Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Fatakostnaður hljómlistarmanns

Úrskurður nr. 471/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 31. gr.  

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður af rekstrarreikningi vegna hljómlistarstarfa fyrir árið 1990 gjaldfærðan kostnað vegna fatnaðar 22.715 kr. á þeim forsendum að ekki væri um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. bréf skattstjóra, dags. 26. júlí 1991, og kæruúrskurð hans, dags. 18. nóvember 1991.

Af hálfu kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 18. desember 1991. Er þess krafist að umræddur gjaldaliður verði tekinn til greina. Fram kemur af hálfu kæranda að fatnaðurinn sé eingöngu notaður á leiksviði þar sem öflun teknanna fari fram. Hjá hljómsveitum séu fatakaup liður í öflun teknanna. Þær komi fram í sínum ákveðnu einkennisfötum ef svo mætti segja.

Með bréfi, dags. 6. mars 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að hinn umdeildi gjaldaliður sé frádráttarbær frá tekjum hans samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfu kæranda er synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja