Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Fatahlunnindi
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 624/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 1. mgr.   Skattmat fyrir tekjuárið 1988  

I.

Málavextir eru þeir að í framhaldi af bréfi sínu, dags. 8. febrúar 1990, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 20. febrúar 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 2. október 1990, að honum hefðu verið færðar til tekna í skattframtali árið 1989 25.927 kr. sem hlunnindi vegna fatnaðar enda væri allur einkennisfatnaður skattskyldur. Endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 í samræmi við þetta. Af hálfu kæranda var þess krafist að byggt yrði á hlunnindamati ríkisskattstjóra og fjárhæð hlunnindanna lækkuð í 8.200 kr. Með kæruúrskurði, dags. 16. janúar 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Skattstjóri tók fram að svo virtist sem um hefði verið að ræða fatapeninga en ekki fatnað sem látinn hefði verið í té án endurgjalds. Fatnaður án endurgjalds væri greiddur og gjaldfærður hjá launagreiðanda. Greiðsla vegna fatnaðar til launþega væri fatapeningar sem teldust með öðrum tekjum hans, sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu einstakra reita launamiða. Ekki kæmi fram að um hlífðarfatnað hefði verið að ræða. Í bréfi kæranda, dags. 20. febrúar 1990, og kæru, dags. 5. nóvember 1990, kæmi fram að um hefði verið að ræða greiðslur vegna fatnaðar. Telja yrði að um skattskyldar tekjur hefði verið að ræða, sbr. 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 15. febrúar 1991. Gerð er grein fyrir aðdraganda málsins. Launagreiðandi hefði fengið fyrirspurn varðandi gjaldfærðan kostnað vegna fatakaupa 51.853 kr. Með svari hefðu verið sendir útfylltir launamiðar tveggja starfsmanna vegna umrædds fatnaðar er síðan hefði leitt til tekjufærslu hjá þeim. Misskilningur væri hjá skattstjóra að starfsmennirnir hefðu fengið greidda fatapeninga. Reyndar væri það svo að launamiðarnir væru ranglega útfylltir. Þar hefðu einungis átt að koma fram þau reiknuðu hlunnindi sem starfsmönnunum bæri að telja sér til tekna vegna einkennisfatnaðar sem þeim væri gert að klæðast við störf sín. Með kærunni fylgdi ljósrit reikninga sem launagreiðandinn hefði greitt vegna fatakaupanna. Af þeim mætti sjá að starfsmennirnir hefðu ekki fengið þessar greiðslur til sín. Þá fylgdi kærunni ljósrit af bréfi launagreiðanda, X hf., dags. 5. febrúar 1990, þar sem fram kemur að starfsfólki ber að klæðast einkennisfötum við störf sín. Þess er krafist af kæranda hálfu með vísan til þess sem fyrr greinir að honum beri eingöngu að telja sér til tekna fjárhæð sem nemur hlunnindamati ríkisskattstjóra vegna einkennisfatnaðar 8.200 kr. í stað 25.926 kr. sem skattstjóri tekjufærði.

Með bréfi, dags. 6. ágúst 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Með hliðsjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu kæranda.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Krafa kæranda er sú að fatnaður sá sem í málinu greinir verði reiknaður til tekna sem einkennisfatnaður samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra, sbr. lið 2.2.1. í skattmati þess embættis fyrir tekjuárið 1988, sem birt er í 5. tbl. Lögbirtingablaðsins 1989. Að virtum öllum málavöxtum og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra í málinu er fallist á kröfu kæranda þó þannig að fjárhæðin reiknast 6.845 kr., sbr. nefnt skattmat.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hlunnindi kæranda vegna fatnaðar gjaldárið 1989 reiknast 6.845 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja