fjölskyldumeðlima en launamanns væru óheimil og að bifreiðin þyrfti jafnan að vera til staðar á vinnustað vegna þjónustu við viðskiptamenn. Á árinu 1989 hefði akstur í eigin þágu verið óvenju mikill þar sem kæranda hefði verið heimilað að fara nokkrar ferðir á bifreiðinni til X vegna fjölskylduaðstæðna.

Hinn 6. febrúar 1991 tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda í framhaldi af bréfi sínu frá 4. janúar 1991. Taldi skattstjóri að 10.500 km akstur í eigin þágu jafngilti því að kærandi hefði í raun haft ótakmörkuð afnot af bifreið launagreiðanda. Málið snérist ekki um notkun á bifreiðinni í þágu launagreiðanda, enda yrði að gera ráð fyrir að sú notkun væri forsenda þess að kærandi hefði umráð yfir bifreiðinni.

Með kæru, dags. 26. febrúar 1991, mótmælti kærandi endurákvörðun skattstjóra með vísan til fyrri rökstuðnings og skýringa. Með kæruúrskurði, dags. 13. maí 1991, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að ekki kæmu fram neinar nýjar röksemdir eða skýringar í kæru.

II.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 6. júní 1991, ítrekar kærandi að hann hafi takmörkuð not af bifreið launagreiðanda og gerir grein fyrir heildarakstri og skiptingu hans í akstur í þágu launagreiðanda og akstur í eigin þágu. Þá vísar hann til reglna launagreiðanda um að þeim sem hafi bifreið til afnota sé skylt að hafa þær til reiðu á vinnustað og notkun annarra fjölskyldumeðlima sé óheimil. Ljóst sé að þjónusta á sviði endurskoðunar, reikningsskila, skattamála og margs konar ráðgjafarstarfsemi fari oftar en ekki fram á starfsstöð viðskiptavinar og því sé óhjákvæmilegt að hafa bifreið til afnota. Þá getur kærandi svars ríkisskattstjóra á fundi með löggiltum endurskoðendum við fyrirspurn um skattalega meðferð bifreiðaafnota endurskoðenda. Hafi ríkisskattstjóri talið að um takmörkuð afnot væri að ræða við þessar aðstæður. Hafi svarið haft áhrif á túlkun viðstaddra á reglur um takmörkuð og ótakmörkuð afnot bifreiða launagreiðenda. Þá rekur kærandi að í akstursbók séu skráðar ferðir til viðskiptavina og mismunur þeirrar skráningar og heildaraksturs sé talinn akstur í eigin þágu.

Kærandi leggur fram svohljóðandi kröfugerð:

„1. Með vísan til reglna ríkisskattstjóra verði framtalið hlunnindamat lækkað um sem nemur 35.360 kr. vegna reiknaðs aksturs á milli heimilis og vinnustaðar á þeirri forsendu að ekki sé um hlunnindi að ræða vegna eðli þess starfa sem um ræðir.

2. Fallist ríkisskattanefnd ekki á þá kröfugerð sem fram er sett í lið 1, er sett fram sú varakrafa að sá akstur sem skráður er í eigin þágu undirritaðs á árinu 1989 verði skattlagður eins og um takmörkuð hlunnindi sé að ræða, eða eins og undirritaður gekk frá skattframtali sínu gjaldárið 1990.

3. Fallist ríkisskattanefnd hvorki á kröfu 1 né 2, er gerð krafa um að álögð bifreiðahlunnindi verði lækkuð þar sem í ljós hefur komið villa í útreikningi skattstjóra. Í bréfi hans dagsettu 7. desember 1990 segir að framtalin bifreiðahlunnindi nemi 95.280 kr. Rétt er að þessi fjárhæð er tilgreind á launamiða ársins 1990, en hann byggði á áætlun sem höfð var til hliðsjónar við skil á mánaðarlegri staðgreiðslu. Á framtali tekjufærði undirritaður hinsvegar kr. 105.005 sem bifreiðahlunnindi og var þeirri fjárhæð ekki breytt við álagningu opinberra gjalda 1990.“

Með bréfi, dags. 6. ágúst 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Kærandi, sem á ekki einkabifreið sjálfur, hefur ekki sýnt fram á, að heimil notkun hans á umræddri bifreið sé takmörkuð á einn eða annan hátt, enda verður að telja að 10.500 km akstur á einu ári falli ekki í eðli sínu undir hugtakið takmörkuð afnot.

Með hliðsjón af þessu er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.“

III.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Óumdeilt er í málinu að kærandi hafði á árinu 1989 bifreið vinnuveitanda síns til umráða utan vinnutíma. Ágreiningur stendur hins vegar um það hvort kærandi hafi haft bifreiðina til fullra umráða eða hún staðið honum til takmarkaðra afnota, sbr. orðalag í skattmati ríkisskattstjóra sem birt var í 5. tbl. Lögbirtingablaðsins 18. janúar 1989. Skilja verður skattmat ríkisskattstjóra þannig að bifreiðaafnot skuli meta til tekna eftir reglum um takmörkuð afnot ef eingöngu er um að ræða akstur milli heimilis og vinnustaðar, enda sé slíkur akstur í þágu launamanns, sbr. lið 1.5.2. í skattmatinu, svo og tilfallandi afnot, sbr. lið 1.5.3. Ekki verður talið að nægileg takmörkun felist að þessu leyti í þeirri aðferð kæranda að telja til eigin aksturs mismun heildaraksturs og aksturs til viðskiptavina. Þá verður ekki talið að neinu skipti í þessu sambandi þótt kæranda sé skylt að hafa bifreiðina til taks á vinnutíma eða að öðrum í fjölskyldu hans sé óheimil afnot hennar.

Að því virtu sem hér hefur verið rakið, svo og með hliðsjón af því sem upplýst er í málinu um akstur kæranda í eigin þágu á árinu, verður að líta svo á að kærandi hafi haft umrædda bifreið til fullra afnota í skilningi skattmatsreglna ríkisskattstjóra. Samkvæmt því ber að meta afnotin til tekna hjá kæranda með hliðsjón af aldri og verði bifreiðarinnar. Ekki er ágreiningur um fjárhæð bifreiðahlunninda sem leiðir af framangreindum reglum. Er kröfuliðum nr. 1 og 2 í kröfugerð kæranda hafnað. Fallist er á leiðréttingu samkvæmt kröfulið 3.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans, en tekjuskattsstofn lækkar um 9.527 kr. vegna reiknivillu skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja