Úrskurður yfirskattanefndar

  • Kæranleg skattákvörðun
  • Nýr rekstrarreikningur
  • Kæra send skattstjóra til meðferðar

Úrskurður nr. 703/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 30/1992, 12. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1991. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991 sætti kærandi því áætlun skattstofna, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ódagsett skattframtal kæranda árið 1991 barst skattstjóra 29. ágúst 1991 samkvæmt móttökuáritun hans og var tekið sem kæra.

Með bréfi, dags. 18. september 1991, óskaði skattstjóri eftir efnahags- og rekstrarreikningi vegna ársins 1990. Með kæruúrskurði, dags. 11. nóvember 1991, féllst skattstjóri á að leggja innsent framtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1989. Nýtti skattstjóri sér heimild í 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lagði 15% álag á gjaldstofna með vísan til síðbúinna framtalsskila á fyrri árum.

Af hálfu kæranda var úrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. desember 1991. Í kærunni er þess krafist að gerðar verði ýmsar breytingar á innsendu skattframtali. Meðal annars hafi tekjur verið ranglega framtaldar milli ára og lagður er fram nýr rekstrarreikningur.

Með bréfi, dags. 12. júní 1992, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur og athugasemdir í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Ekki hafa verið lögð fram nein gögn til staðfestingar fullyrðingum kæranda um oftaldar tekjur og vantaldar skuldir svo sem full ástæða hefði verið til þar sem farið er fram á svo veigamiklar breytingar á áður innsendu skattframtali.

Er þess krafist að úrskurður skattstjóra um álögð gjöld standi óbreyttur.“

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Í kæru til ríkisskattanefndar er farið fram á umfangsmiklar breytingar á áður innsendu skattframtali. Þá er lagðar fram nýr og endurgerður rekstrarreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda. Með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, þykir bera að vísa kæru, með þeim rökstuðningi er fram kemur í kæru til yfirskattanefndar, til skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd og send skattstjóra til uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja