Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Rekstrarfjármunir, sala
  • Skattverð

Úrskurður nr. 468/1992

Virðisaukaskattur 1990

Lög nr. 50/1988, 7. gr., 11. gr. 3. mgr., 12. gr., 13. gr., 19. gr., 27. gr. 1. og 2. mgr.   Reglugerð nr. 530/1989, 10. gr. 2. mgr.  

I.

Með kæru, dags. 4. ágúst 1992, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 10. júlí 1992, vegna endurákvörðunar virðisaukaskatts uppgjörstímabilið maí-júní 1990.

Málavextir eru þessir:

Með ábyrgðarbréfi, dags. 19. mars 1992, boðaði skattstjóri kæranda hækkun á virðisaukaskattsskyldri veltu á árinu 1990. Fram kæmi í ársreikningi með skattframtali 1991 að kærandi hefði á rekstrarárinu 1990 selt sendibifreið. Samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum fyrir sama rekstrarár væri salan ekki útsköttuð, en sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum teldist til virðisaukaskattsskyldrar veltu skv. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Af hálfu kæranda voru ekki gerðar athugasemdir við bréf skattstjóra. Hinn 5. maí 1992 endurákvarðaði skattstjóri virðisaukaskatt kæranda vegna fyrrgreinds uppgjörstímabils. Hækkaði skattstjóri skattskylda veltu um 950.000 kr. sem var söluverð bifreiðarinnar. Ákvarðaði hann kæranda virðisaukaskatt (útskatt) á þá upphæð, 232.750 kr., ásamt álagi, 46.550 kr., skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Í kæru til skattstjóra, sem barst honum 3. júní 1992, mótmælti kærandi endurákvörðuninni á þeim forsendum að umrædd bifreið hefði verið keypt með söluskatti á árinu 1989 og því hefði kærandi litið svo á að ekki bæri að innheimta virðisaukaskatt við sölu hennar, enda væri þá um tvísköttun að ræða. Hafi sú skoðun verið nokkuð útbreidd að ekki bæri að leggja virðisaukaskatt á söluverð bifreiða sem keyptar hefðu verið með söluskatti og meðal annars hafi bílasalinn, sem sá um sölu bifreiðarinnar, ekki vitað betur. Þá var því mótmælt að skattstjóri leggi virðisaukaskatt ofan á söluverð í stað þess að telja skattinn hluta af söluverði.

Með kæruúrskurði þeim sem nú hefur verið skotið til yfirskattanefndar staðfesti skattstjóri endurákvörðun sína. Tók skattstjóri fram að ekkert ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, kvæði á um undanþágu frá ákvæðum 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 þótt um væri að ræða tæki sem keypt hefði verið með söluskatti fyrir gildistöku virðisaukaskattslaga. Mótmælti skattstjóri því að kynning á meðferð virðisaukaskatts hefði verið ónóg um þetta atriði. Þá tók skattstjóri fram að skv. 7. gr. laga nr. 50/1988 væri skattverð það verð sem virðisaukaskattur væri reiknaður af við sölu á vörum og verðmætum. Skattverð miðist við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts. Þar sem ekki hafi verið reiknað með virðisaukaskatti við sölu umræddrar bifreiðar geti virðisaukaskattur ekki hafa verið innifalinn í söluverði. Hann reiknist því sem 24,5% af söluverðinu en það teljist skattverð.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar mótmælir umboðsmaður kæranda endurákvörðun skattstjóra á sömu forsendum og fram komu í kæru til skattstjóra. Þá tekur umboðsmaðurinn fram að ekki hafi verið gefinn út reikningur við söluna, enda hafi aðilar ekki talið að lög um virðisaukaskatt tækju til viðskiptanna. Ætti kaupandi því ekki að hafa fengið innskatt af þessum viðskiptum. Þar sem hvorki væri um útskatt né innskatt að ræða sé salan hlutlaus í anda virðisaukaskattslaga. Einnig kemur fram að kaupandi hafi hafnað ítrekuðum kröfum kæranda um að hann stæði honum skil á útskatti af söluverði bifreiðarinnar.

Með bréfi, dags. 28. september 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Tekið skal fram að í ákvæði til bráðabirgða I. í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vskl.) segir m.a.:

„Fari afhending skattskyldrar vöru og þjónustu fram eftir gildistöku laga þessara [sic] skal hún teljast til virðisaukaskattsskyldrar veltu samkvæmt lögum þessum.“

Af framangreindu er ljóst að ekki skiptir máli við sölu hvort rekstrarfjármunur hafi verið keyptur fyrir gildistöku vskl. eða eftir að lögin tóku gildi. Af þeim sökum telst sala á sendibifreið til skattskyldrar veltu skv. 3. mgr. 11. gr. vskl. þó að hún hafi verið keypt með söluskatti en seld eftir að vskl. tóku gildi.“

III.

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé aðallega krafist að hin umdeilda endurákvörðun verði felld niður með öllu, en til vara að ákvarðaður virðisaukaskattur verði miðaður við að hann sé hluti af söluverði umræddrar sendibifreiðar.

Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst sala eða afhending rekstrarfjármuna til skattskyldrar veltu virðisaukaskattsskyldra aðila. Gildir að þessu leyti sama regla um rekstrarfjármuni sem aflað var fyrir og eftir þann tíma er skattheimta samkvæmt lögum um virðisaukaskatt kom til framkvæmda. Fyrir liggur að kærandi seldi sendibifreið sína hinn 16. júní 1990. Bifreiðin var eignfærð í efnahagsreikningi kæranda vegna atvinnustarfsemi hans. Af skattskilum kæranda verður ekki annað ráðið en hún hafi eingöngu verið notuð við þá starfsemi. Ákvæði 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 530/1989, um frádrátt virðisaukaskatts, verða því ekki talin taka til sölu bifreiðarinnar. Að þessu virtu er á það fallist með skattstjóra að kæranda bar að telja sölu bifreiðarinnar til skattskyldrar veltu sinnar samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum laga um virðisaukaskatt, enda á ekkert undanþáguákvæða 12. gr. laganna við í málinu. Er aðalkrafa kæranda því ekki tekin til greina.

Víkur þá að varakröfu kæranda um að virðisaukaskattur verði talinn hluti söluverðs bifreiðarinnar í stað þess að miða skattverð skv. 7. gr. laga nr. 50/1988 við söluverð bifreiðarinnar, svo sem skattstjóri gerði. Óumdeilt er að söluverð bifreiðar kæranda var 950.000 kr. Eftir því sem fram kemur í kæru var ekki gert ráð fyrir virðisaukaskatti í því verði. Samkvæmt 2. ml. 19. gr. laga nr. 50/1988 skal skattskyldur aðili samkvæmt lögunum greiða virðisaukaskatt af skattskyldri veltu sinni þótt hann hafi ekki tekið skattinn við sölu eða aðra afhendingu. Verður sú regla einnig talin gilda þegar seljandi eða báðir aðilar að viðskiptum kunna að hafa álitið að ekki væri um skattskyld viðskipti að ræða og því ekki gert ráð fyrir virðisaukaskatti í söluverði. Engin rök standa til þess að í þeim tilvikum sé aðila gert að greiða hærra hlutfall af mótteknu heildarendurgjaldi í formi virðisaukaskatts til ríkissjóðs en þegar tekið hefur verið tillit til skattsins í verðinu. Verður ekki talið að slík niðurstaða felist í orðalagi 2. ml. 1. mgr. 7. gr. laganna sem skattstjóri vitnar til í úrskurði sínum. Þá þykja ákvæði 13. gr. laganna, um uppgjör skattskyldrar veltu, sbr. einkum 3. mgr. greinarinnar, vera til stuðnings kröfu kæranda. Að því virtu sem að framan hefur verið rakið er fallist á varakröfu kæranda og er skattverð í tilviki hans ákvarðað 80,32% af 950.000 eða 763.040 kr. Samkvæmt þeirri niðurstöðu lækkar virðisaukaskattur kæranda uppgjörstímabilið maí-júní 1990 um 45.805 kr. og álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 lækkar um 9.161 kr.

Vegna kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu skal tekið fram að ekki reynir á þar tilvitnað bráðabirgðaákvæði við úrlausn málsins, enda er því ekki haldið fram af hálfu kæranda að samningur hafi verið gerður um bifreiðasöluna eða greitt inn á viðskiptin fyrir 1. janúar 1990.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Virðisaukaskattur kæranda uppgjörstímabilið maí-júní 1990 lækkar um 45.805 kr. og álag skv. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 lækkar um 9.161 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja