Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lækkun hlutafjár
  • Afföll af skuldabréfum
  • Dreifing skattskylds söluhagnaðar

Úrskurður nr. 641/1992

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981, 27. gr. 3. mgr., 31. gr. 1. tölul., 53. gr. 4. mgr.  

I.

Málavextir eru þeir að skattframtal kæranda, sem er hlutafélag, barst skattstjóra 7. júlí 1988 og var það tekið sem skattkæra. Með bréfi, dags. 18. janúar 1989, óskaði skattstjóri meðal annars sundurliðunar og gagna yfir gjaldaliðinn „Vextir og afföll af skuldabréfum kr. 9.055.355“ á rekstrarreikningi vegna A. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 31. janúar 1989, var fyrirspurn skattstjóra svarað. Var gerð grein fyrir því að hluthafafundur í A hf. hafi á árinu 1985 ákveðið að hætta rekstri félagsins og skipta eignum félagsins milli hluthafa. Vegna sölu eigna hafi inneignir myndast á bankareikningum, en skuldir orðið verulegar við hluthafa. Við útborgun hafi greiðslur til hluthafa verið verðbættar um 5.075.022 kr. Meðal seldra eigna A hf. hafi verið eignarhlutur félagsins í B. Hafi B keypt hlutinn og greitt með óveðtryggðum og óverðtryggðum skuldabréfum til 10 ára. Hafi hluthafar leyst bréfin til sín með 50% afföllum, eða 4.072.433 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 7. apríl 1989, féllst skattstjóri á að byggja álagningu opinberra gjalda á hinu innsenda skattframtali, meðal annars með þeirri breytingu að fyrrgreindur gjaldaliður var felldur niður. Væri gjaldfærslan óheimil, enda væri yfirtaka hluthafa á fyrrnefndum skuldabréfum liður í að skipta eignum félagsins milli þeirra í framhaldi ákvörðunar um að hætta rekstri.

II.

Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 21. apríl 1989, hefur umboðsmaður kæranda mótmælt breytingu skattstjóra. Kveður hann A hf. hafa verið sameinað kæranda á árinu 1987. Misskilnings gæti í úrskurði skattstjóra. Félagið hafi ekki verið leyst upp og því hafi ekki verið skipt milli hluthafa. Kæruatriðum megi skipta í tvennt, vaxtareikning á viðskiptareikninga hluthafa A hf., 4.982.922 kr., og afföll af skuldabréfum, 4.072.433 kr. Geri skattstjóri enga tilraun til að rökstyðja breytingu sína með tilvísun í lagagreinar eða úrskurði og víki ekkert að afföllum af skuldabréfum. Fullnægi úrskurður skattstjóra ekki lagaboði 4. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Efnislega er því mótmælt að gjaldfærslan hafi verið óheimil. Vísar umboðsmaðurinn til bréfs ríkisskattstjóra, dags. 8. mars 1989, til skattstjóra, þar sem gerð sé grein fyrir túlkun ríkisskattstjóra á breytingu þeirri sem gerð var á 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981 með lögum nr. 97/1988. Komi þar fram að heimilt sé að vaxtareikna inneignir hluthafa. Þá rekur umboðsmaðurinn tilurð skuldabréfa þeirra sem hluthöfum voru seld með 50% afföllum og ástæður affallanna. Gerir hann grein fyrir því að hagnaður af sölu A hf. á eignarhluta sínum í B hafi numið 6.542.513 kr. og krefst þess að honum verði deilt á sjö ár til samræmis við ákvæði 27. gr. laga nr. 75/1981.

III.

Með bréfi, dags. 19. júní 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir f.h. gjaldkrefjenda:

„Umboðsmaður kæranda skiptir kæruatriðum varðandi útstrikun skattstjóra á gjaldaliðnum „vextir og afföll skuldabréfa kr. 9.055.355“ í tvennt, annars vegar vaxtareikning á viðskiptareikning hluthafa kr. 4.982.922 og hinsvegar afföll af skuldabréfum kr. 4.072.433.

Varðandi vextina skal það tekið fram að enga heimild er að finna í lögum um tekjuskatt og eignarskatt til að færa umrædda vexti til gjalda. Fram kemur í kærunni að á árunum 1985, 1986 og 1987 hafi verið tekjufærðir vextir hjá kæranda að upphæð kr. 5.295.394. Ljóst má vera að á móti þessari tekjufærslu á vöxtum hefur komið leiðrétting til gjalda í gegnum verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. skattalaganna. Er því krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra varðandi niðurfellingu gjaldfærðra vaxta af rekstrarreikningi.

Að því er varðar kæruliðinn „afföll af skuldabréfum“ er einnig krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra varðandi það að heimila ekki gjaldfærslu á afföllum af skuldabréfum kr. 4.072.433. Eigi þykja hafa komið fram fullnægjandi skýringar um hver raunveruleg afföll hafi verið.

Í þriðja lagi krefst umboðsmaður kæranda þess að hagnaði af sölu eignarhluta í B verði dreift á sjö ár.

Vegna þessa skal tekið fram að ríkisskattstjóri hefur litið svo á að við sölu skuldabréfa sem stendur á bak við þann söluhagnað sem leyfilegt er að dreifa samkv. ákvæðum 27. gr. laga nr. 75/1981, falli úr gildi þær forsendur sem leyfðu dreifingu söluhagnaðar til tekna.

Með vísan til þessa er ekki hægt að fallast á dreifingu söluhagnaðar.“

IV.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Um afföll, 4.072.433 kr. Um er að ræða reiknuð afföll vegna skuldabréfa sem A hf. fékk sem greiðslu á eignarhlut sínum í B en afhenti hluthöfum. Ekki verður afhendingu þessari jafnað til sölu skuldabréfanna. Eins og atvikum var háttað verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að um raunveruleg afföll hafi verið í þessu tilviki. Er því kröfu varðandi gjaldfærslu meintra affalla að fjárhæð 4.072.433 kr. hafnað.

Verðbætur, 4.982.922 kr. Verðbætur þessar voru að fullu færðar til gjalda í ársreikningi vegna ársins 1987. Til þess er að líta að hér er um að ræða verðbætur á inneignir hluthafa sem stafa af lækkun hlutafjár á árinu 1985, en komið er fram í málinu að á því ári hafi félagið hætt rekstri. Ekki hefur af kæranda hálfu verið leitt í ljós í málinu að fé þetta hafi staðið inni í félaginu vegna viðskiptalegra þarfa þess. Að þessu virtu þykir eigi hafa verið sýnt fram á að heimilt sé að telja verðbætur þessar til gjalda, sbr. 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981.

Dreifing söluhagnaðar. Krafa um dreifingu skattlagningar söluhagnaðar kemur fyrst fram í kæru til ríkisskattanefndar. Með tilliti til kröfugerðar ríkisskattstjóra þykir eftir atvikum rétt að taka hana til efnisúrskurðar. Umræddur söluhagnaður verður til hjá A hf. áður en það félag var sameinað kæranda hinn 28. desember 1987, sbr. tilkynningu í 32. tbl. Lögbirtingablaðsins 1988. Ber því að fullnýta yfirfæranleg töp A hf. á móti hagnaðinum, sbr. lokamálslið 27. gr. laga nr. 75/1981. Er því félagi var slitið og það sameinað kæranda átti það enn ónotuð rekstrartöp að teknu tillit til söluhagnaðarins. Kröfum kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja