Úrskurður yfirskattanefndar
- Frádráttur á móti ökutækjastyrk
- Skattmat ríkisskattstjóra
Úrskurður nr. 483/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981, 30. gr. A-liður 1. tölul. Skattmat fyrir tekjuárið 1989
I.
Málavextir eru þeir að kærandi færði til tekna í skattframtali sínu árið 1990 móttekinn ökutækjastyrk 398.611 kr. frá launagreiðanda sínum, X. Til frádráttar styrknum færði hann 240.334 kr. sem bifreiðakostnað. Með skattframtalinu fylgdi greinargerð (RSK 3.04) um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur þar sem meðal annars kom fram að kærandi hefði ekið bifreið sinni alls 21.588 km á árinu 1989, þar af taldi kærandi akstur í þágu vinnuveitanda 19.288 km og annan akstur í eigin þágu 2.300 km. Akstur til og frá vinnu taldi kærandi engan. Þá undirritaði kærandi yfirlýsingu um að hann væri reiðubúinn til að leggja fram fullnægjandi akstursbækur eða akstursskýrslur og önnur gögn til skattstjóra varðandi greiðslur fyrir afnot af bifreið sinni í þágu launagreiðanda.
Með bréfi, dags. 11. janúar 1991, krafði skattstjóri kæranda um umræddar akstursbækur eða akstursskýrslur til staðfestingar frádrætti á móti fengnum ökutækjastyrk. Með bréfi, dags. 21. janúar 1991, andmælti kærandi kröfu skattstjóra um framlagningu akstursdagbóka eða akstursskýrslna á þeim forsendum að honum væri það ekki skylt samkvæmt lögum þar eð greiðslur til hans vegna ökutækjastyrks færu eftir áætlun. Þá fylgdi bréfinu uppdráttur af Reykjavík þar sem kærandi hafði fært inn stærð vinnusvæðis sem hann taldi sig aka um daglega vegna verkefna sinna.
Með bréfi, dags. 27. febrúar 1991, boðaði skattstjóri niðurfellingu frádráttar frá fengnum ökutækjastyrk á þeim forsendum að kærandi hefði enga kílómetra tilgreint vegna aksturs milli heimilis og vinnustaðar í ökutækjaskýrslu, en sá akstur svari u.þ.b. þeim akstri sem tilfærður hafi verið í þágu launagreiðanda. Mætti af því ráða að ökutækjastyrkur til kæranda hafi einungis verið greiddur til að standa straum af kostnaði við akstur til og frá vinnu. Í framhaldi af bréfi kæranda, dags. 8. mars 1991, þar sem ráðagerð skattstjóra var mótmælt, tilkynnti skattstjóri kæranda í bréfi, dags. 1. júlí 1991, að hann hefði fellt niður umræddan frádrátt og endurákvarðað opinber gjöld kæranda gjaldárið 1990 í samræmi við það.
Með kæru, dags. 30. júlí 1991, mótmælti kærandi breytingu skattstjóra og með kæruúrskurði, dags. 2. september 1991, vísaði skattstjóri kæru kæranda frá á þeim forsendum að frekari rökstuðningur við bráðabirgðakæru hefði ekki borist.
II.
Af hálfu kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. október 1991. Gerir kærandi þær kröfur að breyting skattstjóra verði felld niður, að kæranda verði heimilt að afskrifa bifreið sína um 8% samkvæmt almennum fyrningarreglum í stað fastra afskrifta og að vinnustaður verði viðurkenndur þar sem hann er hverju sinni, þ.e. breytilegur. Þá áskilur kærandi sér rétt skv. 6. mgr. 100 gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til málflutnings fyrir nefndinni.
Með bréfi, dags. 13. apríl 1992, gerði kærandi grein fyrir kröfum sínum. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi oftar en einu sinni áréttað við starfsmenn ríkisskattanefndar ósk sína um að fá að sjá hugsanlegar athugasemdir ríkisskattstjóra áður en nefndin úrskurðaði í málinu. Telur hann málsmeðferð skattstjóra og ríkisskattstjóra ekki samrýmast lögum með tilliti til þess tíma er leið frá því að kæra hans barst ríkisskattanefnd og þar til kröfugerð ríkisskattstjóra barst nefndinni. Þá vill kærandi ekki una því að afskrift bifreiða sé miðuð við ákveðna fjárhæð en ekki raunverulegar tölur sem miðist við verðmæti viðkomandi bifreiðar. Til þess að fullnægja skyldum við vinnuveitanda þurfi kærandi á traustri bifreið að halda, en honum sé „ætlað að fara út í hvaða veður sem fært er til vinnu“. Þá segir svo um akstur milli heimilis og vinnustaðar:
„Vinnuveitandi minn greiðir mér laun á almennum vinnudegi frá því kl. 0720 til 1740. Hefur verið gert svo í áratugi. Greiðsla fyrir akstur bifreiðar utan skrifstofutíma, sem er 0800-1700, er færð sérstaklega á launaseðli sem „ferðir“. Á árinu 1989 námu tekjur undir þessum lið kr. 898.464 (auk endurgreiðslu bifreiðakostnaðar) Ljósrit launaseðils fylgir hér sem fskj. (1). Samkvæmt því hlutfalli sem á honum stendur 2.001.721/5.899.641,41, voru kr. 304.844,67 þegar á árinu 1989 dregnar frá launum í staðgreiðslu gjalda vegna þeirrar vinnu, sem ég innti af hendi við akstur bifreiðar minnar. Tel ég því augljóst að viðurkennt sé, að vinna mín sé víðar en innan svæðis skrifstofunnar, en greiðslur mínar vegna bifreiðar eru einmitt og almennt til aksturs utan skrifstofu. Engin húsakynni eru fyrir mig og mína líka á aðal vinnusvæðinu, enda má þess og geta, að þeir, sem nær búa sama vinnuveitanda fá greitt fyrir styttri tíma, allt eftir raunverulegum ferðatíma. Ég tel sýnt, að túlka beri ákvæði laga um akstur „milli heimilis og vinnustaðar“ svo, að þau eigi ekki við mig, heldur þá, sem fá greitt fyrir þann tíma frá því er þeir mæta til vinnu, án tillits til heimilis.“
Í framhaldi af bréfi sínu til ríkisskattanefndar, dags. 12. ágúst 1992, þar sem kærandi óskaði eftir vitneskju um greinargerð ríkisskattstjóra, gerir kærandi þá meginkröfu í bréfi til ríkisskattanefndar, dags. 21. ágúst 1992, að viðurkennt sé að vinna kæranda hefjist kl. 7:20 hvern dag og akstur eftir þann tíma teljist í þágu vinnuveitanda. Til vara gerir kærandi þá kröfu að tekið verði tillit hinnar löngu vegalengdar sem kærandi verði að aka í vinnutíma á launum, sem sé til hagsbóta vinnuveitanda, en sérhæfðu starfsliði nær honum sé ekki fyrir að fara.
Með bréfi, dags. 12. ágúst 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:
„Að endurákvörðun skattstjóra standi óbreytt enda verður ekki annað séð en að um akstur milli heimilis og vinnustaðar sé að ræða. Engin lagaheimild er til að undanþiggja greiðslur fyrir slíkan akstur frá tekjuskatti.“
III.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Með bréfi formanns yfirskattanefndar, dags. 5. nóvember 1992, var beiðni kæranda um munnlegan málflutning hafnað, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
Í framhaldi af kæru, dags. 2. október 1991, og greinargerð, dags. 13. apríl 1992, ítrekaði kærandi í bréfi, dags. 12. ágúst 1992, að honum gæfist kostur á því að tjá sig um kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu. Með bréfi, dags. 21. ágúst 1992, staðfesti kærandi móttöku á kröfugerð ríkisskattstjóra, dags. 12. ágúst 1992, og gerði jafnframt enn grein fyrir kröfum sínum í málinu. Verður að líta svo á að í bréfi þessu komi endanlegar kröfur kæranda fram. Sé aðalkrafan sú að tilfærður akstur 19.288 km samkvæmt ökutækjaskýrslu (RSK 3.04) verði talinn í þágu vinnuveitanda og kostnaður vegna þess aksturs, 240.334 kr., verði því látinn óhaggaður standa í reit 32 í skattframtali árið 1990. Til vara er þess krafist, verði ekki fallist á aðalkröfu, að tekið verði tillit til aðstæðna í tilviki kæranda, þ.e. fjarlægðar milli heimilis og vinnustaðar. Telur kærandi að ríkisskattstjóra beri í matsreglum sínum að taka tillit til réttar þeirra er fara langferðir vegna vinnu og hafi raunar gert það varðandi reglur um bifreiðahlunnindi. Þá verður að telja að kærandi haldi fram kröfu sinni varðandi afskrift bifreiðar.
Skattstjóri byggði niðurfellingu á frádrætti í reit 32 á því að tilfærður akstur í þágu vinnuveitanda væri eingöngu milli heimilis og vinnustaðar. Samkvæmt 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal því að slík útgjöld séu í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Samkvæmt matsreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1989, sbr. auglýsingu í 8. tbl. Lögbirtingablaðs 1990, telst allur akstur milli heimilis og vinnustaðar vera í einkaþágu. Þá er í reglum þessum mælt fyrir um fasta afskrift bifreiðar. Af hálfu kæranda hefur ekki annað komið fram en tilfærður akstur í þágu vinnuveitanda sé milli heimilis og vinnustaðar er hann telur að sé í þarfir vinnuveitandans með hliðsjón af aðstæðum. Af hálfu kæranda er ekkert að því vikið að hluti aksturs tilfærðs í þágu vinnuveitanda sé til og frá starfsstöð í starfserindum. Að svo vöxnu og með vísan til fyrrgreindra matsreglna verður að hafna kröfum kæranda.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum kæranda er hafnað.