Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Skattskyld velta
  • Skattverð
  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 176/2006

Virðisaukaskattur 2002

Lög nr. 50/1988, 3. gr., 5. gr., 8. gr., 11. gr. 3. mgr., 27. gr. 1. og 2. mgr.   Reglugerð nr. 515/1996, 2. gr., 8. gr., 9. gr.  

Kærandi, sem var skráður í grunnskrá virðisaukaskatts vegna aksturs vörubifreiðar, hafði engar tekjur af þeirri starfsemi árin 2003 og 2004. Í málinu var deilt um þá ákvörðun skattstjóra að fella kæranda af grunnskrá virðisaukaskatts frá og með 31. desember 2002 á þeim grundvelli að um rekstrarlok væri að ræða, en kærandi hélt því fram að starfsemin hefði legið tímabundið niðri frá árinu 2002. Yfirskattanefnd féllst á með skattstjóra að skilyrði fyrir almennri skráningu á virðisaukaskattsskrá gætu ekki lengur talist uppfyllt í tilviki kæranda og var tekið fram í því sambandi að kærandi hefði ekki gert neina grein fyrir rekstraráformum sínum árin 2005 og 2006 þrátt fyrir áskorun skattstjóra þar að lútandi. Af þeirri niðurstöðu leiddi að telja bæri andvirði vörubifreiðar kæranda til skattskyldrar veltu uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002. Hins vegar var skattstjóri ekki talinn hafa skotið viðhlítandi stoðum undir matsverð bifreiðarinnar við ákvörðun skattverðs vegna hennar, m.a. þar sem talið var ljóst að verðmiðmið skattstjóra tæki ekki að neinu leyti mið af ástandi bifreiðarinnar. Var áætluð viðbótarvelta vegna óseldra rekstrarfjármuna við lok skattskyldrar starfsemi kæranda lækkuð úr 800.000 kr. í 100.000 kr.

I.

Kæruefni máls þessa er sú ákvörðun skattstjóra, dags. 29. mars 2005, er hann staðfesti með kæruúrskurði, dags. 27. apríl 2005, að taka kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila (grunnskrá virðisaukaskatts), sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, frá og með 31. desember 2002, svo og ákvörðun skattstjóra að hækka virðisaukaskattsskylda veltu kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 um áætlaða fjárhæð 800.000 kr. vegna óseldra rekstrarfjármuna við lok skattsskyldrar starfsemi kæranda. Skattstjóri bætti 10% álagi, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, við hækkun virðisaukaskatts sem af þessari breytingu leiddi.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2005, er þess krafist að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt. Þá er í bréfi, dags. 14. september 2005, gerð sú varakrafa að virðisaukaskattsskyld velta kæranda greint uppgjörstímabil verði lækkuð í 30.000 kr.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 24. febrúar 2004, krafði skattstjóri kæranda um skýringar á því að ekki hefði verið tilgreind nein virðisaukaskattsskyld velta í virðisaukaskattsskýrslu kæranda árið 2003. Vísaði skattstjóri til ákvæða reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, og kvað kæranda bera að tilkynna um lok skattskyldrar starfsemi, sbr. eyðublað sem skattstjóri lét fylgja bréfinu, ef starfsemi kæranda væri hætt. Jafnframt óskaði skattstjóri m.a. eftir að ítarleg grein yrði gerð fyrir því hvort um óselda rekstrarfjármuni, svo sem vörubirgðir, vélar eða tæki, hefði verið að ræða við lok rekstrar og ef svo væri, hvert væri áætlað markaðsvirði þeirra, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Bréfi skattstjóra var svarað af hálfu kæranda með bréfi, dags. 1. mars 2004, þar sem fram kom að kærandi hefði engan rekstur haft með höndum árið 2003. Vörubifreið kæranda hefði ekkert verið í notkun umrætt ár, m.a. vegna verkefnaskorts, og hefðu númeraspjöld legið inni, eins og þar stóð. Fyrirhugað væri að selja bifreiðina ef þess væri nokkur kostur og því hefði virðisaukaskattsnúmeri ekki verið skilað inn. Ekki væri um neinar leiðréttingarskyldar eignir að ræða, svo sem innréttingar, tæki eða annan búnað, aðeins bifreiðina sem yrði útsköttuð ef hægt yrði að selja hana.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2005, krafði skattstjóri kæranda á sama hátt um skýringar á því að ekki hefði verið tilgreind nein virðisaukaskattsskyld velta í virðisaukaskattsskilum kæranda árið 2004. Að auki óskaði skattstjóri eftir að kærandi gerði skriflega grein fyrir skattskyldri starfsemi sinni í nútíð og framtíð, ef starfsemi kæranda væri ekki lokið, og breytingum á starfseminni og nýtingu eigna í því sambandi. Jafnframt óskaði skattstjóri eftir að kærandi legði fram rökstuddar áætlanir vegna tekna og kostnaðar af skattskyldri starfsemi árin 2004, 2005 og 2006. Í svarbréfi kæranda, dags. 22. febrúar 2005, kom fram að enginn rekstur hefði verið á árinu 2004. Að öðru leyti færði kærandi sömu rök fyrir því að engin velta væri tilgreind á árinu 2004 og fram komu í svarbréfi, dags. 1. mars 2004.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2005, beindi skattstjóri því til kæranda að leggja fram rökstutt yfirlit yfir söluverðmæti óseldra eigna, þ.e. vörubirgða, véla, tækja og annarra rekstrarfjármuna, við lok starfsemi kæranda hinn 31. desember 2002. Vísaði skattstjóri í þessu sambandi til ákvæða 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996 og kvaðst telja að skattskyldri starfsemi kæranda hefði lokið á uppgjörstímabilinu nóvember-desember 2002, enda væri það síðasta tímabilið þar sem tilgreind væri skattskyld velta í starfsemi kæranda.

Umboðsmaður kæranda greindi frá því með bréfi, dags. 4. mars 2005, að starfsemi kæranda við akstur vörubifreiða hefði legið niðri frá árinu 2002 af ýmsum ástæðum, m.a. vegna veikinda, en kærandi hefði ekki hætt starfseminni. Kærandi hefði ekki ákveðið hvort bifreiðin yrði tekin aftur í notkun eða reynt yrði að selja hana. Þá væri bifreiðin að sögn bifreiðasala ekki söluvæn, en hún væri nær 20 ára gömul og hefði staðið óhreyfð í tvö ár. Umboðsmaður teldi lagatilvitnanir skattstjóra ekki eiga við í máli kæranda og hann gæti ekki séð að skattyfirvöld gætu knúið menn til þess að hætta virðisaukaskattsskyldri starfsemi sinni.

Með bréfi, dags. 10. mars 2005, boðaði skattstjóri kæranda með vísan til 1. og 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, að hann yrði úrskurðaður af virðisaukaskattsskrá frá og með 31. desember 2002 og að skattstjóri hygðist áætla hækkun skattskyldrar veltu og útskatts vegna óseldra rekstrarfjármuna við lok skattskyldrar starfsemi. Fram hefði komið hjá umboðsmanni kæranda í bréfi, dags. 4. mars 2005, að rekstri kæranda væri ekki lokið, en engin gögn, áætlanir eða nánari greinargerð hefði hins vegar verið lögð fram þessu til stuðnings. Skattstjóri hefði óskað eftir því að kærandi legði fram rökstutt yfirlit yfir söluverðmæti vörubirgða, véla, tækja og annarra rekstrarfjármuna í starfsemi sinni þann 31. desember 2002, en kærandi hefði ekki orðið við þeirri beiðni. Hins vegar hefði komið fram í bréfum kæranda að aðeins væri um eina vörubifreið að ræða. Samkvæmt bifreiðaskrá Umferðastofu væri bifreið kæranda af gerðinni Volvo F12, árgerð 1991. Í símtali við umboðsaðila slíkra bifreiða hefði komið fram að erfitt væri að meta verðgildi bifreiðar kæranda óséða, en hann gerði ráð fyrir að það gæti verið frá 1.000.000 kr. til 1.500.000 kr. Á þessum grundvelli boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 vegna hækkunar skattskyldrar veltu um 1.000.000 kr. og útskatts um 245.000 kr. auk 10% álags á vangreiddan virðisaukaskatt, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Umboðsmaður kæranda mótmælti boðuðum breytingum með bréfi, dags. 16. mars 2005. Ítrekaði umboðsmaðurinn að starfsemi kæranda hefði legið niðri undanfarin ár, en ekki væri ljóst hvað yrði um vörubifreið kæranda. Allt eins gæti komið til greina að kaupa aðra bifreið og halda starfseminni áfram. Kærandi hefði greint umboðsmanni frá því að bifreiðin, sem væri af árgerð 1987 en ekki 1991 eins og skattstjóri hefði haldið fram, væri 18 ára gömul og hefði staðið óhreyfð í tvö og hálft ár. Pallurinn þarfnaðist lagfæringar fyrir u.þ.b. 500.000 kr. auk þess sem báðar hurðarnar væru ónýtar en nýjar hurðar kostuðu 200.000 kr. Þá væru framdekkin nýleg en hin átta væru slitin og ný dekk kostuðu 240.000 kr. Til þess að koma bifreiðinni í rekstur þyrfti að leggja a.m.k. 1.000.000 kr. í hana sem gerði hana nánast óseljanlega. Bílasali hefði greint kæranda frá því að líklega væri eini möguleiki kæranda að bóndi keypti bifreiðina og hefði fyrir „túnbíl“, eins og það var nefnt, og hugsanlega fengjust aðeins 100.000 kr. til 200.000 kr. fyrir hana. Kærandi hefði hins vegar ekki hætt starfsemi sinni við akstur vörubifreiða og skattstjóri hefði ekki heimild til þess að knýja kæranda í rekstrarlok. Umboðsmaðurinn tók jafnframt fram að honum hefði ekki verið kunnugt um ástand bifreiðarinnar, en samkvæmt framangreindri lýsingu þar á benti ekkert til annars en að fyrir lægi að leggja kostnað í að koma henni í brotajárn og að ekkert fengist fyrir hana. Boðuð endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda ætti samkvæmt framansögðu engar forsendur.

Í framhaldi af þessu tilkynnti skattstjóri kæranda hinn 29. mars 2005 að hann hefði fellt kæranda af virðisaukaskattsskrá frá og með 31. desember 2002 og endurákvarðað virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 vegna hækkunar skattskyldrar veltu um áætlaða fjárhæð 800.000 kr. Skattstjóri vísaði til 1. og 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996 og tók að svo búnu fram að samkvæmt virðisaukaskattsskrá væri skattskyld starfsemi kæranda akstur vörubifreiðar. Upphafsdagsetning starfseminnar hefði verið hinn 1. janúar 1990 og teldi skattstjóri að starfseminni hefði lokið í árslok 2002, en engin velta hefði verið tilgreind í virðisaukaskattsskýrslum kæranda árin 2003 og 2004. Kærandi hefði engar áætlanir lagt fram um skattskylda starfsemi í nánustu framtíð og lýsingar á framtíðarstarfsemi væru mjög óljósar. Af svörum kæranda væri helst að skilja að ekki væri hægt að tilkynna um rekstrarlok fyrr en bifreiðin væri seld. Tók skattstjóri fram að í svarbréfi kæranda, dags. 22. febrúar 2005, kæmi fram að ekki væri hægt að skila inn virðisaukaskattsnúmeri og hætta starfsemi fyrr en eftir sölu bifreiðarinnar. Þá kæmi fram í svarbréfi kæranda, dags. 1. mars 2004, að bifreiðin hefði ekki verið í notkun á árinu 2003 en fyrir lægi að selja hana og þar af leiðandi hefði virðisaukaskattsnúmeri ekki verið skilað inn. Þar sem kærandi hefði ekki gert nægjanlega rökstudda grein fyrir skattskyldri starfsemi sinni í framtíðinni teldi skattstjóri að henni hefði verið lokið í árslok 2002. Að því er varðaði fjárhæð skattskyldrar veltu kæranda vísaði skattstjóri til 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996 og tók fram að þó árgerð umræddrar bifreiðar væri ranglega tilgreind í bréfi skattstjóra, dags. 10. mars 2005, væri sú fjárhæð sem skattstjóri setti fram einungis rífleg áætlun á söluverðmæti hennar þar til rökstudd grein yrði gerð fyrir raunverulegu verðmæti hennar þann 31. desember 2002. Engin skrifleg staðfesting frá þar til bærum aðila hefði borist á verðgildi bifreiðar kæranda og því teldi skattstjóri eðlilegt að áætla hækkun á skattskyldri veltu kæranda og útskatti uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 eða þar til slík staðfesting hefði borist. Hins vegar þætti skattstjóra rétt að lækka áætlunina frá því sem boðað hefði verið og yrði virðisaukaskattsskyld velta 800.000 kr. og útskattur því 196.000 kr. auk 10% álags, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Umboðsmaður kæranda mótmælti endurákvörðun skattstjóra með kæru, dags. 22. apríl 2005, og taldi vera um að ræða rangtúlkun á reglugerð nr. 515/1996. Kærandi væri ekki hættur skattskyldri starfsemi sinni og uppfyllti enn öll skilyrði fyrrnefndrar reglugerðar. Í gögnum málsins lægi fyrir að vörubifreið kæranda væri nánast verðlaus. Vandséð væri að mat umboðsaðila, sem giskað hefði á verðmæti bifreiðarinnar án þess að hafa hugmynd um ástand eða rétta árgerð hennar, væri betri grunnur að úrskurði en upplýsingar frá kæranda. Aðgerð skattstjóra færi í bága við lög og væri ítrekuð sú krafa að áætlaður virðisaukaskattur og viðurlög yrðu felld niður.

Með kæruúrskurði, dags. 27. apríl 2005, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Samkvæmt innsendum gögnum hefði kærandi ekki haft skattskyldar tekjur af starfsemi sinni frá því á uppgjörstímabilinu nóvember-desember 2002. Þá hefði kærandi ekki gert rökstudda grein fyrir því að skattskyld starfsemi myndi hefjast að nýju þar sem engar tölulegar áætlanir hefðu komið fram um áætlaðar tekjur eða kostnað af starfseminni í framtíðinni, og í bréfi til skattstjóra, dags. 22. febrúar 2005, hefði komið fram að fyrirhugað væri að selja vörubifreið kæranda og hætta starfsemi þegar það tækist. Þetta hefði einnig komið fram í bréfi til skattstjóra, dags. 1. mars 2004. Á grundvelli þessara upplýsinga, tímalengdar frá því að síðustu tekjur hefðu verið í skattskyldri starfsemi kæranda og þar sem ekki hefði verið lögð fram rökstudd grein fyrir starfseminni í framtíðinni, hefði skattstjóri dregið þá ályktun að skattskyldri starfsemi kæranda hefði lokið á árinu 2002. Í kærubréfi umboðsmanns kæranda kæmi ekkert fram sem hnekkti þessu. Kvað skattstjóri kæranda hafa borið að telja söluverðmæti bifreiðarinnar til skattskyldrar veltu á síðasta uppgjörstímabili ársins 2002. Svör kæranda um söluverðmæti hennar hefðu verið mjög ónákvæm og ekki studd neinum gögnum, en þó hefði komið fram að verðgildi bifreiðarinnar væri eitthvað þar sem í svarbréfum kæranda væri rætt um væntanlega sölu hennar. Þar sem kæranda væri í lófa lagið að fá þar til bæra aðila til þess að framkvæma mat á verðmæti bifreiðar kæranda í árslok 2002 og leggja slíkar upplýsingar fram teldi skattstjóri eðlilegt að áætluð fjárhæð stæði óbreytt þar til slík gögn hefðu verið lögð fram.

III.

Með kæru, dags. 9. maí 2005, hefur umboðsmaður kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 27. apríl 2005, til yfirskattanefndar. Kemur fram í kærunni að þar sem skattstjóri hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að knýja kæranda til rekstrarloka og áætla verðgildi vörubifreiðar kæranda sé gerð sú krafa að álagning virðisaukaskatts verði felld niður. Að öðru leyti vísar umboðsmaður til áður fram komins rökstuðnings af hálfu kæranda.

IV.

Með bréfi, dags. 26. ágúst 2005, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. ágúst 2005, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni.

Með bréfi, dags. 14. september 2005, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er vísað til fyrri rökstuðnings af hálfu kæranda í málinu. Áréttað er að lagatilvitnun skattstjóra, sem ríkisskattstjóri taki undir, eigi ekki við um aðstæður kæranda. Kærandi verði ekki knúinn til þess að hætta skattskyldri starfsemi og greiða virðisaukaskatt af vörubifreið sinni samkvæmt órökstuddu mati skattstjóra sem að auki sé allt of hátt. Staðreyndin sé sú að bifreiðin seljist ekki, enda ekki fögur lýsing á henni sem liggi fyrir í gögnum málsins. Ef yfirskattanefnd fallist á skoðun skattstjóra sé gerð sú varakrafa að verðmat bifreiðar kæranda, sem staðið hafi ónotuð í næstum þrjú ár og sé óseljanleg, verði lækkað í 30.000 kr.

V.

Eins og rakið hefur verið felldi skattstjóri kæranda af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með vísan til 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 29. mars 2005, sem hann staðfesti með hinum kærða úrskurði, dags. 27. apríl 2005, og áætlaði kæranda virðisaukaskattsskylda veltu uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 á þeim grundvelli að telja bæri andvirði vörubifreiðar kæranda til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili er starfsemi hans taldist hafa lokið, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, en kærandi hefði enga grein gert fyrir verðmæti hennar. Ákvarðaði skattstjóri skattskylda veltu 800.000 kr. vegna vörubifreiðar kæranda. Kærandi hefur gert þá kröfu að úrskurði skattstjóra verði hnekkt. Til vara er gerð sú krafa að hækkun skattskyldrar veltu kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 verði ákvörðuð 30.000 kr., enda sé bifreiðin óseljanleg og hafi staðið ónotuð í hartnær þrjú ár. Felur síðastgreind fjárhæð þannig í sér mat kæranda á verðmæti bifreiðarinnar.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988 hvílir skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu. Almennt ákvæði um skráningarskyldu virðisaukaskattsskyldra aðila er í 5. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt 1. mgr. greinarinnar skal hver sá, sem skattskyldur er samkvæmt 3. gr., sbr. 4. gr., ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Breytingar, sem verða á starfsemi eftir að skráning hefur farið fram, skal tilkynna eigi síðar en átta dögum eftir að breyting á sér stað. Í 5. mgr. greinarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 40/1995 og 4. gr. laga nr. 55/1997, um breyting á lögum nr. 50/1988, kemur fram að eigi skuli skrá aðila samkvæmt þessari grein ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Þó eigi aðili rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standi í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum. Í 6. mgr. 5. gr. laganna er fjármálaráðherra heimilað að setja í reglugerð nánari ákvæði um skráningu, þar með talið um afturvirka skráningu til allt að sex ára. Á þessum grundvelli hefur verið sett reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem nánar er kveðið á um skráningu og skilyrði hennar og afskráningu aðila af virðisaukaskattsskrá. Í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 515/1996 kemur fram að forsendur skráningar séu að samanlagðar tekjur aðila af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu séu að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Um afskráningu aðila af virðisaukaskattsskrá er fjallað í III. kafla reglugerðar nr. 515/1996. Kemur fram í 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar að hætti aðili skráningarskyldri starfsemi eða uppfylli hann ekki lengur skilyrði 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar skuli hann tilkynna skattstjóra um það eigi síðar en átta dögum eftir að breyting átti sér stað. Hafi aðili eigi tilkynnt lok skráningarskyldrar starfsemi sinnar samkvæmt 1. mgr. og skattstjóri telur að ekki sé um skráningarskylda starfsemi að ræða skal skattstjóri úrskurða aðila af skrá, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi var skráður á grunnskrá virðisaukaskatts 1. janúar árið 1990 vegna aksturs vörubifreiðar og er ekki annað komið fram en að hann hafi starfað við þann rekstur til ársloka 2002. Skattskyld velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 nam 400.000 kr., en engin skattskyld velta var tilgreind í virðisaukaskattsskýrslum kæranda fyrir árin 2003 og 2004 sem af hálfu kæranda hefur verið skýrt með því að starfsemin hafi legið tímabundið niðri frá árinu 2002, sbr. m.a. bréf umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 4. mars 2005. Af hálfu kæranda er því hins vegar andmælt að rekstrinum sé lokið.

Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að kærandi hafði engar tekjur af rekstri vörubifreiðar árin 2003 og 2004. Þá hefur kærandi, þrátt fyrir áskorun skattstjóra í bréfi, dags. 10. febrúar 2005, ekki gert neina grein fyrir rekstraráformum sínum árin 2005 og 2006 og verður raunar ekki annað ráðið af bréfum kæranda til skattstjóra, dags. 1. mars 2004 og 22. febrúar 2005, en að hann telji ólíklegt að um frekari tekjur verði að ræða af seldri þjónustu. Að þessu athuguðu verður að fallast á með skattstjóra að skilyrði fyrir almennri skráningu á virðisaukaskattsskrá (grunnskrá virðisaukaskatts) geta ekki lengur talist uppfyllt í tilviki kæranda, sbr. ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. og 1. málsl. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988 og 1. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 515/1996, enda verður að telja það felast í ákvæðum þessum að aðrir aðilar skuli ekki skráðir en þeir sem hafi með höndum sölu á vöru eða skattskyldri þjónustu í atvinnuskyni. Þar sem kærandi tilkynnti sig ekki út af skrá, hvorki miðað við árslok 2002 né síðara tímamark þegar telja mátti sýnt að ekki yrði um frekari starfsemi að ræða, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 515/1996, var skattstjóra rétt að úrskurða kæranda af skrá, sbr. 2. mgr. sömu greinar reglugerðarinnar, og verður ekki gerð athugasemd við að skattstjóri hafi ákveðið afskráningu síðasta dag uppgjörstímabilsins nóvember-desember árið 2002, en tekið skal fram að af hálfu kæranda hafa engin önnur tímamörk verið tilgreind í þessu sambandi. Samkvæmt framansögðu er aðalkröfu kæranda hafnað.

Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988 telst sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum til skattskyldrar veltu. Sama gildir um vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni þegar fyrirtæki tilkynnir sig út af skrá. Tekið er fram í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 515/1996 að tilkynni aðili sig út af skrá eða sé hann tekinn af skrá á grundvelli úrskurðar skattstjóra skuli telja vörubirgðir, vélar, tæki og aðra rekstrarfjármuni til skattskyldrar veltu á því uppgjörstímabili er starfsemi lýkur, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt þessu og með vísan til niðurstöðu um afskráningu kæranda, sbr. að framan, ber að telja andvirði bifreiðar, sem í máli þessu greinir, til skattskyldrar veltu uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002.

Kemur þá til athugunar það skattverð sem skattstjóri ákvarðaði. Samkvæmt ákvæðum 8. gr. laga nr. 50/1988, þar sem fjallað er um ákvörðun skattverðs við annars konar afhendingu en sölu, er meginregla að miða skuli skattverð við almennt gangverð án virðisaukaskatts. Skattstjóri hefur miðað við að skattverð vörubifreiðar kæranda, sem er af gerðinni Volvo F12, árgerð 1987, næmi 800.000 kr., þ.e. að gangverð væri 996.000 kr. að meðtöldum virðisaukaskatti, og kom fram að í þessu sambandi hafði skattstjóri hliðsjón af upplýsingum frá umboðsaðila bifreiða af þessari tegund, sem mat verðgildi hennar 1.000.000 kr. til 1.500.000 kr. án skoðunar, samkvæmt því sem fram kom hjá skattstjóra, en jafnframt virðist skattstjóri hafa litið til upplýsinga umboðsmanns kæranda í bréfi, dags. 16. mars 2005, um ástand umræddrar bifreiðar. Í greindu bréfi til skattstjóra, dags. 16. mars 2005, kom fram að bifreið kæranda væri 18 ára gömul og hefði staðið óhreyfð í tvö og hálft ár. Þá var gerð grein fyrir því að bifreiðin þarfnaðist umtalsverða viðgerða og að áætlaður kostnaður við þær næmi um 1.000.000 kr. Væri bifreiðin samkvæmt þessu nánast óseljanleg.

Ljóst er að markaðsverðmæti notaðra bifreiða er háð mörgum óvissuþáttum. Er því brýnt þegar til mats á slíku verðmæti kemur að byggt sé á upplýsingum frá viðkomandi aðila og/eða frá þriðja aðila eftir atvikum sem þá taki mið af eiginleikum og ástandi viðkomandi bifreiðar. Engin gögn liggja fyrir um upplýsingaöflun skattstjóra frá umboðsaðila viðkomandi bifreiðategundar, enda mun þeirra ekki hafa verið aflað skriflega, en þó er ljóst að það verðviðmið, sem skattstjóri studdist við, tók ekki að neinu leyti mið af ástandi bifreiðar kæranda. Samkvæmt því sem ráðið verður af fyrirliggjandi gögnum nam bókfært verð bifreiðarinnar 234.054 kr. í árslok 2002, sem nemur 10% af fyrningargrunni, og er áætlun skattstjóra um skattverð því ríflega þrefalt bókfært verð. Að þessu athuguðu og að virtri lýsingu umboðsmanns kæranda á ástandi greindrar bifreiðar, sem er að vísu ekki stutt gögnum, svo sem skattstjóri hefur bent á, en þykir fá stuðning af öðrum atriðum, m.a. aldri bifreiðarinnar, verður ekki talið að skattstjóri hafi skotið viðhlítandi stoðum undir það matsverð sem hann ákvarðaði samkvæmt framansögðu.

Samkvæmt framansögðu þykir vera tilefni til að lækka fjárhæð skattskyldrar veltu samkvæmt ákvörðun skattstjóra. Í bréfi umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 14. september 2005, er gerð varakrafa um lækkun viðbótarveltu í 30.000 kr. og verður sem fyrr segir að líta svo á að kærandi telji að sú fjárhæð svari til gangverðs umræddrar eignar. Er þetta umtalsvert lægri fjárhæð en tilgreind var sem ætlað söluverð í bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 16. mars 2005, þar sem vísað var í álit bílasala. Engin skýring hefur komið fram á þessu misræmi og ekki hefur kærandi gert grein fyrir tölulegum rökum fyrir varakröfum. Að þessu virtu og svo sem málið liggur að öðru leyti fyrir þykir rétt að ákvarða skattskylda veltu með hliðsjón af tilgreindri fjárhæð í síðarnefndu bréfi umboðsmanns kæranda. Samkvæmt þessu er áætlun skattstjóra um viðbótarveltu í 24,5% skattþrepi uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 lækkuð úr 800.000 kr. í 100.000 kr.

Af hálfu kæranda eru ekki gerðar sérstakar athugasemdir í kæru til yfirskattanefndar vegna ákvörðunar skattstjóra um að bæta 10% álagi við hækkun virðisaukaskatts. Álagsbeitingu var hins vegar mótmælt á skattstjórastigi. Í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 er boðið að skattskyldur aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, skuli sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Samkvæmt 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Fyrir liggur að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og þykja ekki fram komnar slíkar málsbætur af hálfu kæranda að fella beri á þeim grundvelli niður álag samkvæmt heimildarákvæðum 6. mgr. sömu lagagreinar. Verður álagsbeiting skattstjóra því látin standa óhögguð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Viðbótarvelta í 24,5% skattþrepi uppgjörstímabilið nóvember-desember 2002 verður 100.000 kr. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja