Úrskurður yfirskattanefndar
- Leigubifreiðastjóri
- Eigin notkun leigubifreiðar
- Rekstrarkostnaður
Úrskurður nr. 628/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul.
I.
Málavextir eru þeir að skattframtal kæranda, sem er leigubílstjóri, barst skattstjóra 18. júlí 1991 og var það tekið sem kæra, sbr. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæruúrskurði, dags. 14. október 1991, féllst skattstjóri á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda með þeirri breytingu að færa kæranda til tekna einkanot leigubifreiðar 73.950 kr. Skattstjóri reiknaði þessi eigin afnot miðað við 3.000 km akstur í eigin þágu og 24,65 kr. á kílómetra.
Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. október 1991. Er þess krafist að tekjufærð eigin afnot 73.950 kr. verði felld niður enda mæli engin lög eða reglur fyrir um tekjufærslu reiknaðra hlunninda vegna afnota af eigin bifreiðum. Þess er getið að kærandi sé leigubifreiðastjóri og reki eigin leigubifreið í þágu sjálfstæðrar atvinnustarfsemi. Til einkanota hafi hann aðra bifreið. Þrátt fyrir fyrirspurn hafi skattstjóri ekki getað svarað því við hvaða lög eða reglur stuðst væri við tekjufærslu reiknaðra hlunninda vegna afnota af eigin bifreið. Hafi skattstjóri talið líklegt að kærandi notaði atvinnubifreiðina til annarra þarfa en rekstrarins, sem ekki hefði verið í tilviki kæranda, hefði verið eðlilegra að skerða hlutfallslega frádrátt vegna gjaldfærslu rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar.
Með bréfi, dags. 30. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
II.
Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.
Hinn umdeildi tekjuauki var á því byggður að leigubifreið kæranda væri að nokkru til eigin afnota hans. Kærandi mótmælir því og telur auk þess að skattstjóra hefði borið að lækka gjaldfærðan rekstrarkostnað bifreiðarinnar með tilliti til eigin afnota ef hann taldi að um slíkt hefði verið að ræða. Á því þykir verða að byggja að um einhver eigin afnot hafi verið að ræða í tilviki kæranda. Með því að mat skattstjóra er innan hóflegra marka þykja ekki efni til að hagga við því. Hins vegar er á það fallist með kæranda að réttara sé að lækka gjaldfærðan rekstrarkostnað vegna hinna umdeildu einkanota. Samkvæmt þessu fellur tekjufærsla skattstjóra í reit 34 niður og rekstrartap lækkar í 44.018 kr. Yfirfæranlegt tap verður 161.986 kr.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfu kæranda um að engin einkanot verði reiknuð honum af leigubifreið hans er hafnað. Gjaldfærður rekstrarkostnaður bifreiðarinnar er lækkaður um 73.950 kr. en tekjuviðbót í reit 34 fellur niður.