Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur, reiknaðar
  • Notkun húsnæðis

Úrskurður nr. 487/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 7. gr. C-liður 2. tölul. 2. mgr., 116. gr.  

I.

Kæruefni í máli þessu sem barst ríkisskattanefnd með kæru, dags. 16. október 1991, er ákvörðun skattstjóra um að færa til tekna á skattframtali kæranda 1991 reiknaðar húsaleigutekjur vegna íbúðar kæranda að X, þ.e. 2,7% af fasteignamati húss og lóðar 144.000 kr. að frádregnum fasteignagjöldum og viðhaldskostnaði samtals 58.792 kr. eða nettó 85.208 kr., sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 23. september 1991. Gerir kærandi kröfu um að tekjuliður þessi verði felldur af framtali.

Á skattframtali 1991 tekjufærði kærandi reiknaðar húsaleigutekjur vegna umræddrar íbúðar 144.000 kr. Með kæru, dags. 8. ágúst 1991, var farið fram á að tekjuliður þessi yrði felldur af framtalinu þar sem kærandi hefði engar tekjur haft af íbúðinni. Þar búi fyrrverandi eiginmaður kæranda og dóttir ásamt því að kærandi notaði íbúðina í bæjarferðum sínum. Kærandi hafi því ekki haft tekjur af íbúðinni þannig að tekjuliðurinn húsaleiga 144.000 kr. sé skekkja sem þurfi að leiðrétta. Kærandi sé stórskuldug og hafi haft kostnað af íbúðinni, fasteignagjöld 31.783 kr. og viðhaldskostnað í gegnum hússjóð 27.009 kr. Kærandi vísar í kæru til ríkisskattanefndar til samtals við ónefndan fulltrúa ríkisskattstjóra og hefur eftir honum að ríkisskattanefnd hafi úrskurðað í hliðstæðum málum t.d. á árinu 1983.

Með kæruúrskurði sínum féllst skattstjóri á að lækka reiknaðar húsaleigutekjur sem næmi fasteignagjöldum, en hafnaði því að fella tekjurnar af framtali. Vísaði hann til þess að í íbúðinni byggi fyrrverandi eiginmaður kæranda ásamt dóttur kæranda.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 14. janúar 1992, krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Upplýst er í máli þessu að fyrrverandi eiginmaður kæranda hafði á árinu 1990 búsetu í íbúð þeirri sem um er rætt. Verður ekki fallist á að afnotum hans af húsnæðinu megi jafna til eigin nota í skilningi 2. ml. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ber vegna þeirrar notkunar að reikna kæranda leigutekjur samkvæmt hlunnindamati húsnæðis, sbr. 116. gr. sömu laga. Þykir búseta dóttur kæranda í íbúðinni á sama tíma ekki fá breytt þeirri niðurstöðu. Ekki er ágreiningur um útreikning hinna reiknuðu leigutekna. Er kröfu kæranda því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja