Úrskurður yfirskattanefndar
- Vaxtabætur
Úrskurður nr. 466/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður 3. mgr.
I.
Málavextir eru þeir að í framhaldi af bréfi sínu, dags. 21. maí 1991, og að fengnu svarbréfi kærenda, dags. 24. maí 1991, tilkynnti skattstjóri kærendum með bréfi, dags. 25. júlí 1991, að vaxtagjöld í reit 87 í skattframtali þeirra árið 1991 hefðu verið lækkuð um 28.193 kr. eða úr 182.168 kr. í 153.975 kr. á þeim forsendum að vaxtagjöld af lánum sem tekin hefðu verið á árunum 1988 og 1990 uppfylltu ekki skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þ.e. sjö ár væru liðin talið frá og með byggingarári. Var hér annars vegar um að ræða lán til tveggja ára að fjárhæð 200.000 kr. og lán til 25 ára að fjárhæð 1.000.000 kr.
Af hálfu kærenda var því haldið fram, sbr. svarbréf þeirra, dags. 24. maí 1991, og kæru til skattstjóra, dags. 12. ágúst 1991, að vaxtagjöld þessi væru af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis og að skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, væru að öðru leyti uppfyllt. Kom fram af hálfu kærenda að þeir skildu svo ákvæði 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að fyrstu sjö árin frá og með því ári, er bygging hófst, væri heimilt að telja fram öll lán sem tekin væru til öflunar íbúðarhúsnæðis en eftir það eingöngu lán til lengri tíma sem sannanlega hefðu verið notuð til öflunar íbúðarhúsnæðis, þ.e. fasteignaveðlán til a.m.k. tveggja ára eða lán við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára. Lán þau, sem um ræddi, uppfylltu síðastnefnd skilyrði. Þá kom fram að kærendur hefðu ákveðið í upphafi að byggja í áföngum og taka ekki of mikið af lánum fyrstu árin. Með kæruúrskurði, dags. 25. október 1991, ákvað skattstjóri að fyrri breyting skyldi óhögguð standa.
II.
Kærendur skutu kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. nóvember 1991. Þess er krafist að breytingu skattstjóra verði hnekkt. Ítrekaðar eru áður fram komnar skýringar um að uppfyllt séu lagaskilyrði varðandi hin umdeildu lán. Vísað er til viðtals við starfsmann skattstjóra vegna lánsins frá 1988 er hann hefði samþykkt að uppfyllti skilyrði laga. Jafnframt hefði starfsmaðurinn verið inntur svars við því hvort lán er fyrirhugað væri að taka árið 1990 vegna bílskúrsbyggingar yrði talið uppfylla skilyrði C-liðs 69. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og hefði hann talið svo vera.
Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
III.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Skattstjóri byggði hina umdeildu breytingu sína á því að reglan um sjö ára tímamörk, sbr. 2. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, ætti við um umrædd lán. Það fær ekki staðist þegar litið er til þess sem fyrir liggur um lán þessi í málinu. Þegar þetta er virt og litið er til atvika málsins, þar á meðal byggingaframkvæmda kærenda á árinu 1990, sbr. húsbyggingarskýrslu, er fylgdi skattframtali, er krafa kærenda í máli þessu tekin til greina.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Vaxtagjöld í reit 87 á skattframtali 1991 verða 182.168 kr.