Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt
  • Virðisaukaskattur af byggingarstarfsemi

Úrskurður nr. 637/1992

Virðisaukaskattur 1991 og 1992

Lög nr. 50/1988, 5. gr. 1. mgr., 24. gr. 1. og 2. mgr., 27. gr. 1., 2. og 6. mgr.   Reglugerð nr. 576/1989, 2. gr.   Reglugerð nr. 449/1990, 1. gr., 3. gr., 4. gr.  

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 27. júlí 1992, er sú ákvörðun skattstjóra um að beita álagi á síðbúin skil á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 1991 og janúar-febrúar 1992, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 16. júlí 1992. Gerir kærandi þá kröfu að álag verði fellt niður.

Fram er komið í málinu að kærandi hóf byggingu íbúðarhúss til endursölu síðari hluta árs 1991. Skattstjóra var hinn 30. apríl 1992 send tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi, virðisaukaskattsskýrslur vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember 1991 og janúar-febrúar 1992. Samtals var á skýrslum þessum talin fram skattskyld velta 3.491.406 kr., og virðisaukaskattur til greiðslu 855.461 kr. Sama dag bárust skattstjóra endurgreiðslubeiðnir (RSK 10.17) vegna endurgreiðslutímabilanna september-október og nóvember-desember 1991 og janúar-febrúar 1992, samtals að fjárhæð 1.152.051 kr.

Skattstjóri tilkynnti 4. maí 1992 um álagningu virðisaukaskatts samkvæmt framlögðum skýrslum og auk þess álag, 171.092 kr., sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með kæru, dags. 1. júní 1992, mótmælti umboðsmaður kæranda álagi á virðisaukaskatt á þeim forsendum að einungis væri um að ræða reiknaðan skatt vegna byggingarstarfsemi. Hefði kærandi ekki haft neitt innheimtufé undir höndum. Þótt honum bæri að standa skil á hinum reiknaða skatti ætti hann jafnframt rétt á að fá sömu fjárhæð endurgreidda. Væri ekki annað séð en um beint samband væri að ræða milli hins reiknaða skatts og endurgreiðslu á þessum sama skatti, enda væri gjalddögum þannig hagað að ef endurgreiðslubeiðni væri skilað á réttum tíma jafnaðist hún á móti þeim reiknaða skatti sem um væri að ræða hverju sinni.

Með úrskurði skattstjóra, dags. 16. júlí 1992, var kröfum kæranda hafnað. Tók skattstjóri fram að kærandi hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum fyrr en eftir gjalddaga fyrrnefndra uppgjörstímabila og ekki sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna við íbúðarhúsnæði vegna sömu tímabila fyrr en 30. apríl 1991 eða löngu eftir gjalddaga ofangreindra uppgjörstímabila sem hafi verið 5. desember 1991, 5. febrúar 1992 og 6. apríl 1992. Hins vegar hafi endurgreiðslufjárhæð fyrst verið laus til útborgunar frá og með 5. júní 1992, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 449/1990. Ekkert samband sé á milli endurgreiðslna samkvæmt reglum um endurgreiðslur vegna íbúðarhúsabygginga og skila á virðisaukaskatti.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júlí 1992, kemur fram af hálfu umboðsmanns kæranda að kærandi stundi ekki annan atvinnurekstur og því hafi ekki verið um að ræða neina sölu frá honum, hvorki á vinnu né þjónustu. Aðrir verktakar hafi tjáð kæranda að ekki væri greiddur virðisaukaskattur af vinnu manna á byggingarstað. Auk þess hafi hann jafnharðan greitt virðisaukaskatt af aðföngum vegna byggingarinnar. Hafi hann því talið að hann þyrfti ekki að gera frekari grein fyrir virðisaukaskatti. Kærandi hafi því ekki tilkynnt um starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra á tilskildum tíma. Jafnframt hefði kærandi átt að fá hinn reiknaða virðisaukaskatt endurgreiddan á sama tímamarki fyrir sömu uppgjörstímabil, þannig að ekki hafi átt að koma til álag þótt skýrslum hafi ekki verið skilað á réttum tíma, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, og 1. og 3. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Með bréfi, dags. 14. september 1992, gerir ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjanda svofelldar kröfur og athugasemdir í málinu:

„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vskl.) ber þeim sem er skattskyldur skv. lögunum að tilkynna starfsemi sína til skráningar hjá skattstjóra eigi síðar en átta dögum áður en starfsemin hefst. Gjaldandi tilkynnti ekki starfsemi sína til skráningar fyrr en rúmum sjö mánuðum eftir að starfsemin hófst. Enn fremur skilaði gjaldandi hvorki virðisaukaskattsskýrslum né greiðslum vegna hins reiknaða skatts.

Gjaldandi heldur því fram að beint samband sé á milli greiðsluskyldu á reiknuðum skatti skv. 2. gr. reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, og endurgreiðslu á virðisaukaskatti sem fellur á vinnu manna á íbúðarhúsnæði. Á þetta verður ekki fallist. Sú staðreynd að gjaldandi er bæði sá aðili sem skal skila umræddum virðisaukaskatti og sá aðili sem fær hann endurgreiddan firrir hann ekki þeirri ábyrgð að skila virðisaukaskattsskýrslum og eftir atvikum virðisaukaskatti á réttum gjalddaga sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. vskl.

Eins og fram kemur í kæru þá hefur gjaldandi ekki stundað atvinnurekstur áður og af þeim sökum hefði honum borið að afla sér upplýsinga hjá þar til bærum yfirvöldum um allt það sem varðaði reksturinn og hann hafði ekki vitneskju um.

Bent skal á að skattskyld velta gjaldanda (vinna manna á byggingarstað) samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum 1991 sem nemur kr. 3.251.683.- samrýmist ekki fjárhæð greiddra launa samkvæmt útsendum launamiðum og skattframtali gjaldanda sem er einungis kr. 2.024.160.-.

Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að þær ástæður sem raktar eru í kærubréfi nægi til að fella niður álag skv. 2. mgr. 27. gr. vskl.“

III.

Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er boðið að skattskyldur aðili skuli sæta álagi til viðbótar virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu ef skatturinn er ekki greiddur á tilskildum tíma. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Vegna þess sem fram er komið af kæranda hálfu í málinu er til þess að líta að samkvæmt reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi, skal sá er byggir húsnæði til leigu eða sölu, svo sem var í tilviki kæranda, greiða virðisaukaskatt af eigin vinnu og vinnu starfsmanna, svo og af byggingarefni og tækjanotkun, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt reglugerð nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði, er endurgreiðsla einungis heimil vegna virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað, sbr. 3. og 4. gr. reglugerðarinnar. Að þessu virtu er ekki unnt að fallast á það með kæranda að slíkt samhengi sé milli ákvæða þessara reglugerða að það leysi aðila undan skyldu til að standa skil á reiknuðum virðisaukaskatti af umræddri starfsemi á lögmæltum gjalddögum. Samkvæmt þeirri niðurstöðu og þar sem aðrar ástæður sem fram hafa verið færðar af hálfu kæranda þykja ekki geta leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 er kröfu hans hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja